Punktar

Evra án Evrópu

Punktar

Sveiflur í mati skoðunarfyrirtækja á lánshæfni ríkisins og miklar skuldir þjóðarinnar hafa bætzt við áhyggjur manna af háu gengi krónunnar. Aftur er komin upp á yfirborðið umræða um að kasta krónunni og taka upp evruna í staðinn. Það mundi draga úr peningasveiflum, minnka fjármagnskostnað og treysta velgengni þjóðarinnar. Af því að valdhafar hafna alveg aðild að Evrópusambandinu, snýst umræðan um, hvort hægt sé að taka upp evru án aðildar. Það væri óvenjulegt og erfitt, en samt framkvæmanlegt. En betra ráð gegn sveiflum er þó að fara hreinlega í bandalagið.

Magnús geispar

Punktar

Magnús Sædal Svavarsson, byggingarfulltrúi í Reykjavík, hefur ekki heyrt um það umdeilda mál, að hótelbyggingin í Hlaðvarpanum sé of há. Hann fylgist ekki með og telur sig ekkert þurfa að fylgjast með neinu. Hann sefur bara allan sólarhringinn. Hann getur því ekki tjáð sig um neitt. Hann getur ekki sagt, hvort það sé satt, að húsið sé of hátt, af því að hann hefur ekki mælt það. Hann getur ekki svarað, hvort yfirvöld muni bregðast við, af því að hann veit ekki, hvort hægt sé að vekja þau. Þetta er fínn blýantsnagari af gamla skólanum, hentar Reykjavíkurlistanum.

Nató er sópari

Punktar

Reynt er að breyta Atlantshafsbandalaginu úr friðsælum eftirlaunamanni í eins konar þjónustustúlku, sem á að hreinsa upp eftir bandaríska herinn, þegar hann hefur farið með ófriði á hendur fátækum þjóðum í þriðja heiminum. Þetta er hallærislegt eftirlaunastarf fyrir bandalag, sem gerði ýmislegt gott í gamla daga. Gamlinginn ráfar þessa dagana um Afganistan og verður næst sendur til Íraks, ef þessi undirlægja við Bandaríkin verður ekki stöðvuð af ríkisstjórnum í Evrópu í tæka tíð. Betra er, að Nató fái hægt andlát en að leifar þess séu hafðar í skítverkum úti um álfur.

Leyndarfjármál

Punktar

Enn einu sinni verður ekkert gert til að veita kjósendum innsýn í fjármál flokka. Stjórnarflokkarnir hafa séð um, að þverpólitísk nefnd um það mál mun ekki skila áliti í tæka tíð fyrir vorið. Þeir þora ekki beinlínis að vera á móti málinu, en bregða fyrir það fæti og draga það á langinn eftir föngum. Stjórnarflokkarnir vilja ekki, að kjósendur hér á landi fái sama rétt og kjósendur í öðrum vestrænum ríkjum. Málið er gott dæmi um þann eindregna þykjustuleik, sem ríkir í stjórnmálum okkar. Góð mál komast ekki í verk, nema Evrópusambandið eða Evrópudómstóllinn heimti það.

Rétttrúnaður 78

Punktar

Samtökin 78 hafa kært Gunnar Þorsteinsson, predikara í Krossinum, fyrir rangar skoðanir í Mogganum gegn því, að hommar og lesbíur fái að ala upp börn. Gunnar fylgir í þessum efnum ekki félagslegum rétttrúnaði og því telja samtökin hann ekki mega tala. Það er hluti af sósíalfasisma nútímans, að skoðanir eru fordæmdar og dregnar fyrir dóm. Er þó ekkert óvenjulegt, að sértrúarsöfnuðir hafi sérstakar og gamaldags skoðanir á breytingatíma. Það er út í hött að sækja Gunnar til saka fyrir meiðyrði. Málið gegn Gunnari er álitshnekkir Samtakanna 78.

Allir í meðferð

Punktar

Ólína Þorvarðardóttir hífði upp Menntaskólann á Ísafirði, vildi til dæmis ekki, að nemendur væru agalausir og að kennarar gæfu ýktar einkunnir. Af því spratt þref, þar sem letingjar í kennarastétt beittu fyrir sig samtökum kennara til að lækka rosta Ólínu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra hafði ekki kjark til að styðja hana, svo að hún varð að hætta, svo og áfangastjóri og aðstoðarrektor. Eftir situr menntaskóli í keng á hjara hins byggilega heims. Erfitt verður að finna annan stjóra, er nennir að lyfta skóla með lélegum kennurum, sem eru með annan fótinn í sálfræðimeðferð.

Ráðherra ruglar

Punktar

Síðasta verk Jóns Kristjánssonar sem heilbrigðisráðherra var að deila í sjónvarpsþætti á þau drottinsvik starfsmanna í Tryggingastofnun að leggja til einfaldað lyfjaverð í árlegri skýrslu þeirra. Jón virtist telja, að opinberir starfsmenn megi ekki koma með tillögur, það sé hlutverk hans sjálfs og annarra pólitíkusa. Það er kannski skýringin á raunum hans í embættinu, að hann banni fólki þar að koma með tillögur. Jón er líka frægur fyrir að rugla saman góðum vilja og góðum verkum og telja nóg, að hann sjálfur sé undir niðri góðviljaður, þótt hann komi engu góðu í verk.

Góðærið er ekta

Punktar

Velgengni fólks er ekta. Vanskil hafa lækkað undanfarin ár, hjá almenningi úr 2,65% í árslok 2004 niður í 1% í árslok 2005. Þetta þýðir, að nánast óheftur aðgangur að lánsfé leiðir ekki til neinnar yfirkeyrslu í lántökum. Allur þorri fólks lifir ekki um efni fram. Margir safna skuldum, af því að það er svo auðvelt, en þeir virðast hafa efni á að reka skuldirnar, þótt ótrúlegt megi virðast. Eftir þessu að dæma er uppsveiflan í þjóðfélaginu eðlileg og ekki mikil hætta á fjöldagjaldþrotum fólks á næstunni. Mér létti satt að segja, þegar ég sá þessar tölur.

Mannréttindi í skralli

Punktar

Hernám Íraks hefur ekki bætt mannréttindi í Írak, segir Amnesty. Saddam Hussein þótti vondur, en hernámsliðið er líka haldið illum anda. Það heldur 14.000 manns í fangelsum án dóms og laga. Við höfum séð ljósmyndir úr Abu Gharib, einu þeirra. Pyndingar bandaríska hersins hafa verið slæm forskrift fyrir innlenda herinn og lögregluna, sem stunda pyndingar og manndráp í sínum fangelsum. Ástandið í landinu er því í stórum dráttum verra en það var hjá Saddam Hussein. Hjá honum virkuðu líka rafmagns- og vatnsleiðslur, sem þær gera alls ekki núna.

Papparassar saklausir

Punktar

Margir telja, að svonefndir papparassar hafi valdið dauða Díönu prinsessu í Pont d’Alma veggöngunum í París 1997. Þeir voru hins vegar sýknaðir í réttarhöldum. Henri Paul, ökumaður bílsins, var mjög drukkinn. Ökulagið á bílnum fyrir slysið var undarlegt. Er menn efast um þá opinberu skýringu, að ölvun við akstur hafi valdið slysinu, hafa þeir aðeins haldreipi í því, að eftirlitsmyndavélar í göngunum virkuðu ekki, þegar bíllinn fór um göngin, þótt þær hafi virkað nokkru áður. Sú staðreynd bendir hins vegar ekki til sektar hjá papparössum.

Spákona í Háskólanum

Punktar

Baldur Þórhallsson dósent talar eins og spákona í blaðaviðtali um hlaup Árna Magnússonar inn í skjól Íslandsbanka. Baldur segir þetta vont fyrir ríkisstjórnina, því að Árni hafi verið öflugur ráðherra, “vinsæll og kröftugur liðsmaður”. Þetta hefði Geir Haarde getað sagt, en virkar kjánalega hjá háskólakennara, sem getur ekki bent á neinar rannsóknir eða nein gögn máli sínu til stuðnings. Þetta er marklaus yfirlýsing, jafnt sem sú, að erfitt verði fyrir Siv Friðleifsdóttur að fylla skarð Árna. Hvað er Baldur að kenna í háskólanum, úr því að hann talar ekki vísindalega?

Geir kveður ekki Árna

Punktar

Geir H. Haarde vill ekki tjá sig sig um brottför Árna Magnússonar úr ríkisstjórn. Venjan er þó, að formaður samstarfsflokks segi að minnsta kosti einhver kurteisisorð af því tilefni, þótt innihaldslaus séu. Spurning er, hvort Geir hafi verið svona illa við Árna, hvort honum sé svona illa við fjölmiðla eða hvort honum sé svona illa við að koma í sviðsljósið. Þessir þrír möguleikar eru allir vondir fyrir Geir. Starfsmenn í ráðuneytinu hefðu vafalaust getað komið saman einni málsgrein fyrir hann, svo að þögn hans æpti ekki eins mikið og hún gerir nú.

Netið gerir menn frjálsa

Punktar

Birting tölvubréfa milli Jónínu Benediktsdóttur og Styrmis Gunnarssonar á netinu er gott dæmi um, að úrelt er orðið að elta hefðbundna fjölmiðla. Ef þeir segja okkur ekki fréttir; ef þeir telja, að oft megi satt kyrrt liggja, kemur bara annar aðili og skýtur sannleikanum á netið. Þannig dreifast til dæmis gögn, sem félagslegum rétttrúnaði þykir óviðurkvæmileg. Því meira sem fjölmiðlar eru bundnir á bás, þeim mun meira tekur netið að sér það hlutverk að gera menn frjálsa. Meginatriði málsins er, að kerfið getur ekki lengur tryggt klisjuna, að oft megi satt kyrrt liggja.

Rupert með klasasprengjur

Punktar

Í ljós hefur komið, að John Simpson, fréttastjóri BBC, hafði rétt fyrir sér, en ekki samanlagðir áróðursmeistarar Nató og Bretlands, allt frá Jamie Shea yfir í Alastair Campbell. Mikið af mannfalli óbreyttra borgara, sem Serbum var kennt um, stafaði af loftárásum bandamanna. Meðal þess sem John Smith hjá BBC upplýsti, var, að Nató kastaðí á almenning klasaprengjum, sem eru til þess að granda fólki en ekki mannvirkjum. Hann sá þetta sjálfur. Hann sá, að Rupert Smith og félagar í Nató voru stríðsglæpamenn nútímans.

Viðtal við manndrápara

Punktar

Í viðtali Jónasar Knútssonar í Morgunblaðinu í morgun við brezka hershöfðingjann Rupert Smith, endurtekur sá síðari lygar upp úr bók sinni um “Nytsemi valdbeitingar”. Hann heldur fram, að fjölmiðlar hafi rangtúlkað stríðin á Balkanskaga. Svo vel vill til, að Alþjóðasamband ritstjóra hefur gefið út mikla bók, “The Kosovo news & propaganda war” þar sem fram kemur, að það var fyrst og fremst Atlantshafsbandalagið, sem skipulega breiddi út um stríðið ranghugmyndir, er fjölmiðlar áttuðu sig ekki á þá. En þeir munu átta sig, næst þegar Rupert Smith fer í stríð.