Punktar

Refurinn bíður

Punktar

Halldór Ásgrímsson heyktist í gær á að nefna Finn Ingólfsson eftirmann sinn og nýjan ráðherra. Hann ætlar að bíða með það til hausts og safna fylgi um Finn á ferðum um landið í sumar. Halldór vill hvorki, að Guðni Ágústsson né Siv Friðleifsdóttir taki við. Finnur er honum meira að skapi, enda er hann fulltrúi sömu spilltu sjónarmiðanna og Halldór er sjálfur. Finnur var á sínum tíma mesti refur íslenzkra stjórnmála og náði miklum fúlgum út úr sölu Búnaðarbankans. Afturkoma hans mun tryggja, að þjóðin fær ekki traust á hugsjónalausum og syndum spilltum flokki við brotthvarf Halldórs.

Hoppaði á ströndinni

Punktar

Enginn Þjóðverji var í Agadir árið 1911, svo að sóttur var einn til Mogador. Hann var settur á ströndina, þar sem hann hoppaði, en innrásarlið Þjóðverja hélt, að hann væri æstur teppasali. Þannig lýsir H.D.S. Greenway, dálkahöfundur Boston Globe, hvernig átti að útskýra innrás í Marokko á þeirri forsendu, að lífi Þjóðverja þar væri ógnað. Greenway minnist dæma um framleiðslu á forsendum fyrir stríði hjá Þjóðverjum, Japönum og Ísraelsmönnum. En nýjasta dæmi hans er lygi Breta og Bandaríkjamanna um, að Saddam Hussein hafi stjórnað hryðjuverkamönnum og gereyðingarvopnum í Írak.

Vefurinn virkar

Punktar

Tekjur af auglýsingum á internetinu í Bretlandi eru nú komnar fram úr auglýsingum í dagblöðum. Þær hafa vaxið hröðum skrefum á allra síðustu árum, eftir að hafa verið lengi að komast í gang. Það er ekki flatarmál í borðum, sem gefur tekjur, heldur umferðarþungi í leitarvélum. Það sá fjöldi notenda, sem smellir til að sækja auglýsingu eða kynningu. Sérfræðingar í auglýsingafræðum spá, að markaðshlutdeild netsins muni enn aukast ört á næstu árum. Google er sá aðili, sem mest græðir á þessu nú, en dagblöð hafa einnig verið dugleg við að koma sér fyrir á vefnum.

Hakkavélin Fallaci

Punktar

Oriana Fallaci er frægasta blaðakona heims, andstæða Jóhönnu Kristjóns, sem var hrifin af harðstjórum og sóttist eftir viðtali við þá, til dæmis Saddam Hussein, jafnvel Papadopoulosi hinum gríska, sem var ræfill og illmenni. Fallaci talaði við þessa sömu menn og ótal fleiri, fyrirleit þá alla og sagði það upp í opið geðið á þeim, meira að segja Khomeini erkiklerki. Henry Kissinger sagðist aldrei á æfinni hafa lent í annarri eins hakkavél. Nú á tímum er Fallaci dugleg við að hafa leiðtoga múslima að háði og spotti. Eins og þeir eiga skilið. Grein um Fallaci er í nýjum New Yorker.

Uppbygging fyrir gýg

Punktar

Sameinuðu þjóðirnar voru við völd á Austur-Tímor 1999-2002 og sendu þangað frægðarmenn, meðal annars frá Alþjóðabankanum, til að smíða innviði þjóðfélagsins eftir fyrra borgarastríð. Menn fara mikið í skóla í landinu, en fá enga vinnu að því loknu. Allt hið vestræna puð virðist hafa verið unnið fyrir gýg, því að nú er aftur hafið borgarastríð í landinu, að þessu sinni ekki gegn Indónesum, heldur milli sigurvegaranna. Kallað hefur verið í Ástralíu til að stilla til friðar og gengur frekar tregt. Það er ekki tekið út með sældinni að reisa þjóðir við með handafli.

Fyrir daga Einars

Punktar

Áður en veiðar hófust á hvölum við Ísland, blésu þeir um allan sjó. Og nóg var af þorskinum líka, langt inn í fjarðarbotna, og var hann veiddur þar. Hvalir eru nú ekki nema brot af þeim fjölda, sem þeir voru þá. Samt telur Einar Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, að of mikil samkeppni sé frá hvölum um þorskinn einmitt núna. Hvað hefði hann sagt, ef hann hefði verið uppi fyrir daga hvalveiðanna? Vísindi ráðherrans eru engin, en gaman væri að sjá undirgefinn fiskifræðing halda uppi sagnfræðilegum vörnum fyrir ráðherrann sinn.

Úr öskunni í eldinn

Punktar

Skelfilegt slúður er um, að Finnur Ingólfssson verði formaður Framsóknar í stað Halldórs Ásgrímsson, þótt Guðni Ágústsson sé varaformaður. Halldór virðist ákveðinn í að sanna, að hægt sé að fá verri formann en hann er sjálfur. Samkvæmt skoðanakönnunum var Finnur á sínum tíma óvinsælasti ráðherrann, grátinn af fáum, þegar hann hrökklaðist úr pólitík. Hann var iðnaðar- og orkuráðherra og hóf þá hrokafullu landníðslu á hálendinu, sem hefur einkennt stjórnarsamstarfið. Finnur er mörgum minnisstæður. Að fá hann í stað Halldórs er að fara úr öskunni í eldinn.

Hugsjónabagginn

Punktar

Því minna, sem flokkar koma með í farteskinu til stjórnarmyndunar, þeim mun fljótari eru þeir að semja. Því meira, sem þeir burðast með af hugsjónum, því meira dragast viðræður á langinn. Þess vegna nær tapari kosninganna, Framsókn, víðast inn í meirihlutasamstarf. Flokkurinn hefur nefnilega enga hugsjón aðra en að stjórna. Þess vegna ná sigurvegarar kosninganna, Vinstri grænir, nánast hvergi inn í meirihluta. Flokkurinn hefur nefnilega langar málefnaskrár og hugsanlegir samstarfsaðilar fórna höndum. Þetta er formúlan um, að þeir síðustu verða fyrstir í pólitík.

Ásakanir um svindl

Punktar

Skoðanir eru á lofti um, að svindlað hafi verið í byggðakosningunum. Þeir, sem minnst mega sín í samfélaginu hafi verið misnotaðir. K-listinn í Grímsnesi er sakaður um að hafa misnotað vistmenn á Sólheimum og haft þar áróður á kjörstað. Framsókn í Reykjavík er sökuð um að hafa keypt atkvæði útlendinga í utankjörstaðaatkvæðagreiðslu, á nokkur þúsund krónur stykkið. Svona ásakanir eru nýjar hér á landi. Þær sýna, að framvegis verður brýnt að vanda betur umbúnað kosninga og hindra veiklundaða kosningasmala í að gera það, sem þá langar mest til.

Fanatískir feðgar

Punktar

Líkur benda til, að Bjarni Benediktsson hafi sem dómsmálaráðherra í Kalda stríðinu látið hlera síma pólitískra andstæðinga á Alþingi. Það væri gróft brot á hefðum þingræðis, þótt George W. Bush hafi látið FBI leita á skrifstofu þingmanns demókrata í sjálfu þinghúsinu um daginn. Sonur Bjarna er nú dómsmálaráðherra og vill, að kerfið sjálft stjórni rannsókn á meintum afglöpum föðurins. Að vonum er stjórnarandstaðan ósátt og vill, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. Sú leið ein er líkleg til að finna, hvort pólitískt hatur hafi farið út í öfgar.

Skrár verði opnaðar

Punktar

Skemmtilegustu kynni mín af íslenzkri stjórnsýslu var, þegar ráðuneyti leigði tveimur aðilum sama landið og veitti þriðja aðilanum skriflegt loforð um nýtingu þess. Ísland er sem fyrirtæki rekið á þeim misskilningi, að embættismenn séu hæfir. Til lausnar þeim vanda er brýnt að setja lög um opnun stafrænna gagnabanka, sem embættismenn hafa út af fyrir sig. Leyfa þarf fólkinu að skoða gögnin, sem embættismenn telja okkur trú um, að séu ýmist ríkisleyndarmál eða einkamál samskiptaaðila ríkisvaldsins. Breyta þarf lokaðri stjórnsýslu í opna stjórnsýslu, setja amerísk sólskinslög.

Einveldi á Íslandi

Punktar

Með tilskipunum frá Evrópusambandinu hefur skapast sú frumstæða stjórnsýsla hér, að embættismenn skuli öllu ráða í einrúmi, án afskipta pöpulsins. Því fá menn ekki opinn og frjálsan aðgang að stafrænum gagnabönkum, svo sem ökutækjaskrá, fasteignaskrá, þjóðskrá, sakaskrá, skattskrá, kjörskrá og ættaskrár, heldur verða að sæta afar þröngum aðgangi, ekki starfrænum. Til að verja einkaaðgang alvitra embættismanna eru búnar til Persónuvernd og Upplýsingalög, sem skilgreina opinber gögn ýmist sem ríkisleyndarmál eða einkamál að hætti franska einveldistímans og Evrópusambandsins.

Embætti með forstand

Punktar

Merkilegt er, að þjóð, sem öldum saman var ofsótt af embættismönnum, skuli trúa, að “þeim, sem guð gefur embætti, gefur hann líka forstand”. Innlendir embættismenn stóðu á sínum tíma gegn framförum í landinu, sem knúnar voru í gegn með dönsku valdboði. Þannig urðu Íslendingar læsir 1750-1800. Þannig hófst prentfrelsi í landinu 1855, gegn hatrammri andstöðu embættismanna. Samt trúa menn, að embættismenn einir megi skoða gagnabanka, sem búnir eru til á kostnað skattborgara og leyfa að Persónuvernd og Upplýsingalaganefnd hindri aðgang almennings. Í Bandaríkjunum er allt slíkt galopið.

Allt ruglið í skuld

Punktar

New York Times segir, að 43% af 4,8 trilljón dollara skuldum Bandaríkjanna séu í eigu útlendinga, en gleymir því, að Kínastjórn er sá lánardrottinn, sem hraðast eykur hlut sinna. Fyrir fimm árum áttu útlendingar 30%, en síðan hafa 73% nýs lánsfjár komið frá útlöndum. Blaðið segir, að vextir af þessum rosalegu fjárhæðum verði Bandaríkjunum þungbærir á næstu árum. Ennfremur, að útlendingar kunni að fá hland fyrir hjartað og reyni að flytja sig yfir í traustari evrur. Þá getur dollarinn hrunið. Og kannski kemst Kínastjórn bara í vont skap.

Daufdumbur fær mál

Punktar

Al Gore hefur fengið málið á gamals aldri. Hann er farinn að tala eins og ég. Í viðtali við Guardian segir hann, að George W. Bush og ríkisstjórn hans séu “afvegaleiddur flokkur hægri ofstækismanna”. Svona tala virðulegir borgarar ekki. Senn fer hann að segja fleira í mínum stíl, svo sem, að Bush sé heimskur krossfari og hryðjuverkamaður, hættulegur mannkyni öllu. Það er alltaf gott, þegar fjölgar börnum, sem sjá, að keisarinn er ekki í neinu. Gore var eins og vofa, þegar hann bauð sig fram gegn Bush fyrir tæpum sex árum. En nú hefur hinn daufdumbi loksins fengið málið.