Punktar

Hættulegt lýðræði

Punktar

Bandaríkjastjórn hefur misst áhugann á lýðræði í löndum múslima síðan Hamas vann kosningar í Palestínu og bönnuðu Bræðralagi múslima gekk vel í kosningum í Egyptalandi. Nú grefur hún undan sigurvegurunum, er komin í bandalag með Fatah, spilltum flokki Arafats heitins, og reynir að kynda undir borgarastríði í Palestínu. Í Egyptalandi styður hún einræðisherrann Mubarak, sem nýtur einskis fylgis. Þar rekur Bræðralagið víðtæka velferð, sem hefur unnið hug og hjörtu Egypta, en Mubarak styðst við lögguofbeldi. Lýðræði hefur reynzt vera heimsveldinu áhættusamt vopn.

Minnisstæður Geysir

Punktar

Alex Beam minnist með skelfingu nokkurra daga gistingar á “móteli” við Geysi á Íslandi. Grein eftir hann birtist í International Herald Tribune í fyrradag, þar sem hann fjallar um staði, er ferðamenn eigi að láta í friði. Beam segir, að fjölskyldan hafi ekki enn fyrirgefið sér dvölina á þessu móteli við Geysi. Aðrir staðir, sem hann varar við, eru Líbía, sem sé á kafi í sóðaskap; Mongólía, sem angi af brenndum úlfaldaskít; fátækrahverfi í Brazilíu. Ekki kemur fram í greininni, hvað var skelfilegt við mótelið hjá Geysi og hvers vegna hann þurfti að vera þar dögum saman.

Að elta fyrirtæki

Punktar

Sú firra sameinar meirihlutann og minnihlutann í Reykjavík að draga megi úr umferð með því að sameina atvinnu- og íbúðahverfi, því að þá muni fólk ekki þurfa að fara á bíl í vinnu. Samkvæmt þessu fékk vinur minn sér íbúð í göngufjarlægð frá fyrirtækinu sínu. Þremur vikum síðar flutti það í hinn enda borgarinnar og íbúðarkaupin voru þá til einskis orðin. Á hann að fara aftur í skipti á íbúðum vegna þessa? Svo umsvifamikið og áhættusamt er að skipta um húsnæði, að líta má á það sem ónothæfa hugsjón, að fólk elti fyrirtækin sín til að þurfa ekki að nota bíl.

Trúarleg opinberun

Punktar

Einkennilegast við stjórn Reykjavíkurlistans á síðasta kjörtímabili voru sinnaskipti hans í mislægum gatnamótum. Eftir að hafa byggt gagnleg mót af því tagi víða við Miklubraut, Hafnarfjarðarveg og Reykjanesbraut, fékk hann hland fyrir hjartað, þegar seint og um síðir kom röðin að horninu við Kringluna. Þá fundu Reykjavíkurlistinn og arfaflokkar hans skyndilega allt til foráttu slíkum gatnamótum. Þeir virtust hafa fengið trúarlega opinberun eins og Páll postuli á fjallinu. Þetta mál dugði til að fella fimmta mann Samfylkingarinnar og þar með meirihlutann.

Mislægt við Kringlu

Punktar

Nýr meirihluti í Reykjavík ætlar að losna við steinbarn Reykjavíkurlistans, hin víðáttumiklu gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í tvívíðum fleti. Nýr meirihluti ætlar að gera þessi gatnamót mislæg eða þrívíð, svo að umferð geti orðið þar hindrunarlaus. Hingað til hefur mikil mengun orðið af bílum, sem bíða við ljós og eyða síðan miklu benzíni við að komast á ferð að nýju. Þetta ánægjulega verk á að klára á kjörtímabilinu. Ekki er þó allt gott í málefnasamningnum, þar er til dæmis gert ráð fyrir íbúðum við olíubirgðastöðina í Örfirisey.

Einmana Bandaríkin

Punktar

Álit umheimsins á Bandaríkjunum heldur áfram að falla samkvæmt árlegri könnun Pew Research Center í 15 ríkjum heims. Á Spáni hefur álitið fallið úr 41% í 23% á einu ári. Hinir spurðu telja, að stríðið við Írak hafi gert heiminn hættulegri en hann var. Stuðningur við stríðið gegn hryðjuverkum hefur dalað, í Japan og á Spáni hefur hann hreinlega horfið. Athyglisvert er, að bara þrír af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum vita um tilvist Abu Ghraib og Guantánamo fangelsanna, en níu af hverjum tíu Evrópumönnum og Japönum. Allir aðrir en Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af umhverfismálum.

Fela sig í leyndó

Punktar

Hvalveiðar eru mikil hugsjón í Japan, kosta hálfan milljarð króna árlega í niðurgreiðslum. Transparency International segir, að Japan múti líka eyríkjum og öðrum smáríkjum til að ganga í Alþjóða hvalveiðiráðið og greiða atkvæði með hvalveiðum. Árlegur fundur ráðsins hefst á föstudaginn og er þá búist við, að ný smáríki komi inn og hvalveiðiríki nái aftur meirihluta eftir tveggja áratuga veiðibann. Þá verður líka ákveðið, að atkvæðagreiðslur í ráðinu verði leynilegar, svo að ekki sé hægt að hengja einstakar ríkisstjórnir. Áheyrnarfulltrúum Greenpeace og annarra slíkra verður vísað á dyr.

Hvalkjötsfjallið

Punktar

Japanir eru hvattir til að snæða meiri hval, því að afurðir “vísindaveiða” seljast ekki á heimamarkaði. Ungt fólk borðar ekki hval og gamlingjar deyja smám saman út. Japanska fiskveiðiráðið hefur komið á fót Geishoku Labo, heildsölu með hvalkjöt til að dreifa því víðar um landið. Undanfarin ár hefur hvalkjöt hlaðist upp í frystigeymslum og nemur nú um 6000 tonnum. Mikið er í húfi, því að fyrirsjáanlegt er, að hefðbundnar hvalveiðar verði leyfðar að nýju í heiminum. Einhverjir verða að fást til að éta kjötið, svo að japanska ríkið verði ekki að margfalda ríkisstyrkinn.

Landráni hafnað

Punktar

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafnaði í gær, að Ísrael ákveði einhliða landamæri sín. Samkvæmt tillögu Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, dregur Ísrael sig aðeins frá hluta hernumda landsins og ekki frá nágrenni Jerúsalem. Samkvæmt henni munu Palestínumenn áfram eiga erfitt með að komast milli meginhluta lands þeirra og höfuðborgar þeirra í Austur-Jerúsalem. Olmert mun ekki vinna hug og hjörtu Evrópumanna í málinu, því að einhliða útþensla Ísraels hefur harðlega verið gagnrýnd í álfunni. Aðeins í Bandaríkjunum hefur landránið stuðning.

Dauðir óvinir

Punktar

Bandaríkjamenn taka myndir af föllnum óvinum, svo sem Zarkavi, og setja á almannafæri. Það gerðu líka geðsjúkir herforingjar að fornu. Þeir bundu dauða óvini upp í tré, svo að þeir sæjust víða að. Frumstæð er árátta villiþjóða að auglýsa manndráp sín til að stappa í sig stálinu og finnast stríð vera fyrirhafnar virði. Ekki segir sagan, að þetta lækki rostann í eftirlifendum. Kristnin hélt áfram að blómstra, þótt Jesús væri bundinn á kross. Þegar Saddam Hussein verður drepinn, munu Bandaríkjamenn örugglega senda öllum mynd af honum dauðum.

Prins veltir sér

Punktar

Hestar geta ekki hannað atburðarás. Þegar Prins veltir sér á hina hliðina, lendir hann með fæturna í girðingu, af því að hann gerir sér ekki grein fyrir flatarmálsþörf veltunnar. Hann verður hræddur og hissa, en endurtekur mistökin. Pólitíkusar hanna hins vegar atburðarásir, þar á meðal Halldór Ásgrímsson. Að vísu fór fyrir honum eins og Prinsi, að atburðarásin gekk ekki upp. Það reyndist hægara sagt en gert að arfleiða Finn Ingólfsson að flokksríkinu. Ég man líka eftir manni, sem fótbrotnaði, því að hann gerði sér ekki grein fyrir flatarmálsþörf hestveltu. Hann varð fyrir hestinum.

Óvissuferð okkar

Punktar

Nútíminn hefur fært okkur útvarp og sjónvarp, sem hafa gert læsi óþarft. Fólk er orðið eftirlæst, það hefur lært að lesa í barnaskóla, en notfærir sér það ekki. Talað mál fortíðarinnar hefur komið aftur í sviðsljósið eftir aldagamla einokun ritaðs máls í lögum og trú, fréttum og vísindum, bókmenntum og lýðræði. Fyrir daga stafrófsins var þorpið heimsmynd fólks. Lengi hefur ritmálið markað heimsmynd heilla þjóða, en nú er þorpið aftur komið til skjalanna sem alheimsþorpið. Með því verður í samfélaginu bylting, sem enginn sér enn, hvert muni leiða okkur.

Stóra byltingin

Punktar

Forngrikkir endurbættu atkvæðaritun Fönikíumanna, bættu sérhljóðum við samhljóðana. Þannig fundu þeir upp 30 tákna stafróf, eins konar hljóðritun, sem hentar öllum tungum. Áður höfðu tákn skipt hundruðum eða þúsundum. Þessi breyting framkallaði læsi, þar sem hvert tákn verður merkingarlaust eitt út af fyrir sig. Það setti einstaklinginn í öndvegi í samfélaginu, gerði lýðræði mögulegt og lagði grundvöll að óhlutbundinni, vísindalegri hugsun. Þetta gerðist fyrir 2735 árum og var önnur mesta bylting mannkynssögunnar. Almenningseign varð hún með ódýrri prentun lausra bókstafa hjá Gutenberg fyrir 550 árum.

Flokksmenn fái kaup

Punktar

Snotur blaðagrein Óskars Bergssonar, frambjóðanda Framsóknar í Reykjavík, segir okkur, að Framsókn fari hvarvetna í meirihluta í bæjarstjórnum, því að flokkurinn sé samstarfshæfari en aðrir flokkar. Það eina, sem vantar í greinina, er, að hæfni flokksins byggist á, að hann er málefnafrjáls og getur því samið við hvern sem er um hvað sem er. Flokkurinn er nefnilega ekki stjórnmálaflokkur, heldur vinnumiðlun flokksmanna á mölinni. Samstarf hans í Reykjavík og breytingar á samstarfi hans í ríkisstjórn felast í að fá sem mest kaup fyrir sem flesta flokksmenn.

Hægfara sumar

Punktar

Úthaginn er enn sinugrár og græni liturinn á heimahaganum er bara slikja. Hrossin rása um í leit að haga, þótt þau líti ekki við heyi, sem bíður þeirra í grindum. Vorið er komið 11. júní, þótt fara verði niður á tún til að finna tíu sentimetra gras. Vont er að stunda landbúnað í köldu landi, þar sem heyskapur byrjar um það leyti, er dagur er orðinn lengstur. Úti í heimi eru tvær eða þrjár uppskerur grænmetis og korns á hverju ári. Raunar er gífurlegur lúxus að halda uppi landbúnaði á 66°N, sem hentar til alls annars en einmitt þessarar iðju.