Punktar

Bara 13 milljónir

Punktar

Vinstri grænir virðast ekki hafa varið nema 12-13 milljónum króna í kosningarnar í vor. Flokkurinn notaði sjálfur 4-5 milljónir og styrkti framboð sín og sameiginleg framboð í sveitarfélögum um mismuninn. Sumir staðir hafa ekki gert upp enn, svo að heildarupphæðin fer í 13 milljónir. Þetta er skynsamleg fjárupphæð, ólík austri ýmissa annarra flokka, einkum Framsóknar, sem eyddi 70-100 milljónum í kosningabaráttu, sem aflaði lítils sem einskis fylgis. Atkvæði verða ekki með þessum hætti keypt fyrir peninga.

Hrossa Group

Punktar

Dagblað, sem gefið er út á Vindheimamelum, upplýsir, að boðnar hafi verið tíu milljónir króna í hryssu undan Orra frá Þúfu, en hún hafi ekki verið föl. Ef við reiknum með, að hún muni eiga tíu folöld, er það milljón á folaldið, áður en búið er að borga folatoll upp á kvartmilljón. Ef hryssur fara í tíu milljónir, er skammt í að stóðhestar fari í hundrað milljónir. Því má fullyrða, að hestamennska sé hvorki landbúnaður né íþrótt, heldur löglegt fjárhættuspil. Enda eru hestar ekki lengur í eigu einstaklinga, heldur fyrirtækja á borð við S-Group.

Halastjarna í Öxnadal

Punktar

Lítið er um veizlumat í Skagafirði, þar sem veitingahúsum hefur farið aftur síðustu ár og eldhúsið í Ólafshúsi á Sauðárkróki er komið í hreina steik, gráa og seiga. Til ráða er að skreppa heiðina að Halastjörnunni, sjávarréttastað, sem er efst í Öxnadal. Þar fékk ég fyrst fiskisúpu með kræklingi og humar, síðan reyktar svartfuglsræmur með blóðbergi úr hólunum, sem hálfan dalinn fylla við Hraundranga. Aðalrétturinn var steikt lúða með mauki rótarávaxta og að lokum kom rabarbaratrifli úr garðinum. Þetta var eins og í heimsborgum, hrein og tær vin í eyðimörk hringvegarins.

Bjarni á Sauðárkróki

Punktar

Heimsókn í krambúð Bjarna Haraldssonar á Sauðárkróki er fastur liður hvers landsmóts hestamanna á Vindheimamelum. Búðin hefur verið í þessu húsnæði innst í bænum síðan 1930. Þar eru enn upphaflegar innréttingar með sérstökum skúffum fyrir rúsínur, hveiti, sykur og aðra lausavigtarvöru. Bjarni afgreiðir enn í búðinni, sem faðir hans stofnaði fyrir tæpri öld. Ég man enn, hversu merkileg mér þótti þessi búð, þegar ég var strákur í sveit í Skagafirði og fékk að fara í kaupstaðarferð. Þá þegar var Krókurinn mikið menningarsetur með fagmönnum á öllum sviðum, jafnvel skósmið og úrsmið.

Færa blýantsnag

Punktar

Ríkisstjórnin heldur áfram að lama ríkiskontóra með því að flytja þá á enda veraldar. Atvinnuleysistryggingar fara til Skagastrandar og Fæðingarorlofið til Hvammstanga. Samtals flytjast sautján störf til þessara plássa, sem eiga bágt vegna minni landvinnslu á fiski og skorts á álverum. Engu máli skiptir, hvar í heiminum blýantar eru nagaðir. En ekki eru horfur á, að kontór á Skagaströnd verði duglegri en áður við að hindra menn í að taka laun á svörtum markaði um leið og þeir þiggja bætur. Kannski lagast sá þáttur á Skagaströnd. Við skulum endilega fylgjast með því.

Deyr Samfylkingin?

Punktar

Samfylkingin er í algeru lamasessi samkvæmt sömu könnunum, hefur 25% fylgi, mun minna en í síðustu kosningum. Samt hefur flokkurinn verið í þrjú ár í stjórnarandstöðu og hefur fengið frelsandi engil að formanni. Með sama áframhaldi eru engar horfur á, að flokkurinn geti haft forustu í nýrri ríkisstjórn að ári. Af hverju fiskar ekki kafteinninn? Þarf flokkurinn að finna nýjan formann. Og lendir hann þá bara á sömu villigötum og Framsókn í öðrum Jóni Sigurðssyni. Eða muna kjósendur enn, að Samfylkingin sveik þjóðina og studdi Kárahnjúkavirkjun?

Jón og Halldór

Punktar

Fylgi Framsóknar er samkvæmt skoðanakönnunum orðið meira en það var í byggðakosningunum fyrir mánuði, hefur farið úr 6% í 9-10%. Þótt enn sé langt í fylgi síðustu alþingiskosninga, er ljóst, að nokkur þúsund manns telja flokkinn hafa fengið næga refsingu. Svik hans við þjóðina voru þó ekki byggðamál, heldur landsmál. Þau voru forusta í landníðslu og fylgisspekt við Sjálfstæðisflokkinn, sem enn er óbreytt. Þeir, sem telja Jón Sigurðsson munu leiða flokkinn heim eftir villur Halldórs Ásgrímssonar, verða fyrir vonbrigðum. Menn munu fatta fljótt, að Jón er á sömu villigötum og Halldór.

Þarna er hann Sigurður

Punktar

Ég held, að Sigurður Sæmundsson í Holtsmúla hafi komið á þeim ósið þula á hestamótum að setja persónufornöfn framan við sérnöfn: “Hér kemur hann Sigurður Sæmundsson á honum Suðra frá Holtsmúla.” Hann hefur lengi verið hafður til fyrirmyndar öðrum hestamönnum og þeir apa þessa vitleysu upp eftir honum án hugsunar. Þetta hefur Sigurður lært í Svíþjóð. Á íslenzku þarf ekki á að taka fram, að Sigurður sé ekki kona og að Suðri sé ekki hryssa. En samanlagt fer óralangur tími þula í að endurtaka persónufornöfn í síbylju. Aðeins þulir á hestamótum bulla svona.

Stór dagur í gær

Punktar

Á landsmóti hestamanna í gær fannst mér virðulegastur gylltur hjálmur kappans Reynis Aðalsteinssonar, sem hefði verið enn betri með strútsfjaðraskúf að hætti riddaraliðs. Þjóðlegastur var Jón Finnur Hansson ritstjóri, sem keppti í lopapeysu, en aðrir riðu í evrópskum yfirstéttarjökkum. Hápunkturinn var auðvitað framboðsræða Guðna Ágústssonar hestaráðaherra, sem var vel tekið af þúsundum manna. Persónulega fannst mér mest gaman að skreppa í kvöldmat yfir heiðina niður í Öxnadal, þar sem Guðveig Anna heldur úti Halastjörnunni, fyrsta flokks matstað í eyðimörkinni.

Skemmdur hringvegur

Punktar

Brýnna er að bjarga hringveginum en að leggja um heiðar nýja vegi, sem stytta leiðir lítið og flestar ekkert. Víða er hringvegurinn stórskemmdur vegna meiri umferðar þungra bíla en gert hafði verið ráð fyrir. Samt eru menn að gamna sér við að stofna félög um vegi með varanlegu slitlagi yfir Kjöl og Arnarvatnsheiði. Og látið hefur verið undan þrýstingi um veggöng í afskekktum fjörðum, svo sem í Héðinsfirði. Betra er að viðurkenna, að þungaflutningar í landinu hafa færst af sjó á hringveginn og forgangsraða vegagerð með tilliti til þess.

Hollensk vandræði

Punktar

Helgi Hafsteinn Helgason skrifar mér frá Amsterdam: “Þá er hollenska stjórnin fallin. Eftir vandræðin með Ayaan Hirsi Ali, var málið rannsakað. Í gær kom Verdonk ráðherra með lausn málsins, Ayaan fékk vegabréfið aftur, en það var ljóst, að um hafði verið samið (henni verið mútað), þ.e.a.s. hún gat ekki tjáð sig um málið. Í framhaldi urðu þingumræður í alla nótt, sem enduðu með því að D66 lýsti yfir vantrausti á Verdonk og síðar í dag á ríkistjórnina. Gátu ekki stutt verknað VVD (Verdonk). Þannig féll meirihlutinn og gekk Balkenende í kvöld á fund drottningar og sagði af sér. Líklega verður kosningum flýtt, þótt ekki sé útilokað að stjórnin sitji í minnihluta eitthvað lengur.”

Réttur til einkalífs

Punktar

Hagsmunamál stjórnmálamanna, embættismanna og handhafa félagslegs rétttrúnaðar er að hindra tilraunir fjölmiðla til að afla staðreynda. Öflugasta vopn þeirra er að magna víggirðingar einkalífs. Til þess höfum við Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Látið er í veðri vaka, að réttur til einkalífs sé hornsteinn lýðræðis. John Dewey skrifaði þó: “Enginn maður varð frjáls af því að vera látinn í friði.” Opinbert líf og gegnsæi eru eðli lýðræðis, en ekki einkalíf. Það gagnast fólki t.d. alls ekki, að sett verði lög um, að ríkisendurskoðandi einn fái að vita um framlög manna til framboða.

Átti enga vini

Punktar

Hjá Joseph Pulitzer útgefanda á New York World hékk plakat: “World á enga vini.” Að eiga enga vini felur í sér, að dagblaðið kemur upp um spillingu, svartamarkað og vangetu, hvar sem þetta er að finna. Hjá honum hékk uppi annað plakat: “Sannreynið, sannreynið, sannreynið”. Það fól í sér siðaskrá blaðsins: Að segja satt. Pulitzer var uppi fyrir hundrað árum, byrjaði á því, sem síðar var kallað “gula pressan” með hneysklismálum á hverri síðu. Hann stofnaði sjóð um verðlaun, sem veitt eru blaðamönnum, er átta sig ekki á, að það er komið úr tízku að segja fréttir.

Bíða eftir frægð

Punktar

Ímyndanir eru seldar unglingum sem veruleiki. Auglýsingar bjóða þeim ímyndaðan heim, sem stingur í stúf við vonlausar aðstæður þeirra, skort á menntun og góðu starfi. Samkvæmt skýrslu í janúar eru 11% unglinga beinlínis að bíða eftir að vera uppgötvuð af þeim, sem finna fólk í veruleikaþætti á borð við Ástarfleyið. Alvarlegasta dæmið um ímyndun eru þó auglýsingar, sem bjóðast til að gera ungar stúlkur magrar að hætti frægðarfólks. Ein afleiðingin er, að þær fara að hata eigin líkama. Um þetta allt fjallaði George Monbiot í Guardian í gær.

Veruleiki og væntingar

Punktar

George Monbiot skrifaði grein um geðveiki barna í Guardian í gær. Þar segist hann telja, að aukið misræmi veruleika og væntinga grafi undan geðheilsu barna. Veruleikinn í Bandaríkjunum og Bretlandi sé sá, að bara 1% af börnum fátækra lenda síðar á ævinni í auðstéttinni, lægra hlutfall en nokkru sinni fyrr og lægsta hlutfall í heimi. Unglingar eru frosnir fast við botninn og hafa í eymd sinni tekið trú á veruleikaþætti á borð við “Big Brother”. Þeir telja sig síðar muni verða ríka, ekki af árangri í námi og starfi, heldur af árangri í þátttöku í gerviveruleika.