Hjá Joseph Pulitzer útgefanda á New York World hékk plakat: “World á enga vini.” Að eiga enga vini felur í sér, að dagblaðið kemur upp um spillingu, svartamarkað og vangetu, hvar sem þetta er að finna. Hjá honum hékk uppi annað plakat: “Sannreynið, sannreynið, sannreynið”. Það fól í sér siðaskrá blaðsins: Að segja satt. Pulitzer var uppi fyrir hundrað árum, byrjaði á því, sem síðar var kallað “gula pressan” með hneysklismálum á hverri síðu. Hann stofnaði sjóð um verðlaun, sem veitt eru blaðamönnum, er átta sig ekki á, að það er komið úr tízku að segja fréttir.