Á landsmóti hestamanna í gær fannst mér virðulegastur gylltur hjálmur kappans Reynis Aðalsteinssonar, sem hefði verið enn betri með strútsfjaðraskúf að hætti riddaraliðs. Þjóðlegastur var Jón Finnur Hansson ritstjóri, sem keppti í lopapeysu, en aðrir riðu í evrópskum yfirstéttarjökkum. Hápunkturinn var auðvitað framboðsræða Guðna Ágústssonar hestaráðaherra, sem var vel tekið af þúsundum manna. Persónulega fannst mér mest gaman að skreppa í kvöldmat yfir heiðina niður í Öxnadal, þar sem Guðveig Anna heldur úti Halastjörnunni, fyrsta flokks matstað í eyðimörkinni.