Punktar

Evrópa vaknar

Punktar

Efnahagur Evrópu er að vakna til lífsins. Þýzkaland og Frakkland eru komin vel fram úr Bandaríkjunum í hagvexti og Bretland er rétt skriðið fram úr þeim. Útflutningur hefur gengið vel á meginlandi Evrópu, þrátt fyrir sterka evru, þrátt fyrir háar greiðslur til umhverfisverndar og velferðar, þrátt fyrir styttri vinnudaga og styttri vinnuævi. Bjartsýni fólks hefur vaxið í Þýzkalandi. Hagfræðingar vænta góðs af því, enda telur brengluð hagfræði nútímans, að sukk og kaupæði almennings þýði hagvöxt. Hugtök hagvaxtar eru brengluð, en samt má nú sjá aukin umsvif í Evrópu.

Engin áritun

Punktar

Pakistanar eru þriðjungur þeirra, sem grunaðir eru um aðild að misheppnuðu hryðjuverki um helgina í flugvélum milli Bretlands og Bandaríkjanna. Um leið segja fréttir, að til framkvæmda sé komið samkomulag Pakistans og Íslands um afnám vegabréfsáritunar til Íslands. Það er ótímabær ákvörðun. Pakistan er annar endi öxuls hryðjuverkakerfis alKaída. Þar læra hryðjuverkamenn. Hinn endi öxulsins er Sádi-Arabía, þar sem illvirkin eru fjármögnuð. Afganistan og einkum Írak eru aukapeð í þessu tafli. Það er ekki í lagi, að hryðjuverkamenn frá Pakistan eigi greiða leið til Íslands.

Jón eða Siv

Punktar

Jón Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttir eru ein og sama persónan. Mig skiptir engu, hvort þeirra verður formaður Framsóknar. Ég veit af viðtölum í fjölmiðlum, að Jón verður verri en Halldór, sem var botn stjórnmálanna. Um Siv veit ég, að hún laug, að Kárahnjúkavirkjun kaffærði mela eina. Ég hef sannreynt, að landið, sem sekkur í Hálslón, er að mestu gróið og býr yfir einstæðum náttúruminjum. Þær voru þess valdandi, að ríkisstjórnin þurfti að affriða Kringilsárrana til að koma orkuverinu á koppinn. Jón og Siv henta bæði hálfdauðum flokki, sem þarf sem fyrst að deyja alveg.

Tölvan í flugi

Punktar

Mér dettur ekki í hug að setja fartölvuna mína í farangursgeymslu flugvéla. Ég vil ekki, að hún skemmist. Ég vil ekki heldur, að óviðkomandi aðili komist yfir hana. Ég vil alls ekki, að flugfélagið týni henni eins og það týnir öðrum farangri. Ég vil halda á henni í fluginu, prívat. Nú er það ekki lengur hægt, því að hryðjuverkamenn hafa hrætt glóruna úr sýslumönnum heimsins. Ég þarf hins vegar að nota tölvuna daglega. Þess vegna mun ég ekki nota flug meðan ruglið er í gangi. Þess vegna hef ég ekki einu sinni pantað hina árlegu skíðaferð. Fleiri kvarta um glóruleysið en ég einn.

Þjóðin er aumingi

Punktar

Allt, sem nú er vitað um Kárahnjúkavirkjun, hefur verið vitað frá upphafi. Þjóðin getur ekki skotið sér á bak við, að hún hafi ekki haft réttar upplýsingar, þegar hún endurkaus ríkisstjórnina. Samfylkingin getur ekki varið svik sín á Alþingi við land og þjóð með vísun til rangra upplýsinga. Frá upphafi hafa fréttir og greinar í útbreiddum fjölmiðlum skýrt frá sannleikanum. Aftur og aftur og aftur. Það var hins vegar þjóðin, sem kaus að hafna sannleikanum og trúa lyginni. Hún hefur hagað sér eins og hver annar aumingi.

Margir meðsekir

Punktar

Landsvirkjun hefur runnið á rassinn með Kárahnjúka. Hún er meira en hálfu ári á eftir áætlun og fer marga milljarða fram úr áætlun. Hún selur orku á hálfu Brazilíuverði. Efnahags- og framfarastofnunin gagnrýnir virkjunina og leyndina um orkuverðið. Verstir eru lygafjötrarnir. Virkjunin hefur frá upphafi verið knúin af ofurlygum, fjárhagslygum, verkfræðilygum og náttúrulygum. Ríkisstjórnin hafði bara forustu, útvegaði fé og ríkisábyrgð. Margir fræðingar seldu sál sína. Þeir eru meðsekir og munu líka svara til saka.

Sænautasel

Punktar

Ég kom í Sænautasel á Jökuldalsheiði, heiðajörð, sem hélzt í byggð fram á miðja síðustu öld. Hitti þar síðasta bóndasoninn, sem sagði mér frá búskaparhátum, þegar hey fékkst bara af flæðiengjum og helzta björgin var silungur úr vatninu Í Sænautaseli stendur gamli bærinn með sambyggðu fjósi og hesthúsi. Fjárhúsið hefur verið endurbyggt og þar er selt kaffi og súkkulaði með kleinum, jólaköku og lummum. Sænautasel er stutt frá gömlu leiðiinni um Möðrudalsöræfi, þeirri sem liggur um Möðrudal. Það er króksins virði að sleppa frá sjoppunum.

Ómar er goðsögn

Punktar

Ég flaug með Ómari Ragnarssyni um Hálslón. Við lentum á flugvöllum, sem hann hefur markað á svæðinu. Ómar er með merkustu núlifandi Íslendingum, hefur komið fleiru í verk en heill árgangur af stúdentum. Hann er lifandi goðsögn, með margt í smíðum, meðal annars kvikmynd mesta hneykslis sögu okkar, þegar Hálslón fyllist á næsta ári. Ómar hefur sætt ofsóknum út af réttum fréttum af Kárahnjúkavirkjun, því að óvinir lands og þjóðar í stjórn og Landsvirkjun eru ofurlygnir, með fulla vasa fjár og svífast einskis.

Hraukar og rúllutertur

Punktar

Ég var í Kringilsárrana, tíndi ber og skoðaði beitiland. Þar sá ég hrauka og rúllutertur, einstæð og áður friðuð náttúruundur, sem munu hverfa undir Hálslón. Ég gekk á botni hins yfirvofandi lóns og sá með eigin augum, að gróið er mest af landinu, sem hverfur. Ég sá Töfrafoss og tugi annarra stórfossa, sem munu hverfa. Þetta vissi ég raunar allt áður, en sá það nú sjálfur. Allt reyndist vera satt, sem óvinir virkjunarinnar sögðj. Allt var lygi, sem landníðingarnir Halldór, Siv og Valgerður sögðu. En þjóðin fíflaðist til að trúa þeim.

Hömlulaus ofsi

Punktar

Ég fór um Snæfell og Kárahnjúka á vegum, í lofti og á fæti. Alls staðar hefur Landsvirkjun komið sér fyrir, helzt uppi á hæðum, þar sem vel sést til. Hún er líka komin með mannvirki við Eyjabakka, þar sem frestað var að virkja. Það minnir á, að hvergi hafa ríkisstjórn og Landsvirkjun gefið eftir, aðeins frestað sumum óvinsælum framkvæmdum. Enn gildir landráðastefnan, sem Jón Sigurðsson þykist ekki finna. Hún felst í að reisa orkuver í paradís, jafnvel þótt affriða þurfi heimsfræg svæði. Stefnan er hömlulaus ofsi.

Tregur flokkur

Punktar

Eini kosturinn við Jón Sigurðsson Seðlabankastjóra sem yfirvofandi formann Framsóknar er, að allir verða betri formenn en Halldór Ásgrímsson var. En þar með er líka öll sagan sögð um Jón, svo sem menn hafa séð í sjónvarpinu. Hann er bara einn þeirra, sem hafa atvinnu af að vera í flokknum, en hefur til viðbótar miklar í huganum. Eftir nokkur ár´í fílabeinsturni Seðló telur hann sig yfir aðra hafinn og er ófær um að tala við fréttamenn. Þar sem Framsókn er tregur flokkur, mun það taka hann þrjú ár að fatta, að Jón er vanhæfur formaður.

Hefðarfrúr í sókn

Punktar

Margir stefna til áhrifa í Framsókn, enda telja þeir hann muni verða í stjórn til enda veraldar. Nánast allir eru þeir aldir upp af vinnumiðlun, sem þykist vera flokkur. Þar er aðeins að finna einn af gamla skólanum, Guðna Ágústsson, sem þorði ekki að verða formaður og mun verða sparkað sem varaformanni. Gamli stíllinn hans hentar ekki straumlínulagaðri vinnumiðlun, sem er önnum kafin við að maka krókinn. Þar eru hefðarfrúr, sem seldu víðerni Íslands fyrir slikk Þar eru líka blaðurfulltrúar og ímyndunarfræðingar, sem gáfu íhaldinu Reykjavík.

Treystu aldrei löggu

Punktar

Talsmaður löggunnar á Austurlandi sagði rangt, að löggan þar veittist að fólki með ofbeldi. Um leið og hann sagði þetta í sjónvarpinu, sýndi sjónvarpið myndskeið af honum sjálfum, þar sem hann veittist harkalega að ljósmyndara. Það kom í ljós, að talsmaðurinn laug. Þannig starfar löggan. Hvergi er meiri tilfinning fyrir andstöðu “okkar” og “þeirra” en einmitt hjá henni. Hún er sú stétt, sem mesta hópsál hefur. Því vita menn, að engir ljúga eins mikið og löggur. Dæmin sýna það um allan heim. Treystu aldrei löggu.

Stríð og stóriðja

Punktar

Íslenzk stjórnvöld eru andvíg gegnsæi. Þau vilja ekki, að kjósendur fái að vita, hvað er borgað fyrir rafmagn til stóriðju. Þau vilja ekki, að kjósendur fái að vita, hvað stendur í samningum við Bandaríkin um svokallaðar varnir landsins. Í báðum tilvikum telja stjórnvöld heppilegt, að fólk fái ekki upplýsingar, sem gera því kleift að taka afstöðu í stjórnmálum. Gegnsæi er nefnilega hornsteinn lýðræðis, jafngildur sjálfum kosningunum. Þess vegna er ríkisstjórnin andvíg gegnsæi í stóriðju og stríðsmálum.

Huliðshjálmurinn

Punktar

Stjórnvöld á Íslandi hafa neitað að segja frá orkuverði til stóriðju. Það er slæmt, segir OECD, Efnahags- og framfarastofnunin. Upplýsingar um verð eiga að vera gegnsæjar. Annars vita kjósendur ekki, hverju stóriðjan skilar til þjóðarinnar. EECD gagnrýnir einnig, að ekki skuli vera tekið tillit til landleigu, notkun náttúrugæða og umhverfisáhrifa í samningum ríkis og Landsvirkjunar um stórvirkjanir og stóriðju. Gagnrýni alþjóðastofnunarinnar segir allt, sem segja þarf um fáránlega stóriðjustefnu.