Punktar

Stríðin um vatn

Punktar

Stríð Ísraels gegn umhverfi sínu er öðrum þræði stríð um vatn, sem víða skortir. Ísrael stelur vatnsbólum Palestínu og flytur vatnið til sín, meðan Palestína deyr úr þorsta. Árásin á Líbanon snerist sumpart um að eyðileggja vatnsleiðslur úr Litani-ánni. Á Sri Lanka er barist um vatnsból. Kína hefur iðnvæðst svo hratt, að víða er erfitt að ná vatni. Heimsveldi fortíðarinnar byggðust á vatni, Egyptaland, Mesópótamía. Stríð framtíðarinnar munu snúast um aðgang að vatni. Við erum heppin á Íslandi að hafa nóg vatn. En líklega kemur um síðir að ásælni mannkyns almennt í þetta vatn okkar.

Frænkan er með skæri

Punktar

Alan Wolfe segir, að stjórnsýslumenn við völd hafi hag af sefasýkinni. Þeir noti óttann til að safna valdi. Í stað þess að vernda fólk fyrir hryðjuverkum, er athyglinni beint að gamalli frænku með skæri í pússi sínu, arabalegum manni með farsíma í höndunum, barni með snuð, háskóladreng með nýjustu fartölvuna. Hryðjuverkamenn nota aðrar aðferðir, hegða sér öðru vísi en frænkan og smábarnið. Þeir nást ekki með aðgerðum, sem nú eru stundaðar á flugvöllum. Þær hafa hins vegar þann tilgang að hræða fólk til stuðnings við arftaka Edgar Hoover víða um heim.

Töfin er sálræn vernd

Punktar

Alan Wolfe segir í Boston Globe, að óttinn við hryðjuverk minni á sefasýki fyrri áratuga, áfengisbannið, kalda stríðið, kjarnorkubyrgin. Hann kallar þetta siðferðisótta, sem ekki sé á rökum reistur, heldur á sífréttum af vandamálum, sem síðan reynast vera misskilningur. Hinir handteknu reynast ekki vera hryðjuverkamenn. Við sjáum ekki baráttu gegn hryðjuverkum, sem kemur að gagni bak við tjöldin, en við sjáum gagnslaust eftirlitið á flugvöllum, sem tefur okkur um klukkustund í hverju flugi. Sú töf friðar sefasýkina. Hún veldur sálrænni vissu um, að Stóri bróðir passi okkur.

Gagnaeyðsla í tóbaki

Punktar

Gladys Kessler dómari segir, að British American Tobacco hafi eytt gögnum og gagnabönkum til að hindra fólk í að komast að raun um skaðsemi tóbaks og höfða mál gegn fyrirtækinu. Dómarinn vísar til skjala, þar sem fram kemur, að starfsmenn eru hvattir til að ganga vel fram í gagnaeyðingu. Dómarinn telur, að tóbakshús á borð við BAT, Philip Morris, RJ Reynolds og Brown & Williamson hafi áratugum saman vitað um skaðsemi tóbaks og reynt með öllum tiltækum ráðum að hindra, að vitneskja um hana breiddist út í samfélaginu og næði til dómstóla.

Sex tækjafíklar

Punktar

Í grein í Guardian í gær skipti Gareth McLean tækjafíklum í flokka. Fyrst ber að telja Blackberry-fíkla, sem reyna að hitta feitum puttum á rétta stafi á ögursmáu lyklaborði lófatölvu til að svara tölvupósti. Síðan koma MySpace eða YouTube fíklar, sem ekki þvo sér og geta því eingöngu stundað mannleg samskipti á vefnum. Svo eru spilafíklarnir með Doom, Championship Manager og Civilisation. Síðan má telja iPoddara, sem eru líða utangátta um þjóðfélagið með hvítar snúrur í eyrunum. SMS-arar senda skilaboð allan daginn og þurfa aldrei að segja orð. Bluetooth er svo fyrir dópsala.

Uppvakningurinn

Punktar

Í Afganistan og Írak hafa Bandaríkin með hervaldi fellt ríkisstjórnir, sem voru andsnúnar Íran. Í Írak hafa þau til viðbótar með kosningum hafið til valda sjíta, sem leita skjóls og stuðnings Írana. Þannig hafa Bandaríkin vakið upp draug, sem heitir Íran. Það er orðið stórveldi Miðausturlanda, hyggst koma sér upp kjarnorkuvopnum og sáldrar peningum yfir Hizbolla í Líbanon. Þannig eru menn dæmdir til að valda sjálfum sér vandræðum, ef þeir skilja ekki sagnfræði. Sú er staða stjórnvalda í Bandaríkjunum um þessar mundir. Þau hafa óvart vakið upp draug, sem þau ráða síðan ekki við.

Grýta rusli

Punktar

Hver er fortíð unga fólksins, sem grýtir rusli í allar áttir, þar á meðal tyggjó? Hefur það ekki fengið neitt uppeldi heima fyrir? Hefur það ekki verið í skólum og lært umgengni? Hefur það ekki verið í unglingavinnu og lært að kasta ekki rusli? Hvað hafa allir verið að gera, sem koma að uppeldi ungs fólks? Og hvað með stjórnvöld, af hverju setja þau ekki losunargjald á verð hvers tyggjópakka? Svo langt gengur ruglið, að þátttakendur í maraþoni grýttu pappamálum í allar áttir í stað þess að fleygja þeim í ruslakistur, sem voru þétt við brautina.

Feykja rusli

Punktar

Ljótt er að sjá umgengni þeirra, sem rífa gamla Lýsishúsið. Ruslið dreifist um nálægar götur og garða, einkum einangrunarplast, sem fer alla leið niður í fjöru. Þetta minnir mig á framkvæmdirnar í Norðlingaholti, þar sem plastið flaug um allar áttir í fyrravetur. Sóðaskapur er algengur í framkvæmdum hér á landi. Þar er að verki sama fólkið og hendir ruslinu út um bílglugga og er ófært um að ala upp börn, sem lætur rusl í þar til gerðar ruslafötur. Í greinum ferðamanna um Ísland er í auknum mæli fjallað um einstæðan sóðaskap þjóðarinnar.

Tilskipunin

Punktar

Nýr formaður Framsóknar segir ótímabært að ræða aðild að Evrópusambandinu. Hann virðist eins og telja sig geta gefið tilskipanir um, hvað megi ræða í þjóðfélaginu og hvað ekki. Davíð Oddsson var duglegur við að gefa út slíkar tilskipanir, en hann var sér á parti og verður ekki endurtekinn. Jón Sigurðsson hefur enga stöðu til að ákveða, um hvað megi tala. Hann er nýr og í senn gamall formaður smáflokks, sem hefur þá að kjósendum, sem hann hefur útvegað vinnu á mölinni. Forstjórar vinnumiðlana gefa ekki út yfirlýsingar fyrir hönd þjóðfélagsins.

Þú skalt reykja

Punktar

Útvarpsstöðin XFM gaf sígarettur í beinni útsendingu og afhenti þeim, sem reyktu, frímiða í bíó. Ennfremur hefur verið tilkynnt, að stöðin muni á fimmtudaginn bjóða fríar sígarettur á þessari sömu bíómynd. Hvað er hér á seyði? Eru markaðsmenn gengnir af göflunum? Er ekki hægt að stinga þeim inn fyrir að afvegaleiða ungt fólk. Af hverju hefur lögreglan ekki gert neitt í málinu? Hvað er hún yfirleitt að gera? Ekki má hún vera að því að sinna löggæzlu í Reykjavík. Er hún á námskeiðum hjá Alcoa í meðferð þeirra, sem eru Birni Bjarnasyni ekki þóknanlegir?

Rangsnúin persónuvernd

Punktar

Persónuvernd telur ólögmætt að nota lista yfir mætingar nemenda til að ákveða, hverjir megi taka þátt í hátíð. Í stað þess að skamma unglinga duglega fyrir lélega mætingu í grunnskólanum í Grindavík, höfðu villuráfandi foreldrar fyrir því að kvarta við stofnunina. Þetta er dæmigert fyrir ömurlegt ástand uppeldis hér á landi. Sérstök stofnun er svo rekin til að hindra eðlilega hnýsni í villuráfandi atferli. Lög og skrifstofu um persónuvernd ber að leggja niður hið bráðasta. Þetta er stofnun í tómu tjóni.

Hætta “mögulega”

Punktar

Fjölmiðlar fullyrtu mikið í gær. Morgunblaðið sagði á vefnum, að bein Hrings yrðu flutt aftur í Hringsdal. Ekkert bendir til, að beinin séu Hrings. Það er bara getgáta út í loftið. Sama blað segir á vefnum, að “hugsanlegt sé”, að hross hafi fælst vegna flugeldasýningar. RÚV segir á vefnum, að sýningarnar “gætu hafa” fælt hrossin. Hvorugur fjölmiðill dregur nein gögn fram til stuðnings fyrirsögnunum. RÚV segir á vefnum, að leiðsögumenn leggi “mögulega” niður vinnu, hvað sem það þýðir. Betra er að reyna að sannreyna málin, birta líklega niðurstöðu og sleppa getgátunum?

Myndlistarlimbó

Punktar

Fólk kaupir listaverk, ef þau eru tvívíð og rétthyrnd, passa í veggpláss. Sveitarfélög kaupa listaverk, ef þau standa á stalli og hreyfast helzt ekki. Hvorir tveggja kaupa fyrst og fremst verk höfunda, sem hafa fengið viðurkenningu, til dæmis með því að deyja. Nútímamyndlist hefur í fjóra áratugi fengizt við allt annað, einkum uppákomur eðan gerninga, sem hvorki rúmast í rétthyrningi né á stalli. Frá þeim tíma hefur myndazt gjá milli myndlistarmanna og fólks. Engin listgrein hefur fjarlægzt fólk meira en myndlistin. Hún lifir í limbói fámenns hóps listamanna og listrýna.

Svindlað í sporti

Punktar

Aftur og aftur les ég fréttir um svindl í sporti, nú síðast lyfjapróf Floyd Landis í Tour de France hjólreiðakeppninni. Áður voru það dómar yfir Juventus og fleiri fyrirtækjum í ítalska boltanum. Hvað eftir annað fréttist af falli frjálsíþróttafólks í lyfjaprófum, síðast Justin Gatlin, Marion Jones og Latifa Essarokh. Chelsea er fyrirtæki í eigu rússnesks auðkýfings, gott dæmi um úrkynjun íþrótta sem kaupsýslu. Lamaðir eftirlitsaðilar íþróttasamtaka virðast ekki geta stöðvað lyfjanotkun íþróttafólks, breytingu íþróttafélaga í braskhús og dómarahneyksli slíkra kaupsýslu-fyrirtækja.

Úrval smárétta

Punktar

B5 sveiflast eftir tímum dagsins milli kaffistofu, matstofu og vínstofu, því að öll vín eru þar seld í glasatali. Sjá má sýnishorn af ýmsum þrúgum og heimshornum. Sérstaða matseðilsins felst í miklu safni smárétta, sem fást allan daginn. Þar fyrir utan eru hádegisseðill og kvöldseðill. Svona staðir eru lausir við yfirlæti frönsku og fínu staðanna með svimandi upphæðum á matseðli. Hér má borða þríréttað fyrir 3.300 krónur í hádeginu og 4.500 krónur á kvöldin. Smáréttirnir kosta um það bil 1.000 krónur, til dæmis ljúfur graflax á rússneskri pönnsu. Til hamingju!