Punktar

Árekstur menningarheima

Punktar

Stjórnmálafræðingurinn Samuel P. Huntington birti fræga grein, The Clash of Civilizations, árið 1993 í Foreign Affairs. Og samnefnda bók þremur árum síðar. Í skrifum sínum hélt Huntington fram, að þessi öld mundi einkennast af baráttu menningarheima. Einkum milli íslam annars vegar og vestrænu hins vegar. Bókin var óbeint andsvar við frægri bók Francis Fukuyama, The End of History. Hingað til hafa atburðir frekar hallazt að Huntington en Fukuyama. Ófriður í heiminum er mikill og nánast bara á mærum íslam eða innan íslam. Byltingarblóðbaðið í Tyrklandi er í beinu framhaldi af hryðjuverkum í Evrópu og landhlaupi á Balkan.

Barátta menningarheima

Þjófræði bófaflokkanna

Punktar

Stjórnmál á Íslandi snúast ekki mest um misgóðar stefnur flokka eða misgóð kosningaloforð. Allir vita, að ekkert er að marka stefnur og loforð. Stjórnmál snúast um annað og einfaldara. Snúast um, hvort áfram eigi að vera þjófræði bófaflokka eða hvort það skuli afskaffast. Rangt er gefið í spilunum. Greifum eru árlega afhentir hundrað milljarðar króna framhjá skiptum. Síðan er rifizt um 2% hækkun láglaunafólks, öryrkja og aldraðra. Annað hvort segja kjósendur, að nú sé nóg komið af ruglinu. Eða þeir þræla áfram undir greifunum að fornum sið. Píratar eru þeir einu, sem gefa von um frjálsa þjóð í frjálsu landi.

Núna mínir – næst hinir

Punktar

Í fjárlagaáætlun næstu fimm ára gerir Bjarni Benediktsson hvergi ráð fyrir, að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minnkuð. Hvergi er þess getið í tölum, að heilbrigðisþjónusta ríkisins verði efld. Enda er það í samræmi við stjórn hans á fjárlögum ríkisins á þessu kjörtímabili. Heilbrigðisþjónustan hefur verið skert verulega og greiðsluþátttakan aukin. Samt lofar Bjarni mikilli eflingu heilsuþjónustu á næsta ári. Reglan er: Á yfirstandandi fjárlagaári hverju sinni hugsar Bjarni Ben bara um ættingja og auðgreifa. Á næsta  kjörtímabili hverju sinni ætlar hann bara að hugsa um almenning. 25% kjósenda ætla að kaupa þetta.

Aumasta byltingin

Punktar

Af fréttum að dæma var þetta ein aumasta byltingartilraun sögunnar. Menn létu hjá líða að gera höfuðóvininn óvígan strax. Menn föttuðu ekki, að Erdoğan hafði stuðning götunnar. Menn töldu, að nóg væri að loka flugvöllum og stórbrúm og þá mundi ríkið falla sér í hendur. Skildu ekki mátt nýmiðla, sem forsetinn nýtti sér. Einnig var hann tilbúinn með langa handtökulista, þar á meðal lista yfir þúsundir dómara og saksóknara. Öll var atburðarásin eins og klæðskerasaumuð fyrir forsetann. Vekur grun um, að þetta hafi verið skálduð byltingartilraun. Til þess hönnuð að losa einræðisherrann á einu bretti við alla efasemdarmenn.

Kunningjaveldi dómstólanna

Punktar

Tvær konur, sem störfuðu á sviði héraðsdómstóla, sögðu af sér samvizku sinnar vegna. Áslaug Björgvinsdóttir hætti sem héraðsdómari, þegar það rann upp fyrir henni að hún treysti ekki lengur dómskerfinu. Hún telur að slæmir misbrestir séu á stjórnsýslu og innra eftirliti dómsvalds. Elín Sigrún Jónsdóttir var framkvæmdastjóri dómstólaráðs í áratug. Hún hætti í kjölfar harðra deilna við tvo ráðsmenn. Þau hófust, þegar hún hvatti til, að íslenskir dómstólar þægju aðstoð Norðmanna við að betrumbæta stjórnsýslu og starfshætti . Hreinsa þarf til í héraðsdómi, reka gömlu karlana, sem stýra Kunningjaveldi dómstólanna.

Enn hefjast loforð

Punktar

Bjarni Benediktsson hefur rústað öllum þáttum opinberrar heilsuþjónustu á þessu kjörtímabili. Við ferðalokin lofar hann að endurreisa alla þætti opinberrar heilsuþjónustu á næsta kjörtímabili. Loforð eru ódýr. Eins og þau voru fyrir síðustu kosningar. Þá lofaði Bjarni ekki að rústa heilsuþjónustunni. Nú hefur hann skyndilega fattað langa biðlista, óhóflega greiðsluþátttöku, spítalahrun. Jafn skyndilega mun hann gleyma loforðinu, þegar búið er að telja atkvæðin upp úr kössunum. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar verða enn að sætta sig við verðgildislaus loforð á borð við þau, sem þeir sættu sig við síðast.

Byltingin bilaði

Punktar

Veikluleg bylting tyrkneskra herforingja rann út í sandinn. Fóru eftir gömlu kennslubókinni, hertóku brýr og flugvelli. Áttuðu sig ekki á nýmiðlum, einkum á Facetime. Þar hvatti Erdoğan landsmenn til að hunza byltinguna og fara út á torg og götur. Fólkið gerði eins og hann sagði og byltingin fór út um þúfur. Nokkur hundruð yfirmanna í hernum hafa verið tekin höndum og forsetinn fær færi á að kúga herinn til hlýðni. Herinn hefur reynt að varðveita arf Atatürks og gera Tyrkland að vestrænu veraldarríki. Flokkur Erdoğan hefur reynt að efla íslam að nýju og hefur enn reynst sigursæll. Hér eftir er hann einræðisherra.

Bráðræði hreppaflutninga

Punktar

Í bráðræði flutti Sigurður Ingi Jóhannsson fiskistofustjóra til Akureyrar. En starfsfólkið í Hafnarfirði neitaði að láta flytja sig hreppaflutningum. Allt innra starf stofnunarinnar lamaðist og verður áfram þannig næstu árin. Einnig skaddaðist samstarf við fagráðuneyti og samstarfsaðila á borð við Hafró. Engar leiðbeiningar komu frá stjórnvöldum um, hvernig framkvæma skyldi flutningana, samkvæmt rannsókn Ríkisendurskoðunar. Bráðræði ráðherrans reyndist byggðastefna, sem gekk ekki upp. Og tilraun til að nýta ofurleigu í framsóknarhúsnæði. SIJ er nú orðinn forsætis og fylgi framsóknar nálgast óðfluga 5% botn tilverunnar.

Verðlaun andverðleika

Punktar

Kjararáð andverðleikanna hefur stórhækkað laun helzta andverðleikafólksins. Kvígildanna, sem bófaflokkar stjórnmálanna hafa komið fyrir á forstjórastólum ríkisins. Fá allt að 45% launahækkun afturvirkt í átján mánuði. Frægasta andverðleikadrottningin fær 29% afturvirkt í fimm mánuði. Kristín Völundardóttir tekur ætíð ákvarðanir, sem kærunefnd útlendingamála ómerkir síðan. Ákvarðanir hennar hafa því verið dýrar í rekstri. Hún fer eftir eigin reglugerðum, sem hún kallar lög og einkennast af inngrónu hatri á flóttafólki. Næsta ríkisstjórn þarf að reka allt þetta andverðleikafólk og kasta út öllu kjararáðinu í kjölfarið.

Sjóðirnir hripleka

Punktar

Lífeyrissjóðirnir og fjárfestingarfélög þeirra hafa farið illa út úr tilraunum til að græða á stóriðju. Þátttaka í þjónustu við olíuævintýrið mikla á Drekanum kostaði lífeyrisþega milljarða á einu ári. Nú er vinsælast að fjárfesta í kísil, sem hríðfellur í verði og mun valda lífeyrisþegum tugmilljarða tjóni. Ríkið þarf að ríða inn í kastala lífeyrissjóðanna og fjárfestingarsjóða þeirra. Taka höndum bófana, sem stjórna þeim gegn hagsmunum fólksins. Galdradrengir verkalýðsrekenda og atvinnurekenda mega ekki koma nálægt fjárfestingum. Setja þarf sjóðina saman í nokkra sjóði og ráða útlendinga yfir þá, undir ströngu eftirliti ríkisins.

Líkið stjórnar eftir dauðann

Punktar

Ónýtur er búvörusamningur landbúnaðarráðherra við hagsmunasamtök bænda. Nýtur ekki stuðnings meirihluta þings og verður ekki staðfestur. Engir aðrir aðilar málsins komu að gerð samningsins. Hvorki samtök neytenda né stéttarfélög almennings. Þar á ofan var samningurinn gerður til tíu ára Átti þannig að binda hendur ríkisstjórna þrjú kjörtímabil fram í tímann. Eins og frumvarpið, sem á að forskrifa gerð fjárlaga langt fram í tímann. Þetta eru tilraunir bófaflokkanna til að binda hendur þeirra, sem fá stuðning kjósenda í næstu kosningum til að hnekkja gerðum bófanna. Líkið af þjófafélaginu reynir að stjórna eftir dauðann.

 

Frambjóðendur verði grillaðir

Punktar

Nú eru prófkjör hafin vegna haustkosninga. Fólk hefur staðið þar eða fallið án þess að gera grein fyrir stefnu sinni og vísa til skjalfestrar stefnu flokksins. Þannig er vandasamt að gera sér grein fyrir, hvernig frambjóðandinn muni haga sér, þegar til kastanna kemur. Kemur að vísu ekki að sök hjá Framsókn og Sjálfstæðis. Þar má ganga út frá því sem vísu, að frambjóðendur ljúgi ævinlega. Flóknara er það hjá öðrum gamalflokkum, þar sem fólk lýgur ekki skipulega og ævinlega. En hjá pírötum er hægt að gera ráð fyrir, að fólk segi satt. Geti líka svarað efnislega spurningum á borð við stjórnarskrá, auðlindarentu og heilsufé.

Þrjú helztu kosningamálin

Punktar

Stjórnarskrá fólksins verður eitt aðalmála næstu þingkosninga. Þótt hún varði ekki pyngjuna, er hún grunnur, sem nýjar framfarir rísa á. Endurreisn heilsumála er annað aðalmál, færsla fimmtán milljarða á ári úr hækkun auðlindarentu yfir í heilsugeirann. Þriðja aðalmálið er húsnæði unga fólksins. Í stað þessa að kroppa í afslætti og vexti hér og þar er einfaldara að hækka of lítil lágmarkslaun. Í stað um það bil 200 þúsund króna á mánuði verður að borga fólki 400.000 krónur. Eins og í Færeyjum. Atvinnurekstur, sem getur ekki borgað það, er hvort sem er ónýtur. Stéttarfélög ráða ekki við þetta, ríkið sjálft þarf að hlaupa í skarðið.

Nú þarf að sparka bófunum

Punktar

Forsætisráðherra telur, að sumarþingi beri að samþykkja umdeildan búvörusamning og þrjú umdeild paragröff í stjórnarskrá. Raunar hótar hann frestun kosninga, nái óskhyggjan ekki fram að ganga. Enginn meirihluti er fyrir búvörusamningnum, allra sízt eftir stórfellda markaðsmisnotkun Mjólkursamsölunnar. Paragröffin þrjú í stjórnarskránni munu vekja harðar deilur á þingi. Þau ganga þvert hegn þeim paragröffum, sem fengu eldskírn sína á þjóðfundi, í stjórnlagaráði og í þjóðaratkvæði. Paragröff Sigurðar Inga Jóhannssonar eru blaut tuska framan í allt það lýðræðislega ferli. Þjóðin þarf að fara að sparka bófunum frá völdum.

Bremsum hótelin

Punktar

Með öllum þessum steyptu hótelum, sem troðið er í gamla miðbæinn og Þingholtin, er verið að eyðileggja þetta krúttlega, sem höfðar til ferðamanna. Ekki er nóg að hafa gömul og fögur hús á stangli. Þau þurfa að mynda heilar götulínur. Og einhver önnur þjónusta þarf að vera innan um lundabúðirnar. Fyrr eða síðar kemur að offramboði á þjónustu fyrir ferðamenn. Ísland kemst úr tízku, þegar steyptu hótelin bera skrýtna miðbæinn ofurliði. Hægt er að tempra aukninguna með því að leggja fullan vask á ferðaþjónustu, akstur, mat og gistingu. Ferðaþjónusta er takmörkuð auðlind sem og aðrar auðlindir. Okkur ber renta af henni sem slíkri.