Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hringdi Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknar, úr ræðustól í gær. Vel og drengilega var að því staðið hjá henni. Hún verður betri forseti en sá, sem á undan henni var. Sigmundur var kominn langt út fyrir umræðuefnið og reyndi að yfirtaka fundarstjórn. Sigmundur er hress og væri fínn í blogginu, færi þar hamförum. En frekjuhegðun hans hentar síður flokksformanni. Ekki gengur, að slíkur reyni að taka völdin af forsetanum og skipta einhliða um dagskrá. Reyndari áhrifamenn í Framsókn verða að kenna nýjum formanni að froðufella minna.
