Seðlabankinn gat ekki samið marktæka skýrslu um greiðslubyrði heimilanna. Hann gleymdi að taka með frystingu íbúðalána. Röngu tölurnar voru sendar til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún notaði þær á Alþingi til að halda fram, að vandi heimilanna væri minni en talið hefði verið. Nú er hún orðin að athlægi. Seðlabankinn hefði getað hindrað það með því að vinna vinnuna sína af kostgæfni. Hver á að taka mark á seðlabanka, sem getur ekki komið frá sér réttum tölum? Þetta minnir á, að mikilvægt er, að næsti seðlabankastjóri hafi sem minnsta starfsreynslu úr bankanum. Helzt enga.