Punktar

Hálslón veldur landauðn

Punktar

Vatnsborð við Hálslón er nú í lægstu stöðu. Þar sést nú þrjátíu kílómetra leirsvæði, þar sem áður var vatn og þar áður gróður. Í þurrkunum verður leirinn eins og hveiti. Hann er farinn að fjúka og mun senn valda mikilli landauðn. Stíflan veldur ekki bara missi fagurra fossa, sem fóru undir vatn. Veldur líka vandræðum á stórum svæðum, ekki bara í nánasta umhverfi lónsins. Þessu spáðu Ómar Ragnarsson og fræðimenn og nú er það komið fram. Mikil er ábyrgð þeirra, sem komu með pólitísku offorsi upp hinni miklu stíflu og miðlunarlóni. Virkjunin við Kárahnjúka er einn mesti glæpur Íslandssögunnar.

Notaleg hlýja evrópsk

Punktar

Evrópusambandið hefur slitið viðræðum við Króatíu um aðild að bandalaginu. Stafar af, að Króatía hefur ekki enn samið við Slóveníu um landhelgismál. Sambandið gerði engar slíkar athugasemdir, þegar Slóvenía varð aðili, enda var þá hvorugt ríkið aðili. Nú er Slóvenía hins vegar orðin aðili og þá gætir Evrópusambandið hagsmuna þess ríkis. Eins og sambandið gætir hagsmuna Bretlands og Hollands gagnvart Íslandi út af IceSave. Þótt þetta sé að mörgu leyti skítasamband, gagnast það þeim, sem í því eru. Þótt ég sjái hundrað galla við sambandið, er þó notalegra að vera inni en vera úti í kuldanum.

Kapphlaup um einkunnir

Punktar

Árum saman var jagast út í samræmd próf. Menntafræðingar og menntavitar höfðu allt á hornum sér. Meðal annars sökuðu þeir samræmdu prófin um að hvetja til kapphlaups um einkunnir. Og kapphlaups milli menntaskóla um að verða sem mestir elítuskólar. Nú hafa samræmd próf verið afnumin. Og hvað gerist. Allt verður vitlaust. Sumir skólar eru sakaðir um að gefa óeðlilega háar einkunnir. Foreldrar með börn upp á 8,5 og 9,0 eru gráti næst. Þau komast ekki að fyrir börnum úr svindlskólum. Skásti kosturinn í vonlausri stöðu er að koma aftur upp gömlu, samræmdu prófunum í einum grænum hvelli.

Kratar í grænum sjó

Punktar

Kratar fengu slæma útreið í kosningum til Evrópuþingsins. Í löndum þar sem þeir eru við stjórn og í löndum þar sem þeir eru í stjórnarandstöðu. Brezkir kratar fengu 16% atkvæða, franskir 16%, þýzkir 21%, pólskir 12%, hollenzkir 12%, sænskir 24% og ítalskir 26%. Aðeins spænskir kratar náðu frambærilegri kosningu, 38%. Sigurvegarar voru frjálshyggjuflokkar, grænir flokkar og ýmsir jaðarflokkar. Meirihluti frjálshyggjuflokka efldist og José Manuel Barroso frjálshyggjumaður verður endurkosinn framkvæmdastjóri til fimm ára. Vilja íslenzkir kratar lenda í hafsjó róttækra hægri sjónarmiða í Evrópu?

IceSave versnar daglega

Punktar

IceSave versnaði gasalega í gær. Þá kom á daginn, að við náum ekki greiðslum vaxta til baka. Þar eru 300 milljarðar, sem við skuldum örugglega eftir sjö ár, þótt eignir innheimtist. Til viðbótar kemur svo 200 milljarða mínus í eignum. Við héldum, að við þyrftum bara að borga seinni upphæðina. Fyrri upphæðin kom ekki í ljós fyrr en í gær. Þannig fáum við að vita sannleikann í skömmtum. Ríkisstjórnin vonaði, að þingmenn mundu samþykkja samninginn um IceSave á grundvelli ónógra upplýsinga. Því meira sem smám saman fréttist af hryllingi samningsins, þeim mun ótrúlegra er, að hann verði samþykktur.

Sex milljónir á mannsbarn

Punktar

Ef allar eignir IceSave innheimtast, þarf ríkið samt að borga 300 milljarða í vexti. Það gera þrjár milljónir á hvert mannsbarn í landinu. Margfalt verra en hinir illræmdu Versalasamningar. Ef eignirnar innheimtast ekki að fullu, þarf ríkið að borga 200 milljarða til viðbótar. Alls gera þetta sex milljónir á hvert mannsbarn í landinu. Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu finnt það hlutskipti sæmandi Íslendingum framtíðarinnar. Í stuttu máli er samningurinn um IceSave rugl frá upphafi til enda. Það er ekki 500 milljarða virði að hafa fjölþjóðastofnanir í góðu skapi.

Ormur á gulli upplýsinga

Punktar

Núverandi pukurstjórn bjó ekki til IceSave ruglið, erfði það frá vanhæfu stjórninni. Samt ber nýja stjórnin ábyrgð. Verst er pukrið, sem einkennir þetta mál eins og önnur hennar mál. Hún vill ekki, að almenningur fái neitt að vita um neitt. Hún liggur eins og ormur á gulli upplýsinga til að geta gefið út marklausar fullyrðingar í skjóli upplýsingaskorts. Þannig heldur hún leyndu, að eignir Landsbankans í Bretlandi eru lélegar. Þannig hélt hún leyndu, að hundruð milljarða í IceSave vöxtum endurheimtast ekki. Hún vildi, að þingmenn samþykktu IceSave samkomulagið án þess að fá að lesa það.

Tveir leiðtogar spila bullur

Punktar

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð haga sér eins og bullur. Geta ekki verið á móti IceSave samkomulaginu, en eru það samt. Flokkar þeirra bjuggu til vandamálið, sem lauk í IceSave. Ég get verið andvígur þessu samkomulagi, því að ég bjó ekki til vandann. Sama er að segja um flesta fræðimenn og allan almenning. En Sjálfstæðið og Framsókn hafa ekki slíka vörn. Höfundar að eftirlitslausu kerfi einkabanka verða að horfast í augu við afleiðinguna. Undir stjórn fyrri flokksforingja grófu tveir flokkar undan fullveldinu. Arftakarnir geta ekki talað eins og flekklausir, hvorki Bjarni né Sigmundur.

Þau sulluðu súkkulaðinu

Punktar

Það var eins og ég hefði séð lík. Var ekki að horfa á sjónvarp, en heyrði röddina fyrir horn. Mér krossbrá, var einn höfunda hrunsins genginn aftur? Halldór Ásgrímsson var í drottningarviðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur hjá ríkissjónvarpinu. Þau sulluðu súkkulaðinu um allan skjá. Þar var enga blaðamennsku að finna. Ekki var minnst á frumkvæði Halldórs. Hann var og er sannfærður frjálshyggjugaur og bjó til kerfi stjórnlausra banka. Hans þáttur fólst í að tryggja, að dánarbú Sambands íslenzkra samvinnufélaga fengi einn banka. Halldór er næst á eftir Davíð Oddssyni í syndaregistri græðgistímans.

Við borgum aldeilis ekki

Punktar

Ef IceSave samningurinn fer illa og kostar okkur 500 milljarða, er til þekkt leið úr vandanum. Leiðin út úr Versalasamningunum, sem Hitler notaði, hætti að borga og komst upp með það. Getum spurt, hvort það sé 500 milljarða virði að hafa Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið til friðs. Auðvelt er svara, að svo sé ekki. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari telur vörnina felast í varnarþingi íslenzka ríkisins. Það sé fyrir íslenzkum dómstólum. Sem betur fer höfum við sjö ár til að finna út úr þessu. En strax er ljóst, að við stöndum alls ekki undir greiðslunum, þegar að þeim kemur.

Ekki skrifa upp á ósigurinn

Punktar

Hver bloggarinn á fætur öðrum lagðist undir feld um helgina út af IceSave. Þar á meðal Mörður Árnason og Teitur Atlason. Hafa birt okkur sálarangist sína, komizt að þeirri niðurstöðu, að enginn kostur sé skárri en samningur. Þótt hann sé vondur, sé ekki völ á neinu betra. Ég virði það sjónarmið, sé ekki neitt plan B í stöðunni. Samt get ég ekki fallizt á samninginn. Hann er siðlaus og illur, er ekki samningur, heldur úrslitakostir, skilyrðislaus uppgjöf. Við kunnum að verða að þola þessa uppgjöf, en við þurfum ekki að skrifa upp á hana. Byrjum á að fella samninginn og sjáum svo hvað setur.

Enginn borgari í skuldafangelsi

Punktar

Engum venjulegum skuldsettum borgara verður stungið inn fyrr en Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið settur inn. Kerfið gerir ráð fyrir, að 1600 manns fari í skuldafangelsi. Aldrei verður pláss fyrir þá, en nú þegar er pláss fyrir Björgólf. Þegar almenningur verður gjaldþrota vegna bankaglæfra, virkar refsikerfið ekki lengur. Enda er gjaldþrot nægileg refsing venjulegs fólks fyrir blöndu af ábyrgðarleysi og aðvífandi hamförum. Ekki er bætandi refsingu ofan á. Krafan er einföld: Enginn verði settur inn vegna hrunsins nema hrun-greifarnir sjálfir. Þeir eru tuttugu og nóg pláss verður fyrir þá.

Ríkið á leið í gjaldþrot

Punktar

IceSave samkomulagið hækkar ríkisábyrgðir um mörg hundruð milljarða. Lækkar matið á lánshæfni og ábyrgðarhæfni ríkissjóðs. Hætta er á, að matið á hæfni ríkissjóðs fari niður í rusl (junk). Jafngildir, að hann fær ekki önnur lán en þau, sem erlendir seðlabankar og ríkisstjórnir veita í kjölfar IceSave. Skuldbindingar ríkisins hrynja því í verði, svo sem inneignir lífeyrissjóða í ríkispappírum. Aðild ríkisins að fjármögnun lykilframkvæmda verður minna virði. Ríkið getur ekki ábyrgzt lántökur Landsvirkjunar og Orkuveitunnar. Dóminó-áhrifin verða svo eins og þegar Kanada tók yfir Nýfundnaland.

Lífeyrissjóðir rændir

Punktar

Enn er reynt að ræna lífeyrissjóði landsmanna. Samtök atvinnulífsins reyna að ginna þá til að fjármagna vonlaus fyrirtæki eða mynda tugmilljarða gustukasjóð. Það sýnir, hversu hættulegt er að hafa fulltrúa atvinnulífs í stjórnum sjóðanna. Einnig ríkið reynir að ginna sjóðina. Vill láta þá taka þátt í herkostnaði við verndun vonlausrar krónu. Hagsmunaaðilar eru svona aðgangsharðir við sjóðina, því að þeir vita, að stjórar og stjórnir þeirra stíga ekki í vitið. Umboðsmenn lífeyrisþega elska ókeypis ferðir og veiðar, hafa ítrekað látið hafa sig að fífli. Hætta er á, að það gerist enn.

Hinn nýi Versalasamningur

Punktar

IceSave samningurinn er eins ógildur og Versalasamningurinn var. Viðurkennt er í fjölþjóðarétti, að nauðasamningar gilda ekki. IceSave samningurinn er fjárkúgun hins sterka. Bretland og Holland fengu Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið í lið með sér. Einnig frændríki okkar á Norðurlöndum. Niðurstaðan var einhliða samningur, sem samsvarar skilyrðislausri uppgjöf í hernaði. Ísland hafði lítið sem ekkert um niðurstöðuna að segja. Hún er aðför að þjóðinni og einkum þó er hún aðför að börnum okkar og barnabörnum. Niðurstaðan er jafn siðlaus og Versalasamningurinn var á sínum tíma.