Punktar

Stutt milli deiluaðila

Punktar

Styttra var milli aðila að fimm flokka viðræðunum en margir telja. Uppkastið úr Fjármálaráðuneytinu er af pólitískum ástæðum með of lágum tekjutölum. Til dæmis eiga tekjur af leigu veiðikvóta að vera mun hærri. Það er auðlindarenta, ekki skattur, heldur leigutekjur upp á milljarða. Ennfremur eru ýmsar tekjur af ferðaþjónustu afar vantaldar. Þar fást örugglega nokkrir milljarðar án nýrra skatta. Væri rétt tekjumat í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benedikts, finnast án efa þeir milljarðar, sem skildu Vinstri græna frá hinum flokkunum. Munurinn felst í áætluðu bókhaldi. En það má víst ekki snerta auðgreifana, að mati Björns Vals.

Flókin viðræðuslit

Punktar

Sagan bakvið slit viðræðna um nýja ríkisstjórn er flóknari en unnt er að setja fram í stuttum texta. Niðurstaðan, sem samningafólk varð ekki sammála um, var ekki fullkomin. Auðvitað þarf 12 milljarða til viðbótar í heilsumálin, en hvorki  7 milljarða né 25 milljarða. Þar hafa báðir rangt fyrir sér. En 12 var tala, þar sem fólk gat mætzt á miðri leið. Og svo má ekki veita nýtingarrétt á fiski til áratuga. Því voru ekki bara Vinstri græn að illu verki, heldur líka Viðreisn og Björt framtíð. En aðalatrið er, að í samningum fimm aðila þurfa allir að gefa eftir á öllum sviðum. Hinn heilagi sannleikur hvers fyrir sig verður að víkja.

Katrín fer rangt með

Punktar

Fyrst og fremst voru það Vinstri græn, sem stútuðu samkomulagi um nýja stjórn. Katrín Jakobsdóttir fullyrti, að deilan hafi snúist um, að hinir aðilarnir hafi ekki viljað standa við loforð um aukin framlög til heilbrigðismála. Staðreyndin er, að allir nema Katrín vildu fjármagna aukninguna með aukinni auðlindarentu á kvótagreifa. Hún vildi fjármagna hana með auðlegðarskatti. Hann gefur minna af sér en auðlindarentan og var óvinsælli hjá öðrum samningsaðilum. Birgitta sagði: „Það er ekki sann­gjarnt að segja, að bara einn flokkur hafi barist fyrir því, né er það satt.“ Í svona viðkvæmum viðræðum verða allir að koma heiðarlega fram.

Velta niður skriður

Punktar

Hræddur er ég um, að inngrip kvótagreifa í aðild Vinstri grænna að tilraun til framfarastjórnar verði flokknum dýrt. Kjósendur flokksins í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar kunna að vera sáttir. En í þéttbýlinu hristir fólk í bezta falli hausinn. Vinsælasti pólitíkus landsins, Katrín Jakobsdóttir, hefur sett ofan. Nú tekur við óvissa og hugsanlega afturhaldssamari ríkisstjórn íhaldsaflanna. Fólk telur, að Steingrímur og Björn Valur hafi tekið völdin af of ráðþægum formanni. Fróðlegt verður að sjá, hvað skoðanakannanir segja. Mér segir svo hugur, að fjallgöngu Vinstri grænna sé lokið. Þau séu þegar farin að velta niður skriður.

Svarti Pétur tekinn

Punktar

Þegar Katrín Jakobsdóttir gafst upp á að mynda stjórn, var Viðreisn almennt kennt um vandann. Nú á lokaþætti tilraunar Birgittu Jónsdóttir, eru Vinstri græn orðin Þrándur í Götu sáttmála. Hinir flokkarnir fjórir voru að mestu sammála um stefnu, en það nægði ekki til stjórnarmyndunar. Gallinn er einfaldlega, að lengra er frá Vinstri grænum til flokkanna fjögurra en til Sjálfstæðisflokksins. Vinstri græn eru íhald, vilja vernda kvótagreifa og búvinnslugreifa í silkiumbúðum. Flokkarnir fjórir vilja hins vegar endurbætur. Loksins í dag tóku Vinstri græn sinn Svarta Pétur og héldu á vit hinna íhaldsflokkanna, Sjálfstæðis og Framsóknar, þar sem þau eiga heima.

Slöpp Menntamálastofnun

Punktar

Menntamálastofnun hefur nokkrum sinnum verið í fréttum vegna slappra vinnubragða við samræmd próf. Íslenzkum texta hefur verið ábótavant, skýringar með dæmum hafa verið villandi og rangar útkomur komið út úr dæmum. Svör hafa verið í skötulíki líkt og hjá pólitíkusum. Jafnframt hefur stofnunin reynt að draga til sín sem allra mest af valdi yfir skólum og menntun. Sumt af því hefur verið vanhugsað, til dæmis, að byrjendalæsi skili frá sér illa læsum nemendum. Forsendur þessa trúarofsa voru hins vegar einkar villandi. Útkoman hefur verið hrun í menntun Íslendinga samkvæmt Pisa samanburði. Þarna stjórnar æðibuna vanhæfra valdafíkla.

Magnast styrjöld Simma

Punktar

Styrjöld Sigmundar Davíðs við Framsóknarflokksins er rétt að byrja. Fyrst var það eins og þegar Framsókn losaði sig við Hriflu-Jónas. Hann bauð sig samt áfram í kjördæminu og hafði sigur. Smám saman náði flokkurinn aftur tökum á kjördæminu. Vígferð Sigmundar er allt önnur. Mætir aldrei á þingfundi. Mætir ekki í 100 ára afmælisboð flokksins í kjördæminu, heldur hefur sitt eigið boð fyrir sína menn. Búast má við, að senn fari hann að gjósa, þegar það kemur flokknum illa. Framsókn hefur ekki getað tekið þátt í viðræðum um stjórnarmyndun út af vígferð Sigmundar. Það getur tekið nokkur misseri fyrir flokkinn að losa sig við skapstygga trúðinn.

Ekki festa krónuna

Punktar

Grátkarlar ferðaþjónustu og sjávarútvegs eru á fullu. Heimta fast gengi á krónu, svo hótelgreifar og kvótagreifar eigi áfram fyrir salti í grautinn. Samt fjölgar ferðamönnum svo, að hraðinn er kominn í sem svarar til 60% aukningar á næsta ári. Og allar hirzlur kvótagreifa fyllast í skattaskjólum á aflandseyjum. Þeir heimta að pólitíkusar fari að fikta í genginu til að hindra aðgengi almennings að gróða fyrirtækja, sem fiska í þjóðarauðlindum. Betra er láta krónuna í friði meðan hún er enn notuð. Pólitískt fikt lukkast aldrei. Bezt væri þó að leyfa notkun á evru. Hún komin er upp fyrir svissneskan franka í verði. Og lán í evrum orðin vaxtafrí.

Svartnætti í Viðreisn

Punktar

Svartasta grein ársins er Þorsteins Víglundssonar í Kjarnanum í vikunni. Samkvæmt henni verður að minnka ríkiskostnað í kreppu og ekki auka hann aftur, þegar vel árar. Hækka verður stýrivexti í verðbólgu og ekki lækka þá aftur, þegar vel árar. Verðbólga skal jafnan mæld í þágu lánveitanda. Aldrei er rétti tíminn til að fjárfesta í innviðum samfélagsins. Hann boðar trylltar ofsóknir á almenning. Sem þingmaður Viðreisnar er hann enn í grátgír frá Samtökum atvinnulífsins. ÉG skil nú, hvers vegna Viðreisn þóttist vera miðja fyrir kosningar, en þingmenn hennar tala núna langt til hægri við Sjálfstæðis. Meira en svindl, þetta er svartnætti.

Spakmæli kosningastjórans

Punktar

Erlendir félagsfræðingar segja, að persónulegt fjárhagsgengi fólks ráði mestu um, hverjum það greiði atkvæði sitt. Sé vinna næg og kaup gott, kýs fólk þá, sem hafa verið við völd. Annars kýs það andstöðuna. „The economy, stupid“ sagði James Carville, kosningastjóri Bill Clinton 1992. Hann sagði líka: „Don’t forget health care“. Þannig sigraði Clinton. Hér gerðist það á kosningaári, að óvæntur vöxtur í ferðaþjónustu olli hærri meðaltekjum meirihluta fólks. En jafnframt gleymdist lágtaxtafólk, öryrkjar og öldungar. Þess vegna varð hér patt í þingkosningunum. Ríkisstjórnin naut fyrra spakmælis Carville, en gleymdi að taka með það síðara.

Evran niður fyrir hundrað

Punktar

Krónan má enn hækka til að færa kjörin nær því, sem var fyrir hrun. Evran er ekki enn komin niður í hundraðkall. Og ferðamenn kvarta ekki meira í vefmiðlum. Óþarft er, að Bjarni Ben og Þorsteinn Víglunds væli yfir gengislyftingu krónunnar. Ekki veitir af, að almenningur fái meiri hluta af gjaldeyrisaukningu þjóðarinnar. Nóg fer enn framhjá skiptum inn á aflandsreikninga í skattaskjóli. Ágætt er, að fólk venjist því, að dýrt sé að sækja Ísland heim. Enn betra er, að það slái pínulítið á stórflóðið í ferðamannafljótinu. Nóga illa hefur ríkisstjórninni tekizt að koma helztu innviðum í betra horf. En fróðlegt er að sjá, hvar hjarta Viðreisnar slær.

Þrjár milljónir ferðafólks

Punktar

Mánuð eftir mánuð magnast straumur ferðafólks til Íslands. Hver spáin á fætur annarri reynist vanmat. Fjölgun ársins komin upp í 40% og í nóvember fór hún upp fyrir 60%. Þetta eru dásamleg og jafnframt hættuleg tíðindi. Engin skipulagði innrásina, hún kom bara. Einstaklingar og fjölskyldur hafa unnið kraftaverk í að útvega fólkinu húsnæði, bíla, mat og afþreyingu. Þannig tókst að lyfta þakinu á viðbúnaðargetu fólks. Ríkið gerði ekkert. Engin merki eru um lát á sprengingunni, sem gæti numið 60% á næsta ári. Þrjár milljónir manna, það er yfirgengilegt. Nú þarf að taka til hendinni, svo að við fáum ekki óorð á okkur fyrir ónýta innviði.

Verkin segja annað

Punktar

Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar er að minnsta kosti í heilbrigðismálum í andstöðu við kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins. Framlög til vegagerðar fylgja ekki vegaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ýmsir tekjupóstar eru lækkaðir, svo svigrúm til útgjalda er verulega rýrt. Ekki verður nein draumastaða fyrir hvort sem er Viðreisn eða Vinstri græn að gerast þriðja hjól ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið er í fullkominni andstöðu við kosningaloforð beggja flokkanna. Áfram er stefnt að niðurrifi innviða samfélagsins til að rýma fyrir einkavæðingu. Allt er þetta líka í andstöðu við skoðanir meirihluta landsmanna, þótt kjósendur hafi látið ginnast.

Horft til næstu kosninga

Punktar

Vinstri græn og Viðreisn þurfa að horfa til næstu kosninga og stöðu sinnar á þeim tíma, eftir eitt eða fjögur ár. Annað hvort verða þau með núverandi stjórn eða núverandi stjórnarandstöðu. Þá verður komið í ljós, hvernig sú stjórn hagar sér. Hefur hún hagað sér af sanngirni og samúð með þeim, sem minnst mega sín? Hefur hún stigið ný skref til að bæta samfélagið, til dæmis með að færa okkur nær nýrri stjórnarskrá? Hefur hún passað reikningshald ríkisins og stutt góðærið? Hefur hún sýnt festu gegn grátandi sérhagsmunum? Orðspor flokkanna tveggja verður vafalaust miklu betra eftir eitt eða fjögur ár í stjórn með núverandi stjórnarandstöðu.

Orsök íslenzkrar heimsku

Punktar

Samkvæmt nýrri Pisa-könnun koðnar íslenzka skólakerfið niður. Erum lægst norrænna þjóða. Raunar neðan meðaltals efnahagsþróunar-stofnunar OECD. Mælt er vísindalæsi stærðfræðilæsi og lesskilningur. Áður kom fram, að þriðjungur stráka les sér ekki til gagns. Hér er því komið stéttskipt þjóðfélag, þar sem hluti er ekki vinnufær í dýrustu atvinnugreinum heims. Kannski hliðstætt þeirri uppgötvun, að Bretar og Skandínavar séu erfðafræðilega skyldari landnámsfólki en nútíma Íslendingar eru. Stafar líklega af langvinnri innræktun á afskekktri eyju. Fólk hrundi í hamförum og sjúkdómum, sumir erfðaþættir hurfu. Af því stafar annáluð heimska Íslendinga.