Punktar

Tilnefning Birgittu

Punktar

Í Spiegel eru um þessi áramót tilnefndar nokkrar persónur, sem höfðu pólitískt vægi í alþjóðamálum í ár. Birgitta Jónsdóttir er þar ein íslenzkra pólitíkusa, innan um Obama og Pútín, Clinton og Trump. Enda er Birgitta eini stjórnmálamaður landsins, sem skiptir nokkru máli í alþjóðlegu samhengi. Enda tjá sig íslenzkir pólitíkusar og álitsgjafar andverðleika hópum saman um, að hún sé óalandi og óferjandi vitleysingur. Aldrei voru tilnefndir þeir Geir Haarde, Sigmundur Davíð eða Bjarni Benediktsson. En Davíð Oddsson komst þó á blað hjá Time sem einn af helztu fábjánum kreppunnar 2008. Íslendingar eru þjóð andverðleika í stjórnmálum og kjörklefum.

Spiegel

Bardagi um leikverk

Punktar

Ekki þarf um sár að binda, þar sem Jón Viðar geysist með brugðinn brand um leikverkið Óþelló eftir Gísla Örn. Meitlaður leikdómurinn sjálfur er með meiri háttar ritverkum ársins. Jakob S. ber klæði á vopnin, tekur undir sumt hjá Jóni Viðari og segir í fyrirsögn: „Leikhúsi má mistakast“. Hann fer yfir söguþráð og sálgreiningu Óþellós hjá Shakespeare. Sýnir fram á, að leikverk Gísla Arnar fer út um víðan völl. Frumtexti Shakespeare sýnir að venju afleiðingar af hugsýki persóna. Það er sérgrein hans. Gísli Örn snýr ýmsu á hvolf og týnir Shakespeare í melódrama sínu. Gott er þó að geta rifizt um annað en pólitík á gamlárskvöldi.

Jón Viðar

Jakob S.

Deig stjórnarandstaða

Punktar

Alþingismenn létu undir höfuð leggjast að vinna vinnuna sína. Neituðu að afgreiða fjárlög með viðeigandi yfirlegu og umræðu. Frestuðu að draga launahækkun sína til baka og vona að þjóðin hafi gleymt því eftir mánuð. Unnu ekki eðlilega vinnudaga fyrir jól, milli jóla og nýjárs og eftir nýjár. Frestuðu bara þingstörfum fram í síðari hluta janúar. Að þessu leyti er enginn munur á þessu nýja þingi og hinum, sem áður fóru létt með að svíkjast um. Stjórnarandstaðan reynist lasburða og ekki til stórræðanna. Heimtuðu ekki einu sinni nafnakall um undarlegustu lagagreinar fjárlaga. Virðist hafa sætt sig við hægri sinnaða frekjustjórn næstu fjögur árin.

Stjórnlaus Sigmundur

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hættir ekki að þreyta okkur með návist sinni. Núna heimtar hann afsökunarbeiðni Ríkisútvarpsins fyrir heimsfrægt viðtal í Kastljósi. Auðvitað er það SDG sjálfur, sem á að biðjast afsökunar. En það er fyrirgefið, úr því að hann hrökklaðist öfugur út úr salnum í viðtalinu. Svo sem allir í heiminum vita, sem vita vilja. Síðan hefur SDG nánast ekki látið sjá sig á alþingi. Tekur í staðinn rokur af og til í hliðhollum fjölmiðlum. Maðurinn er veikur og á ekki að láta á sér kræla. Í staðinn er hann jafn hortugur og fyrri daginn. Á honum hefur enginn neina stjórn. Mánaðarlega rís hann upp eins og tifandi tímasprengja.

Andúð á niðursetningum

Punktar

Andúð hægri flokka á öldruðum, öryrkjum og sjúklingum fer jafnt og þétt vaxandi. Minnir á andúð höfðingja fyrri alda á niðursetningum og öðrum þeim, sem minnst máttu sín. Aldrei er rétti tíminn til að færa lífskjör niðursetninga nútímans að breyttum kjörum annarra. Núverandi góðæri er ekki talið vera rétti tíminn fyrir þá. Greiðsluþátttaka þessa hóps er jafnt og þétt aukin. Biðlistar eftir plássi á elliheimilum eru jafnt og þétt lengdir. Matur á stofnunum fer hríðversnandi. Enda sýnir reynsla, að aumingjar kjósa áfram Sjálfstæðis og Framsókn eins og þeir hafa alltaf gert. Erlendis hafa verið stofnaðir flokkar gamlingja, með litlum árangri.

Aumingjar í kjörklefum

Punktar

Geri Íslendingar eitthvað af viti, hafa þeir ekki úthald til leiðarenda. Um það er nýja stjórnarskráin bezta dæmið: Fullkomin framvinda; svo landráð Hæstaréttar; millispil Jóhönnu; algerlega einróma stjórnarskrárnefnd alls konar fólks; síðan samþykkt að helztu atriðum í þjóðaratkvæði. Pólitíkin stakk svo plagginu bara  undir stól. Fólk gafst upp og gaf bófaflokkunum meirihluta í kosningum. Enn fékk þjóðin höggstað á bófunum í haust. Eftir uppljóstranir um, að helztu ráðherrar hafi komið milljörðum undan þjóðhagsreikningum í skattaskjól á aflandseyjum. Niðurstaðan varð, að enn og aftur gafst þjóðin upp. Gaf bófunum nýjan meirihluta.

Öfgafull meðvirkni

Punktar

Meðvirkni stjórnarandstöðu á alþingi gengur út í öfgar. Stjórnarandstaðan á að heimta nafnakall í atkvæðagreiðslum um þá liði í lögum, sem hossa sérhagsmunum og hunza almannahag. Á við um hækkun Kjararáðs á launum alþingismanna. Og um þá liði í fjárlögum, sem hækka álögur á almenning og lækka þær á auðgreifa. Á líka við staðfestingar laga á fyrri ákvörðunum um lækkun auðlindarentu og aðra sérhagsmuni eigenda bófaflokkanna. Mikilvægt er, að glæpir alþingis tengist nöfnum þeirra þingmanna, sem glæpina stunda. Alþingi er enginn Hálsaskógur, þar sem klifurmýs segja öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Úlfar og refir blása á óskhyggju.

Þingflokki logið inn

Punktar

Sennilega er helmingur fylgis Viðreisnar komin frá pólitísku miðjuliði, sem áður kaus krata. Það féll fyrir miðjumoðslegri stefnuskrá. Samt benti ég á, að lítill miðjusvipur væri á helztu frambjóðendum flokksins, kúlulánafólki og grátkörlum atvinnurekenda. Fólk tók auðvitað ekki mark á slíkum aðvörunum. Hélt sig styðja við endurreisn samfélagsins með því að kjósa Benedikt og Þorstein. Í heild er óhætt að segja Viðreisn hafa verið logið upp á þjóðina. Eftir talningu atkvæða kom fljótt í ljós, að ástir flokksins lágu til Sjálfstæðisflokksins. Hefur síðan verið staðfest í þingstörfum. Öfgahægri ríkisstjórn blasir við upp úr áramótum.

Kantað eða ávalt ríki

Punktar

Karlmenn eru kantaðir, kubbslegir og ljótir. Konur eru ávalar, rennilegar og með afbrigðum fagrar, greinilega sköpunarverk guðs. Versti gallinn á tilverunni eru hinir mörgu karlar, sem þenja sig eins og hanar á haugum út um allar trissur. Vonandi kemur að þeirri tækni, að börn verða eingetin eins og einu sinni í gamla daga í Betlehem. Sá galli var á, að afkvæmið var strákur. Miðaldakirkjan bætti úr skák með því að leggja höfuðáherzlu á Maríu guðsmóðir, sem þú horfir upp til í flestum kirkjum við Miðjarðarhafið. Reynslan sýnir þó, að víða leynist flagð undir fögru skinni. Ég held samt, að almennt sé kvenríki æskilegra en karlríki.

Spánnýja hefðin

Punktar

Alla mína löngu skólatíð frá fimm ára aldri var ég aldrei látinn fara til kirkju á vegum skólans. Slíkar jólaheimsóknir tíðkuðust ekki þá. Njóta varla tilvísunar til gamalla hefða. Þær eru nýjung, sem kirkja á fallanda fæti reynir að innleiða til að verja fylgið. Þegar ég var fermdur, lagði hinn góði prestur áherzlu á taka biblíuna ekki bókstaflega. Þótt guð væri sagður hafa skapað jörðina á nokkrum dögum, væri hver dagur tákn fyrir jarðsögulegt tímabil. Sú túlkun féll mér vel. En síðan hafa svartstakkar vikið nýguðfræði til hliðar. Ég geri mér grein fyrir, að mín jól eru fremur Óðins en Hvíta-Krists. En kirkjusókn annarra pirrar mig ei.

Hundheiðin jól

Punktar

Jólin eru hundheiðin, forngermönsk hátíð til að fagna hækkandi sól. Flest tákn jólanna eru margfalt eldri en kristni. Þar er ljót fjölskylda Grýlu, stríðnir jólasveinar, hjólgrimmur jólaköttur, jólatré, jólakrans, jólageit, fyllerí í mat og drykk. Óðinn var líka nefndur Jólafaðir og Jólnir. Krists-Messa (Christ-mas) fellur alveg í skuggann, sömuleiðis Hanukkah Gyðinga og rauðklæddi kóka-kóla sveinninn, upprunalega Nikulás biskup í Tyrklandi. Kirkjan reyndi að taka yfir jólin, en hefur ekki tekizt betur til en þetta. Veizlur og gjafir yfirgnæfa kirkjuferðir. Hafi Óðinn fengið samkeppni, er hún frá Mammon, en ekki frá Kristi.

Gleðileg jól!

Framtíð við sængurkantinn

Punktar

Tölvur með gervigreind eru að gera afgreiðslu og akstur að sjálfvirkum athöfnum. Fljótt mun annað fylgja á eftir, til dæmis heimildavinna á kontórum lögfræðinga. Sum störf verða þó áfram nógu flókin til að verjast innrás tölva með gervigreind. Ber þar hæst skipti á sængurbúnaði og umbúnaður um hótelrúm. Þar er síbreytilegt umhverfi og kröfur um mikla fingrafimi, sem flækja málin fyrir róbota. Þegar flestar stéttir eru orðnar atvinnulausar og komnar á borgaralaun, verður ennþá eftirspurn eftir innfluttum konum, sem sætta sig við hálfa milljón í mánaðarlaun fyrir dagleg þrif og frágang hótelherbergja. Aðrir hanga bara í café latté í 101.

Blóðbað í lögfræði

Punktar

Gervigreindartölvur munu senn valda miklu blóðbaði í stétt lögfræðinga. Þær meta í einu vetfangi heilu lagasöfnin og dómafordæmin, finna það rökrétta og skilja hafrana frá sauðunum. Munu byggja upp heilu sóknar- og varnarskjölin og finna líklegar dómsniðurstöður á andartaki. Vinnan verður bara brot af því, sem hún er núna. Fólk mun raunar sjálft geta ýtt á enter á lyklaborðinu og losað sig við lögfræðikostnað. Atvinnulausir lögmenn munu kalla stíft á borgaralaun, verði þau ekki þegar komin. Og þeir, sem gamna sér við að geta stundað málflutning eftir tíu eða tuttugu ár, ættu að hugsa málið betur. Gervigreind mun duga í lögfræði.

180° viðsnúningur

Punktar

Alger viðsnúningur hefur orðið í heilbrigðisstefnu flestra stjórnmálaflokka. Fyrir kosningar voru þeir allir eindregið hlynntir endurreisn heilbrigðismála, einkum Landspítalans. Eftir kosningar telja þeir flestir slíkt vera ógerlegt. Áfram verða sjúklingar að liggja á ýmsum skrítnum stöðum og helzt á biðlistum. Undarlegastur er viðsnúningur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sem sögðust fyrir kosningar vera miðjuflokkar, en birtast núna eftir kosningar sem harðsnúnir hægri flokkar. Almennt eru þeir andvígir almenningi í baráttu hans við auðmagnið. Þeir telja til dæmis nauðsynlegt að friða grátkarla kvótagreifa með gengislækkunum.

Eins og hendi sé veifað

Punktar

Eftir einn eða tvo áratugi verða mörg störf úrelt eða minna mannaflafrek en þau eru. Gervigreindartölvur taka yfir margvísleg störf eins og akstur og afgreiðslu. Á öðrum póstum tekur gervigreind yfir mikið af tímafrekri þolinmæðisvinnu. Til dæmis færist blaðamennska mikið frá skrifborðum yfir á vettvang. Staðreyndavaktir raða fréttauppsprettum, fjölmiðlum og höfundum eftir áreiðanleika. Breyta fréttum í ljósi sínýrra upplýsinga. Þá verður ekkert pláss fyrir Sigmunda Davíða eða Vigdísir Hauksdætur. Rannsóknir verða fljótari og ódýrari. Krossleit að leyndu samhengi í excel töflum lekinna Panamaskjala gerist eins og hendi sé veifað.