Punktar

Verksmiðjuframleiðsla

Punktar

Sykur í ávöxtum er náttúrulegur sykur eins og sykur í mjólkurvörum. Sé búið að pressa safann og setja hann í flöskur, eru trefjaefnin að mestu horfin. Þú getur þambað fjórar appelsínur í ávaxtasafa og líkaminn segir ekki stopp. Þú getur hins vegar tæpast borðað fjórar appelsínur án þess að líkaminn vari þig við. Þannig er öll verksmiðjuframleiðsla hættuleg, þótt hún auglýsi hreina og ómengaða afurð. Og sé mjólkurafurð sykruð, er verið að blekkja líkamann, sem áttar sig ekki á aukasykrinum. Hættulegastur er gervisykurinn, sem hefur nákvæmlega sömu svengdaraukandi áhrif og annar viðbættur sykur.

Davíðskan lifir enn

Punktar

Efnt var til þessarar ríkisstjórnar í von um, að helztu bófum landsins væri haldið frá völdum. Setja átti Flokkinn út í kuldann eftir tveggja áratuga Davíðsku. Sú fól í sér róttæka frjálshyggju að hætti Hannesar Hólmsteins. Eftirlitslausa einkavinavæðingu og taumlausa græðgi innvígðra og innmúraðra. Eftir hrun varð græðgin ekki lengur góð. En árin hafa farið á annan veg. Flokkur bófa hefur áfram fengið að stjórna og Davíð er aftursætisbílstjóri Flokks bófa. Þeir ráða bönkum, Fjármálaeftirliti og Bankasýslu. Kvótagreifar selja og veðsetja þjóðareignina, halda okkur og verkafólki sínu í gíslingu.

Týnd sársaukamörk

Punktar

Fátt bendir til, að fundizt hafi sársaukamörk benzínverðs. Fólk kaupir það eins og enginn sé morgundagurinn. Almenningur kaupir enn eyðslufreka bíla og fer helzt aldrei í strætó. Meðan svo er, má fullyrða, að benzínverð sé ekki of hátt, heldur of lágt. Benzín hækkar ört á heimsmarkaði og nýstárlegir orkugjafar þurfa hraðar að taka við. Ríkið má alls ekki ýta undir sóun á gjaldeyri í benzín. Flest bendir til, að drjúgt megi hækka benzínverð. Ríkið þarf meiri tekjur, strætó þarf fleiri kúnna, þjóðin þarf meiri afgang af dýrkeyptum gjaldeyri. Hækkið benzínið ítrekað, unz sársaukamörkin finnast.

Birtum afskriftalista

Punktar

Bankaleynd er einkum beitt til að fremja glæpi og leyna þeim. Hún er ekki til að vernda viðskiptavini, heldur til að verja bófa. Núna eru hún notuð til að leyna þjóðina, hverjir séu í náðinni hjá bankabófum dagsins. Sumir fá drottningarmeðferð í afskriftum skulda, en aðrir eru dregnir á uppboð. Þessi glæpur væri óframkvæmanlegur, hefði bankaleynd verið afnumin. Nauðsynlegur þáttur í afnámi bankaleyndar er að birta opinbera lista afskrifta yfir einni milljón króna hjá bönkum og sjóðum. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar setur vanhæft og verðleikafirrt Alþingi ekki lög um tafarlaust afnám bankaleyndar.

Magnafsláttur yfirstéttar

Punktar

Kona var um daginn dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela örlitlu af mat og bókum. Hallgrímur Helgason rithöfundur reiknaði út, að samkvæmt þessum refsiskala hefði Baldur Guðlaugsson átt að fá 7196 ára fangelsi. Þannig sér Hæstiréttur um sína. Þótt yfirstéttin sé ekki algerlega refsilaus, gilda um hana önnur lögmál en um undirstéttir þjóðfélagsins. Svo verður fróðlegt að sjá, hvort erkienglar hrunsins fá milljón ára fangelsi í fyllingu tímans. Ætli Hæstiréttur slái þá ekki enn frekar af skalanum. Kannski er það svo, að Hæstiréttur beiti magnafslætti, er hann höndlar ofurglæpi yfirstéttarinnar.

Reikningnum verði splittað

Punktar

Ég hefði gjarna viljað sjá útreikning á vísitölubólu hrunsins. Sjá hversu mikil upphæð er í mismun á núverandi lánskjaravísitölu og annarri vísitölu, sem ekki fæli í sér óviðkomandi atriði. Eins og til dæmis skatta og álögur. Síðan mætti skipta niðurstöðutölunni í tvennt. Láta lánveitendur taka á sig helminginn af mismuninum og lánþega hinn helminginn. Á veitingahúsum heitir það að splitta reikningnum. Ekki veit ég, hvað kemur út úr svona dæmi, en get ímyndað mér, að 5% af upphæðum húsnæðisskulda stafi af skakkri vísitölu. Og það er tillaga mín, að þannig verði létt nokkru af byrðum skuldara.

Óvenjuleg brenglun

Punktar

Jón Baldvin Hannibalsson er sem betur fer ekki lengur í pólitík. Var sekur um óvenjulega brenglaða dómgreind, þegar hann um langt árabil sendi tengdri unglingsstelpu klámfengin bréf. Hún var tíu til sextán ára á þessu tímabili. Texti Jóns er klám, jafnvel þótt hann hafi sumpart áður komið fram í bók eftir Mario Vargas Llosa. Erótík í djarfri bók fyrir fullorðna verður fljótt að klámi í bréfum til unglings. Sögur af vændiskonum og eiginkonu eru líka klám. Aflátsbréf Jóns Baldvins í Fréttablaðinu er þunnt í roðinu. Hann getur ekki falið sig að baki almenns breyskleika, því þetta var sérstæð brenglun.

úr forpokun í æsing

Punktar

Framsókn var löngum leiðinlegur flokkur. Varð svo allt í einu óskiljanlegur, þegar Kögunarbarnið með silfurskeiðina varð formaður. Flokkurinn breyttist þá úr forpokun í æsing. Þar eru menn linnulaust uppi á háa C-i, jafnvel gegn málum, sem flokkurinn krafðist áður. Þá heimtaði Framsókn stjórnlagaþing og stjórnarskrá. Nú segir Kögunarbarnið, að þessi iðja feli í sér hvort tveggja í senn, fasisma og kommúnisma. Vigdís Hauksdóttir segir, að gærdagurinn sé svartur, því ákveðið var að kalla í stjórnlagaráð og ræða nýja stjórnarskrá. Vigdís er orðin fyrirferðarmeiri talsmaður flokksins en flokksformaðurinn.

Niðurstaðan var eindregin

Punktar

Furðulegasti þvættingur síðustu viku var hjá Skúla Magnússyni dósent. Segir, að stjórnarskráin sé of flókin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt hefur þjóðin ítrekað fengið að greiða atkvæði um flókna milliríkjasamninga með ótal fylgiskjölum. Ef þjóðin getur tekið afstöðu til IceSave, getur hún líka tekið afstöðu til stjórnarskrár. Sem er ekkert of fín fyrir almenning, ekki leikfang innvígðra lagatækna. Ekki var stjórnarskrá Bandaríkjanna það. Þar komu lögmenn hvergi nærri. Stjórnlagaráð náði fullkominni samstöðu um sína tillögu. Þjóðin getur auðveldlega lagt dóm sinn á þá eindregnu niðurstöðu.

Bjánar á hverjum koppi

Punktar

Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins er bjáni, getur ekki skammlaust rekið vanhæfan forstjóra. Sama er almennt að segja um forvígismenn stofnana. Sjáið nýleg dæmi um Landlækni, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Útlendingastofnun og Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Alls staðar eru andverðleikar valdir til að stjórna. Þetta er ekki einskorðað við opinbera geirann. Forstjóri já.is er bjáni eins og ritstjóri símaskrár og nefndin, sem veitti já.is verðlaun. Alræmt Viðskiptaþing, þéttskipað bjánum, hvatti þjóðina fram af brúninni í hruninu. Það er enn að rífa kjaft. Andverðleikar í skjóli eigenda Íslands.

Gunnar verndar Dróma

Punktar

Fjármálaeftirlitið stóð ekki vaktina á valdatíma Gunnars Andersen. Honum ber að hafa eftirlit með skilanefndum og slitastjórnum. Hefur samt leyft Dróma hf. að vaða uppi í samfélaginu. Þeirri skilanefnd Spron stjórnar Ingólfur Friðjónsson með taumlausri græðgi og hótunum. Skeytir hvorki um skömm né heiður. Reynir að margfalda skuldbindingar skuldunauta umfram leiðbeiningar stjórnvalda. Hefur ekki einu sinni innheimtuleyfi, en er samt með langa röð inheimtumála, aðfara og uppboða í gangi. Umbi skuldara hefur ítrekað kvartað yfir Dróma. Sem keyrir samt enn á fullu undir verndarhendi Gunnars Andersen.

Eini kostur lýðræðis

Punktar

Fátt er það, sem lyftir lýðræði yfir annars konar þjóðskipulag. Hvorki er það hagkvæmt né viturlegt í framkvæmd, því að kjósendur eru yfirleitt ekki hæfir. Eini áþreifanlegi kostur lýðræðis er, að kjósendur geta ekki kennt öðrum en sjálfum sér um ófarir sínar. Hafi pólitíkusar staðið sig illa, til dæmis eins og á Íslandi, er ábyrgðin hjá vanhæfum kjósendum. Þeir flykkjast að sölumönnum snákaolíu og lýðskrumurum, sem hér eru á hverju strái. Það er eins og kjósendur séu með takka, sem pólitíkusar spila á eins og hljóðfæri. Við annars konar skipulag getur fólk hins vegar kennt öðrum um ófarir sínar.

Gunnarsmálinu klúðrað

Punktar

Maður, sem tekur þátt í að blekkja Fjármálaeftirlitið er greinilega vanhæfur til að verða forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Sá, sem leynir aflandsfélögum, er siðferðilega vanhæfur. Gunnar Andersen heldur að vísu fram, að sér hafi verið ráðlagt þetta af þáverandi fjármálaeftirliti. Það þarf að kanna betur. Því miður hefur stjórn eftirlitsins klúðrað brottrekstri Gunnars. Dregur í land frá degi til dags. Óljóst er, hvernig málið endar, því Gunnar á harða stuðningsmenn. Hugsanlega hefur hann reynzt hæfur til að VERA forstjóri Fjármálaeftirlitsins, þótt hann hafi áður verið vanhæfur til að VERÐA það.

Trúað á einfaldar lausnir

Punktar

Fólk er rosalega trúað á lausnir. Trúir Steve Keen og Lilju Mósesdóttur, sem vilja prenta seðla út úr vandanum. Seðlarnir renni til skuldara og þaðan til banka og endi í Seðló, þar sem þeir voru prentaðir. Gylfi Magnússon er ekki svona trúgjarn. Spyr Lilju: Af hverju eru vandamál Grikklands ekki leyst á þennan einfalda hátt. Af hverju er ekki fátækt í Afríku útrýmt á þennan einfalda hátt. Staðreyndin er sú, að Lilja er sölumaður snákaolíu, sem mælir með sjónhverfingum. Hafa má það til marks um heimsku þjóðarinnar, að fjöldi manns trúir, að hægt sé að leysa vandamál skuldara með því að prenta seðla.

Höggvið á vísitöluhnútinn

Punktar

Vandræði ríkisstjórnarinnar vegna hæstaréttardóma felast í, að hún túlkaði fyrri dóma bönkunum í hag. Mest var það að frumkvæði bankavinarins Árna Páls Árnasonar. Nú hefur hann verið rekinn úr ríkisstjórninni, svo að unnt á að vera að hleypa að heilbrigðri skynsemi. Ríkisstjórnin verður að hafa forustu um að lina óhóflegt verðbólguálag á skuldum heimilanna. Tími er kominn til að reikna verðbólgu hrunsins upp á nýtt og taka út fyrir sviga þá liði, sem koma íbúðalánum ekkert við. Því verðbólguskoti má svo splitta í tvennt milli lánveitenda og lánþega. Ríkisstjórnin þarf nú að höggva á hnútinn hans Árna.