Punktar

Veðbókarvottorð þingmanna

Punktar

Til fyrirmyndar er birting Svipunnar á veðbókarvottorðum þingmanna. Þjóðin þarf að vita um skuldbindingar valdastéttarinnar. Þær kunna að skýra gerðir þingmanna og gera kjósendum kleift að meta fjárhagslega ábyrgðartilfinningu á þeim bæjum. Nú þurfa naskir blaðamenn að rýna í vottorðin og túlka þau fyrir okkur sauðsvörtum almúganum. Næsta mál er svo að fá afskriftalista fjármálastofnana í málum yfirstéttarinnar, einkum þingmanna. Við þurfum að fá að vita, hverjir það eru, sem njóta forréttinda hjá lánveitendum umfram venjulega plebba. Opið og gegnsætt samfélag á að vera markmið nýs Íslands.

Afskriftaþorsti ágerist

Punktar

Afskriftaþorsti hefur hlaupið í þingmenn í tilefni fyrirsjáanlegra kosninga á næsta ári. Þeir sjá, hvernig fylgið hrannaðist að Lilju Mósesdóttur, sem leggur til, að Seðlabankinn gefi skuldurum peninga. Íslenzkir kjósendur eru nógu heimskir til að elska sjónhverfingar. Þess vegna er Helga Hjörvar mikið í mun, að stjórnarflokkarnir taki þátt í yfirboðum í afslætti skulda. Krafan um geigvænlegar eignatilfærslur verður höfuðmál næstu alþingiskosninga. Þá munu mestu sölumenn snákaolíu fá mest fylgi. Afskriftaþorsti er útbreiddur í samfélaginu um þessar mundir og mun seiða til sín skelfingu lostna þingmenn.

Einyrki og einleikari

Punktar

Lilja Mósesdóttir er of léleg í mannlegum samskiptum og of einþykk í deilum um stefnu. Gat ekki haldið veðurfræðingnum inni. Sama sagan verður um annað fólk með sterka sjálfsvitund. Getur hins vegar safnað að sér aðdáendum. Þeir keppa ekki við hana í skoðunum eða skyggja á hana að öðru leyti. Lilja er fyrst og fremst einyrki og einleikari. Hefur fundið heppilega galdralausn á vandræðum íbúðaskuldara og getur keyrt á sjónhverfingunni í næstu kosningum. Ég hef ekki trú á, að henni endist 20% fylgi, en hún gæti halað inn fjóra þingmenn. Í þingflokki hennar mun þó samstaða ekki endast út heilt misseri.

Ímynduðu peningarnir

Punktar

Er bankar framleiða ímyndaða peninga, blandast þeir saman við alvörupeninga. Kúnstin í braskinu er að fá lánaða ímyndaða peninga og breyta þeim í alvöru peninga. Helzt að færa þá yfir í gjaldeyri og fela í Tortólum aflandsfélaga. Þannig var hrunið framleitt. Sumir gerendur þess sitja úti með stórar fúlgur á földum reikningum á aflandseyjum. Aðrir standa eftir slyppir og snauðir. Nú vilja sumir taka nýjan snúning á framleiðslu ímyndaðra peninga. Leysa á þann hátt greiðsluvanda húsnæðisskuldara. Geta samt ekki svarað, hvers vegna ekki sé líka hægt að leysa skuldavanda alls heimsins með ímynduðum peningum.

Frammistaða Gunnars

Punktar

Gunnari Þ. Andersen var í morgun endanlega sagt upp störfum sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Sama dag gagnrýndu þingmenn allra flokka eftirlitið fyrir slælega frammistöðu í eftirliti með rukkunum banka. Vakið hefur mikla reiði, að bankar senda út óbreytta greiðsluseðla þrátt fyrir Hæstaréttardóma um ólögmæta innheimtu. Undir stjórn Gunnars hafði stofnunin ekkert gert til að stöðva stjórnlausa græðgi fjármálastofnana. Sérstaklega nefndu þingmenn löglausar aðfarir Dróma og Lýsingar, en líka höfðu þeir áhyggjur af röngum greiðsluseðlum frá Arion og Íslandsbanka. Gott er því að losna við Gunnar.

Geir var ekki friðaður

Punktar

Alþingi samþykkti í dag að vísa frá tillögu um friðun Geirs H. Haarde. Mál Alþingis gegn honum fer því áfram sína leið hjá saksóknara fyrir Landsdóm. Það þýðir vitnaleiðslur og útgáfu á skýrslum, sem almenningur fær aðgang að. Meðal annars fréttir fólk af mismunandi lýsingum vitna á atburðarás síðustu vikna fyrir hrun. Það verður mikilvægt atriði, þegar fólk gerir upp hug sinn til helztu manna, sem þar koma við sögu. Út um þúfur fór harðskeytt tilraun Sjálfstæðisflokksins og nokkurra þingmanna til að hindra þessa uppljóstrun. Þetta var góð niðurstaða fyrir þjóðina, en vond fyrir Bjarna Benediktsson.

Rukka enn á fullu

Punktar

Þrátt fyrir nokkra hæstaréttardóma um lögleysu í rukkunum banka halda þeir áfram að rukka á fullu eins og óðir séu. Senda út aðrar og hærri kröfur en samið var um. Hafa siðblinda lagatækna til að ljúga, að dómarnir hafi lítið fordæmisgildi. Segja rukkanir hafa farið út bara óvart og að ekki sé hægt að hemja tölvurnar. Segja bara það fyrsta, sem þeim dettur í hug hverju sinni. Og halda uppteknum hætti. Ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið hafa ekki lyft litla fingri til að stöðva lögleysu banka. Hiklaust ber að smala yfirmönnum fjármálastofnana í gæzluvarðhald meðan leitað er að orsökum siðblindunnar.

Vatnsglas öfgafemínismans

Punktar

Dæmigerður öfgafemínismi felst í að flokka Jakob Bjarnar Grétarsson og Þráin Bertelsson sem “karla sem hata konur”. Á lista með undarlega biluðum körlum, sem kenna konum um að þeim sé nauðgað. Jakob og Þráinn hafa ekki gert annað en að hafa hvassar skoðanir líkt og Hildur Lilliendahl, höfundur listans. Henni er samt frjálst að vera öfgafemínisti eins og fólki eru heimilar alls kyns öfgar í skoðunum. Menn þurfa ekki að fara af límingunum út af því. Ég mundi ekki láta mér síga brún, væri ég á slíkum haturslista. Stormurinn í vatnsglasinu er bara herkostnaðurinn af að stinga höfðinu út um gluggann.

Þróunaraðstoð við Evrópu

Punktar

Of mikið er að segja íslenzkar fiskveiðar sjálfbærar. Eru þó mun skárri en fiskveiðar strandríkja Evrópusambandsins. Fiskveiðistjórnun á vegum Hafró er annað en kvótaeign og kemur ekkert við deilunni um eignarhald auðlinda. Þessi fiskveiðistjórnun hefur í stórum dráttum gefizt vel. Hefur staðizt áhlaup ofveiðisinna. Slíku er ekki til að dreifa hjá strandríkjum Evrópu. Því er vel til fundið, að sendiherra Íslands hjá Evrópusambandinu bjóði því íslenzka hjálp. Aðstoð við að fá vit í skipulagið þar, sem er í tómu tjóni. Það gæti verið framlag Íslands og þróunaraðstoð okkar við sameinaða Evrópu.

Ísland verður sorptunna

Punktar

Þessa dagana er fyrsta skrefið stigið að því að gera Ísland að sorptunnu fyrir erlent sorp. Auðvitað er það Reykjanesbær sem hefur frumkvæðið. Þar í bæ er Kalka, sorpeyðingarstöð sveitarfélaganna. Fjárhagur hennar er einkar bágborinn sem annarra græðgisævintýra Árna Sigfússonar bæjarstjóra. Málið hefur verið unnið í kyrrþey til að vekja ekki ekki upp andóf þeirra, sem sálufélagar Árna kalla öfgafólk. Ráðgert er að selja Kolku til bandaríska sorphirðufélagsins Triumvirate Environmental á rúman milljarð króna og hirða bandarískt sorp. Græðgisliðið syðra getur þá velt sér upp úr amerísku sorpi.

Öllum heiminum bjargað

Punktar

Á Íslandi hefur fundizt leið til að bjarga heiminum. Með ímynduðum peningum, sem framleiddir eru í tölvum. Þannig er hægt að leggja mánaðarlega andvirði milljón króna inn á hvern reikning, sem stofnaður verður fyrir allt mannkyn. Allir verða ríkir. Fólk tekur út mánaðarlega milljón til að borga nauðsynjar og ýmislegt annað. Seljendur vörunnar leggja þessa sérmerktu peninga inn á banka og bankarnir leggja þá svo inn í hina ýmsu seðlabanka. Bingó. Þetta er ekkert grín, heldur stefna Lilju Mósesdóttur, sem hún hefur fengið 20% fylgi út á. Allir sukkarar landsins munu flykkjast í faðm Lilju í næstu kosningum.

Geir Jón tók forustu

Punktar

Geir Jón Þórisson tók klára forustu í baráttunni um sæti annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Sakaði ónefndan þingmann Vinstri grænna um að hafa stjórnað óeirðum við Alþingishúsið 20. janúar 2009. Hann átti við Álfheiði Ingadóttur. Björn Bjarnason, þáverandi ráðherra, hafði áður sakað hana um að hafa stjórnað aðgerðum um farsíma innan úr húsinu. Þeim mörgu, sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni 2009, er ekki skemmt. En Geir Jón getur ekki sannað fullyrðingu sína, né geta aðrir hafnað henni. Hún er því skothelt innlegg í áróðri til að koma inn hjá flokkshestum, að Geir Jón sé réttur frambjóðandi.

Wikileaks skúbbar enn

Punktar

Birting Wikileaks á leyniskjölum njósnafyrirtækisins Stratfor gefur góða sýn inn í styrjaldaheim herforingja og vopnasala. Þetta eru fimm milljónir tölvubréfa frá tímabilinu 2004-2011. Þar koma við sögu alræmd fyrirtæki á borð við Bhopal, Lockheed, Northrop og Raytheon. Birtist í dag á slóðinni: http://wikileaks.org/the-gifiles.html. Sem viðbót við leyniskjöl bandaríska utanríkisráðuneytisins gefur þessi leki innsýn í veröld, sem er utan og ofan við borgarana. Samsæri, sem stjórnað er af vopnasölum og herforingjum, er þurfa stríð á stríð ofan. Skýrir, hvers vegna Bandaríkin eru ætíð í stríði.

Tvisvar brá mér

Punktar

Ég man, hvað mér brá, þegar ég fattaði, að New York Times er málpípa banka og fjármagns. Hafði áður dundað við að lesa erlendar fréttir blaðsins og kjallaragreinar. Einkum þær, sem birtist í International Herald Tribune. Í nokkur ár hef ég vitað betur. Að New York Times er málgagn yfirstéttarinnar, sem hefur 1% af fólkinu og 99% af peningunum. Síðan hallaði ég mér að brezka Guardian, sem virtist óhlutdrægara. Aftur brá mér í morgun, þegar ég sá, að Guardian birti ekki nýjustu uppljóstranir Wikileaks. Þá fattaði ég loksins, að jafnvel Guardian er hrætt við þessa fáu, sem ráða ríkjum bakvið lýðræðið.

Bankar eru gæludýrin

Punktar

Af blindri hlýðni við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er ríkisstjórnin í villum. Krafa sjóðsins er varðstaða við banka og fjármagn. Steingrímur J. Sigfússon og ríkisstjórnin túlka þetta sem skilyrðislausan forgang bankaeigenda. Þess vegna getur ríkisstjórnin ekki framkvæmt önnur forgangsmál. Í fyrsta lagi getur hún ekki afnumið bankaleynd, þótt allir bankaglæpir byggist á henni. Í öðru lagi getur hún ekki fyrnt kvótann og boðið hann út. Gengi banka byggist einmitt á, að kvótagreifar haldi þýfinu og geti borgað óreiðuskuldir sínar. Í þriðja lagi fá bankar að rukka eins og engir hæstaréttardómar hafi fallið.