Punktar

Er betra að ljúga?

Punktar

Þegar Ísland var að hrynja undan Geir H. Haarde, hafði hann mestar áhyggjur af ímynd Íslands í umheiminum. Hélt um hana fundi í útlöndum. Davíð Oddsson leit framhjá veruleikanum á sama tíma og fleygði öllum tiltækum gjaldeyri í bankabófa. Allt var þetta til að halda uppi ímynd Íslands sem alvöruríkis. Svo að útlendingar föttuðu ekki, að Ísland væri vogunarsjóður. Eins hugsar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hefur meiri áhyggjur af, að Jóhanna tali niður krónuna, en á veruleika sýndar-gjaldmiðilsins. Geir, Davíð og Sigmundur eru ekki einir um brenglaða sýn. Fjölmargir telja að lygi og fals efli traustið.

Erlendir kaupa ekki jarðir

Punktar

Hef árum saman fylgzt með kaupum og sölu á jörðum. Ekki tekið eftir ásókn útlendinga í jarðir. Sama segir sá fasteignasali, sem mest selur af jörðum, Magnús Leópoldsson. Tvær-þrjár jarðir á ári og fer ekki fjölgandi, segir hann. Kaupendur eru helzt Íslendingar í útlöndum og áhugamenn um íslenzka hestinn. Reglur um sölu jarða kunna að vera of vægar, en reynslan styður það ekki. Eins og ævinlega er Ögmundur Jónasson að fiska í gruggugu vatni, þegar hann málar hryllingsmynd af jarðakaupum útlendinga. Sérhæfður lýðskrumari í þjóðrembu reynir með lygasögum að bjarga sér yfir á nýjan stað í pólitík.

Skipulagt eftirlitsleysi

Punktar

Rekstur ríkisins er ekki að sliga samfélagið. Enda virðist í stórum dráttum vera sátt um hlutverk þess í menntun, heilsugæzlu og tryggingum. Í því sem við köllum samanlagt skandinavískan sósíalisma. Jafnvel Flokkurinn hefur tekið þátt í þessu, meiri þátt en aðrir flokkar. Skuldir ríkisins eru nánast eingöngu komnar til af hruninu 2008. Þá tók ríkið á sig Seðlabankann og ýmsa sjóði, einkum til að bjarga fjármagnseigendum. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde ber ábyrgðina á því. Skuldirnar stafa beinlínis af fjármálastefnu Davíðs og Geirs, einkavæðingu bankanna og skipulögðu eftirlitsleysi ríkisvalds þeirra.

Frjáls notkun gjaldmiðla

Punktar

Hvorki þjóðin né leiðtogar hennar draga nokkurn lærdóm af nýju neyðarlögunum til stuðnings krónunni. Lögin sýna ónýtan gjaldmiðil, sem hefur ætíð verið til vandræða. Við þurfum fjölþjóðlegan gjaldmiðil, evru eða dollar, sem eru algengustu myntir í utanríkisviðskiptum okkar. Ekki afskekktar jaðarmyntir á borð við norska krónu eða kanadískan dollar. Því miður getum við ekki tekið upp erlendan gjaldmiðil í grænum hvelli. Við fáum til dæmis ekki að taka upp evru fyrr en við höfum hysjað upp um okkur buxurnar. Til bráðabirgða skulum við leyfa frjálsa notkun hvers kyns gjaldmiðla. Dollar og evra verða ofan á.

Er heimska refsiverð?

Punktar

Mestur hluti tjónsins af hruni íslenzku bankanna lenti á herðum erlendra lánardrottna. Á íslenzka ríkinu lentu tæp þúsund milljarða króna. Sú er súpan, sem við höfum síðan setið í. Tveir stærstu liðir þessa tjóns ríkisins eru af völdum Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Davíð sagði fulltrúum ríkisstjórnarinnar, að bófar réðu bönkunum sem mundu fara á hausinn. Eigi að síður skóf hann Seðlabankann að innan og lét þessa sömu banka hafa allan fyrirfinnanlegan gjaldeyri. Geir ákvað, að ríkið skyldi taka fulla ábyrgð á peningamarkaðssjóðum. Spurningin er svo, hvort heimska þeirra sé refsiverð.

Kanadíska jaðarmyntin

Punktar

Aðeins tveir gjaldmiðlar í heiminum hafa fjölþjóðlegt gildi. Dollar og evra eru viðurkenndir gjaldmiðlar víða um heim. Kínverskt yuan kann að verða það um síðir. Evran hefur undanfarin misseri gengið gegnum eldskírn og staðizt hana frábærlega án þess að falla í verði. Hún er jafn öflug og þýzka markið var áður. Í þeim vogunarsjóði, sem heitir Ísland, er eftir öðru fúski að leita dauðaleit að afskekktum gjaldmiðlum. Sérstaklega þeim, sem hvorki hafa fjölþjóðlegt viðskiptagildi né nokkurt gildi í íslenzkri utanríkisverzlun. Fáránlegasti heilastormurinn er þó sá að taka hér upp kanadíska jaðarmynt.

Lýðskrum í hæstum hæðum

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur haldið fundi til stuðnings kanadískum dollar. Síðan sakar hann Jóhönnu Sigurðardóttur um að “tala niður” krónuna. Sennilega er Sigmundur mesti lýðskrumari eftirhrunsáranna. Er fullfær um að hafa tvær eða fleiri skoðanir á hverju atriði eftir vindáttum hverju sinni. Sigmundur er gott dæmi um, hversu fúl umræðan verður, þegar menn hafa engar siðareglur. Betra væri að tala heldur minna um ímynd krónunnar og meira um raunveruleika hennar. Tala til dæmis um, hvers vegna þingheimur var sammála í nótt um að setja neyðarlög til verndar sjúklingi í ævilangri gjörgæzlu.

Neyðarlög í skjóli nætur

Punktar

Með neyðarlögum herti Alþingi gjaldeyrishöftin í nótt. Höftin láku, þótt krónan hafi lengi verið í gjörgæzlu. Þetta höfum við upp úr því að vera með matador-peninga og láta eins og þeir séu gjaldmiðill. Alþingi þurfti að koma saman í skjóli nætur og afgreiða lyfjagjöfina, áður en bankar yrðu opnaðir að morgni dags. Samt taka menn í fullri alvöru um, að krónan sé nothæf. Og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir Jóhönnu Sigurðardóttur tala hana niður. Samt eru það ekki orðin, heldur gerðirnar, sem tala krónuna niður. Mundu neyðarlög sparast, væri hún TÖLUÐ UPP? Krónan er ekki nothæf til síns brúks

Landsfundur í Þjóðmenningarhúsi

Punktar

Landsfundi Flokksins er að ljúka í Þjóðmenningarhúsi. Söguhetjurnar nánast allar máttarstólpar Flokksins. Sakborningur, dómarar, vitni, bankastjórar, kontóristar. Algert innanhússmál hálsbindaliðs Flokksins. Enda lýsti Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir yfir á fyrsta degi, að “ekkert” hefði verið hægt að gera til að verjast hruni. Ekki hægt að hindra Davíð í að skafa allan gjaldeyri úr Seðló og brenna hann í bönkunum. Sem hann hafði áður sagt vera gjaldþrota í bófaklóm. Né hindra Geir í að ábyrgjast innistæður í peningamarkaðsbréfum umfram lágmarkið. Samtals bara 500 milljarða náttúrulögmál. Eða Guðs vilji.

Lágkúru-jeppinn seldur

Punktar

Tveir stjórnarformenn lífeyrissjóða skrifuðu nýlega dagblaðagreinar. Athyglisvert er, að báðir eru þeir fulltrúar atvinnulífsins. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins. Sýnir vel, hverjir ráða sjóðunum og ganga fram fyrir skjöldu að verja rekstur þeirra. Sem þykjast svo ekki bera neina ábyrgð á ruglinu, sem þar hefur viðgengist. Helgi Magnússon kvartar yfir auglýsingu Helga í Góu um LandCruiser framkvæmdastjóra sjóðsins. Sagði hana “lágkúru”. Einhver hefur þú hnippt í hann, því að degi síðar var dýri jeppinn seldur.

Meint svefnganga fjölmiðla

Punktar

Ögmundur Jónasson hrunverji hefur undanfarið verið önnum kafinn við að verja gerendur hrunsins. Síðast kennir hann fjölmiðlungum um. Þeir hafi gert góðan róm að fjármálastefnunni í október 2006. Þá voru nokkrir seðlabankamenn að byrja að átta sig á, að ekki væri allt með felldu í bönkunum. Gátu lengi falið grunsemdirnar og kann það að skýra svefngöngu fjölmiðla. Hrunið var síðan framkvæmt með að snerta ekki stýrið. Með því að nota skipulega engin stjórntæki. Engar reglugerðir samdar og engin lög samþykkt, ekkert aðhald af hálfu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Sinnuleysið varð að náttúrulögmáli.

Víðerni hverfa ört

Punktar

Victoria Frances Taylor segir í meistaraprófsritgerð sinni, að á Íslandi hafi ósnortið víðerni minnkað um 68% frá árinu 1936. Miðar hún þá við minnst 25 ferkílómetra svæði í meira en fimm kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum. Sú er skilgreining víðernis í lögum um náttúruvernd. Með sama áframhaldi verða engin víðerni lengur til eftir árið 2032. Með ofsafenginni græðgi glutrum við niður verðmætri auðlind. Of lengi hafa verktakavinir ráðið ríkjum hér á landi. Kominn er tími til að segja STOPP. Fyrir löngu er komið meira en nóg af áli og stíflum, sem leggja aðeins 2,5% til vinnsluvirðis þjóðarbúsins.

Ekki Guði að kenna

Punktar

Ekki má kenna Guði almáttugum um, að bankarnir urðu að skrímsli, sem kostaði þjóðina hundruð milljarða. Þar að baki voru mannanna verk og verkleysi. Fólk bullar samt um, að “ekkert hafi verið hægt að gera” í aðdraganda hrunsins. Þvert á móti var hrunið framleitt. Bankarnir voru einkavinavæddir og gefnir bófum til ráðstöfunar. Á oddinn var sett útúrdópuð öfgastefna um, að bankar ættu sjálfir að annast eftirlitið. Með skipun öfgamanna í Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann var eftirlit ríkisins gelt. Hámark vitleysunnar var að leyfa Davíð Oddssyni að skafa Seðló að innan og gera hann tæknilega gjaldþrota.

Endurskoðun í hengingaról

Punktar

Hengingarólin er að herðast um háls glæpaflokksins Price Waterhouse Cooper. Endurskoðunarstofan sætir kærum skilanefnda og slitastjórna Landsbankans og Kaupþings fyrir falsaða reikninga bankanna. PWC er þegar komið á flótta undan endurteknum dómum Hæstaréttar um að afhenda gögn. PWC les milli lína í dómunum, en les ekki dómana sjálfa. Krafa Landsbankans um skaðabætur getur farið upp í hundrað milljarða króna. Enda þarf ekki endurskoðanda til að sjá, að reikningar gamla bankans voru hrein ímyndun frá grunni. Kannski fer það svo, að Vignir Rafn Gíslason endurskoðandi verði ekki talinn refsilaus.

Rörsýn á kippur og karton

Punktar

Þegar útlendingi mistókst að stela úrum upp á tíu milljónir, fékk hann fimm ára fangelsisdóm. Yfirmanni í Sparisjóðabankanum mistókst að stela hundrað milljón krónum. Sá fékk tveggja ára fangelsi. Sýnir, að dómar lækka, þegar upphæðirnar hækka. Spurningin er svo, hvenær refsileysið byrjar. Hvar verða tölur svo háar, að dómkerfið skilur þær ekki og vísar þeim frá af tæknilegum ástæðum? Þegar farið er að telja glæpaviljann í milljörðum króna? Margoft hefur komið fram, að heimskir dómarar skilja ekki hærri upphæðir en þær, sem rónar stela í búðum. Bara bjórkippur og sígarettukarton eru á færi dómara.