Punktar

Digurbarki hrunverjans

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson talar samkvæmt kenningu hrunverja um, að gróða beri að nota áður en hann fæðist. Talar digurbarkalega við útlendinga um Olíusjóð Íslendinga. Í gamla daga biðu menn með slíkt grobb, unz féð yrði sjáanlegt. Enn líða mörg ár unz séð verður, hvort olíufé verður yfirleitt til hér. Þegar og ef þar að kemur, má vera gott að ræða notkun peninganna. Að Ólafur Ragnar tali núna um sjóð, sem alls ekki er til, er bara rembingur að hætti útrásargreifa. Væntanlega verður það svo fjárveitingavaldið, sem höndlar slíka fjárveitingu. Nema Ólafur Ragnar verði þá orðinn einræðisherra okkar.

Risaeðlur vefheima

Punktar

Fésbókin er ekki lýðræði frekar en Mogginn. Markús Sykurbergur ræður ríkjum og þú getur hætt, ef þér ekki líkar. Hann getur kastað þér út af einhverjum yfirskilvitlegum ástæðum og þú ferð bara að blogga eða tísta. Hann ákveður líka, hvort auglýsingar fyrirtækja geti nýtt sér persónu þína eins og hún sést á fésbók. Risaeðlurnar, sem berjast um heimsyfirráð í vefheimum, eru engir englar eða lýðræði. Ekki einu sinni Google, sem þykist þó vera það. Google, Facebook, Apple og Microsoft gera ýmislegt fyrir þig, en allt er það liður í gróðabralli. Passaðu bara, að verða ekki of háður neinni risaeðlu.

Andvana nýtt Ísland

Punktar

Ráðagerðir stjórnarflokkanna um breytt og bætt þjóðfélag fara að mestu út um þúfur. Samanber stjórnarskrána, fyrningu kvótans og rammann um frið í orku- og umhverfismálum. Sumpart stafar þetta af andstöðu Flokksins og Framsóknar og sumpart af áhugaskorti ráðherra. Steingrímur J. Sigfússon hefur til dæmis engan áhuga á fyrningu kvótans. Þótt ljós væri sátt þjóðarinnar við sjálfa sig, vildi hann fremur sættast við Samherja, enda þingmaður kjördæmis hans. Fólk vildi í ársbyrjun 2009 fá nýtt Ísland. En það er andvana fætt vegna andstöðu bófaflokka og Jóns Bjarnasonar og vegna áhugaskorts stjórnarflokka.

Alltof miklar annir

Punktar

“Þungir dómar” segir í fyrirsögn fréttar á Vísi. Ekki er upplýst, hver telji þetta, einhver lagatæknir, blaðamaðurinn eða amma blaðamannsins. Gott dæmi um bullið, sem flæðir í stríðum straumum um fjölmiðla dagsins. Ótaldar eru furðulegustu málvillur, sem Eiður Guðnason rekur daglega í dálki sínum. Nú hefur birzt skýring. Samkvæmt rannsókn Svanbjargar H. Einarsdóttur er krafa ritstjórna um afköst orðin svo þung, að fréttamenn setja bara fyrirsagnir ofan við áróður fréttatilkynninga. Fara ekki úr húsi, sitja allan daginn við að klippa og líma. Enginn tími til að grafa eftir huldum hneykslisfréttum.

Hverjir semja ruglið?

Punktar

Í auknum mæli koma lagafrumvörp gölluð frá stjórnarskrifstofum. Áberandi aukning hefur orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Nánast hvert einasta frumvarp, sem máli skiptir, hefur tæknivillur að geyma. Smokkaskatturinn er nýjasta dæmið og það kyndugasta. Alþingi varð að gera hann afturreka. Við þurfum að komast að, hvernig stendur á þessum ósköpum. Velja ráðherrar sér vitgrennri aðstoðarmenn en áður? Er þetta vinstri vandi? Eru ráðuneytin sjálf svona illa mönnuð lagatæknum? Eru allir nothæfir lagatæknar komnir í hrunvörzluna? Vinnubrögð af tagi smokkaskattsins eru að stífla Alþingi.

Giggið er guð

Punktar

Eurovision er ópíum fyrir fólkið. Getur leyft sér að sturlast út af lélegu giggi. Er þá ekki samtímis að fárast út af sköttum og skorti á velferð eða benzínverði og svikum kosningaloforða. Um alla Evrópu fagna ríkisstjórnir og aðrir þjóðareigendur einnar viku friði frá urgi skrílsins. Því er sérstakt virðingarefni, að Grikkir og Kýpverjar, Portúgalir og Pólverjar hafna aðild að þessu sinni. Bera við peningaleysi, enda flest annað betra við fé að gera en brenna því í Eurovision. Giggið er svartur blettur á Evrópu. Hefur leyst Guð af hólmi sem ópíum fyrir fólk, er lifir tilgangslausu lífi við kassann.

Flekaskilin í Evrópu

Punktar

“Norræna velferðarstjórnin” er hrós eða skömm eftir því, hver talar hverju sinni. Orðin eiga að lýsa fjölskylduvænu stjórnarfari, sem hafnar gróðafíkn, er stýrir pólitík í engilsaxneskum löndum, einkum Bandaríkunum og Bretlandi. Skilin eru raunar nokkru sunnar í álfunni, því að Þýzkaland, Holland, Belgía og Frakkland teljast líka með norrænni stefnu í pólitík. Bretland er fyrst og fremst rekið fyrir fjárglæfrabanka. Kom bezt í ljós, þegar fyrst Blair og síðan Brown réðu þar ríkjum fyrir hönd brezkra krata. Hér norður í höfum eru brezk áhrif mikil. Hægri málpípan Telegraph er Evrópu-biblía Íslendinga.

Skrítnar vikur fjórar

Punktar

Samið var um að ljúka umræðu um rammaáætlun og greiða atkvæði 14. janúar. Af hverju er hætt að þæfast 18. desember til að greiða atkvæði fjórum vikum síðar? Sé þetta samkomulag, er engin ástæða til að bíða fjórar vikur eftir niðurstöðu. Hér er einhver lygi að baki eins og venjulega. Fjórflokkurinn spillti verður alltaf sammála um að halda baktjaldamakki sínu leyndu fyrir fólki. Afgreiðsla rammaáætlunar er dæmigert furðumál, sem þarf að útskýra fyrir almenningi. Forseti Alþingis og þingflokksformenn halda eða vita hins vegar, að fólk er fífl. Sú er einmitt meginforsenda tilvistar fjórflokksins.

Nennið þið byltingu?

Punktar

“Handhafar aflaheimilda eiga stjórnarskrárvarinn rétt til heimilda sinna”, segir Friðrik J. Arngrímsson hjá kvótagreifum. Þeir eiga þannig kvótann, ekki þjóðin. Lagatæknar Lex segja breytt ákvæði stjórnarskrár um sameign þjóðarauðlinda skapa réttaróvissu handhafa heimildanna. Kvótagreifar eiga þar á ofan hauk í horni atvinnuráðuneytis. Þar segir, að breytingin í þjóðareign sé hæpin og villandi. Þið bjánar og fífl, sem hafið kosið fjórflokkinn yfir ykkur, getið þarna séð, að þið eigið ekki neitt og getið aldrei átt neitt. Því að fólk er fífl. Nema þið nennið byltingu.

Málþófið nægir

Punktar

Í augu sker tregða forseta Alþingis við að stöðva málþóf með atkvæði. Hlýtur að vera meðvituð. Ríkisstjórn og stjórnarliðar vilja ekki, að umdeildu málin fái afgreiðslu. Vilja geta kennt andstöðunni um útkomuna. Stjórnarliðar eru þó jafnsekir. Væru þeir heilir í stuðningi við stjórnarfrumvörpin, þarf bara níu þingmenn á tillögu um stöðvun umræðu og atkvæðagreiðslu strax. Komi þá í ljós, að meirihlutinn sé enginn meirihluti, þarf að sjást, hverjir biluðu. Ófært er, að stjórn Alþingis hafi þjóðina að fífli um ábyrgð á málþófi, sem auðvelt er að stöðva. Eftir 30 stunda umræðu er stöðvun málþófsins réttmæt.

Krónan á sökina

Punktar

Við búum í samfélagi, sem vill ekki nota alvöru gjaldmiðil, bara krónu. Við slíkar aðstæður þarf annan gjaldmiðil til langs tíma, til dæmis gjaldmiðil skulda. Vísitölubinding skulda var lausn síns tíma, því einhverjir þurfa að fást til að lána. Reyndist upp og ofan. Til dæmis er spurning, hvaða liðir skuli vera í vísitölunni. Á ekki að miða við launavísitölu, því að flestir borga skuldir af launum? Hitt var svo verra, að hrunið setti vísitöluna af sporinu. Spurning er, hvort ekki beri að dreifa hruntjóni jafnt á skuldara og banka. Stjórnvöld hefðu í upphafi átt að taka á slíkum hugleiðingum.

Viljinn er lamaður

Punktar

Bara brot af frumvörpum stjórnarflokkanna nær fram fyrir kosningar. Stjórnin hefur lagt fram 99 þingmál, sem enn eru óafgreidd. Þar á meðal eru kvótinn, stjórnarskráin og rammaáætlunin um orkumál. Meirihlutinn hefur ekki gripið til neinna þingskapa, sem takmarka málþóf, þótt fyrir löngu sé kominn tími til slíks. Stjórnarflokkarnir hafa nefnilega misst viljann til að stjórna. Ætla bara að kenna andstöðunni um súpuna og vísa sök þangað. Kemur stundum fyrir í dýraríkinu, að dýr missa lífsviljann og leggjast til að deyja, södd lífdaga. Stjórnarflokkarnir á þingi eru saddir lífdaga og bíða eftir hægum dauðdaga.

Önnum kafinn Íslandsvinur

Punktar

Íslandsvinurinn bezti, Nigel Farage, má ekki vera að fylgja eftir andstöðu við aðild Íslands að Evrópu. Er upptekinn við að hindra frekjugang homma og lesbía. Brezki Sjálfstæðisflokkurinn hans stendur í ströngu þessa dagana. Styður prestinn Tadeusz Rydzyk, sem stýrir umfangsmiklu hommahatri fjölmiðla á hægri jaðri Póllands. Farage er í bandalagi við flokk prestsins á þingi Evrópusambandsins. Þar gera þeir mikið skurk, yfirgáfu Íhaldshópinn, sem er of vinstri sinnaður. Flott væri fyrir félagana að fá Heimssýn og Flokkinn með í kompaníið. Gegn Evrópu og hommum. Fínt slagorð í takt við forneskjuna.

Huldueyjar í hafinu

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson bullar svo hratt, að útilokað er að henda reiður á, hvað hann meinar. Síðast sagði hann Skotum á BBC, að margar þjóðir í Norður-Atlantshafi hafi átt erfitt, en vegnað vel, væntanlega sjálfstæðar. Ekki á hann við skozku eyjarnar, sem heyra undir Skotland. Ekki við Azor, sem heyra undir Portúgal. Tæpast við Nýfundnaland, sem varð gjaldþrota og sagði sig til sveitar í Kanada. Grænland er í afar erfiðum málum vegna ásælni erlendra auðhringa. Færeyjar þora ekki að verða sjálfstæðar. Er hann kannski að tala um Noreg, sem fann olíu? Líklega er það Írland. Sem makar krókinn á Evrópu.

Hundraðníutíuogníu

Punktar

Ömurlegt er fyrir flokksformann að fá 199 atkvæði sem þingmannsefni. Í því kjördæmi, sem fyrir tæpum fjórum árum var höfuðvígið. Ófarir Steingríms J. Sigfússonar felast ekki í túlkun ógreiddra atkvæða, heldur í tölunni 199. Sjáið þið fyrir ykkur þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins með 199 atkvæði úr prófkjöri? Talan segir okkur kalt, að Steingrímur hafi rústað persónufylgi sínu í kjördæminu. Frændgarður hans þar nær þó töluvert upp í þessa tölu. Steingrímur er enn harður slagsmálahundur, rotaði Gylfa greyið strax. En er ekki hluti af nýja Íslandi. Á að fela flokksformennskuna Katrínu á hendur.