Punktar

Staffírug endurskoðun

Punktar

Endurskoðendur hjá PriceWaterhouse Coopers skrifuðu undir stjörnugalið rugl í reikningum Landsbankans fyrir hrun. Þeir ganga allir enn lausir að því er ég bezt veit og í fullu starfi enn í dag. Ekki veit ég, hvort löglegt sé, að endurskoðendur séu marklausir, en siðlaust er það með öllu. Styður það kröfu mína um, að siðfræðingar fremur en endurskoðendur undirriti ársreikninga meiriháttar fyrirtækja. Rúmlega fjórum árum eftir hrun hefur enn ekki verið úr slíku skorið fyrir dómi: Hvort stjörnugalið rugl endurskoðenda sé löglegt eða ekki. Þeir eru staffírugir, kalla kæruna “málatilbúnað” slitastjórnar.

Dögun er óskrifað blað

Punktar

Ég bíð eftir Dögun. Spurning er, hvar hún lendir í mynztri þjóðfélagsmála. Verða þar ráðandi hin heilbrigðu viðhorf til samstarfs, sem einkenndu vinnu Stjórnlagaráðs? Sú vinna var í sterkri andstöðu við skelfinguna á Alþingi. Eða verður ofan á í Dögun einhver ofsi frá Hagsmunasamtökum heimilanna, sem stríðir gegn réttlæti. Eitt er að lagfæra ranga vísitölu fjárskuldbindinga og annað er að heimta að fá að greiða sömu krónutölur á miklu lægra gengi. Heimtar Dögun, að skattgreiðendur borgi óráðsíuna hjá fjögurhundruð fermetra heimilunum? Þá verður óhætt að strika yfir Dögun sem kost í vorkosningunum.

Líkið leikur skrípó

Punktar

Dögun og Björt framtíð eru nýir flokkar, sem stilla sér upp einhvers staðar á miðju stjórnmálanna. Dögun leggur væntanlega áherzlu á nýja stjórnarskrá og Björt framtíð á málefnavæga kurteisi. Þetta er Framsókn nýrra tíma. Gamla Framsókn drapst fyrir hrun og líkið var keypt af Kögun til afhendingar nýjum formanni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur gert úr því eins konar gaggandi hænu með sér og Vigdísi Hauksdóttur í aðalhlutverkum. Ég skil ekki, hvaðan fylgi þeirra á að koma. Tel líklegast, að hefðbundið fylgi Framsóknar muni dreifast á þá af hinum nýju flokkum, sem staðsetja sig á pólitískri miðju.

Kurteisi í framboði

Punktar

Hvorki Björt framtíð né þingframbjóðendur hennar bjóða neina málefnaskrá svo heitið geti. Hins vegar er nokkuð um yfirlýsingar um kurteisi í stjórnmálum. Svo sem um fráhvarf frá átökum og rifrildi, sem engu skili. Endurómar stöðu Guðmundar Steingrímssonar á Alþingi. Hafði fátt til mála að leggja, en tók ekki þátt í upphlaupum og æsingi. Björt framtíð minnir líka á Bezta flokkinn í Reykjavík, sem fáu vildi lofa, en hefur sýnt mannasiði. Enda er framáfólk í Bezta flokknum áberandi í Bjartri framtíð. Eftir eitt kjörtímabil af gargi á þingi er pláss fyrir Gnarrista-flokk, sem leggur áherzlu á kurteisina.

Gæfan og Stóri bróðir

Punktar

Hvað á Stóri bróðir að ganga langt í að hafa vit fyrir fólki? Er úrelt orðið spakmælið um, að hver sé sinnar gæfu smiður? Kunni fólk ekki fótum sínum forráð í fjármálum, á þá Stóri bróðir að koma til skjalanna? Nýlegt dæmi: Getir þú ekki gefið börnum þínum jólamat vegna vaxta til smálánabraskara, á þá skattborgarinn að koma til skjalanna? Og algengasta dæmið: Verðbólgan hefur hækkað nafnvirði skulda þinna, á ríkið að gera eitthvað í því? Nei; sanngjarnt er að skuldir greiðist af núvirði krónu, ekki af gamalvirði. En hækki nafnvirði umfram laun, hvað þá? Þá splitti lánari og skuldari tjóninu.

Sprungur í útgáfubransa

Punktar

Gott er að fylgjast með framgangi tækninýjunga í Bandaríkjunum. Þaðan koma tízkustraumarnir hingað. Núna eru bækur, gefnar út af höfundum, farnar að sjást á metsölulistum New York Times. “The Revolution Was Televised” eftir Alan Sepinwall reið þar á vaðið í jólamánuði. Útgefendur höfðu áður hafnað bókinni. Sprungur myndast þannig í tök útgefenda á markaði. Geti allir farið að gefa út eigin bækur og rafbækur, myndast ný fjárhagsmynztur. Höfundurinn hefur hingað til fengið tæpan fjórðung smásöluverðs, getur eftir breytinguna fengið tvo þriðju alls verðsins. Spennandi tímar í augsýn með auknu frelsi.

Hundheiðin jólin

Punktar

Jólin eru hafin, hátíð kaupmanna. Engin breyting varð við hrun. Við sóum fé á báða bóga. Þannig eru jólin föst við upprunann löngu fyrir daga kristni. Þegar jólin voru sólstöðuhátíð, fólk fagnaði vonum um aukna birtu og gróða. Þá hittist fólk á þorpstorgum, dansaði og skemmti sér. Kaupmenn slógu upp söluborðum, þar sem kaupa mátti kínalífselixíra og alls kyns örlagatákn. Sagnamenn sátu á palli og sögðu ævintýri, væntu skotsilfurs í húfuna eins og síðari tíma skáld. Spákarlar og seiðkerlingar stunduðu iðnir sínar. Svo kom kristni. Því meira sem allt breyttist, því meira var það eins. Gleðileg jól!

Toppur siðblindunnar

Punktar

“Hann segist ekki telja þetta ólöglegt og hafa ráðfært sig við löglærða menn sem staðfesti það. Hins vegar megi setja spurningamerki við hvort þetta sé siðferðilega rétt, en að hann telji sig knúinn til að stunda slík viðskipti þar sem stærri fyrirtæki á markaði reyni að knésetja sig.” Segir sá, sem undanfarið stofnaði sautján fyrirtæki í röð á kenntöluflótta og haft tugi milljóna króna af ríkissjóði. Afar séríslenzkt að kenna samkeppni á markaði um stelsýki sína. Sýnir í hnotskurn algera siðblindu. Eins og hún er skýrust aðeins hér á landi og reynt var árangurslaust að markaðssetja í útlandinu.

Einstæð óhæfa ráðherrans

Punktar

Óhæfa Steingríms J. Sigfússonar felst í að afhenda greifunum kvótann til 20 ára í stað eins árs, sem nú er. Svo yfirþyrmandi óhæfa, að öll önnur atriði kvótafrumvarpsins falla samanlagt í skuggann. Hækkun á veiðigjaldi er aðeins skiptimynt í samanburði við megináfallið. Svikin við stjórnarsáttmálann, við þjóðina eru svo geigvænleg, að ég kann ekkert dæmi til samanburðar. Trúlega stafa svik atvinnuráðherrans af samúð hans með miskunnarlausa Samherjanum í kjördæmi hans. Sé ekki, að flokkur vinstri grænna beri sitt barr eftir þetta frumvarp Steingríms. Sé ekki, að hann nái einum manni inn á Alþingi í vor.

Lilja er enginn sölumaður

Punktar

Hversu mjög sem Lilju Mósesdóttur má hrósa, er hún ekki sölumaður eigin hugmynda og kenninga. Leitun er að þingmanni, sem tekur undir skoðanir hennar, sem þó segir kannski ekki mikið. Hefur ekki heldur hljómgrunn almennings, svo sem skoðanakannanir sýna. Lilja tók þá réttu ákvörðun að hætta í pólitík. Tekur aftur upp fyrri köllun við að troða skoðunum sínum upp á varnarlausa háskólastúdenta. Burthvarf hennar leiðir væntanlega til, að Samstaða leggur upp laupana sem pólitískur framboðsflokkur. Enda verður væntanlega nægilegt framboð af slíkum, eins herfilega og fjórflokkurinn gamli hefur staðið sig.

Handarbök í ráðuneytinu

Punktar

Guðmundur Steingrímsson rökstuddi sannfærandi andstöðu sína við breytingar innanríkisráðherra á eigin frumvarpi um barnalög. Réttarbætur laganna áttu að taka gildi um þessi áramót, en ráðherrann vildi allt í einu fresta gildi laganna til 1. júlí á næsta ári. Ófært var að fresta gildistöku réttarbóta barna á þann hátt, þótt gallar séu að öðru leyti á málinu. Sama marki brennt og ýmis önnur mál stjórnarinnar. Illa samið í ráðuneytinu af lagatæknum, sem beita handarbökunum. Ráðuneyti Ögmundar Jónassonar er einna verst í þessu. Kominn tími til, að ráðherrar fari að ganga sómasamlega frá þingmálum sínum.

Ýmist í ökkla eða eyra

Punktar

Frestun þinghalds til 14. janúar er dæmigerð fyrir vinnubrögð Alþingis. Eða öllu heldur skort þess á vinnubrögðum. Oft hefur komið fram upp á síðkastið, að naumur tími verði fyrir brýn mál á ofanverðum kosningavetri. Sum þeirra munu falla á tíma vegna fyrirsjáanlegs málþófs. Því er skynsamlegt að hefja málþófið sem allra fyrst aftur eftir jól. Að þing standi öll kvöld og allar helgar, allt frá 3. janúar, en ekki bara frá 14. janúar. Alþingi er ýmist í ökkla eða eyra. Langtímum saman er þar jarmað út í eitt um fundarstjórn og formsatriði. Í annan tíma eru þingmálin afgreidd sinnulaust á færibandi.

Ásetningur eða ógæfa?

Punktar

Ég kann ekki að meta, hvort Steingrímur J. Sigfússon klúðraði kvótamálinu af ásettu ráði. Kannski er hann bara svo mikið úti að aka. Óneitanlega væri þó töluverð ógæfa hans að mislesa stjórnarsáttmálann og sparka honum fyrir borð í þágu kvótagreifanna. Það væri að vera rosalega laus við pólitískt nef. Því gef ég mér, að Steingrímur hafi gert þetta vitandi vits. Ætli svo að kenna Jóhönnu um að kunna ekki að smala villiköttum. Hitt er svo rétt, að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar fagna klúðrinu. Telja málið þar með vera dautt, því eftir kosningar fari þeir í hægri stjórn undir verndarvæng kvótagreifa.

Brandarakall í bankanum

Punktar

“Íbúðalánasjóður er ekki gjaldþrota”, segir brandarakarlinn. Skattgreiðendur þurfa enn að borga tugi milljarða króna í sjóðinn. Samt segir forstjórinn, að sjóðurinn sé ekki gjaldþrota. Á vafalaust við, að hann hafi ekki farið í lögformlegt ferli hjá skiptastjóra. En dúndrandi gjaldþrot er það samt og gjaldþrot skal það heita. Rétt eins og Seðlabankinn, sem Davíð greifi setti á hausinn, en ekki þó alveg eins hrikalegt gjaldþrot. Fáránlegt er í erfiðri stöðu sjóðsins, að bankastjóri hans fari opinberlega með fleipur, geri sig að athlægi á almannafæri. Hristir samt tóman betlibaukinn framan í þjóðina.

Heillum horfin þjóð

Punktar

Sé þjóðin svo heillum horfin, að þriðjungur kjósenda eða fleiri styðji bófa í pólitík, verður engin þjóðarsátt. Engin sátt verður um stjórnarskrá eða um þjóðareign á kvóta, hvað þá um frið milli orku og umhverfis. Verði eitthvað knúið í gegn á þessu þingi, verður það afturkallað eftir kosningar. Það var nefnilega ekki þjóðin, sem heimtaði nýtt Ísland fyrir fjórum árum. Það var bara hinn meðvitaði minnihluti. Hinn þögli meirihluti vill ekkert af slíku vita. Vill bara fá aftur sína ástkæru bófa. Vonar, að þá verði aftur hægt að sukka og skulda út í eitt. Efnt verði í nýja veizlu að hætti ársins 2007.