Punktar

Sagan endurtekur sig

Punktar

Kosningaloforð Framsóknar um 90% húsnæðislán leiddi til geigvænlegs tjóns Íbúðalánasjóðs. Örlagaárið var 2004, þegar Framsókn og Sjálfstæðis voru við völd. Þrír fáráðlingar Framsóknar komu að málinu, Árni Magnússon ráðherra, Guðmundur Bjarnason, fyrrum ráðherra og síðan sjóðsstjóri, svo og Hallur Magnússon þróunarstjóri sjóðsins. Af þessu rugli verður alls 300 milljarða tjón skattgreiðenda. Nú eru horfur á endurtekningu. Ný stjórn Framsóknar og Sjálfstæðis er í höndunum með heita kartöflu ofurloforða Framsóknar um feita tékka út og suður. Það stendur upp á Bjarna Ben að stöðva rugl Framsóknar.

Framsókn sligaði sjóðinn

Punktar

Mér sýnist niðurstaða rannsóknarnefndar Íbúðalánasjóðs vera, að vandi hans hafi falizt í Framsókn. Gamlir flokksjálkar, Guðmundur Bjarnason ráðherra og Hallur Magnússon, stjórnuðu sjóðnum árum saman. Réðu flokksdindla til starfa og enginn í sjóðnum skildi neitt í neinu. Tjónið af ruglinu í Íbúðalánasjóði mun nema 300 milljörðum króna að núvirði. Meira en tjónið í Seðlabankanum og í stóru viðskiptabönkunum. Skýrslan segir okkur, að við verðum að hætta að leyfa gömlum pólitíkusum að setjast í hægindi sjóða af ýmsu tagi. Allt frá Seðlabanka Davíðs, um Sjóð 9 Illuga Gunnars, yfir í Íbúðalánasjóð Guðmundar.

Latur herra – lítil hey

Punktar

Ráðherrarnir eru fæstir verkmenn og þeir mikla fyrir sér verkefnin. Fjármála telur erfitt að hafa frumvarp til fjárlaga tilbúið, þegar alþingi hefst í haust. Honum finnst þetta vera einstæð vandræði, sem tengist kosningunum, og vill fresta þinghaldi í þrjár vikur. Staðreyndin er hins vegar, að ráðherrar klóra sér í hausnum. Vita ekki, hvað þeir eiga að gera við loforðin. Né heldur vita þeir, hvernig þeir eiga að finna fé til að hygla kvótagreifum. Meint tímaþröng þeirra er sjálfskaparvíti. Lög segja hins vegar, að alþingi skuli byrja 10. september. Að hausti verður sagt: Latur herra – lítil hey.

Forsetinn í felum

Punktar

Forseti Íslands er týndur. Fyrirspurnir um dvalarstað hafa engan árangur borið. Flugufregnir herma, að hann sé kominn til landsins. Var þó í morgun ekki orðinn aftur handhafi forsetavalds eftir Þýzkalandsferðina. Píratar óttast, að handhafar forsetavalds, Bjarni Ben, Einar Kr. Guðfinns og Markús Sigurbjörnsson, muni samþykkja lækkun auðlindarentu kvótagreifa. Muni ekki vísa henni til þjóðaratkvæðis. Stjórnarandstaðan heldur því uppi málþófi á alþingi meðan verið er að leita að forsetanum. Kannski er hann með feluleik að bægja frá sér kaleik þjónustunnar við raunverulega eigendur ríkisins.

Aumingjarnir í afgang

Punktar

Rökin með lækkun auðlindarentu í sjávarútvegi halda ekki vatni. Vilji stjórn framkvæma lög, gerir hún það, stundum með því að fá alþingi til að lagfæra reglur. Vilji stjórn ekki framkvæma lög, finnur hún upp eitthvað bull um, að lögin séu óframkvæmanleg. Ríkisstjórnin setur kvótagreifa í forgang og tekur þá fram fyrir aumingjana, sem fá bara nýjar nefndir í sín vandamál. Og fram fyrir aumingjana, sem geta ekki staðizt kröfur um aukinn námshraða. Eða geta ekki þénað til hliðar við ellilaun og örorku. Þegar stjórnin forgangsraðar svona, lýsir hún vilja sínum: Hún hossar greifum og setur aumingja í afgang.

Nefndum merkari lomber

Punktar

Merkara er að vera heimsmeistari í lomber en í skipun nefnda. Sigurvegari mótsins á Blönduósi verður merkari en heimsmeistari í nefndafargani. Lomber er hluti af þjóðmenningunni. Mótið 20. júlí er ágæt leið af mörgum til að efla sérstæð atriði í þjóðlífinu. Sá, sem telur nefndaskipun vera aðgerð, er hins vegar bara rugludallur og heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Lomber er spil frá 14. öld. Á Blönduósi er spilað að hætti heimamanna. Húnvetningar spila mikið lomber. Riðu fyrrum Arnarvatnsheiði á ís um vetur til að spila við vini í Borgarfirði. Heimsmeistaramótið er frábær viðbót við Húnavöku.

Hægri öfgaflokkurinn

Punktar

Undir stjórn silfurskeiðungs er Framsókn hætt að þykjast vera miðjuflokkur, nema rétt fyrir kosningar. Eins mánaðar þykjusta nægir fávitunum, sem kjósa Framsókn. Vigdís Hauksdóttir er yzt á hægra jaðri litrófsins, langt handan Sjálfstæðisflokksins. Illskeytt Vigdís og ofurlyginn Sigmundur Davíð hafa gert gömlu Framsókn að hægri öfgaflokki. Slær skjaldborg um kvótagreifa og verktaka, endurspeglar þjóðrembinga og velferðar- og útlandahatara. Skuldir heimila gleymast um leið og byrjað er að telja atkvæðin. Og landsins mesti hatursmaður náttúru skipaður umhverfisráðherra; blaut tuska í andlit fólks.

Sannleikur og skáldsaga

Punktar

Með aldrinum gerist ég skáldskap fráhverfari. Verð oftast fyrir vonbrigðum, þegar ég les skáldrit. Þau eru eitthvað svo hversdagsleg. Meira spennandi er að fylgjast með fréttum, innlendum og erlendum. Þær hætta aldrei að koma mér á óvart. Sannleikurinn er nefnilega ótrúlegri en skáldskapurinn. Fréttir og aðrar upplýsingar gefa meiri færi á stílþrifum en prósi og póesía. Það er gaman að segja frá sönnum atburðum. Held líka, að það geti verið fúlt að skrifa skáldrit síðan blogg, fésbók og tíst komu til skjalanna. Þau magna hlutdeild og áhrif þeirra, sem ekki geta flokkast til höfunda skáldverka.

Clinton féll á lyginni

Punktar

Bill Clinton féll ekki á sjálfu framhjáhaldinu, heldur fyrir að hafa logið um það. Lygi stjórnmálamanna er hnekkir, þótt gerðir þeirra séu það ekki. Nema þeir skari eld að eigin köku. Þannig var ekki refsivert hjá Geir Haarde að taka rangar ákvarðanir í aðdraganda hrunsins. Og hann skaraði ekki eld að eigin köku. Dæmdur fyrir að brjóta mikilvægar reglur um meðferð opinberra mála. Hefði gjarna mátt vera dæmdur fyrir að ljúga þindarlaust að þjóðinni í aðdraganda hrunsins. En slapp fyrir horn, enda skortir hér lagalega virðingu fyrir sannleikanum. Samanber margsaga forseta og sílyginn forsætisráðherra.

Heimsins mesta aðgerð

Punktar

Mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á þingsályktun um nefndaskipun: “Um er að ræða tillögu sem, þegar hún nær fram að ganga, felur í sér umfangsmestu aðgerðir sem gerðar hafa verið fyrir skuldsett heimili líklegast nokkurs staðar í heiminum frá því að fjármálakrísa reið yfir árið 2007.” Stofnun nefnda á Íslandi hefur aldrei verið talin nein aðgerð. Miklu frekar er hún tilraun til að losna við mál út af borðinu. Að kalla skipun nefnda heimsins mestu aðgerð er svo langt út á túni, að mér verður orða vant. Er forsætis raunverulega svona sannfærður um, að kjósendur hans slefi yfir öllu rugli?

Lygin eitrar pólitíkina

Punktar

Í auknum mæli halla íslenzkir pólitíkusar sér að lyginni sem meginþætti í framgöngu sinni. Fremstir fara þar Ólafur Ragnar Grímsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ólafur Ragnar segir sig hafa sagt allt annað fyrir mánuði en myndskeið sýna, að hann sagði. Sigmundur Davíð laug upp heilli stefnuskrá, sem hann hefur ekkert reynt að efna. Þessir tveir hafa uppgötvað, að lygar skipta marga kjósendur engu máli. Að sumir telja þær eðlilega ör í vopnabúri pólitíkusa. Þegar slíkum gengur vel að ljúga, fylgja aðrir pólitíkusar hratt í kjölfarið. Þannig eitrast íslenzk pólitísk hratt, verður vettvangur bófa.

Eins og Sigmundur Davíð

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson þrætir fyrir að hafa sagt 6. júní: “Þessi atburðarás og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.” Nú segist hann hafa sagt eitthvað á þá leið, “að ekki væri unnt að ljúka viðræðum nema að ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild.” Himinn og haf er milli þess sem myndskeiðið frá þingsetningu segir og þess sem forsetinn lýgur núna. Eins ómerkilegur og Sigmundur Davíð.

Harmsaga Hörpu

Punktar

Monthúsið Harpa átti að kosta tólf milljarða. Fór samt upp í 28 milljarða, sem hvorki ríki né borg höfðu efni á að greiða. Ekki verður reistur eða rekinn spítali fyrir þá peninga, sem þar fóru í höfnina. En yfirvöld vilja fá fasteignagjöld af 22 milljarða eign af þessum 28 milljörðum. Þá ber svo við, að stjórnendur hússins meta eignina upp á 6-7 milljarða. Segja það vera markaðsverð hússins. Samkvæmt því hefur monthúsið tapað þremur fjórðu hlutum af kostnaðarverði sínu. Þar er hraustlega að verið. Segir auðvitað töluverða harmsögu um fórnarkostnað samfélagsins af forgangi monthúsa umfram annað.

Landsins merkasta

Punktar

Manntalið 1703 er eitt merkasta fyrirbæri landsins, heimsins elzta, nákvæma manntal. Við hæfi er, að það er nú komið á heimsminjaskrá Unesco. Kóngurinn í Kaupinhafn ákvað, Árni Magnússon og Páll Vídalín stýrðu, sýslumenn og hreppstjórar framkvæmdu. Manntalið náði til allra 50.358 íbúa landsins, ríkra og fátækra, búpenings þeirra og var jafnframt jarðatal. 1702-1703 var hinn mikli manntalsvetur á einum erfiðasta tíma sögunnar. Skjal þeirra Árna og Páls er hornsteinn í hagsögu landsins og nákvæmri ættarsögu þjóðarinnar. Það er varðveitt í Þjóðskjalasafni, sjálfbær brunnur sífelldra rannsókna

Utan verkahrings

Punktar

Fyrir kosningar lofaði Framsókn að afnema verðtryggingu lána. Gleymdist eins og önnur loforð hennar. Í staðinn kom þessi moðsuða Frosta Sigurjónssonar sjónhverfingamanns: “Ég held að það væri mjög heillavænlegt að lántakendur íhuguðu það að taka frekar, eða gæta sín á, verðtryggðum lánum og lánastofnanir ættu alvarlega að íhuga það vegna þess að það ríkir vafi ennþá um lögmæti þessara lána.” Í stað loforðsins er komin heilsusamlegt ráð um, hvernig fólk eigi að haga sér. Allir geta gefið góð ráð, en betra er að efna skýr og eindregin loforð. En það telur Framsókn vera utan síns verkahrings.