Punktar

Skrítinn ostur vondur

Punktar

Íslenzkur ostur er sérkennilegur. Skiptist í tvo flokka, ostaskeraosta og smurosta. Ég sé ekki hnífskurðarosta eins og Brie né brotosta eins og Grana. Allur ostur virðist hér ætlaður ofan á brauð, ekki til að borða sér, enda yfirleitt vondur. Sumpart eru þetta lélegar og breytilegar falsanir á nöfnum frá útlandinu. Og sumpart eru þetta furðulegar uppfinningar, þar sem blandað er saman mjólkursmurningi og óviðkomandi fæðu eins og beikoni. Steininn tók þó úr, þegar Mjólkursamsalan auglýsir Þorraost fyrir „þá sem þora“. Dálæti landbúnaðarins á vondum og skemmdum mat er komið út yfir allan þjófabálk.

Newspeak Hönnu Birnu

Punktar

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra er byrjuð að tala Newspeak eins og ýmsir aðrir ráðherrar. Hún segir einkavæðingu á Keflavíkurvelli ekki vera einkavæðingu. Alveg eins og svart er ekki svart, heldur hvítt. Alveg eins og stríð er ekki stríð, heldur friður. Alveg eins og ofsóknir eru ekki ofsóknir, heldur ást. Newspeak hefur fengið sérstaka orðabók með tilkomu þessarar ríkisstjórnar, sem sérhæfir sig í þessu undarlega tungumáli eftir George Orwell úr bókinni: „1984“. Kannski á ráðherrann við, að einkavæðing á Keflavíkurvelli sé „einkavinavæðing“ og flokkist því ekki sem „einkavæðing“.

Egg í dulargervi

Punktar

Í keðjuverzlunum virðist mér flest egg sögð undan hamingjusömum hænum, sem valsi um í náttúrunni. Stingur í stúf við, að nánast öll eggjaframleiðsla á Íslandi er í verksmiðjum. Hvað verður um öll þau egg? Ég held, að þau séu bara stimpluð „vistvæn“ af Bændasamtökunum og við það látið sitja. Man ekki eftir neinu eggjabúi, sem fer eftir reglum lífrænnar framleiðslu. Að minnsta kosti sé ég aldrei neina slíka vottun. Hvergi sé ég stimpil Túns í búðunum. Mér sýnist líklegt, að fullyrðingar á eggjabökkum um hamingjusamar hænur í náttúrunni séu gróf fölsun. Auðvitað undir verndarvæng Matvælastofnunar.

Auðlindina á uppboð

Punktar

Hættum að rífast um, hvort auðlindarenta á fisk sé of lág eða of há. Setjum auðlindina bara á frjálsan markað einu sinni á ári. Þá sýna tilboðin, hver auðlindarentan á að vera. Annað er bara hagsmunapot og stjórnlyndi í einum graut. Þannig vilja bófaflokkarnir einmitt hafa það. Þess vegna er velferð í skralli og kjör langt út af kortinu. Allur fjórflokkurinn er sammála um, að ræna auðlind þjóðarinnar á þennan hátt. Líka Vinstri grænir og Samfylkingin, svo ég tali nú ekki um Bjarta framtíð. Þetta eru allt ræningjaflokkar. Burt með þá. Ég endurtek, að eina vitið er að setja kvótann á frjálsan markað.

Skrítni sýslumaðurinn

Punktar

Skrítið embætti sýslumanns í Kópavogi. Endurnýjar passa og ökuskírteini fyrir Reykjavík og Kópavog í sama sal. Fyrir vegabréf eru teknar ljósmyndir á staðnum og fara þar stafrænt í gagnabanka. Þær myndir er ekki hægt að nota í ökuskírteini! Fólk þarf enn að koma með passamyndir af sér til að setja í ökuskírteini. En þær myndir má ekki nota í passa! Síðan líða þrjár (!) vikur, unz skírteinið er tilbúið. Passamyndir eru nefnilega sendar í pósti til London, þar sem enn er fornaldar prentverk. Býr til ökuskírteini fyrir Langtburtistan, þar sem ekki er runnin upp tölvuöld. Skilur einhver þetta?

Fréttir úr eldhafinu

Punktar

Ekki er nóg með, að Þjóðverjar hafi helmingi hærri laun en Íslendingar. Þeir hafa líka helmingi minni kostnað. Helztu nauðsynjar eru helmingi ódýrari í Berlín en þær eru í Reykjavík. Þar á meðal leiguhúsnæði, matur, veitingar og hótel. Þetta þekkja þeir, sem hafa skroppið til Berlínar. Lúxushótelið mitt kostaði þar 12.000 krónur, en sambærilegt kostar hér 30.000 krónur. Það er von, að bófarnir í stétt íslenzkra pólitíkusa tali um eldhafið í Evrópu. Og segi Þjóðverja reyna að gabba okkur með eldvatni og glerperlum. Allt gengur út á að gera bófaflokkum kleift að halda okkur í séríslenzkum fangabúðum.

Þjóðnýtum sjóðina

Punktar

Kastljós Helga Seljan á formann Sambands lífeyrissjóða staðfestir eitraðan rekstur sjóðanna. Þeir hafa slitið samband verkalýðsrekenda og umbjóðenda þeirra, almenns launafólks og lífeyrisfólks. Stjórar og stjórnir sjóðanna hafa ekkert lært af hruninu og stefna ótrauð í nýtt hrun. Ruglið kemur fram í ýmsum atriðum. Verkalýðsrekendur geta ekki lengur samið um kaup og kjör vegna hagsmuna sjóðanna. Þeir eru gegnsósa af hugmyndafræði atvinnurekenda um hagvöxt og sáldrun auðs af borði greifa. Eru líka gegnsósa af hátekjum atvinnurekenda, skilja ekki líf launa- og lífeyrisfólks. Þjóðnýtum sjóðina.

Var sjálfri sér verst

Punktar

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur átti sjálf mikinn þátt í að hrista af sér fylgið. Gat ekki leitt huga fólks að framförum kjörtímabilsins, þegar þjóðin lyftist úr gjaldþroti í bjargálnir. Sundurlyndið var Akkillesarhællinn. Þar kom ýmislegt við sögu. Ofuráherzla Jóhönnu á aðild að Evrópu var ekki til vinsælda fallin. Verra var, að nokkrir þingmenn Vinstri grænna og jafnvel ráðherrar voru í raun framsóknarmenn. Grófu undan stjórninni og gerðu hana óstarfhæfa. Ríkisstjórnin neitaði að viðurkenna lýðræðishallann og hélt út heilt kjörtímabil með tilheyrandi fylgistjóni. Hún var sjálfri sér verst.

Vinur minn fjöldamorðinginn

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson segir einkavin sinn, Mahinda Rajapaksa, hafa „made a remarkable transformation“ á Sri Lanka. Sú mikla breyting er komin í ljós. Í vinnslu er kæra Sameinuðu þjóðanna á hendur Rajapaksa fyrir morð á 40.000 manns. Það er vegna fjöldamorða í heimalandinu. Svoleiðis náungar hafa sérstakt aðdráttarafl fyrir forseta Íslands. Hann lofar líka ráðamenn Kína og Rússlands, svo og minni bófa við Persaflóa. Utanríkisstefna hans er um leið stefna ríkisstjórnarinnar. Felst í að efla samstarf og samskipti við heimsins verstu og illræmdustu valdhafa og gera við þá fríverzlunarsamninga.

Kenna hvor öðrum um

Punktar

Sjávarútvegsráðherrar Íslands og Noregs vísa hvor á annan sem sökudólg í makríldeilunni. Noregi að kenna, segir sá íslenzki. Íslandi að kenna, segir sá norski. Makrílfundurinn mistókst. Evrópusambandið hyggst halda áfram að tala við Noreg eftir tvær vikur, en ekki tala meira við Ísland að sinni. Bendir til, að sambandið telji vænlegra að tala við Noreg en Ísland. Styður norsku kenninguna um, að strandið sé Íslandi að kenna. Burtséð frá því er skrítið, að ekki skuli vera hægt að fá áreiðanlegar upplýsingar um, hvernig og hvar hnífurinn stóð í kúnni. Hvernig tökum við afstöðu, er allir ljúga?

Græn lausn á hnút

Punktar

Einfalt og ódýrt er að gera mislæg mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar án þess að trufla umferð. Borum tvenn 100 m göng fyrir síðari götuna undir þá fyrri fyrir austan og vestan núverandi gatnamót. Og gröfum fyrir römpum, sem þarf fyrir viðstöðulausa umferð milli gatnanna. Þar sem nú er umferðarhnútur verður græn eyja með styttu af Jóni Gnarr. Fullt af göngu- og hjólabrautum í kring. Klippt verður á Stakkahlíð og Lönguhlíð. Og síðari gatan lögð í 100 m göng undir Miklubraut, sé peningur afgangs. Stokkur við Miklatún er svo allt annað dæmi, sem og brýr fyrir Háaleitisbraut og Grensásveg. Sóma verkefni.

Flóttinn úr Framsókn

Punktar

Samkvæmt nýjustu könnun (Stöð 2) hafa 20.000 kjósendur (10%) séð villu síns vegar. Yfirgefa Framsókn eftir að hafa látið hana ljúga sig fulla fyrir kosningar. Eftir sitja 10.000 trúgjarnir (5%), sem enn bíða efnda. Til viðbótar við 20.000 manns (10%), sem kallast mega genetískir framsóknarmenn. Athugið, að þetta eru slumpatölur, sem eiga þó að sýna, að þarna eru miklar hamfarir. Hægt er tvisvar eða þrisvar að ljúga Íslendinga fulla tugþúsundum saman, en fæstir láta ljúga endalaust að sér. Annar hver þeirra, sem sér ljósið, fer þó skammt. 10.000 flóttafólksins (5%) velta sér yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Sigurður saurbjór

Punktar

Merkileg nýjung var kynnt af matvælaráðherra um daginn. Saurbjór er nýjasta snilld Íslands, næst á eftir þorramat og kæstri skötu. Saurbjór er búinn til úr því, sem á fögru máli er kallað „þarmainnihald“ hvala, sem er það sama og kallað var „kúkur“ í gamla daga. Matvælaeftirlitið var að reyna að banna saurbjórinn. Í réttlátri þjóðreisn greip Sigurður Ingi Jóhannsson fram fyrir hendur eftirlitsins og leyfði saurbjórinn. Gott er að vita, að fagmenn í matarmálum hindri evrópskan pempíuhátt. Þjóðreistir og sjálfstæðir láta ekki Evrópu hindra Sanna Íslendinga í að verða sér til yndisauka á þorranum.

Frumlegt bókhald forseta

Punktar

Samkvæmt frumlegu bókhaldi forsetans notaði notaði hann 60.146 krónur í ferð til Zagreb. Til að stýra landsliði Íslands gegn Króatíu í fótbolta. Líklega hefur hann notað vildarpunkta ríkisins, því ódýrasta fargjaldið er 90.000 krónur með einni hótelnótt. Kannski fékk hann inni á farfuglaheimili. Gaman væri að frétta nánar af raunverulegu innihaldi ferðarinnar, flugkostnaði og gistigjaldi. Og kannski matarkostnaði, nema hann hafi haft skrínukost að heiman. Á mynd sást hann éta með landsliðinu, kannski hafa boltaskrákar aumkast yfir hann svangan. Frumlegt bókhald leynir fleiru en það upplýsir.

Í klóm bófaflokka

Punktar

Á fyrstu vikum stjórnarinnar kom í ljós, að henni bráðlá á að þjóna greifum, einkum kvótagreifum. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru umbar ríkiseigendanna. Öllum kosningaloforðum í þágu almennings var hins vegar ýtt til hliðar, sett í nefndir og nefndanefndir. Á rúmlega hálfu ári hefur komið í ljós, að ekki er ætlunin að efna neitt af dramatísku kosningaloforðunum. Í staðinn vefur forsætis-loddarinn um sig þjóðfánanum og kyrjar þjóðsönginn. Ríkisstjórnin er skipuð siðlausum lygurum, sem enginn heiðvirður maður mundi vilja sitja með til borðs. Við erum í klóm bófaflokkanna. Í boði kjósenda.