Punktar

Hættulegur ofsi

Punktar

Skoðanakönnun hefur leitt í ljós, að kjósendur hafa mun meiri áhuga og áhyggjur af heilbrigðismálum en öðru. Yfir 90% fólks setur þau mál í efsta eða næstefsta sæti. Því er misráðið hjá ríkisstjórn og stjórnarflokkum að níðast sérstaklega á heilbrigðismálum. Það kostar í almenningsálitinu að rústa Landspítalanum, drepa fólk á ört stækkandi biðlistum og hrekja lækna til útlanda. Kristján Þór hefur lítið sagt trúverðugt um þessi mál og er að mestu farinn í felur. Ofsinn í hatrinu á ríkisrekinni þjónustu fer þó ekkert minnkandi. Ríkisstjórnin hagar sér að hærri bandaríska teboðsins. Fer sínu fram, þótt hún ögri 90% kjósenda.

Sjö aðstoða Sigmund

Punktar

Sigmundur Davíð hefur slegið Íslandsmet í fjölda aðstoðarmanna. Er kominn með sjö. Eins og Parkinson benti á, tekur mikinn tíma að stjórna slíkum fjölda manns. Ekki er von, að forsætis hafi tíma aflögu til að mæta á ríkiskontórinn eða á alþingi. Hins vegar hefði maður getað reiknað með, að einhver þessarra silkihúfna gæti sett saman frambærilegar ræður fyrir SDG. Eða kennt honum að umgangast gagnrýnendur án þess að fara á hvolf. En hvorugu er til að dreifa. Ætli silfurskeiðungurinn loforðaglaði þurfi ekki að fá sér áttundu og níundu silkihúfuna til að redda þessu. Búinn að skera svo mikið í heilbrigðisþjónustu.

Auglýst eftir flokkum

Punktar

Til að ná árangri þurfa nýir stjórnmálaflokkar að höfða til fjölda. Píratar leggja mikla áherzlu á upplýsingafrelsi og upplýsingaflæði. En enginn flokkur, leggur áherzlu á minnkaða stéttaskiptingu, til dæmis hærri laun láglaunafólks. Þar standa í vegi verkalýðsleiðtogar og fjórflokkurinn. Þá er enginn flokkur, sem leggur áherzlu á staðfestingu nýju stjórnarskrárinnar. Þar standa í vegi fjórflokkurinn og lagatæknar. Loks er enginn flokkur, sem leggur áherzlu á endurheimt þjóðarauðlinda. Þar standa í vegi kvótagreifar, sem eiga tvo flokka og ítök í öðrum tveimur. Slíkir nýir flokkar geta boðið fram hver í sínu lagi og síðan komið sér saman í stjórnarmyndun.

Neyðaróp auðgreifanna

Punktar

Þær eru fyndnar grátkerlingar atvinnurekenda, þegar þær segja alþýðuna þurfa að standa undir nýrri þjóðarsátt um stöðugleika. Þetta eru menn, sem hver um sig hefur milljónir króna í tekjur á mánuði hverjum. Þetta eru menn, sem undanfarið hafa hækkað laun sín um tugi prósenta. Svo koma þeir vælandi og segja alþýðuna þurfa að semja um 3% hækkun. Hræsnin er auðvitað í hámarki hjá þessum herrum. Svo halda þeir uppi linnulausum áróðri um, að fólkið vilji sjálft hafa lág laun og fórna margvíslegri velferð. Til þess hafa þeir botnlausa peningaskjóðu, sem fyllist af fjármunum, sem þeir hafa stolið af þjóðinni, til dæmis af auðlindum okkar.

Stokkum spilin aftur

Punktar

Margir þurfa hærri laun, því þeir hafa minna en 500.000 krónur á mánuði fyrir skatta. Þeir hafa ekki nægar tekjur til að lifa mannsæmandi lífi í landi með fullt af auðlindum. Aðrir þurfa hærri laun, því þeir fá auðveldlega miklu hærri laun í útlandinu, til dæmis læknar og hjúkrunarfólk. Í fyrra tilvikinu er það réttlætismál, í síðara tilvikinu er það samkeppnismál. Einskis virði er áróður samtaka atvinnurekenda um jafnvægi og þjóðarsátt. Þar tala menn, sem hafa milljónir króna í tekjur á hverjum mánuði. Þeir hafa rakað saman fé á lygum um, að mannsæmandi laun valdi verðbólgu. Stokkum vitlaust gefin spil upp á nýtt.

Stóriðju gefið fé

Punktar

Ríkið og hinn frægi Reykjanesbær hyggjast gefa Thorsil kísilmálmverksmiðjunni 770 milljónir króna í skattalækkunum. Það er fyrir utan raforku á tombóluverði. Þannig er haldið áfram þeirri ógæfustefnu að afsala sér auðlindarentu og gera þjóðina fátækari en ella. Stóriðjusaga landsins er löng harmsaga flutnings á auðlindarentu frá þjóðinni í erlend skattaskjól. Hækkun í hafi hét það einfalda arðrán, sem enn er í fullu gildi. Á sama tíma er einnig verið að naga innviði samfélagsins, svelta velferðina, mölva út úr kerfinu. Þjóðin er svikin um rentu af auðlindum sínum til sjávar og sveita. Þjóðin verður að endurheimta þýfið.

Samsæri í hverju horni

Punktar

Jón Steinar Gunnlaugsson er harður nagli, sem lætur menn ekki eiga neitt inni hjá sér. Í starfssögu sinni lætur hann ýmsa samferðamenn heyra það, sem er hið bezta mál. Raunar er svo komið, að maður spyr sig, hvort einhverjir séu eftir. Það eru þeir fáu, er ekki hafa reynzt honum, Davíð og þjóðinni þungir í skauti. Þetta þrennt virðist vera einn og sami hlutur. Hann sér samsæri í hverju horni. Jafnvel samstarfsmaður hans á lögmannsstofu til fjölda ára fær vænar gusur. Frægt er, að hann telur dómara við Hæstarétt vera hina verstu dólga. Því er ég hjartanlega sammála, samanber ógildingu þjóðaratkvæðis um nýja stjórnarskrá.

Glæpurinn lögfestur

Punktar

Ríkisstjórnin hyggst lögfesta heimild til að færa stofnanir út og suður til að eyðileggja þær. Markmiðið er ekki að færa atvinnu frá Hafnarfirði til Akureyrar í tilviki Fiskistofu. Markmiðið er að mölva úr ríkisstofnunum. Fá hæft fólk til að segja upp, eins og til dæmis gerist á Fiskistofu. Og eins og er líka farið að gerast á Landspítalanum. Það er bandaríska teboðsstefnan í framkvæmd: Mölvum úr kerfinu, sveltum velferðina, nögum innviði samfélagsins. Gefum okkar bófum færi á að skafa út auðlindir þjóðarinnar og koma peningunum fyrir í reikningum í skattaskjólum erlendis. Kjósendur Sjálfstæðis og Framsóknar bera ábyrgðina.

Þeir mölva kerfið

Punktar

Ríkisstjórnin fylgir stefnunni: Sveltum velferðina. Í framhaldi af forsetatíð Ronald Reagan og Bush-feðga í Bandaríkjunum. Íslenzka útgáfan er frá Margréti Pálu Ólafsdóttur í Hjallastefnunni: Mölvum út úr kerfinu. Teboðskonan tók við af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni sem hugmyndafræðingur. Enda er Hannes ekki nógu róttækur fyrir stjórn, sem hyggst rústa kerfinu á bara einu kjörtímabili. Hvarvetna er fé flutt frá fátækum til hinna bezt stæðu. Heilbrigðiskerfið er allt að hruni komið, ekki bara Landspítalinn, og læknar byrjaðir að flýja land. Ríkiseignir eru einkavinavæddar og helzta auðlindin afhent bófum til frambúðar.

Við erum gamlir kúnnar

Punktar

Engin ástæða verður til að hækka orkuverð til almennra neytenda um 10-20%, þótt rafkapall verði lagður til útlanda. Orkuverð er meira en nógu hátt miðað við eðlilegan framleiðslukostnað. Landsvirkjun hefur hins vegar samið ferlega af sér í samskiptum við stóriðju. Hefur selt orkuna á miklu lægra verði en gengur og gerist. Þessa samninga þarf að hækka, svo að rífleg auðlindarenta fáist, í stað þess að níðast á almennum neytendum. Það eru ekki gild rök, að orka til almennings sé 10-20% dýrari erlendis. Íslenzkir notendur eru gamlir kúnnar og eiga að njóta sérkjara. Landsvirkjun þarf hins vegar að bæta samninga sína.

Ertu nógu trúgjarn?

Punktar

Samtök atvinnulífsins reyna að telja þér trú um, að þú viljir ekki hækkað kaup umfram 2-3%. Fengu Capacent til að taka skoðanakönnun um, að þú viljir heldur efnahagslegan stöðugleika en launahækkun. Eins og það séu einhverjar andstæður. Samt veizt þú, að kaup láglaunafólks hefur dregizt langt aftur úr kostnaði við að lifa. Ætli 500.000 krónur á mánuði fyrir skatta dugi ekki til mannsæmandi lífs. Fátækt fer vaxandi. Ekki bara eru gamlingjar, öryrkjar, sjúklingar og einstæðar mæður undir fátæktarmörkum, heldur líka láglaunafólk. Fyrirtæki, sem hafa ekki ráð á hálfri milljón á mánuði, eru eins illa rekin og kvótagreifar.

Bankaráðið samábyrgt

Punktar

Steinþór Pálsson bankastjóri ber ekki einn ábyrgð á gjafagerningnum, er Borgun var seld. Samningurinn var borinn undir bankaráðið og pólitískir fulltrúar fjórflokksins sögðu já og amen. Tryggvi Pálsson, Danielle P. Neben, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir,  Helga Björk Eiríksdóttir, Jón Sigurðsson, Jóhann Hjartarson, og Kristján Þ. Davíðsson eru samábyrg. Gerningurinn fólst í, að Borgun var seld fyrirtæki ættingja Bjarna Ben fjármála og samstarfsmanna þeirra fyrir hálfvirði í kyrrþey án útboðs. Fjórflokkurinn er því allur meira eða minna ábyrgur fyrir einkavinavæðingunni. Gaman væri að vita, hvað hinir flokkarnir fá í staðinn.

Markaðsverð á kvótanum

Punktar

Við þurfum ekki að rífast um, hver skuli vera auðlindarenta sjávarútvegs. Menn fá forgang að takmarkaðri auðlind vegna takmarkandi regluverks ríkisvaldsins. Í því felst auðlindin. Ef allir mættu veiða, færu allir á hausinn. Svo vel vill til, að markaðshagkerfið hefur fært okkur einfalda aðferð við að finna, hversu mikils virði er þetta takmarkandi regluverk. Það er fyrning kvóta og uppboð þess kvóta, sem fyrnist. Þannig mætti fyrna allan kvóta á fimm árum, 20% á ári, og fá tugi milljarða í árlega auðlindarentu. Upphæðin stýrist af verðmætamati þeirra, sem bjóða í kvóta. Munum það, er grátkórinn hefur næst upp raust sína.

Botnfallið kýs bófana

Punktar

Þrátt fyrir dagleg hneyksli fer fylgi ríkisstjórnarinnar ekki niður úr 35%. Þar virðist vera botninn, Sjálfstæðis með 25% fylgi og Framsókn með 10% fylgi. Að vísu er þetta bara svipur hjá fyrri sjón. En fylgistapið nægir engan veginn til að koma hér upp norðurevrópsku fyrirmyndarríki. Þessi 35% eru enn botnfallið í þjóðfélaginu. Hugsa aldrei um pólitík og láta smala sér eins og sauðfé á degi kosninga. Það er þessu fólki að kenna, að bófaflokkum eru afhent völd til að arðræna samfélagið. Að vísu hagar ríkisstjórnin sér eins og kjörtímabilið verði hið síðasta í samstarfi bófaflokkanna. Í því verður hún vonandi sannspá.

Vort daglega hneyksli

Punktar

Ríkisstjórninni er ekki sjálfrátt. Daglega eru ný hneyksli í boði. Aldrei höfum við séð annað eins á lýðveldistímanum. Landspítalinn kominn að fótum fram og læknar farnir að flýja land. Frestað er kaupum á nöfnum 500 Íslendinga með skattsvikið fé í skattaparadísum. Yfirhylmingarmál Hönnu Birnu ætlar aldrei að taka enda, nýjasti anginn er þjónustulund lögreglustjórans í Reykjavík. Þá er Jón Gunnarsson að reyna að rústa rammaáætlun um virkjanakosti. Sjálfvirkar hríðskotabyssur framhjá kerfinu koma líka við sögu. Náttúrupassi Ragnhildar Elínar er margfalt vitlausari en hækkun ferðavasks eða gistináttagjald. Og nú hefur Borgun verið einkavinavædd. Ég biðst vægðar í eina viku.