Punktar

Foknir eða læstir

Punktar

Fall Framsóknar sker sig úr í öllum könnunum. Hinir þrír partar fjórflokksins fá sömu prósentu og í kosningunum. Fokið nemur tuttuguþúsund vonsviknum. Hafa fattað, að Framsókn mun ekki standa við loforð um stórfelldar gjafir. Einnig var fyrirsjáanlegt, að fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna væri frosið. Sviku þjóðina fyrir kosningar um stjórnarskrá og kvótalög og hafa sýnt lítil merki um iðrun. Meiri furðu vekur, að Sjálfstæðis skuli halda fylginu. Flokkurinn hefur sýnt einstæða fylgispekt við auðgreifa og óbeit á hvers konar velferð fátækra. Sannfærðir kjósendur hans eru harðlæstir í stuðningi við aukna stéttaskiptingu.

Verndun skattsvikara

Punktar

Bjarni Benediktsson ætti að hætta að vera með múður vegna kaupa á skattagögnum. Gögnin á að kaupa á sömu kjörum og önnur ríki í Vestur-Evrópu hafa gert. Hann á ekki að þyrla upp séríslenzkri lagatækni og reyna að kenna skattrannsóknastjóra um skandalinn. Ef Þýzkaland keypti gögnin, þá getur Ísland örugglega keypt sín gögn. Viku eftir viku er Bjarni með undanbrögð, sem öll miða að fyrningu þessa mikilvæga máls. Raunar hefur hann aldrei viljað kaupa þau. Það stafar af, að liðið í kringum hann hefur stolið undan skatti og falið þýfið í skattaskjólum. Flóknara er það ekki. Bjarni heldur því áfram að skjóta upp púðurskotum sínum.

Átakanleg öldrun

Punktar

FRÉTTABLAÐIÐ birtir í dag átakanlegar upplýsingar um ömurlega dvöl gamalmenna á ýmsum hælum. Gamla fólkið liggur langtímum saman í eigin þvagi og því er stillt upp langtímum saman við stillimynd sjónvarps. Því er haldið dofnu með mikilli lyfjagjöf og starfsfólk skilur varla íslenzku. Ævikvöldið er samkvæmt þessu í mörgum tilvikum fyrirkvíðanlegt. Samfélagið þarf að rannsaka þessi mál. Og koma þeim í það horf, sem talið er mannsæmandi á norðurlöndunum. Kanna þarf meðferð gamlingja og halda góðar skrár um lyfjanotkun. Samtímis þarf að auðvelda fólki að velja að hverfa í grænni haga til að sleppa undan svívirðu elliheimilanna.

Niðurgreidd stóriðja

Punktar

Bitur er reynsla þjóðarinnar af lítilli aðild stóriðju að kostnaði við rekstur samfélagsins. Samt halda pólitíkusar áfram að niðurgreiða kostnað stóriðju. Er þó ljóst, að það er dýrasta mögulega aðferð við að útvega atvinnu. Steingrímur J. Sigfússon kjördæmapotari lét niðurgreiða höfn og innviði stóriðju á Bakka. Í samræmi við Steingrím er Ragnheiður Elín Árnadóttir að niðurgreiða stóriðju í Helguvík. Þar eiga tvær verksmiðjur að útvega alls tvo rútufarma af atvinnu. Í því skyni leggur ríkið fram 1,1 milljarð króna fyrir utan styrki frá Keflavík. Miklu nær væri að leggja milljarð í að búa í haginn fyrir sprotafyrirtæki.

Stofnun rýrir öryggi

Punktar

Vilji Ólöf Nordal innanríkisráðherra efla þjóðaröryggi, gerir hún það ekki með sérstakri stofnun. Um allan heim er bitur reynsla af slíkum stofnunum. Vænisýki þeirra veldur ómældum skaða, leyndarhyggju og lögbrotum, hnýsni og fláttskap. Sjáið til dæmis leyniþjónustur Bandaríkjanna og Bretlands, sem frægar eru að endemum. Í Bandaríkjunum sæta borgarar leynilegum dómstólum með leynilegum ákærum og leynilegum dómstexta. Hins vegar mundi Ólöf efla þjóðaröryggi með því að vernda borgarana gegn fasískum hugmyndum um slíkar stofnanir. Það væri nóg að ráða Styrmi Gunnarsson til að ráfa um og taka fólk tali um vonda kommúnista.

Evrópa hafnar TISA

Punktar

Evrópusambandið hefur gefið út YFIRLÝSINGU um, að það beri enga ábyrgð á pappír TISA viðræðnanna við Bandaríkin um einkavæðingu opinberrar þjónustu. Sambandið muni ætíð standa gegn slíkum hugmyndum. Cecilia Malmström viðskiptaforstjóri staðfesti þetta. Svo virðist því, sem tillögunni hafi verið hafnað. Fínt skref til stöðvunar fríverzlunarsamnings Evrópu við Bandaríkin. Á þingi sambandsins hefur á sama tíma myndazt meirihluti gegn réttarstöðu risafyrirtækja til jafns við þjóðríki. Þetta endurvekur spurningu um, hvað Martin Eyjólfsson er að gera í viðræðunum. Er framsal fullveldis áhugamál Gunnars Braga utanríkisráðherra?

Einkavæðing heilsunnar

Punktar

Einkavæðing heilsunnar er ekki framtíðardraumur, þótt nýr landlæknir og Björt framtíð tali svo. Hún er veruleiki dagsins. Frægasti þátturinn er einkavæðing tannlækninga. Veldur því, að fátækir tíma ekki að láta gera við tennur. Annað dæmi eru skipti á augasteinum. Fátækir sæta því einfaldlega að verða blindir. Almenningur lætur sig hafa það að bíða í hálft annað ár eftir fyrra auga og síðan hálft annað ár eftir síðara auga. Í millitíðinni hefur hann búið við skaðleg áhrif frestunar og misræmis. Vel stæðir borga og fá nýja augasteina strax eftir hádegi. Þetta er bara einn þáttur ógeðslegrar stéttaskiptingar.

Brá fæti fyrir kaup

Punktar

Seljandi gagna um þýfi Íslendinga í erlendum skattaskjólum vantreystir kerfinu, sem á að sjá um, að gögnin nýtist til skattheimtu og sekta. Telur líklegt, að prósenta af hagnaði ríkisins muni skila sér illa sem sölulaun á þessum gögnum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra setti það skilyrði fyrir kaupum gagnanna, að verðið yrði skilgreind prósenta af tekjunum. Auðvitað hefur ríkiskerfið alla möguleika á að hlífa þjófunum og rýra, til dæmis með fyrningu mála. Málið er í hnút vegna kröfu Bjarna Benediktssonar, sem býr við fyrirskipanir frá vinum og ættingjum. Því verða gögnin ekki keypt hérna, þótt önnur ríki hafi keypt.

Reykjavík slíti samstarfi

Punktar

Hluti vangetu stjórnar Strætó stafar af, að Reykjavík stjórnar þar ekki. Nærri allir stjórnarmenn eru valdir af meirihluta Sjálfstæðisflokksins í svefnbæjunum umhverfis Reykjavík. Formaðurinn er úr Mosfellssveit. Og fólks af þessu tagi er allra manna ólíklegast til að hafa tilfinningu fyrir þeim, sem minna mega sín. Þetta er sams konar fólk og það, sem grefur á alþingi og í ríkisstjórn undan velferð og heilsu fátækra. Reykjavíkurborg hefur asnast til að gagna í bandalag með nágrannabæjunum um rekstur Strætó. Og hefur svo mátt sitja undir hellidembu af gagnrýni út af rekstri Strætó. Bezt er því, að borgin slíti þessu samstarfi.

Fatlaðir smjörlíkiskassar

Punktar

Nú er nóg komið. Strætó hefur sýnt og sannað, að hann ræður ekki við flutning á fötluðum. Hver harmsagan dynur yfir á fætur annarri. Steininn tók úr, þegar talsmaður Strætó kenndi hinum fatlaða um harmleikinn. Strætó varð hörmung á valdaferli Reynis Jónssonar, sem hrökklaðist burt fyrir áramótin. Hann samdi án útboðs við vin sinn um ónothæft tölvukerfi og trassaði síðan að þjálfa mannskap í verkið. Ferlið í heild sýnir ógæfuna í kjölfar hlutafélagavæðingar opinbers rekstrar. Ómennsk gróðafíkn leysir mannúð af hólmi, fatlaðir meðhöndlaðir eins og smjörlíkiskassar. Strikum yfir ruglið og borgarvæðum þjónustuna að nýju.

Þriðja heims Ísland

Punktar

Tímaritið BUSINESS INSIDER ber saman heilsukerfi Evrópu samkvæmt tölum Numbeo, rannsóknastofnunar í tölfræði. Þar er Frakkland efst með 83 stig og svo Danmörk með 79 stig. Svíþjóð, Þýzkaland og Noregur hafa 76 stig. Þetta eru löndin með toppþjónustu í heilsu. Ísland stendur langt að baki með 58 stig, næst neðan við þriðja heims ríkið Búlgaríu. Staðfestir, sem ég og ýmsir hafa sagt, að Ísland missti af lest Norður-Evrópu og komst niður í flokk með Austur-Evrópu. Stafar af, að ríkisstjórn bófaflokka skar tugi milljarða af ríkisfjárlögunum. Afhenti þá kvótagreifum og auðgreifum með niðurskurði auðlindarentu og auðlegðarskatts.

Gamla vinstrið frosið

Punktar

Samfylkingin og Vinstri græn þurfa naflaskoðun. Hafa sama fylgi í könnunum og í síðustu kosningum, þrátt fyrir ógnarstjórn Sjálfstæðis og Framsóknar. Fátækt og ójöfnuður vaxa hraðar en nokkru sinni, en samt er fylgi Sf og VG frosið. Þeir hafa ekki lengur aðdráttarafl á kjósendur á lausagangi. Flokkarnir eru leifar frá fyrri tíð. Fylgi Bjartrar framtíðar jókst um helming á sama tíma og fylgi Pírata tvöfaldaðist. Þessir tveir flokkar virðast hafa aðdráttarafl á leitandi kjósendur. Björt framtíð á það samt sameiginlegt með Samfylkingunni að telja dagana fram að stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðis. Píratar eru skásta vonin.

Samið um landráð

Punktar

Fyrirhugaðir fríverzlunarsamningar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, stundum kallaðir TISA og TTIP, mæta sívaxandi andspyrnu í Evrópu. Fólk sér fordæmið í NAFTA, fríverzlunarsamningi Norður-Ameríku. Í kjölfar hans reistu bandarísk risafyrirtæki skaðabótakröfur gegn Kanada vegna náttúruverndar, neytendaverndar og almennra mannréttinda. Þessir samningar gera nefnilega allir ráð fyrir, að risafyrirtæki fái réttarstöðu þjóðríkja. Mikil leynd hvílir á samningunum og leynidómstólum þeirra. Í fáum orðum sagt er öll sú vinna hrein geðveiki frá A til Ö. Íslenzkur sendifulltrúi tekur þátt í landráðunum. Sjá grein í SPIEGEL.

Úreltur formaður

Punktar

Árni Páll Árnason kemur mér fyrir sjónir sem bankastarfsmaður. Kannski eru það fordómar mínir frá þeim tíma, er hann var ráðherra og naut ráðgjafar banksters. Mér dettur bara Blair í hug, þegar ég sé hann. Efast um, að rétti tíminn sé nú fyrir þá hugmyndafræði í Samfylkingunni. Hún gekk sér til húðar í hruninu 2008. Krataflokkum, sem feta þá braut, hefur gengið illa í kosningum víða í Evrópu. Nýjasta dæmið er Grikkland, þar sem kratar fóru niður fyrir 5%. Þegar misrétti þjóðfélagshópa er komið út í núverandi öfgar, þarf kjarnmeiri jafnaðarstefnu en Blair-isma kratanna. Samt vill Árni Páll áfram vera formaður Samfylkingarinnar.

Syriza og píratar?

Punktar

Margt er líkt með Grikklandi og Íslandi. Rosalegar ríkisskuldir, niðurskurður í ríkisrekstri, stóraukin fátækt, ört versnandi heilsukerfi og stéttaskipting. Á báðum stöðum komust auðgreifar hjá byrðum, keyptu fjölmiðla til að temja fólk. Í báðum löndum stóðu hægri stjórnir hina pólitísku vakt. Nú hefur Syriza sett kerfið á hvolf í Grikklandi. Stöðvar einkavæðingu innviða samfélagsins, vill tengja afborganir og vexti við þjóðarhag hvers tíma, ræðst gegn skattaskjólum á aflandseyjum. Hefðbundnir kratar eru nánast horfnir þar. Nýi meirihlutinn er skipaður ungu fólki, sem hafnar hefðbundinni pólitík, kannski líkt og píratar.