Punktar

Samningar aumingjanna

Punktar

Samningar Faxaflóamanna og verzlunarmanna eru smán. Í þeim er engin vörn gegn verðhækkunum atvinnurekenda. Í þeim felast engin 300.000 króna laun núna, bara einhvern tíma á næsta kjörtímabili. Þau laun verða þá einskis virði. Smánin er krýnd með samkomulagi um, að fái háreistari félög betri laun, muni Faxaflóamenn og verzlunarmenn fá að fljóta með. Í þess háttar klausu er innbyggð játning á eigin vangetu og vanhæfni. Samningarnir duga ekki í lágmarkslaunum, meðallaunum og í launasamanburði við aðra. Þeir eru einfaldlega smán. Munu auka þrýsting á landflótta til næstu þjóða, þar sem ekki eru pólitískir glæpamenn við völd.

Flokkurinn eini

Punktar

Ég fylgist alltaf með því, sem ÞORKELL Sigurlaugsson segir. Hann gagnrýnir sinn flokk fyrir að hafa misst samband við nútímann. Höfði ekki til unga fólksins. Það eru honum mikil vonbrigði, eins og raunar mér líka. Þorkell er hins vegar einn af þeim, sem er fæddur inn í Flokkinn og sér ekki heiminn utan hans. Að einn stærsti flokkurinn sé úti að aka er auðvitað vandamál. Hann þarf að taka sér tak eins og Þorkell orðar það. Samt er ekkert sem segir mér, að Flokkurinn sé nauðsynlegur hluti stjórnmála. Hann getur mín og þjóðarinnar vegna fjarað út í 20% og dáið. Úrelt er að geta ekki séð tilveruna án tilvistar Flokksins eina.

Á viðeigandi stofnun

Punktar

Það er svo sem ekki skrítið, að fólk kjósi bófa og bjána í stjórnmálum. Sækjast sér um líkir, segir spakmælið. Ríkisstjórn og alþingi endurspegla mikla vangetu kjósenda. Verra er, að sumir í pólitík eru líka illa innrættir, sjáið til dæmis Vigdísi Hauksdóttur og marga ráðherrana. Hafa hátt um ást á lítilmagnanum, en leggja alla orku í að hlaða undir stórbokka. Einn ráðherrann vill hróka stórum stofnunum út og suður um landið. Önnur laug þindarlaust í heilt ár áður en hún hraktist úr embætti. Staðreyndin er bara, að margir kjósendur hafa nánast enga mannþekkingu. Velja sér til forustu fólk, sem á heima á viðeigandi stofnun.

Ólíkir formenn

Punktar

Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru býsna ólíkir. Bjarni hugsar sitt mál og talar í samhengi. Þar með er ekki sagt, að hann segi satt. En ég skil það, sem hann segir, þótt ég sé ósammála því. Hann skiptir ekki skapi, en er stundum pirraður í seinni tíð. Sigmundur er gerólíkur, veldur mér gæsahúð í hvert sinn, sem hann opnar munninn. Samhengislaus froða er hans ræðustíll. Aldrei getur hann dulið gremju sína. Kvartar linnulaust um að vera misskilinn og ofsóttur. Einföldustu hugtök notar hann vitlaust og gerir engan mun á réttu og röngu. Lífsleikni kann hann litla. Hann er einstæður í röð íslenzkra forsætisráðherra. Burt með hann.

Slátra innviðum spítalans

Punktar

Eftir verkfallsátök fengu spítalalæknar töluverða hækkun í samningum í vetur. Samt komu margir ekki aftur til starfa. Svo illt er orðið milli spítalalækna annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Læknar vilja heldur vera í svipuðum störfum í Noregi og Svíþjóð. Nú eru hjúkrunarkonur og ýmsar stéttir sérfræðinga á spítölum í verkfalli. Kannski fá þær mikla launahækkun, þegar upp er staðið. En þær koma ekki aftur til vinnu. Fara til Noregs. Þriðjungur geislafræðinga hefur sagt upp. Launahækkun mun ekki sætta málin, svo eitrað er milli þessara stétta og stjórnvalda. Hroki og tuddaskapur siðblindra ráðherra veldur vandanum.

50% smotteríið

Punktar

Komið er í ljós, að „smotteríið“, breytingin á frumvarpi um skipulag flugvalla, var meira en 50% breyting. Er róttækt dæmi um fúlt newspeak, sem einkennt hefur núverandi kjörtímabil Framsóknar og Sjálfstæðis. Menn segja bara eitthvað út í loftið og elska mest að segja, að svart sé hvítt. Þú kynnir ekki 50% breytingu á frumvarpi og rífur það síðan úr umræðunni tíu mínútum síðar. Það er meira en dónaskapur Vigdísar, það er gerræði Höskuldar. Eftir svona vinnubrögð verður þjóðin að kasta út þessum illa innrættu bófum og bjánum. Hafa gert íslenzkt lýðræði að skrípaleik. Kannanir sýna líka, að gerræði fer illa í almenning.

SÁÁ mega passa sig

Punktar

Ég ber mikla virðingu fyrir SÁÁ og einkum Þórarni Tyrfingssyni, sem lengst af var formaður samtakanna og talsmaður. Svo var einnig í of skammri formannstíð Gunnars Smára. Þetta eru með merkustu samtökum landsins. Með Arnþóri Jónssyni er hins vegar hlaupin skrítin kergja í samtökin. Arnþór svarar spurningum um skóla SÁÁ seint og illa. SPYR á móti fyrir hvern sé spurt og hvers vegna. Vill greinilega ekki svara og kemur ruddalega fram í tölvupósti. Samtökin þurfa að fá sér skárri formann eða að minnsta kosti nýjan talsmann. Hættulegt er fyrir svona samtök að lenda í höndum á reiðum hrokagikki. Þurfa vináttu almennings.

Dagur má passa sig

Punktar

Því fleiri gleiðbrosandi myndir sem Dagur B. Eggertsson lætur taka af sér með almenningi við hátíðleg tækifæri, því meira fjarlægist hann almenning. Ítrekað nefnir hann þann kost að færa þjóðhátíðardaginn um tvo daga. Enginn færir þann dag, ekki einu sinni Dagur. Undir merki hins bíllausa lífsstíls ræðst hann hvað eftir annað á akstur einkabíla. Reynir að þvinga fólk upp á reiðhjól, með illu ef ekki vill betur. Fleiri kjósendur eru þó með bílandi lífsstíl en bíllausan. Lengst gekk Dagur, þegar hann skrifaði undir stóriðjusamning við landflótta og auralausa Kanadamenn, sem alræmdir urðu þar vegna mengunar. Dagur má passa sig.

Kollkeyra á ofsanum

Punktar

Gaman að sjá ofsa silfurskeiðunga við að níðast á Reykjavík. Þegar ekki tókst að ná skipulagsvaldi flugvallarins af Reykjavík, var Akureyri og Egilsstöðum bætt við. Þegar norðanmenn og austanmenn urðu brjálaðir, var málinu þröngvað í æðiskasti gegnum samgöngunefnd alþingis með því að kalla varamenn af öðrum nefndafundum. Gaman verður fyrir upphafsmann gerræðisins, Höskuld Þórhallsson, að sjá sínum plássum stungið í pokann með Reykjavík. Hann hafði auðvitað ekki greind til að sjá það fyrir. Nú þurfa silfurskeiðungar að taka á öllu sínu til að mæta öllum þeim, sem eru uppi á háa C-i. Heimskan ríður ekki við einteyming.

Auðvitað eru það píratar

Punktar

Við skulum reka fjór/fimmflokkinn og bylta samfélaginu. Gangsetja stjórnarskrá fólksins orðrétta. Galopna stjórnsýsluna og opinbera öll opinber skjöl og skjöl um viðskipti og fjármál. Innleiða „crowdsourcing“ í öll vinnubrögð, með aðild starfsfólks á plani. Bjóða upp allan veiðikvóta. Ná 100.000 milljörðum á ári í rentu af auðlindum okkar í sjó, í orku og í víðernum. Lögfesta lágmarkslaun og ókeypis heilsugæzlu, örorku og menntun. Reka alla bankstera og setja erlenda siðfræðinga í staðinn. Mér sýnist, að bara einn stjórnmálaflokkur standi næstur því að uppfylla þessi skilyrði hins frjálsa Íslands. Það eru auðvitað píratar

Óður til letinnar

Punktar

Virðingarvert er að nenna ekki að vinna, að minnsta kosti ekki fyrir 236.000 eða 300.000 krónur á mánuði. Slík laun jafngilda þrælahaldi og margir segja nei takk. Við vitum, að ekki borgar sig að menntast. Sá kostnaður skilar sér ekki. Nema þá í ofmetnu trúarbragðanámi á borð við hagfræði, viðskipti og fjármál. Margir eru of heiðarlegir fyrir slíkt. Hvað ætli kosti að lifa, ef menn neita að þramma göngubrettið? Neita sér um bíl og sættast á búa í Framsóknargámi. Ef sjúkdómar, örorka og menntun eru ókeypis? Ætli 150.000 krónur á mánuði dugi í borgaralaun þeirra, sem neita að láta þrælaríkið stjórna sér, segja bara pass?

Skrítinn seðlabankastjóri

Punktar

Seðlabankastjórinn er sérkennilegur. Ver tíma sínum í lögsóknir á Seðlabankann til að fá hærra kaup. Heimtar, að bankinn borgi lagatækna fyrir sig. Líklega er hann með frekustu núlifandi Íslendingum. Á sama tíma bölsótast hann yfir afar smáum og líklega engum hækkunum til láglaunafólks. Kvartar meira að segja yfir kosningaloforðum um síðari tíma húsnæðisúrbætur. Ég held hann skilji enga tóna í mannlegum samskiptum. Hótar hækkunum stýrivaxta til að kynda undir verðbólgu. Að vísu er hann hagfræðingur, svo að ekki er hægt að heimta af honum heilbrigða skynsemi. En það er borin von, að nokkur taki mark á þvílíkum seðlabankastjóra.

Kosningafýla í lofti

Punktar

Í kjarasamningunum var samið um hækkun lægstu launa í 300.000 á þremur árum. Að þeim liðnum verða þessar 300.000 krónur orðnar að 236.000 krónum á núverandi verði. Verðbólgan mun sjá til þess og atvinnurekendur stjórna henni. Því mun láglaunafólkið standa í stað næstu þrjú árin, það er allt og sumt. Óljós texti er í samningunum um væntanleg svik ríkisstjórnarinnar við loforð hennar. Þau geta hugsanlega leitt til ógildingar þessa kjarasamnings. Ég á eftir að sjá þá ógildingu. Altjend er ljóst, að þrælahaldið verður óbreytt hér á landi næstu árin. Líklega þarf stjórnin kosningar í haust, áður en þetta Undraland hrynur.

Risaskref Eyglóar

Punktar

Húsnæðisloforð stjórnarinnar eru í stíl Eyglóar Harðardóttur. Eitthvað á þessa leið: Ég er ofsagóð, alltaf að hugsa um húsnæðislausa. Einu sinni á ári skipa ég nefnd til að hjálpa mér að hugsa. Boða frumvarp í hverjum mánuði og einhvern tíma birtist frumvarpið, því að ég er svo góð. Svo kemur kannski að því, að við í ráðuneytinu finnum einhvern, sem kann að reikna. Þá vil ég, að farið verði að reikna. Nú hef ég sett saman ljóð, sem ég kalla „risaskref í húsnæðismálum“. Þar kemur fram, að ég er að hugsa um að byrja að gera eitthvað árið 2016. Þetta ljóð mitt er það merkasta, sem „gert“ hefur verið í húsnæðismálum „í 50 ár“.

Landflótta ofursóðar

Punktar

Landflótta ofursóðar frá Kanada eru komnir til Íslands. Hafa samið við Dag B. Eggertsson um eiturfabrikku í Hvalfirði. Eru auralausir og fengu engan pening í Ohio og Missisippi. Treysta á, að íslenzkir lífeyrissjóðir séu eins trúgjarnir og Dagur borgarstjóri. Maður hefur gengið undir manns hönd við að upplýsa um feril Calisolar/Silicor og eigenda þess. En stóriðjuárátta Íslendinga er orðin inngróin, þótt hingað til hafi hún litlu skilað. Dasaður Dagur muldrar möntruna um „sólarkísil“ eins og sólargeisla af himnum ofan. Ósigursfíkn þriðja heims Íslendinga er stjórnlaus, ónæm fyrir hvers kyns ábendingum um svarta fortíð.