Punktar

Hugdettur stýra ferðinni

Punktar

Deilan um byrjendalæsi er mér næsta illskiljanleg. Um aldamótin var tekin upp kennsluaðferð í lestri á grundvelli hálfkaraðra rannsókna. Efasemdir eru samt um, að línurit segi rétta sögu af tjóninu. Taugaveikluð lausn ráðherra er að kippa þessu til baka og kasta inn annarri kennsluaðferð á grundvelli enn minni og verri rannsókna. Er þetta ekki dæmigert fyrir Ísland? Hér er allt lausgirt og menn vaða um í nærri fullkomnu gerræði. Pólitískar hugdettur hafa sömu stöðu og vísindi. Illuga Gunnarssyni gæti dottið í hug, að sköpunarsagan skuli leysa þróunarvísindi af hólmi. Hinn dæmigerði fúskari er óhæfur til að vera ráðherra.

Haldið góðum hraða

Punktar

Er að mestu leyti sammála stefnu pírata eins og Birgitta Jónsdóttir lýsti henni á landsfundi flokksins. Efast þó um forvirkan samning um samstarf í ríkisstjórn um bara örfá atriði: Stutt kjörtímabil, nýju stjórnarskrána og atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að Evrópusambandi. Kjósendur vænta aðgerða á fleiri sviðum, til dæmis endurreisn laskaðrar velferðar. Kosningar hafa áráttu til að fela í sér óvænt úrslit. Fyrirfram innpakkað samstarf verður þyngra í vöfum en reiknað var með fyrir kosningar. Gefur öðrum flokkum færi á gagnaðgerðum. Bezt að hnýta ekki of fast. Spekúlera í góðu hófi og þá fyrir kosningar, byrja strax að safna gögnum. Ekki eyða tíma og velvild eftir kosningar í langvinna „úttekt á allri stjórnsýslunni“. Halda samhliða góðum hraða á aðgerðum, sem hefjist strax.

Siðblindingi á réttum stað

Punktar

Einn mesti siðblindingi landsins hyggst halda dauðahaldi í stöðu varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það einkar vel við hæfi. Lygnasti ráðherrann á heima í þeirri stöðu. Hanna Birna Kristjánsdóttir minnir á Richard Nixon. Hann flúði með löngum hléum úr einni lyginni í aðra. Tapaði forsetatign fyrir rest, rúinn trausti. En það var í Bandaríkjunum. Við búum hins vegar á Íslandi, þar sem valdamenn sleppa engu, sem þeir hafa klófest. Hanna Birna var heilt ár að juðast úr ráðherrastólnum. Sorglegasta uppákoma síðustu ára. Yrði borin æpandi og öskrandi úr stöðu varaformanns bófaflokksins, sem einu sinni var voða stór.

Málstola skipuleggjendur

Punktar

Hef aldrei myndað mér staðfasta skoðun á, hvar Landspítalinn eigi að vera. Of flókið mál fyrir mig. Hef þó tekið eftir, að nánast enginn ver núverandi stað. Nánast allir, sem um málið skrifa, benda á aðra staði betri. Þeir, sem ákváðu staðinn eða halda stefnunni til streitu, taka engan þátt í umræðunni. Ósvífið. Segir mér þá sögu, að óráðlegt sé að byggja á núverandi svæði. Enda er þar ekki einu sinni pláss fyrir fæðingardeild. Hvers slags rugl er það? Segir mér líka þá sögu, að margir fagmenn hafa hagsmuna að gæta. Óttinn við tekjumissi veldur þeim málstoli. Eins og verkfræðingar í virkjanabransa, þegja bara út í eitt.

Klerkur missir sig

Punktar

Séra Örn Bárður Jónsson missti sig á fésbókarvegg sínum. Birti teikningu af hryðjuverkamanni, merktum „Isis – Vantrú“ miða hríðskotabyssu á kristna. Undir henni skrifar klerkur „stigs- eða eðlismunur?“. Ég veit ekki, hvernig honum dettur í hug að bera skoðanaskipti í orðum saman við manndráp og aftökur. Það er eitthvað helsjúkt við hugdettuna. Hef ekki tekið eftir, að hann hafi beðið forláts á mistökunum. Tilgangslaust er að eiga orðastað við kristna predikara, ef svona eru viðbrögð þeirra. Séuð þið enn félagsfólk í ríkiskirkjunni, ættuð þið að hugleiða orðbragð klerksins. Og spyrja ykkur, hvort þetta sé í lagi.

Eygló yljar um hjartarætur

Punktar

Þýzka ríkisstjórnin hyggst taka við 800.000 flóttamönnum frá Írak og Sýrlandi. Svarar í hlutfalli við íbúafjölda til viðtöku Íslendinga á 3.300 flóttamönnum. Íslenzka ríkisstjórnin er nízkari, hyggst bara taka við 50. Eygló Harðardóttir, mesti hræsnari stjórnmálanna, fékk að koma inn í beina útsendingu kvöldfrétta í sjónvarpinu. Jarmaði þar um, hversu vel Ísland mundi gera þetta. Tvisvar spurði Bogi Ágústsson hana, hvort 50 væri frambærileg tala. Í hvorugt skiptið svaraði Eygló neinu. Bogi sýndi ekki þann metnað að bera saman tölurnar 3.600 og 50. Ég veit ekki, hverjum þessi yfirdrepsfulla uppákoma átti að ylja um hjartarætur.

(Independent)

Sjúkraskýli á stríðstíma

Punktar

Ríkisstjórnin setti Landspítalann á hliðina. Þannig liggur spítalinn enn, þótt verkföll hafi verið stöðvuð. Sérhæfðir starfsmenn, sem sögðu upp, hafa ekki endurráðið sig. Aðeins 24 starfmenn hafa komið til baka, en uppsagnir rúmlega 300 starfsmanna gilda enn. Þeir eru að hætta störfum þessa dagana og upp úr mánaðamótum. Til dæmis hefur enginn lífeindafræðingur dregið uppsögn til baka. Neyðarástand er á ýmsum deildum spítalans. Ekki má skrifa um ótímabær mannslát. Landspítalinn er hættur að bera sig saman við norræna, þýzka, franska spítala. Er þriðja heims spítali, eins konar sjúkraskýli á tíma stríðsins gegn velferð.

Rótleysi og hefðarskortur

Punktar

Bjarni Benediktsson segir pírata vera of rótlausa. Svipað segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem segir þá ekki fylgja hefðbundnum gildum þjóðfélagsins. Þeir tveir silfurskeiðungar eiga við það sama. Vilja, að nýir flokkar rótist og rýti við sömu trog spillingar og hefðbundnir flokkar hafa gert. Vilja, að nýliðarnir séu útreiknanlegir, svo að semja megi við þá um tilhliðranir í þágu auðgreifa. Allt tal silfurskeiðunga er markað þeirri staðreynd, að þeir telja sig eiga þjóðfélagið með húð og hári. Hafni fólk spillingu bófaflokkanna, er það kallað rótlaust og sambandslaust við hefðina. Segir mikið um Bjarna og Sigmund Davíð.

Aftur orðnir skrímsli

Punktar

Bankahrunið varð vegna bankanna. Orðnir að skrímsli, sem framleiddi peninga eins og skít, er voru verðlausir eins og skítur. Þannig hrundu þeir og þannig hrundi Seðlabankinn og ríkissjóður fór á hliðina í ofanálag. Bankarnir eru enn orðnir að skrímsli. Í skjóli einokunar okra þeir stjórnlaust á fyrirtækjum og fólki. Hafa grætt 400 milljarða frá endurreisn þeirra, núna um 80 milljarða á ári. Bankarnir eru að láta þjóðfélaginu blæða út. Nú þegar verður að stöðva þá, reka siðblinda bankstera og setja inn ábyrgt fólk. Jafnfram verður að stöðva vaxtaokrið tafarlaust, afnema verðtryggingu og síðan að losna við krónuna.

Braskarar eiga borgina

Punktar

Skipulag Reykjavíkur hefur verið í ólestri síðan ég man eftir mér. Oft hef ég skrifað um það. Undir stjórn Dags B. Eggertssonar og Hjálmars Sveinssonar er helförin á leiðarenda. Verktakar, braskarar og arkitektar leika lausum hala og fá hámarksnýtingu á lóðum. Ekkert tillit er tekið til umhverfis, rétt eins og borgarstjórn hati fortíðina. Fólki ofbýður. Það sést af óblíðum viðtökum við fyrirhuguðum skrímslum á Hörpureit og við Tjarnarenda Lækjargötu. Hótað er enn einu risahóteli og það við sjálfan Austurvöll. Hvar eiga rúturnar að vera þar? Ruglið hefur aldrei verið markvissara en einmitt núna. Braskarar eiga borgina.

Kostur og löstur uppboða

Punktar

Uppboð á aflaheimildum hefur þann meginkost, að ekki þarf að rífast um upphæð auðlindarentu. Allir hafa sína eigin skoðun á því. En uppboðin sýna verðgildi auðlindarinnar án alls rifrildis. En þá þarf líka að gæta að hliðarverkunum, sem reynslan sýnir geta spillt markaðslögmálinu. Bjóða þarf kvótann út í nógu litlum einingum, svo að sem flestir geti boðið. Sjávarpláss, bátaeigendur og sjómenn geti þannig náð sér í kvóta. Allar handfæraveiðar verði frjálsar. Bjóða þarf kvótann út fjölþjóðlega til að hindra hefðbundin samráð innlendra bófa um sýndartilboð. Og allur afli verður að fara á galopinn fiskmarkað innanlands.

Bakkaver byrjar illa

Punktar

Eingöngu Pólverjar vinna að uppsteypu orkuvers á Þeistareykjum. Líklega þarf ekki að borga þeim taxtakaup. Þannig hefst dýrðin við drauminn á Bakka. Hún er eins og við þekkjum úr fyrri orkudraumum. Athafnir leiða ekki til atvinnu og margfeldisáhrifin margfrægu eru lítil sem engin. Önnur byrjun draumsins á Bakka er vatnsflóðið í Vaðlaheiðargöngum. Þar átti kostnaður okkar enginn að vera, en verður tuttugu milljarðar, þegar upp er staðið. Við borgum líka höfn við Bakka og göng milli Bakka og Húsavíkur. Allt til að selja ósjálfbæra jarðhitaorku á tombóluverði. Þetta eru auðvitað landráð. Seint ætlar þjóðin að fullorðnast.

Öryrkjar eru ódýrir

Punktar

Öfugt við það, sem Vigdís Hauksdóttir segir, eru öryrkjar ekki hlutfallslega fleiri hér en á öðrum norðurlöndum. Öryrkjar eru raunar heldur færri hér. Því er ekki hægt að tala um sérstakan öryrkjavanda. Enda er Vigdís bara að reyna að beina athyglinni frá raunverulegum afætum okkar, auðgreifunum. Í því skyni skeytir hún að venju engu um tölur og staðreyndir. Hún lýgur líka, að öll laun skerði örorkubætur. Hið rétta er, að 110 þúsund króna vinna á mánuði skerðir ekki örorkubætur. Rétt er samt að afnema alla skerðingu örorkulífeyris vegna atvinnutekna. Hjálpar öryrkjum út á vinnumarkað. Vigdís er þar ekki hjálpleg.

Farsæl hópvinna

Punktar

Í innra starfi hafa píratar farsæl hópvinnubrögð, sem minna á aðdraganda hinnar nýju og ónotuðu stjórnarskrár. Áherzlan á opna stjórnsýslu mun leiða til betra lífs, þegar fólk fattar kosti hennar umfram leyndó stjórnsýslu. Ferlið hamlar framgangi fimmtu herdeilda, sem reyna að beita pírötum fyrir sín áhugamál. Ég varð vitni að misheppnaðri tilraun fylgismanns Sigríðar Andersen til að beita öfgahægri frekju hjá pírötum. Opin stjórnsýsla krefst gegnsæis og hörð keyrsla á prívatmúra er andstæð þessu gegnsæi. Margir píratar fatta nú þegar, að rangt er gefið í spilum stjórnmála. Að forgangsmál sé að eyða áhrifum auðgreifanna.

Hjólreiða-berserkir

Punktar

Kapphjólarar gerast of fyrirferðarmiklir á gangstéttum og göngustígum. Ég horfi nokkrum sinnum á dag úr stofuglugganum upp á þessi ósköp á hringstígnum um Seltjarnarnes. Fólk hér í nágrenninu er hætt að nota göngustíginn af ótta við óbilgirni kapphjólara á 40-60 km hraða. Fyrr eða síðar verða stórslys af völdum fanatískra hjólakappa. Löggan gerir auðvitað ekkert í þessu frekar en öðru. En sveitarfélög geta gripið til sinna ráða og sett upp grófar hraðahindranir á gangbrautum og knúið þannig hraðann niður í 15 km. Ekki er við alla hjólara að sakast, en mikið ber því miður á þessum fanatísku ég-um mig-frá mér-til mín.