Punktar

Röð óranna lengist

Punktar

Enn lengist röð óranna. Eftir Landeyjahöfn og Vaðlaheiðargöng kemur hraðlest til Keflavíkurvallar. Kostnaður auðvitað vanáætlaður um 90-100 milljarða. Fluglest til Gardermoen kostaði 200 milljarða, en Leifsstöðvar-lestin er sögð kosta 106 milljarða. Vegalengd er svipuð. Gardermoen-lestin flytur 6 milljónir farþega á ári. Hér verða farþegar 0,5 milljónir. Með sama fargjaldi kostar miðinn 4.800 krónur. Verði hann dýrari, fara menn frekar á bíl. Greinilega dæmi, sem ríkið má ekki snerta með töngum. Og enn síður steypa sér í ábyrgðir. Lífeyrissjóðir verða væntanlega ginntir. Er það ekki orðin venjan að sparka í gamlingjana?

Talsmaður Norðuráls

Punktar

Vilhjálmur Birgisson hefur á þessu ári í vaxandi mæli komið fram sem talsmaður Norðuráls. Meðal annars haldið fram, að Norðurál skili landinu 100 milljörðum króna í útflutningstekjur. Lunginn úr því eru þó upphæðir, sem renna til móður-og systurfélaga erlendis. Koma ekki við í hagkerfinu. Í raun borgar Norðurál eins og önnur stóriðja lítið umfram laun og raforku. Tölur Vilhjálms eru því hrikalega ýktar. Öll landráðafyrirtæki stóriðjunnar nota hækkun í hafi til að firra sig opinberum gjöldum á Íslandi. Raforkan, sem við sóum í stóriðju, væri betur seld í annan rekstur. Fráleitt er að tala um okur á raforku til stóriðju.

Ríkisbáknið er ódýrt

Punktar

Viðskiptaráð hefur leiðbeint hægri stjórnvöldum frá aldamótum. Bankaskrímslið var byggt upp að ráði þess og hrundi. Ævinlega er ráðið yzt á brauðmolastefnu núverandi ríkisstjórnar. Nýjasta útspilið er krafan um fækkun ríkisstofnana. Hefur þá forsendu, að vegna fámennis sé ríkisbáknið dýrara á hvern íbúa en í stóru ríkjunum. Alröng forsenda. Íslenzka ríkisbáknið er ódýrara í rekstri á hvern íbúa en í öllum þorra ríkja Vestur-Evrópu. Ellefu ríki heimshlutans hafa meiri ríkiskostnað á íbúa en Ísland (Wikipedia). Krafa Viðskiptaráðs er gott dæmi um, að nauðsynlegt er að grandskoða sannleiksgildi allra fullyrðinga þess.

Guðlaugur hélt haus

Punktar

Guðlaugur Þór Þórðarson hélt haus í orrahríðinni um fjárlögin. Veifaði sífellt sömu excel-töflunni um, að Landspítalinn hafi aldrei verið í betri málum. Búið er að skera þann sýndarveruleika á hol. Meirihluti þjóðarinnar veit veruleika þess, að Landspítalinn liggur á hliðinni. Það skiptir Guðlaug engu, hann veifar bara töflunni góðu. Veit, að excel-lygi skiptir kjósendur flokksins engu máli. Heiðarlegt fólk er farið úr hópnum. Eftir sitja illmenni og fávitar og fylgið helzt samt um 25%. Þess vegna heldur Guðlaugur haus. Fór ekki að væla um sinn innri og betri mann eins og Ásmundur og Illugi. Þeir liggja óvígir hjá garði.

Illskan trompar gæzkuna

Punktar

Ásmundur Friðriksson réðist gegn öryrkjunum sínum í gær, þegar hann hafnaði á alþingi sömu kjarabótum þeirra og annarra. Illugi Gunnarsson réðst gegn eigin tillögu um útvarpsgjald og greiddi atkvæði gegn gjaldinu. Í sama flokki og Ólöf Nordal, sem sagðist ekki sitja þegjandi hjá illri meðferð hælisleitenda og sat svo einmitt þegjandi hjá. Þessir pólitíkusar þurfa að athuga, að erfitt er að vera í bófaflokki og lýsa samtímis yfir góðsemi sinni. Að minnsta kosti verður síður gert grín að ósamræmi í orðum og verkum. Betra er að flagga ekki góðsemi sinni og fullyrða bara eins og Vigdís, að illska sín sé langbezt af öllu.

Skammtað málþóf

Punktar

Setja þarf reglur um lengd umræðna á alþingi. Málþóf eins og hafa verið á þessu kjörtímabili og því síðasta fara út fyrir mörk lýðræðis. Þegar næst verða sett lög um þingsköp, þarf að takmarka lengd málþófs í hverri umræðu. Þó þannig að tími fáist til að ræða málin til fulls. Mér sýnist, að 30 klukkustundir eigi að nægja til að fullræða flóknustu mál. Framlengja mætti, þegar þingnefndir breyta frumvörpum að ráði, svo sem fjárlagafrumvarpi. Þá mætti fara í 50 stundir alls, en ekki hærra. Meirihluti á þingi er meirihluti í þingræðisríki, burtséð frá fylgi flokka í könnunum. Það er langvinnt spaug að hafa fávita í kjörklefum.

Tvö hryllingstákn

Punktar

Í eðli sínu frá gamalli tíð eru framsóknarmenn ekki sams konar illvirkjar og sjálfstæðismenn. Að baki þjóðrembunnar eru leifar af gamaldags samvinnuhugsjón fyrri tíma, blandaðri gamaldags spillingu. Af sögulegri tilviljun keypti hægri silfurskeiðungur flokkinn, þar sem hann lá fylgislaus í sárum eftir helreið Halldórs Ásgrímssonar kvótagreifa. Einnig af sögulegri tilviljun er með í för óðamála illmenni og bjálfi sem formaður fjárlaganefndar. Sigmundur Davíð og Vigdís Hauksdóttir valda því, að heiðarlegir borgarar geta ekki snert Framsókn með töngum. Í kosningunum verða þau hryllingstákn fordjörfunar flokksins.

Vilja koma sér fyrir

Punktar

Ímynda mér, að 15% þjóðarinnar séu illmenni, mest kjósendur Sjálfstæðisflokks. Þar af hafi þriðjungurinn komið sér vel fyrir með stórtækum þjófnaði, aðallega með pilsfaldakapítalisma. Hinir vilja koma sér fyrir með svipuðum hætti, þótt feitustu bitarnir séu horfnir. Restin af fylgi Flokksins er skipuð gamlingjum. Mundu kjósa hann, þótt þeir yrðu látnir svelta heilu hungri. Segir mér, að Sjálfstæðisflokkur fari ekki neðar, þótt rigni eldi og brennisteini. Illmenni og kjánar tryggja honum 25%, þótt hann rústi allri velferð, sem hann snertir. Skoðist, þegar menn kvarta yfir „fjórflokknum“. Sumir eru þar verri en aðrir.

Sál Grindavíkur seld

Punktar

Hreppsnefnd Grindavík hefur leyft bófum HS Orku að eyðileggja Eldvörp, einstætt náttúruundur Reykjanesskagans. Ofan í heimsundrinu verða sléttaðir nokkrir 4000 fermetra borpallar. Þetta kynngimagnaða svæði er sennilega það, sem græðgislið Grindavíkur kallar „Reykjanes Geopark“. Kannski má selja túristum inn á svæðið sem sýnishorn af hamslausri græðgi þorpsbúanna. Og græða á sjálfri græðginni. Skipulagsstofnun gaf þessari fyrirætlun neikvæða umsögn, taldi ekki rétt að raska þessu sérstæða jarðgufusvæði. En Grindvíkingar höfðu þær ordrur að engu. Það eru fleiri en Illugi Gunnarsson ráðherra, sem hafa selt HS Orku sál sína.

Nýtt hræðslubandalag

Punktar

Róbert Marshall er orðinn úrkula vonar um að halda sinni þægilegu innivinnu á alþingi fyrir hönd Bjartrar fortíðar. Vill sameiginlegt framboð „umbótaafla“ undir forustu Katrínar Jakobsdóttur. Katrín á með hjálp Árna Páls að fleyta Róbert inn á þing í næstu kosningum. Þar fyrir utan er liðsbónin ákall um, að helztu taparar stjórnmálanna sameinist í nýju hræðslubandalagi. „Góða fólkið“ í flokkunum þremur hefur saman styrk á við „vonda fólkið“ í Sjálfstæðisflokknum. Píratar geta þá valið, hvort þeir kippa góða eða vonda fólkinu uppí til sín í nýrri stjórn. Róbert á því enn nokkra von um þægilega innivinnu næstu árin.

Daufur til augnanna

Punktar

Ef við setjum þjóðina á beina, lóðrétta línu, er Björk Guðmundsdóttir við efri endann. Hún er þjóðargersemi og mikill listamaður, sem hefur slegið í gegn um allan heim. Magnar straum ferðamanna, sem vilja sjá með eigin augum landið, sem skapaði listamanninn. Landið, sem fær erlenda ljósmyndara til að falla í stafi. Við neðri enda línunnar er Jón Gunnarsson, daufur til augnanna. Fulltrúi hinna sísvöngu græðgiskarla, sem búast við að verða hungurmorða á næsta morgni. Því að ekki sé enn búið að reisa næg orkuver og háspennulínur eða drepa næga hvali. Þingbófinn hatar allt, sem heitir menning, hefur lengi verið ómagi á þjóðinni.

Ólöf sat þegjandi hjá

Punktar

Ólöf Nordal er komin í hóp ráðherra, sem tala í eina átt og starfa í hina. „Ég stend ekki þegjandi hjá“ sór hún á kirkjugólfi um helgina, einmitt er hún hafði staðið þegjandi hjá. Hafði sagt Albaníumálið alfarið á ábyrgð hinnar sívinsælu Útlendingastofnunar, sem á sér langa frægðarsögu. Ólöf þagði um lagaákvæði, sem heimilar mannlegar tilfinningar í samskiptum kerfisins við útlendinga. Þagði um rétt ráðherra til að grípa inn í heimskulegar ráðagerðir fasista. Fór í staðinn í kirkju til að sverja eið. Er hún að verða eins og Ásmundur Friðriksson? Og svo er Bjarni Ben farinn að harma kjör láglaunafólks. Fer himinninn að hrynja?

Bjarni Ben að bila

Punktar

Bjarni Benediktsson er að missa það. Orðinn þreyttur og rúnum ristur í framan í sjónvarpinu. Eitthvað er það, sem hann ræður ekki við. Staðfestist, þegar hann tók stóra feilsporið: „Það er líka til fólk sem að er í fullu starfi, vaknar snemma á morgnanna og vinnur allan daginn við að hafa í sig og á og sitt fólk. Það hefur ekki meira á milli handanna en þeir sem treysta á bæturnar.“ Afsakar kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja með því, að fleiri eigi bágt, það er að segja láglaunafólk. Viðurkennir loksins, að láglaunafólki sé þrælað út fyrir skítakaup. Líklega er Bjarni Ben að bila að innan eins og Ásmundur Friðriksson.

Kratar verða fasistar

Punktar

Frakkland er orðið lögregluríki, kratarnir komnir hálfa leið yfir í fasismann. Hafa virkjað gömul neyðarlög frá 1954, tíma Alsírstríðsins. Lögreglan gerir húsleitir án dómsúrskurða og án eftirlits. Lögin voru líka notuð til að ráðast á umhverfissinna í tilefni silkihúfufundar mengunarsinna í París. Ráðist er inn í óviðkomandi íbúðir og íbúum misþyrmt í misgripum. Húsleitir eru þegar orðnar 2200 talsins og 350 manns settir í stofufangelsi. Þar á meðal umhverfissinnar, óviðkomandi hryðjuverkunum í París. Kratar töpuðu héraðskosningunum í vikunni þrátt fyrir þessi kraftalæti. Því græddu kratar ekkert á að verða að fasistum.

Leynileg alþjóðapólitík

Punktar

Sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum skilaði auðu í vikunni í kosningu um alþjóðlegt kjarnorkuvopnabann. Hafði nokkrum vikum fyrr greitt atkvæði gegn því sama banni. Mat hans var, að þetta nýja bann gæti skaðað eldra bann. Hvernig er það rökstutt? Minnir okkur á, hversu lítil umræða er hér um afstöðu Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Er Ísland taglhnýtingur Bandaríkjanna, norðurlandanna eða sérvizku ráðherra hverju sinni? Á öðrum vettvangi þjónustar sendiherra Íslands alþjóðlegar fyrirtækjasamsteypur gegn Íslandi. Landráð Martins Eyjólfssonar í boði Gunnars Braga Sveinssonar? Almenningi er ekki treyst til að ræða slíkt.