Punktar

Litli klofni flokkurinn

Punktar

Árni Páll Árnason styður tillögur stjórnarskrárnefndar um þrjár breytingar á stjórnarskránni. Því má búast við, að mótframbjóðandi hans til formennsku í Samfylkingunni taki hinn pólinn í hæðina: Að meira máli skipti að knýja fram stjórnarskrá fólksins heldur en að stunda bútasaum. Sem fjölmargir telja til lítilla eða nær engra bóta. Atkvæðagreiðsla um formennskuna mun því fela í sér atkvæðagreiðslu um stefnu í stjórnarskrármálinu. Það er gott. Árni Páll hefur engan kjörþokka, svo sem ítrekað hefur komið fram. Og Samfylkingin er nánast í frjálsu fylgisfalli. Verður hún áfram lítill fjórflokkur eða endurnýjast hún?

Katrín í sérflokki

Punktar

Enn er Katrín Jakobsdóttir eini hugsanlegi frambjóðandinn til forseta, sem fær marktækt fylgi í könnun. 37,5% hjá MMR. Aðrir hugsanlegir frambjóðendur fengu þar innan við 8%. Davíð Oddsson, Stefán Jón Hafstein, Salvör Nordal, Ólafur Jóhann Ólafsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason reyndust hafa 7-8% fylgi hvert. Flestir aðrir fengu nánast ekkert. Nú bíðum við spennt eftir fleiri alvörukönnunum í marz. Kannski koma til sögunnar ný nöfn, sem koma til greina. En erfitt verður að glíma við afgerandi forustu Katrínar í upphafi mánaðarins. Hún hefur boðað svör á næstunni við óskum um forsetaframboð hennar.

Lykli skilað og kvatt

Punktar

Þingmenn pírata hafa lagt fram lyklafrumvarp. Felur í sér, að skuldir á íbúð geta ekki orðið verðmeiri en íbúðin sjálf. Ekki verði hægt að ganga að öðrum eignum eða rukka skuldir út yfir uppboð og sölu íbúðar. Þú getir einfaldlega skilað lyklinum í bankann og kvatt. Þaðan kemur heiti frumvarpsins. Lilja Mósesdóttir flutti slíkt frumvarp snemma á tíma vinstri stjórnarinnar. Jón Bjarnason hafði frumkvæði af að stöðva það og Lilja var hrakin úr flokknum. Ríkisstjórn bófaflokkanna lofaði síðan lyklafrumvarpi, en ekki hefur verið lögð nein vinna í það enn. Gott, að píratar skuli taka frumkvæði að þessu réttlæti.

Allt sama tóbakið

Punktar

Samfylkingin, Vinstri græn og Björt framtíð eru skipuð þjóðníðingum að hætti bófaflokkanna, sem nú stjórna. Þrennt veldur, frá lokum síðasta kjörtímabils. Í fyrsta lagi svikin við stjórnarskrá fólksins. Þingmenn þessara flokka héldu sig vera að semja, en bófarnir voru bara að tefja. Í öðru lagi svikin við þjóðina um auðlindarentu, þegar þingmenn létu bófana teyma sig á asnaeyrunum. Í þriðja lagi svikin við þjóðina, er verstu kjördæmapotarar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tróðu kísilveri til Húsavíkur á kostnað lands og þjóðar. Allt er þegar þrennt er. Svikulir þingmenn eru engu skárri en bófar. Burt með þá alla saman.

Út í frelsið

Punktar

Nautn er að ríða einhesta með stóðinu út í frelsið sjálft. Hins vegar trist að sitja á palli og horfa á listir hesta á hringvelli. Verst er að horfa á slíkt heima við sjónvarpið. Mér leiðist að horfa á íþróttir og er allt of gamall til að taka þátt. Leiðist að horfa á spennu og ást, það er bara áhorf og ekkert annað. Raunar leiðist mér líka að lesa sögur, veruleikinn er miklu mergjaðri. Örfáar sögur eru samt svo magnaðar, að þær grípa mig og þá frekar sem texti en sem myndskeið. En nú get ég forgamall ekki lengur setið dögum saman á hestbaki úti í óendanlegu víðerni. Þá er skárra að blogga en að lesa á bók eða sjá á skjá.

Tyrkland úr Nató

Punktar

Fyrir aldarfjórðungi var Tyrkland fyrirmynd múslimaríkja. Veraldlegt ríki, sem skildi sig frá trúarbrögðum. Istanbul var evrópsk að yfirbragði og innihaldi. Með innreið Erdoğan forseta umturnaðist ríkið á verri veg. Sjálfur er hann illa geðbilaður, hefur höfðað 1845 meiðyrðamál fyrir móðgandi gagnrýni. Á eftir að versna, ef vesturveldin vernda hann áfram fyrir veruleikanum. Tyrkland er á hraðferð til miðalda. Kvenréttindi hrynja. Barnagiftingar og fjölkvæni magnast. Verst er vænisýki stjórnvalda, gagnrýni er talin fela í sér landráð. Erdoğan er verri óvinur vesturlanda en Arabíu-Sádar. Brýnt er að reka Tyrkland úr Nató.

Svei stjórnlaganefndinni

Punktar

Tillaga stjórnlaganefndar um þrjár breytingar á stjórnarskránni er allt öðru vísi hugsuð en stjórnarskrá fólksins. Nefndin hunzaði þá stjórnarskrá. Vann út frá gildandi lögum, sérhagsmunum og fjölþjóðasamningum. Stjórnarskrá fólksins er hins vegar samningur þjóðar við sjálfa sig. Fór gegnum ferli þjóðfundar, stjórnlagaráðs og meginatriðin fóru að auki gegnum þjóðaratkvæði. Hún byggist á sögulegum forsendum, markmiðum og innsendum erindum fólksins. Hornsteinn nýrra laga, ekki niðurstaða gamalla. Horfir fram en ekki aftur. Skrifuð á mannamáli, en breytingarnar þrjár eru á máli lagatækna með undanbrögðum í þágu hagsmuna. Svei allri stjórnlaganefndinni.

Clinton og Trump

Punktar

Fátt stendur í vegi útnefningar Trump sem forsetaefnis repúblikana eftir Stóra þriðjudaginn í gær. Hann vann í öllum ríkjum nema tveimur, þar sem Cruz hafði betur. Maður almennings á hægri kanti vann menn kerfis og teboðs. Það verður eitthvað. Sanders gekk lakar hjá demókrötum. Vann bara fjögur ríki, mðan Clinton sópaði upp fylgi svertingja í suðurríkjunum. Fulltrúi kerfis og banka vann mann almennings á vinstri kanti. Gærdagurinn færði Clinton nær forsetaembættinu. Verður firna vondur forseti auðvaldsins, sem hefur sligað Bandaríkin. Mun auka örvæntingu almennings og ýta Bandaríkjunum framar á brún uppgjörs og byltingar.

Að eiga fyrir krabbameini

Punktar

Í gamla daga vildi fólk stefna að því að eiga fyrir útförinni. Nú segja svörtu gárungarnir, að þú þurfir að eiga fyrir krabbameininu. Kostar nefnilega meira en milljón á ári að borga krabbamein. Afleiðing af aukningu á kostnaðarþátttöku veika fólksins. Fólk greiðir sjálft síaukinn hluta af lyfja- og lækniskostnaði. Og nú á að einkavæða aukinn hluta kerfisins. Því fylgir ört vaxandi hluti eigin kostnaðar. Fátækir hafa ekki lengur efni á tannlækningum og augasteinaskiptum og hvað þá krabbameini. Svo segja pólitískir bófar, að hrunið heilsukerfið sé í fínu lagi. Þar með er leiðindamálið afgreitt og þarf ekki að ræða það frekar.

Aðstæður til vinstri

Punktar

Píratar segjast réttilega hvorki vera vinstri né hægri flokkur. Lausnir hans eru hugsaðar á annan hátt, í öðrum víddum og vinnubrögðum. Í aðstæðum dagsins yrði samstarf við Framsókn og Sjálfstæði samt erfitt. Vegna málanna, sem helzt berja að dyrum, stjórnarskrár, Evrópukosninga og heilsukerfis. Þar er stefna pírata frábrugðin verkum Framsóknar og Sjálfstæðis. Mun auðveldara verður við núverandi aðstæður að ná samkomulagi við Samfylkinguna og Vinstri græn um ríkisstjórn, hvað sem síðar verður. Ég gef mér því, að næsta ríkisstjórn verði samstarf frá miðju til vinstri og að hún vindi ofan af öfgum bófaflokkanna.

Fátæktarvæðing fólksins

Punktar

Eftir styrjöldina hófst 35 ára velmegunartími, þegar framleiðni og laun jukust jafnt og þétt. Eftir 1980 jókst framleiðni áfram, en laun stóðu í stað. Sést vel í frægu grafi frá Hagstofu Bandaríkjanna. Þá reis upp nýfrjálshyggja bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, oft kölluð brauðmolastefna. Þetta var Thatcherismi og síðan Blairismi með aðild krataflokka í Evrópu, þar á meðal hér. Alþýðusambönd gerðust einnig aðilar að nýfrjálshyggjunni, þar á meðal hér. Afleiðingin er, að launafólk fékk engan hlut í 80% framleiðniaukningu. Brauðmolastefnan sigraði. Næsta skref í fátæktarvæðingu okkar er TISA, fjölþjóðasamningurinn hrikalegi.

Grafið umrædda er það neðra hægra megin í krækjunni. Hún krækir líka í tvær greinar úr New York Times.

Sjóðir sliga þjóðina

Punktar

Lífeyrissjóðir setja þjóðina á vonarvöld. Hafa þegar étið verkalýðshreyfinguna og gert hana að handbendi atvinnurekenda. Hagsmunir peninga sitja ætíð framar hagsmunum launafólks. Fjárfesta í fáokunar-fyrirtækjum, sem vilja frið til að ofsækja starfsfólk. Brenna fé í sukki, svo sem rándýrum skipum til að þjónusta ímyndaða olíupalla á Drekasvæðinu. Fjárfesta í húsaleiguokri fasteignafélaga. Gert er samkomulag, SALEK, um þak á launahækkanir og seinkun lífeyrisaldurs. Hann á fyrst að hækka í 70 ár og síðar upp í 80 ár. Loks að gera eignaupptökuna afturvirka, þótt raunar sé ólöglegt að hirða áunninn lífeyrisrétt af fólki.

Þrjú vandræðaríki

Punktar

Óforsvaranlegt er, að yfirvöld í Íran skuli ítrekað bannfæra Salman Rushdie og leggja stórfé til höfuðs honum. Óforsvaranlegt, að yfirvöld í Sádi-Arabíu skuli fjármagna öfgamoskur um allan heim. Óforsvaranlegt er, að yfirvöld í Tyrklandi skuli stefna heimsfriðnum ítrekað í voða í skjóli aðildar að Nató. Þetta eru þrjú öflugustu ríki múslima nú á dögum. Vesturlönd þurfa að taka saman höndum um að vinna gegn voðaverkum og yfirgangi yfirvalda þessara ríkja. Líka þarf að tryggja, að ekki sé slegið af siðum, venjum og lögum veraldlegra ríkja í þágu of harðskeyttrar fjölmenningarstefnu. Við þurfum að forðast samkrull við miðaldir.

Vel sloppið úr slysi

Punktar

Píratar sluppu bærilega frá reiðimálinu mikla. Þingmenn hafa beðizt afsökunar á báða bóga og flestir segjast sæmilega sáttir. Skynsamleg niðurstaða næst í stjórnarskrármálinu, sem áður hafði snögglega hrunið í kross. Nýtt jafnvægi er auðvitað fyrir mestu. Af uppákomunni getur helzta talsfólk pírata lært gagnlega hluti inn í framtíðina. Ekki tala gáleysislega af fingrum fram, ekki verða voða reið, ekki búa til strámann. Málefnavinna pírata er á sama tíma í góðum gír. Fall og ris af þessu tagi á að vísa veginn fram til langþráðra kosninga. Höfum ekki efni á frekari mistökum á síðustu metrunum til frelsis undan bófaflokkunum.

Illgresi í flokkaflóru

Punktar

Íslenzka þjóðfylkingin er illgresi í flóru stjórnmálaflokka. Með þjóðrembu og stöðvun fjölmenningarstefnu á dagskrá. Minnir á flokka víða í Evrópu, er sækja út á hægri jaðarinn. Tekur fylgi einkum af Framsókn, en lítið af óánægju-fylgi, sem fær útrás á miðjunni, til dæmis hjá pírötum. Hér vantar mistökin, sem hafa magnað hægri þjóðrembu erlendis. Svo sem ýkt fjölmenning, moskuskólar og þöggun lögreglu og fjölmiðla um vanda við aðlögun múslima. Óþarft er að banna moskur, bara gera ljóst, að hér er veraldlegt samfélag með önnur gildi en í heimalöndum flóttamanna. Þau gildi verða varin með kjafti og klóm án aðstoðar þjóðrembinga.