Punktar

Afar ótengdur dómari

Punktar

Karl Axelsson hæstaréttardómari segist vera ótengdur hlutafélagi. Hafi skráð eignarhald þess á nafn konu sinnar. Þegar hæstaréttardómari hugsar svona, er ekki von, að landslýður taki mark á siðalögmálum. Ef til vill hefur Karl skjól af tvíræðu orðalagi, sem lagatæknar hafa lætt í lög. Sú er mest vinnan þeirra að sviga kringum réttlæti. Vilja líka stjórna, hvernig stjórnarskrá er orðuð. Ég segi þvert á móti, að þar megi enginn lagatæknir koma nærri. Ekki með eitt orð. Fólkið á sjálft að orða sína stjórnarskrá á sinni íslenzku sem sáttmála sinn um þjóðfélagið. Lagatæknar nýtast bara til að koma bófum undan réttlætinu.

Vernda þá voldugu

Punktar

Fleiri en verzlunareigendur hafa hagsmuni af reglum um opnunartíma. Starfsfólk verzlana og þjónustu hafa líka hagsmuni. Það eru „stakeholders“. Opnunartími á hátíðisdögum snýst ekki bara annað hvort um guð eða rekstur. Hann snýst líka um launafólk. Sá réttur hefur kerfisbundið verið rýrður síðustu áratugi og verður enn rýrður, ef TISA nær fram að ganga. Nú þarf uppreisn gegn yfirgangi þeirra, sem hafa völd yfir launafólki. Frumvarp Bjartrar framtíðar og Pírata um „að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum“ skortir alla sýn á hagsmuni starfsfólks. Snýst bara um frelsi hinna voldugu.

Lífeyrissjóður í sigtinu

Punktar

Stjórn VR skipar stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, setti þeim nýlega leikreglur. Stjórn stéttarfélags getur þannig haft áhrif á gerðir sjóðs. Séu leikreglurnar ófullnægjandi, getur félagið bætt þær. Séu leikreglurnar brotnar, getur félagið rekið stjórnarmenn sína í sjóðunum. Raunar hefur Ásta Rut Jónasdóttir, formaður sjóðsins, þegar verið rekin. Stjórnir lífeyrissjóða mega ekki hlaða undir andverðleika stjórnenda, sem valda fyrirtæki sínu almennum álitshnekki. Stuldur VÍS á bótasjóði tryggingataka er vissulega á áhrifasviði stjórnar VR. Stéttarfélög eiga að taka til hendinni í spilltum lífeyrissjóðum.

Andverðleikar í eftirliti

Punktar

Andverðleikastefnan nær hástigi, er Bjarni Benediktsson ræður helztu yfirmenn Fjármálaeftirlitsins úr sínum vinahópi. Ótækt er, að eftirlitsstofnun fylgist ekki með ráðagerðum stærstu tryggingafélaga landsins og breyttum leikreglum Evrópusambandsins. Fráleitt er, að eftirlitið blessi stuld stjórnenda VÍS á bótasjóði tryggingataka. Fáránlega hrokafullt er, að eftirlitið vísi þolendum á að skipta um tryggingafélag. 90% markaðarins eru í höndum fyrirtækja, sem málið snýst um. Af VÍS-máli má ráða, að stjórn og forstjóri Fjármálaeftirlitsins eru sérvaldir út frá hæfileikaskorti og andvaraleysi. Þannig fá bófar frítt spil.

Útivist og tekjulind

Punktar

Hugmyndin um hálendisþjóðgarð er komin á mikla siglingu. Samtök um útivist og ferðaþjónustu hafa tekið saman höndum um yfirlýsingu. Tillögur eru líka komnar til umræðu á alþingi. Hálendið er útivistarsvæði þjóðarinnar og tekjubrunnur ferðaþjónustunnar. Þessi hlutverk þarf að efla og koma á góðu skipulagi, sem hindrar illa meðferð. Taka þarf hart á pólitískum bófaflokkum Landsvirkjunar og Landsnets, sem hafa landráð á stefnuskrá. Hindra þarf virkjanir og raflínur á hálendinu. Núverandi ríkisstjórn er þröskuldur í vegi þjóðgarðsins. En hún er einkar fylgisrýr og verður væntanlega ekki til trafala eftir kosningar að ári.

Hlægilega þingleg meðferð

Punktar

Alþingi lætur undir höfuð leggjast að afgreiða stjórnarskrá, sem kom eftir gott ferli út úr þjóðaratkvæðagreiðslu. Á sama tíma eyðir alþingi miklum tíma í að reyna að búa til þrjá plástra á gömlu stjórnarskrána. Eftir langa leynd hafa plástrarnir verið opinberaðir. Þar hafa greifar landsins komið inn öðrum orðum til að vernda eignarhald sitt á landi og þjóð. Fáir mæla þessum plástrum bót, en stjórnarandstaðan segir fátt. Auðvitað á hún að reka upp ramakvein og reyna að fá plástrana burt af borðinu. Hví skyldi stjórnarskrá greifanna fá þinglega meðferð, en ekki stjórnarskrá fólksins? Stjórnarskrárferlið er orðið hlægilegt.

Eftirlitið blessar stuldinn

Punktar

Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir, að eigendur tryggingafélaga tæmi bótasjóði tryggingataka og stingi í eigin vasa. VÍS hefur stolið úr sínum bótasjóði og aukið arð eigenda sem því nemur. Þetta er taka tvö. Taka eitt var í aðdraganda hrunsins. Þá stal Sjóvá Engeyinga bótasjóði tryggingataka og setti í brask, sem fór á hausinn. Ríkið taldi sig þurfa að taka tjónið og leggja það á herðar skattgreiðenda. Sama verður núna. Í yfirvofandi hruni mun ríkið taka tjón VÍS og leggja á herðar skattgreiðenda. Þannig starfar fjórflokkur Íslands í þágu landsins helstu bófa. Engin vanþörf er á byltingu við fyrsta tækifæri.

Þetta er ekki hænufet

Punktar

Efnismesta rýnin á tillögu stjórnlaganefndar um þrjár breytingar á stjórnarskrá er komin frá Þorkeli Helgasyni. Mér sýnist þar, að tillögurnar feli ekki í sér bata á núverandi stjórnarskrá. Flytji okkur ekki hænufet til stjórnarskrár, sem við viljum endurheimta úr frystingu alþingis. Samt hefur bara ein úr nefndinni lýst andstöðu við tillögurnar, Valgerður Bjarnadóttir í Samfylkingunni. Katrín Jakobsdóttir frá VG hefur ekki tjáð sig um þetta frekar en önnur vandræðamál. Fulltrúi pírata hefur meira að segja sagt ýmislegt vera gott í þessum tillögum. Píratar eru því að missa sérstöðu sína í stjórnarskrármálinu úr höndum sér.

Greinargerð Þorkels
Skoðun Valgerðar

Teflon-húðuð Katrín

Punktar

Ekkert af vandræðum síðustu ríkisstjórnar loðir við Katrínu Jakobsdóttur. Hún er ein af þessum teflon-húðuðu pólitíkusum. Sat allan sparnaðartímann eftir hrunið á friðarstóli menntamála. Allir elskuðu Katrínu. Öfugt við fanatíkerinn Illuga Gunnarsson, sem nú veldur hvarvetna vandræðum og illindum. Nánast allir ráðherrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur bökuðu sér erfið eftirmæli. Nema Katrín. Og nú er talað um, að hún verði næsti forseti Íslands. Það er örugglega vel ráðið, þótt fleiri komi til greina, þegar öll kurl eru komin til grafar. En froðufellingar Davíðs landlausa geta endað með því að gera Katrínu sjálfkjörna.

Predika lögbrot og siðbrot

Punktar

Framhaldsþættir á TV2 í Danmörku sýna með földum myndavélum, hvað predikað er í moskum múslima. Í öllum tilvikum kom í ljós, að hvatt er til, að múslimar lagi sig ekki að samfélagi landsins. Þar á meðal er hvatt til lögbrota. Til dæmis  að múslimar taki sharia-lög fram yfir ríkislög. Kennt er ofbeldi gegn kristnum og konum og börnum. Fyrsti þáttur uppljóstrunarinnar var sýndur 3. marz á TV2. Þættirnir taka af allan vafa um, að moskur vinna almennt gegn lögum og siðum í Danmörku. Í Bretlandi hafa faldar myndavélar sýnt það sama, predikanir múslima stríða gegn lögum og siðum þar í landi. Vesturlönd verða að taka á þessu böli.

Sjá 1:
Sjá 2:

Holur í fínu ástandi

Punktar

Næst á eftir klóaki eru götur undirstaða siðmenningar. Reykjavík komst inn í nútímann á borgarstjóraárum Geirs Hallgrímssonar. Afturhvarf frá siðmenningu hófst á borgarstjóraárum Dags B. Eggertssonar. Skorið var af fé til viðhalds götum. Síðustu tveir vetur hafa verið erfiðir og valdið miklum skemmdum. Síðast  var hlaupið til við að holufylla. Lítið er gert af því núna. Ég fullyrði, að götur borgarinnar eru í verra ástandi en þær hafa verið um áratugi. Dagur vísar á Ámunda Brynjólfsson, sem segir holurnar í fínu ástandi og gagnrýni sé óþörf. Eins og hjá ríkisstjórn bófanna, bara tuggið, að staða spítalanna sé fín.

Verkverstir og verkminnstar

Punktar

Verkversti ráðherrann er Kristján Þór Júlíusson. Rústar heilbrigðiskerfinu af fremsta megni og lætur að öðru leyti lítið fara fyrir sér. Næstur gengur Illugi Gunnarsson í vondum æðibunugangi, samráðaleysi um styttingu náms og námsmat. Verkminnst er Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem þeytist um allt, en kemur engu í verk. Minnisvarði hennar er náttúrupassinn sálugi. Næst henni gengur Eygló Harðardóttir, kemur engu í verk og er frosin úti með húsnæðisfrumvörpin. Sá skrítnasti er svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Mest í felum, birtist sjaldan og þá eingöngu til að rífast. Raunverulegur forsætis er Bjarni Benediktsson.

Finna verstu fólin

Punktar

Bandalagsríki Bandaríkjanna í miðausturlöndum eru helzt Ísrael, Sádi-Arabía og Tyrkland. Einmitt þau, er þar valda mestum vandræðum. Ísrael er Aparatheid-ríki sem beitir gestapó-fólsku til að halda niðri Palestínumönnum. Sádi-Arabía er engu skárra, forhert miðaldaríki, sem berst gegn öllu nútíma siðferði. Tyrkland geysist til miðalda undir stjórn íslamista, misnotar aðild að Nató til að þjóna eiginhagsmunum á svæðinu. Makalaust er, hvernig Bandaríkin draga hvarvetna að sér verstu dólgana. Þannig er slóðin frá Víetnam um Afganistan og Írak og til Sýrlands. Bandaríkin og taglhnýtingar þeirra rústa alls staðar samfélaginu.

Senn þarf byltingu

Punktar

Örfáir mánuðir eru síðan atvinnurekendur og verkalýðsrekendur sömdu um afspyrnu litlar og lélegar launahækkanir almennings. Þá veltu málsvarar auðsins sér í krampaköstum yfir ógnum samninganna, yfirvofandi verðbólgu og ragnarökum. Nú er veruleikinn kominn í ljós. Auðgreifarnir skammta sjálfum sér tífaldar hækkanir. Nú eru peningar nógir. Það sýna ársreikningar og arðgreiðslur og forstjóralaun. Upplýst er, að í aldarþriðjung hefur allur hagvöxtur runnið til greifa, ekkert til almennings. Velferð skorin niður við trog til að gefa greifunum árlega tugi milljarða. Nú þarf byltingu gegn klíku atvinnurekenda og verkalýðsrekenda.

Talað við tölvurnar

Punktar

Framtíð íslenzkrar tungu felst í getu hennar til að tala við tölvur og stjórna þeim. Google er komið lengst. Innan tíðar verður þessi möguleiki að veruleika. Töluðu máli verður breytt í texta. Að vísu er íslenzka útgáfan frumstæðari en sú enska. Kallar á notkun lyklaborðs við setninga- og greinarmerki. Undarlegt er, að ríkisvaldið skuli taka lítinn fjárhagsþátt í slíkri tæknivinnu. Forsenda þess, að hér verði áfram sérstök þjóð næstu áratugina. Dýrmætara en flutningur Sigmundar Davíðs á 20. aldar steinvegg fyrir hálfan milljarð króna. Gamaldags þjóðrembingar skilja nefnilega ekki, hvað varðveitir tilveru okkar sem þjóðar.