Punktar

Bush berst fyrir tóbakinu

Punktar

Ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hefur krafizt þess, að Alþjóða heilbrigðisstofnunin dragi úr nýrri ályktun um tóbaksvarnir, þannig að hverju ríki fyrir sig verði heimilt að velja, hvaða þáttum ályktunarinnar þau fari eftir. Kevin Moley, fulltrúi Bandaríkjastjórnar í stofnunni, lagði kröfuna fyrir Gro Harlem Brundtland, forstjóra hennar, á mánudaginn var. Áhugafélög um tóbaksvarnir telja, að bréf Bandaríkjastjórnar feli einnig í sér dulbúnar hótanir um, að þau ríki, sem styðji tóbaksvarnir að hætti Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, muni missa bandaríska fjárhagsaðstoð. Frá þessu segir David Lazarus í San Francisco Chronicle.

Skeið og tölt og mýkt

Punktar

Ný umræða um stöðu hrossaræktar á Íslandi hófst með tveimur samhliða atburðum. Greinaflokkur síðasta heftis Eiðfaxa um mýkt ferðahrossa og hast hoss sumra sýningarhrossa var önnur rótin.

Hin var umsögn Ágústs Sigurðssonar hrossaræktarráðunauts á stóðhestasýningunni í Gunnarsholti í vor, þar sem hann vakti athygli á, að helmingur stóðhestanna þar sýndi ekki skeið og taldi það vera áhyggjuefni.

Þriðja skrefið í umræðunni var málþingið um tölt á Hólum, þar sem Ágúst ítrekaði, að áherzlan á mýkt hefði látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar og taldi, að minna ætti að einblína á framfótahreyfingar en gert hefur verið að undanförnu. Eyjólfur Ísólfsson tók undir skoðun Ágústs og spáði því, að það, sem hann kallaði “fótaburðarsótt” mundi minnka á næstunni. Í þessu hefti Eiðfaxa er sagt frá málþinginu á Hólum.

Fjórða skrefið er greinaflokkur þessa tölublaðs um stöðu skeiðs í hrossaræktinni í beinu framhaldi af orðum ráðunautarins í Gunnarsholti. Hinn þekkti hrossadómari, Jón Finnur Hansson, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa og skilgreinir vandamálið í grein í þessu hefti Eiðfaxa. Ennfremur talar hann þar við marga fagmenn, sem segja álit sitt á stöðu skeiðs. Sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu eins og vera ber á góðum málfundi, enda hefur stóri sannleikurinn ekki fundizt enn.

Í grein Ágústs um skeið í þessu hefti stingur hann upp á, að kynbótahross verði á sýningum ekki aðeins flokkuð eftir aldri, heldur einnig eftir því, hvort þau sýna skeið eða ekki. Hann sér fyrir sér yfirlitssýningar, þar sem teflt sé saman annars vegar beztu tölturunum og hins vegar mestu vekringunum.

Á sýningunni í Gunnarsholti vék Ágúst einnig að framförum í danskri ræktun íslenzkra hesta í kjölfar kynbótasýningarinnar í Herning, þar sem hann var dómari. Í þessu hefti Eiðfaxa er rætt við ýmsa ræktunarmenn í Danmörku, þar sem þeir rekja ýmsar breytingar, sem orðið hafa til bóta í starfi þeirra. Athyglisvert er, að þeir hafa tengzt íslenzkri ræktun betur en áður.

Eiðfaxi leggur um þessar mundir áherzlu á að vera virkur í málefnalegri umræðu, fræðslu og skoðanaskiptum um margvísleg atriði, sem skipta máli í hrossarækt. Þetta kom skýrt fram í síðasta hefti Eiðfaxa og kemur enn sterkar fram í þessu hefti.

Af mörgu er að taka. Áhugi er vaxandi á ræktun íslenzkra hesta erlendis, ekki aðeins í Danmörku, þar sem dæmt var í Herning eftir íslenzka dómskalanum. Þjóðverjar eru farnir að halda kynbótasýningar eftir íslenzka dómskalanum í bland við hefðbundnar sýningar eftir þýzka dómskalanum. Þannig dreifast áherzlurnar frá Íslandi um allan heim ræktunar íslenzkra hrossa.

Með alþjóðavæðingu íslenzka dómkerfisins vex þrýstingur á kerfið. Fleiri aðilar og fleiri sjónarmið koma til sögunnar. Til dæmis vilja vafalaust sumir Þjóðverjar verja klárhestana gegn tilfærslum í áherzlu dóma í átt til mýktar og skeiðs, sem sumir Íslendingar telja samkvæmt ofangreindu vera tímabærar.

Umræðan í Eiðfaxa birtist í þremur gerðum tímaritsins, á íslenzku, ensku og þýzku og nær þannig mikilli dreifingu um allan heim íslenzka hestsins. Vafalaust munu birtast hér í blaðinu síðar í sumar viðbrögð frá ýmsum löndum við þessari umræðu og innlegg í hana.

Allt er þetta af hinu góða. Heimur íslenzka hestsins er einn, þótt hann sé dreifður. Allir málsaðilar hafa þeirra hagsmuna að gæta, að þróun íslenzka hestsins verði sem glæsilegust. Eiðfaxi þjónar hlutverki meðalgöngumanns í þessari málefnalegu umræðu.

Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Skeið og tölt og mýkt

Punktar

Ný umræða um stöðu hrossaræktar á Íslandi hófst með tveimur samhliða atburðum. Greinaflokkur síðasta heftis Eiðfaxa um mýkt ferðahrossa og hast hoss sumra sýningarhrossa var önnur rótin.

Hin var umsögn Ágústs Sigurðssonar hrossaræktarráðunauts á stóðhestasýningunni í Gunnarsholti í vor, þar sem hann vakti athygli á, að helmingur stóðhestanna þar sýndi ekki skeið og taldi það vera áhyggjuefni.

Þriðja skrefið í umræðunni var málþingið um tölt á Hólum, þar sem Ágúst ítrekaði, að áherzlan á mýkt hefði látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar og taldi, að minna ætti að einblína á framfótahreyfingar en gert hefur verið að undanförnu. Eyjólfur Ísólfsson tók undir skoðun Ágústs og spáði því, að það, sem hann kallaði “fótaburðarsótt” mundi minnka á næstunni. Í þessu hefti Eiðfaxa er sagt frá málþinginu á Hólum.

Fjórða skrefið er greinaflokkur þessa tölublaðs um stöðu skeiðs í hrossaræktinni í beinu framhaldi af orðum ráðunautarins í Gunnarsholti. Hinn þekkti hrossadómari, Jón Finnur Hansson, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa og skilgreinir vandamálið í grein í þessu hefti Eiðfaxa. Ennfremur talar hann þar við marga fagmenn, sem segja álit sitt á stöðu skeiðs. Sitt sýnist hverjum í þeirri umræðu eins og vera ber á góðum málfundi, enda hefur stóri sannleikurinn ekki fundizt enn.

Í grein Ágústs um skeið í þessu hefti stingur hann upp á, að kynbótahross verði á sýningum ekki aðeins flokkuð eftir aldri, heldur einnig eftir því, hvort þau sýna skeið eða ekki. Hann sér fyrir sér yfirlitssýningar, þar sem teflt sé saman annars vegar beztu tölturunum og hins vegar mestu vekringunum.

Á sýningunni í Gunnarsholti vék Ágúst einnig að framförum í danskri ræktun íslenzkra hesta í kjölfar kynbótasýningarinnar í Herning, þar sem hann var dómari. Í þessu hefti Eiðfaxa er rætt við ýmsa ræktunarmenn í Danmörku, þar sem þeir rekja ýmsar breytingar, sem orðið hafa til bóta í starfi þeirra. Athyglisvert er, að þeir hafa tengzt íslenzkri ræktun betur en áður.

Eiðfaxi leggur um þessar mundir áherzlu á að vera virkur í málefnalegri umræðu, fræðslu og skoðanaskiptum um margvísleg atriði, sem skipta máli í hrossarækt. Þetta kom skýrt fram í síðasta hefti Eiðfaxa og kemur enn sterkar fram í þessu hefti.

Af mörgu er að taka. Áhugi er vaxandi á ræktun íslenzkra hesta erlendis, ekki aðeins í Danmörku, þar sem dæmt var í Herning eftir íslenzka dómskalanum. Þjóðverjar eru farnir að halda kynbótasýningar eftir íslenzka dómskalanum í bland við hefðbundnar sýningar eftir þýzka dómskalanum. Þannig dreifast áherzlurnar frá Íslandi um allan heim ræktunar íslenzkra hrossa.

Með alþjóðavæðingu íslenzka dómkerfisins vex þrýstingur á kerfið. Fleiri aðilar og fleiri sjónarmið koma til sögunnar. Til dæmis vilja vafalaust sumir Þjóðverjar verja klárhestana gegn tilfærslum í áherzlu dóma í átt til mýktar og skeiðs, sem sumir Íslendingar telja samkvæmt ofangreindu vera tímabærar.

Umræðan í Eiðfaxa birtist í þremur gerðum tímaritsins, á íslenzku, ensku og þýzku og nær þannig mikilli dreifingu um allan heim íslenzka hestsins. Vafalaust munu birtast hér í blaðinu síðar í sumar viðbrögð frá ýmsum löndum við þessari umræðu og innlegg í hana.

Allt er þetta af hinu góða. Heimur íslenzka hestsins er einn, þótt hann sé dreifður. Allir málsaðilar hafa þeirra hagsmuna að gæta, að þróun íslenzka hestsins verði sem glæsilegust. Eiðfaxi þjónar hlutverki meðalgöngumanns í þessari málefnalegu umræðu.

Málþing um tölt var haldið á Hólum 20. maí á vegum Söguseturs íslenzka hestsins á Hólum. Björn Kristjánsson, forstöðumaður sögusetursins, setti málþingið. Síðan töluðu Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur og Eyjólfur Ísólfsson reiðkennari á Hólum. Hér á eftir fara ekki endursagnir erindanna, heldur brot úr efni þeirra.

Töltið kom aftur um miðja 19. öld

Björn Kristjánsson:

Tölt var innleitt á Íslandi að nýju eftir miðja 19. öld. Það var þekkt fyrr á tímum, en lítið notað og týndist niður að mestu. Á fyrri öldum var mest lagt upp úr skeiði. Heimildir um tölt frá fyrri tíð eru fátæklegar, helzt myndskreytingar í handritum og ákveðin textabrot. Þegar Jón Ásgeirsson á Þingeyrum og séra Jakob Benediktsson í Miklabæ fóru að ríða tölt á síðari hluta 19. aldar og hafa áhrif á aðra reiðmenn, var gangtegundin ný fyrir flestum samtíðarmönnum þeirra. Það er ekki fyrr en kemur vel fram á 20 öld að töltið nær verulegum vinsældum, þannig segir Þorlákur Björnsson frá Eyjarhólum í viðtali, að ekki hafi verið farið að sýna tölt á mótum fyrr en eftir 1940.

Tölt er sýnt á Valþjófsstaðahurðinni

Sigríður Sigurðardóttir:

Ein elzta hestamynd á Íslandi er á Valþjófsstaðahurðinni frá því um 1200. Þar er sýndur hestur með mikilli fótlyftu og hefur sú mynd verið gerð að táknmynd Söguseturs íslenzka hestsins. Á fimmtándu öld er skrifað á einum stað: “fara út eftir ísnum mikið tölt”. Í handriti frá 14. öld eru sýndir þrír reiðmenn, þar af einn á töltandi hesti.

Á öllum tímum Íslandssögunnar hefur tölt verið til, en fremur lítið notað. Heldri manna reiðtygi fyrri alda voru fremur klossuð og þung og gáfu ekki mikla möguleika á sambandi við hestinn. Þau voru því ekki til þess fallin að ná tölti úr hestum. Reiðþófinn var þó algengasta reiðver Íslendinga á öllum öldum og gaf kost á þessu sambandi.

Stangarbeizli komu sennilega ekki til Íslands fyrr en á 17. öld, miklu síðar en á meginlandi Evrópu. Nútímahnakkar með ensku sniði komu ekki til sögunnar hér á landi fyrr en um miðja 19. öld.

Fótaburðarsóttin mun senn minnka

Eyjólfur Ísólfsson:

Ísland hefur alltaf verið erfitt yfirferðar og ekki kallað á mikla töltreið. Samt bjó tölt alltaf í hestakyninu. Það hvarf að mestu úr notkun á síðari öldum, enda voru hnakkar grófir og gáfu lítið samband. Tölt var síðan endurvakið, þegar ný reiðtygi komu til sögunnar, enskir hnakkar og stangarbeizli.

Góð áseta einkennir myndir af reiðmönnum um aldamótin. Þegar töltið komst svo í meiri tízku á 20. öld, fór að bera á töltsótt, sem einkenndist af því, að menn riðu eingöngu á tölti, þurftu ekki gangskiptingar og komust því upp með lélega ásetu, sem síðar var ranglega kölluð gamla bændaásetan.

Hægatölt er að því leyti frábrugðið öðru tölti, að 1/24 hluta úr sekúndu er hesturinn með þrjá fætur samtímis á jörð, án þess að það hafi áhrif á taktinn. Þetta er svonefndur þrístuðningur, sem hverfur, þegar hraðar er riðið.

Rangt er að ríða tölt með því að lyfta hestinum að framan. Við það verður yfirlínan ýkt og bakið fatt, eins og sést á myndum frá töltsóttartímanum. Höfuðið á ekki að koma upp að framan, heldur vera nær lóðréttri stöðu en láréttri.

Fótaburður var ekki stórmál í gamla daga, en er núna orðið aðalatriði. Það er fótaburðarsóttin. Menn kaupa hágenga hesta, þótt þeir séu bæði ljótir og ganglitlir. Ég er sammála framtíðarspá Ágústs. Draga mun úr taumlausri fótaburðardýrkun.

Mýktin hefur vikið
fyrir fálmandi tölti

Ágúst Sigurðsson:

Tölt komst í tízku fyrir sjö áratugum samkvæmt skrifum Theódórs Arnbjörnssonar. Búnaðarfélagið skilgreindi tölt sem ræktunarmarkmið fyrir fimm áratugum. Kvikmyndir frá sjötta áratugum sýna settlega reið á hægatölti og mun minni fótlyftu, en nú er farin að tíðkast. Stöku hestur sést á milliferð, en enginn á yfirferð. Aðalatriðið þá var, að gangurinn færi vel með knapann. Töltskalinn frá 1970 leggur áherzlu á, að gangurinn sé mjúkur og rúmur og takturinn hreinn. Á síðustu árum hefur áherzlan á mýkt látið undan síga fyrir áherzlu á fálmandi hreyfingar.

Ég spái, að framtíðin feli í sér frábæra töltara, sem geti líka allt hitt. Minna verði einblínt á framfótahreyfingar og heildarmyndin fái meiri athygli. Meira verði tekið eftir mýkt og hreyfingafimi. Í senn verði lögð áherzla á hægatölt og mikið rými.

Ágúst ræddi einnig athugun á því, hverjir hafa verið helztu áhrifavaldar tölts meðal stóðhesta gegnum tíðina og er fjallað um þann kafla erindisins á næstu blaðsíðu.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2003

Vesturlönd takast á

Punktar

Baráttan milli vestrænna ríkja fer harðnandi í kjölfar árásarinnar á Írak. Frakkland og Þýzkaland hafa myndað vísi að nýju varnarbandalagi með Belgíu og Luxemborg. Í Evrópusambandinu hafa kjarnaríkin Frakkland og Þýzkaland rúmlega helming efnahagslífsins og hyggjast nú breikka og dýpka samstarf sín í milli, einkum í hermálum. Bretland ítrekar, að heimurinn hafi aðeins einn stjórnmála- og hernaðarpól, þar sem eru Bandaríkin. Rússland hefur hafnað þessari einræðiskenningu og færist nær Frakklandi og Þýzkalandi. Þar sem róttækar hægri stjórnir eru við völd, á Ítalíu, Spáni, Danmörku og Íslandi, styðja þær Bandaríkin, sömuleiðis Pólland og sumar fleiri stjórnir í Austur-Evrópu, en aðrar tvístíga vegna viðskiptahagsmuna í Evrópusambandinu. Almenningur í öllum þessum löndum er hins vegar algerlega andvígur stríðinu við Írak og heimsyfirráðum Bandaríkjanna. Atlantshafsbandalagið er sjálfdautt, því að það getur ekki gert neitt nema einum rómi.

Hagsmunir kjósa líka

Punktar

Margir aðilar, fyrirtæki, samsteypur og erlend ríki hafa hagsmuni af úrslitum kosninganna. Dýrasti vinur Davíðs er deCode, sem vill fá 20.000.000.000 króna ríkisábyrgð eftir kosningar. Útgerðaraðallinn vill verja forréttindi sín gegn fyrningu kvótans. Landsvirkjun vill virkja meira í víðernum hálendisins. Bandaríkin vilja geta vitnað í tiltekinn fjölda ríkja, sem styðji heimsyfirráð þeirra. Á sama tíma hafa sumir stjórnmálaflokkar tvöfalt eða þrefalt meira fé milli handanna í kosningabaráttuni en þeir geta aflað með hefðbundnum leiðum.

Harmsaga sendiráðsmanns

Punktar

Bandaríski sendiráðsmaðurinn í Aþenu, sem sagði af sér til að mótmæla stríðsæstri utanríkistefnu Bandaríkjanna, John Brady Kiesling, skrifar langa grein í Boston Globe um aðdragana ákvörðunarinnar. Hann lýsir því, hvernig gamlir Ameríkuvinir í Grikklandi snerust vegna Íraksmálsins og hvernig Grikkir, sem voru kunningjar hans, vildu ekki lengur tala við hann. Hann skrifar um heiftarlega reiði almennings í garð Bandaríkjanna og viðbjóðinn, sem persóna og orðfæri George W. Bush vekur hjá venjulegu fólki í Grikklandi. Hann telur, að núverandi utanríkisstefna muni valda Bandaríkjunum stórfelldu tjóni. Hann telur, að Bandaríkin verði að læra af örlögum heimsvelda fortíðarinnar, áður en það verður orðið of seint.

Sefasýki og lungnabólga

Punktar

Hversu bráð, sem lungnabólgan fræga frá Kína er, þá er hún ekki bráðsmitandi, því að einungis einn af hverjum fimmþúsund íbúum Hong Kong hefur veikst af henni. Og ekki er hlutfall látinna hærra en í hverri annarri lungnabólgu. Skynsamlegt er að vera á varðbergi gegn henni eins og öðrum sjúkdómum. En sefasýki fjölmiðla og heilbrigðisyfirvalda er alveg út í hött, þar á meðal Íslandi. Gripið hefur verið til rándýrra aðgerða til að sýna fram á, að eitthvað sé gert í málinu. Efnahagslíf heimsins hefur orðið fyrir stórtjóni, ekki vegna lungnabólgunnar sjálfrar, heldur vegna sefasjúkra viðbragða opinberra aðila undir forustu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Philip Bowring skrifar um nokkra þætti málsins í International Herald Tribune.

Lýðræði með fyrirvara

Punktar

Stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna segir, að nú verði komið á fót lýðræði í Írak. Jafnframt segir hann, að ekki komi til mála, að þar verði klerkastjórn. Þar sem meirihluti kjósenda í landinu er strangtrúaður, þótt fátt sé um sálmaskáld á borð við strangtrúaðan ráðherrann, er tæplega til önnur lausn á málinu en sú, að kjörskrá hins nýja lýðræðisríkis takmarkist við þá trúarofstækismenn, sem sitja hinar frægu bænastundir með ráðherranum í bandaríska stríðsmálaráðuneytinu.

Ráðherra í skítverki

Punktar

Komið hefur í ljós, að Jón Kristjánsson ráðherra tók að sér það skítverk að láta fólk halda, að reist verði stífla í 566 metra hæð við Norðlingaöldu, en haga orðlagi úrskurðarins á þann hátt, að Landsvirkjun telur sér eigi að síður heimilt að reisa hana í 568 metra hæð. Blekking Jóns tvöfaldar flatarmál miðlunarlónsins úr 3,4 ferkílómetrum í 7,4 ferkílómetra og magnar tjónið á alþjóðlega viðurkenndu friðlandi Þjórsárvera. Gengishrun hefur orðið á orðum hins lúmska ráðherra, sem hingað til hefur ráfað um í sauðargæru.

Innheimt eftir kosningar

Punktar

Augljóst er, að einhverjir munu eftir kosningar telja sig eiga inni stóra greiða hjá stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn auglýsa hver fyrir sig í kosningabaráttunni fyrir tugmilljónir króna umfram það fé, sem fræðilega er hugsanlegt, að þeir geti aflað sér hjá gjöfulu og heittrúuðu stuðningsfólki. Sumir milljónagefendur vænta velþóknunar í einkavinavæðingu og aðrir geta hugsað sér að fá 20 milljarða króna ríkisábyrgð. Allt gengur þetta út á að misnota tök stjórnmálanna á atvinnulífinu. Spilltustu öflin í stjórnmálunum standa svo auðvitað fastast gegn auknu gegnsæi í fjárhagstengslum stórfyrirtækja og stjórnmálaflokka.

Tony Blair í kuldanum

Punktar

Hver dálkahöfundurinn á fætur örðum heldur því fram, að klofningur milli Bandaríkjanna og Bretlands annars vegar og kjarnaríkja Evrópusambandsins hins vegar sé orðinn djúpstæður og varanlegur. Kirsty Hughes segir í Observer, að á meginlandi Evrópu sé enn frekar en áður litið á Bretland sem aðskotadýr á útjaðri Evrópusambandsins. Nýju aðildarríkin í Mið-Evrópu muni taka upp evruna sem gjaldmiðil og smám saman taka afstöðu með kjarnaríkjum Evrópu, sem þegar eru farin að skipuleggja varnarmál sín framhjá Atlantshafsbandalaginu og Bretlandi, sem hvorki hefur tekið upp evru né er aðili að Schengen og gengur þar að auki yfirleitt erinda Bandaríkjanna í evrópsku samstarfi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sé úti í kuldanum í evrópsku samstarfi.

Colin Powell í kuldanum

Punktar

Svo ískalt er sambandið milli stríðsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, að Colin Powell utanríkisráðherra og fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu eru ekki einu sinni boðnir, þegar stríðsmálaráðuneytið heldur hanastél fyrir sendiherra smáríkjanna, sem studdu árásina á Írak. Maureen Dowd skrifar í New York Times um kalda stríðið milli ráðuneyta, þar sem annars vegar menn vilja stjórna heiminum með ógnunum, árásum og ofbeldi og hins vegar með samningum, hófsemi og fordæmum. Höfundurinn telur, að George W. Bush forseti hafi tekið afstöðu með hinum ofbeldishneigðu, stríðsmálaráðuneytið stjórni utanríkismálunum og að Colin Powell sé úti í kuldanum.

Frakkar sigla ótrauðir

Punktar

Franska ríkisstjórnin heldur sínu striki, þrátt fyrir stanzlausar yfirlýsingar bandarískra ráðamanna um, að Frakklandi verði refsað fyrir andstöðuna við stríðið við Írak. Hún telur, að refsiaðgerðir muni stranda á Heimsviðskiptastofnuninni. Hún neitar að löggilda árásina og hernám Íraks í öryggisráðinu. Hún krefst, að leitin að gereyðingarvopnum verði aftur látin í hendur Sameinuðu þjóðanna, þar sem vopnaleit Bandaríkjanna sem málsaðila sé ekki trúverðug og geti falsað gögn. Hún rekur kraftmikla utanríkisstefnu í þriðja heiminum og selur grimmt franskar vörur og franska þjónustu. Frá þessu segir Elaine Sciolino í New York Times. Spyrjið bara, hvor selji flugvélar grimmt þessa dagana, jafnt í Bandaríkjunum sem í Kína, Airbus eða Boeing.

Hver þarf bandamenn?

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að menn hafi talað í austur og vestur á virðulegri ráðstefnu Evrópu og Ameríku í vikunni. Atlantshafsbandalagið sé svo gott sem dautt, enda telja Bandaríkjamenn sig ekki þurfa lengur á föstum bandamönnum að halda, heldur kalla þá til einn og einn eftir hendinni. Þeir segja sig frá skuldbindingum bandalaga, þegar það hentar þeim. Þeir vilja engar vangaveltur og umræður, heldur skilyrðislausa hlýðni. Þeir hlusta gjarna á Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, en taka ekki neitt minnsta mark á því, sem hann segir. Evrópumenn segjast vera efnahagslega og fjárhagslega í betri málum en Bandaríkjamenn. Ruddaskapur Bandaríkjamanna sé að sameina þjóðir Evrópu í stuðningi við stjórnmálamenn, sem neita að hlýða Bandaríkjunum. Svo virðist, sem Bandaríkjamenn kveiki ekki á þessu.

Bush sameinar alla

Punktar

Jeremy Rifkind segir í Guardian, að George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi einstæða hæfilega til að sameina menn. Gegn sér. Enginn annar hafi getið sameinað aldagamla óvini, súnna og sjíta í Írak, gegn hernámi Bandaríkjanna. Enginn annar hafi getað sýnt milljónum Evrópumanna fram á, að þeir hafi sameiginlegt gildismat, sem sé gerólíkt gildismati helmings Bandaríkjamanna. Samhugur meginlands Evrópu er einstæður í sögu álfunnar. Þetta gildi ekki síður um almenningsálitið í þeim löndum, þar sem ríkisstjórnir studdu stríðið gegn Írak. Rifkind ræðir í greininni, hvert sé sameiginlegt gildismat Evrópumanna á nýrri öld, svo sem umhverfisvernd, mannleg reisn, þróunaraðstoð og stuðningur við Sameinuðu þjóðirnar.