Hver þarf bandamenn?

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að menn hafi talað í austur og vestur á virðulegri ráðstefnu Evrópu og Ameríku í vikunni. Atlantshafsbandalagið sé svo gott sem dautt, enda telja Bandaríkjamenn sig ekki þurfa lengur á föstum bandamönnum að halda, heldur kalla þá til einn og einn eftir hendinni. Þeir segja sig frá skuldbindingum bandalaga, þegar það hentar þeim. Þeir vilja engar vangaveltur og umræður, heldur skilyrðislausa hlýðni. Þeir hlusta gjarna á Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, en taka ekki neitt minnsta mark á því, sem hann segir. Evrópumenn segjast vera efnahagslega og fjárhagslega í betri málum en Bandaríkjamenn. Ruddaskapur Bandaríkjamanna sé að sameina þjóðir Evrópu í stuðningi við stjórnmálamenn, sem neita að hlýða Bandaríkjunum. Svo virðist, sem Bandaríkjamenn kveiki ekki á þessu.