Fjölmiðlun

Stýrt með röddinni

Fjölmiðlun

Innrás farsíma í tölvuheiminn hefur gengið hægar en vonað var. Netvæddir símar hafa komið til sögunnar, en þungt er að nota þá. Hafa ekki lyklaborð eins og Blackberry. Það er kleppsvinna að slá inn vefslóðir. Og hönnun vefsíðna aflagast í litlum símaskjá. Gagnaflutningur umfram skilaboð er á þessu ári aðeins 12% af símatekjum í stað þeirra 50%, sem spáð var fyrir sjö árum. Hugbúnaðurinn Android frá Google og iPhone frá Apple eru skref ársins í rétta átt. En meira þarf, ef duga skal. Til að nýtast vefnum þurfa símar að fara úr klossaðri stjórnun með hnöppum. Yfir í stjórn með rödd.

Leynd veldur vantrausti

Fjölmiðlun

Leynimakk um Orkuveituna vekur ekki traust. Stofnunin hefur verið staðin að undarlegu fjármálavafstri, sem samræmist ekki borgarstofnun. Innan hennar hafa risið embættismenn, sem vilja braska og hafa rífandi tekjur fyrir sjálfa sig. Með stuðningi pólitískt skipaðrar stjórnar. Orkuveitan hefur verið staðin að skrítnum samskiptum, sem flokkast undir mútur, samanber Ölfushrepp. Það er eins og stofnunin sé á kóki. Svo er fréttum lokað, þegar stýrihópur hyggst lækna sjúklinginn. Minnihlutinn lekur auðvitað sérvöldum atriðum og grunsemdir magnast. Meirihlutinn getur brennt sig illa á málinu.

Sérvizkan er sönn

Fjölmiðlun

Brezkir og bandarískir blaðamenn eru farnir að kortleggja stjórn opinberra heimilda á fjölmiðlun. Hvernig New York Times skýrði frá kjarnorkuvopnum í Írak. Sem reyndust ekki vera til. Sem Hans Blix hjá Sameinuðu þjóðunum var búinn að segja, að væru ekki til. Hvernig fjölmiðlar fjölyrða núna um kjarnorkuvopn Írana, sem þó eru ekki til. Svokallaðir “ábyrgir fjölmiðlar” á Vesturlöndum eru meðvirkar málpípur ósvífinna svindlara á borð við Tony Blair og George W. Bush. Sannleikur ríkisvaldsins er tekinn trúanlegur. Réttum upplýsingum um hið gagnstæða er vikið til hliðar sem sérvizku.

Tækni krefst stíls

Fjölmiðlun

Smám saman deyja kynslóðir, sem vanizt hafa lestri texta af pappír. Nýjar kynslóðir venjast skönnun texta á skjá. Yngsta kynslóðin notar tákn sem skilaboð í farsíma. Lestur er að breytast í skönnun. Bókstafir breytast í broskarla. Allt þarf að vera stutt og hnitmiðað. Þá er ekki rétta stundin til að fara úr knöppum ritstíl Íslendingasagna og Halldórs Laxness yfir í froðusnakk háskólamenntaðra. Þá er ekki rétta stundin til að leysa sagnorð af hólmi með nafnorðum. Tækni nútímans kallar á einfaldan og tæran texta. Samt eru fjölmiðlar nútímans meira eða minna enn í langdregnum froðustíl.

Siðferðisdvergarnir

Fjölmiðlun

Nýju fjölmiðlarnir kunna ekki mannasiði. Yahoo, Microsoft, Google og Rupert Murdoch sleikja ráðamenn Kína og taka á sig skyldur ritskoðunar til að fá svigrúm. Í bandarískri þingnefnd var stjóri Yahoo sagður siðferðisdvergur. Yahoo hafði afhent Kínastjórn tölvupóst, sem leiddi til tíu ára fangelsis Wang Xiaoning og Shi Tao. Þingmennirnir völtuðu kruss og þvers yfir Jerry Yang forstjóra. Full ástæða var til þess. Til sögu í fjölmiðlun eru komnir efnahagsrisar með víða hagsmuni og hamslausa ágirnd. Vestrænar leikreglur fjúka, þegar Kínastjórn veifar dollurum framan í nýju siðferðisdvergana.

Laskaðar klisjur

Fjölmiðlun

Gagnrýnendur textastíls í fjölmiðlum kvarta flestir um ranga notkun fastra orðasambanda. Að menn rugli þeim saman eða misskilji þau. Föst orðasambönd eru stundum kölluð orðtök, málshættir eða spakmæli. Sameiginlegt einkenni þeirra er hugtakið “klisja”. Einu sinni var sagt eitthvað minnisstætt og síðan tönnlast menn á því. Þótt sérhver notkun til viðbótar hinni fyrstu hafi bleytt í púðrinu. Einfaldara er að klippa klisjur en að fá fólk til að fara rétt með þær. Þótt klisjur kallist orðtök, málshættir eða spakmæli, leiðir notkun þeirra til flatneskju, ófrumleika og hugsunarleysis í texta.

Tvö orð eða tíu

Fjölmiðlun

“Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir slysi.” Þessi tvöfalda þvæla er einkennistexti íslenzkrar fjölmiðlunar. Í fyrri hluta málsgreinarinnar getur fjölmiðlungurinn hvorki fullyrt sjálfur um málsefni né borið neinn marktækan fyrir því. Hann brýtur fyrstu reglu blaðamennskunnar með því að fela sig að baki ónafngreindra heimildarmanna. Í seinni hlutanum fljúga slys um loftin og lenda á fólki. Eins og börn, sem sögð eru lenda á bílum og skemma þá. Einfalt og rökrétt er að orða svona: “Engan sakaði”. Eða “Enginn slasaðist”. Tvö orð segja skýra sögu, en tíu orð þyrla upp ryki.

Illa skrifað blað

Fjölmiðlun

Morgunblaðið hefur ævinlega verið illa skrifað. Í gamla daga var það frægt fyrir mogga-fjólurnar. Stíll blaðsins hefur versnað undanfarin ár með klunnalegum nafnorðastíl skólaritgerða. Þetta er fjölmiðill, sem skrifar: “Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir slysi.” Þegar tvö orð duga: “Engan sakaði”. Þegar ég kenndi textastíl fyrir fjölmiðla í vor, reyndist vel að nota forsíðu Moggans til leiðréttinga. Villurnar voru svo augljósar, þokan svo þétt. Í ljósi þessa var fyndið að lesa sjálfshól starfsmanns á blaðsíðu 30 í blaðinu í gær. Honum er sælt að vaða í villu um eigin sök.

Ómar er óþreytandi

Fjölmiðlun

Gaman er að hitta Ómar Ragnarsson og spjalla við hugmyndaríkasta mann, sem ég hef kynnzt. Hugur hans ólgar eins og fossarnir í Jökulsá gerðu fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ég er auðvitað sammála honum um hvert einasta orð um náttúru Íslands. Frábærast við Ómar er, að hann lætur vondar fréttir og vont fólk ekki buga sig. Hann er ævinlega léttur í lund. Við Ómar áttum í vikunni sameiginlegt fimmtíu ára afmæli í fjölmiðlun. Við hittumst fyrst 1957 í Skólablaðinu, sem gefið var út í Menntaskólanum í Reykjavík. Ég vil hins vegar síður sitja í flugvél hjá honum niðri í gljúfrum við Kárahnjúka.

Ótímabært andlát

Fjölmiðlun

Blaðið 24 stundir sótti fram í haustkönnun fjölmiðla. Að öðru leyti er lestur dagblaða í föstum skorðum hér. Heildarlestur hækkaði milli vors og hausts. Fríblöðin hafa þessi áhrif, þau eru meiri hluti pressunnar hér en annars staðar. Á vesturlöndum minnkar notkun dagblaða ár frá ári og hefur gert svo nokkra áratugi. Sum blöð hafa jafnað þetta upp með auknum lestri vefsvæða, en tekjur af því hafa verið litlar. Nú eru auglýsingar farnar að hressast á vefsvæðum fjölmiðla. Notendum finnst þau meira trausts verðar en önnur fréttasvæði á vefnum. Of snemmt er því að spá andláti dagblaða.

Persónuvernd í raun

Fjölmiðlun

Hugtakið persónuvernd er notað til að vernda glæpamenn fyrir samfélaginu. Dómarar nota það til að dæma blaðamenn fyrir að segja satt um skúrka. Nýlegir dómar gegn fjölmiðlum fjalla nærri eingöngu um mál af því tagi. Komið hefur í ljós annar flötur á persónuvernd. Lögreglan vísar til hennar, þegar hún neitar að afhenda húseigendum lögregluskýrslur um ólæti í fjölbýlishúsum. Fjöldi ölóðra Pólverja barðist með hnífum og slökkvitækjum í stiga fjölbýlishúss. Fólk varð yfir sig hrætt af skelfingu, en getur ekki losnað við ófögnuðinn. Persónuvernd hvílir nefnilega á lögregluskýrslunni.

Sími sigrar tölvur

Fjölmiðlun

Ég nota litla fartölvu, sem rúmar nákvæmlega lyklaborð af eðlilegri stærð, 27 sentimetra. Ég þarf svona stórt lyklaborð, af því að ég skrifa texta. Vonlaust væri fyrir mig að nota Blackberry lófatölvu. Skjárinn er bara tólf tommur hjá mér, en er samt of stór. Ég þarf að draga þessi 2,4 kíló með mér, hvert sem ég fer. Þarna eru farseðlarnir og öll bókunarnúmerin. Þarna er allt sambandið við umheiminn, Google og póstinn, jafnvel Skype. Þetta er auðvitað að verða úrelt. Nú koma símar, sem hver á fætur öðrum tekur yfir meira af hlutverkum tölvu. Lyklaborðið mun þó reynast þeim erfiðasta þúfan.

Próflausir blaðamenn

Fjölmiðlun

Egill Helgason birtir frábæran lista fólks, sem hefur stutta menntun, en samt náð langt í blaðamennsku. Þar eru ritstjórar og aðrir yfirmenn á fjölmiðlum og útgefandi á heimsvísu. Blaðamennska er samt ekki “síðasta athvarf próflausra”. Fremur er hún athvarf margra, sem hafa lært í skóla lífsins. Blaðamennska er nefnilega enn eitt handverkið. Rétt eins og hjá skurðlæknum og málflytjendum, prestum og rithöfundum. Langskólaganga getur nýtzt vel á sumum sviðum og hamlað þeim á öðrum. Til dæmis er textastíll oft ónothæfur hjá langskólagengnu fólki, þegar það byrjar á fjölmiðlum.

Andvaralausir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Hefðbundnir fjölmiðlar taka samkeppni nýmiðla ekki nógu alvarlega. Heilar kynslóðir verða fullorðnar án þess að lesa prentmiðla og sjá ljósvakamiðla. Þær lesa ekki, heldur skanna texta á skjá. Þær taka persónulega miðla á borð við Facebook og YouTube og MySpace fram yfir hefðbundna fréttamiðla. Nota GoogleNews í staðinn fyrir fréttamiðla. Vandinn er ekki bara, að ungt fólk vilji ekki borga fyrir fjölmiðla. Það kærir sig hvorki um að sjá né lesa hefðbundna miðla. Aukin nærvera hefðbundinna fjölmiðla á vefnum jafnar þetta ekki. Enn síður dugar hún í tekjuöfluninni. Google hirðir aurinn.

Þjóðir og ríki

Fjölmiðlun

Bandaríkin eiga einn stuðningsmann í Pakistan. Það er Pervez Musharraf og er einræðisherra. Þegar hann fellur, láta trúarofstækismenn að sér kveða. Verður sárt fyrir Bandaríkin. Einkennilegt er, að ráðamenn og fjölmiðlar í Bandaríkjunum rugla saman hugtökunum þjóð (nation) og ríki (state). Þannig segir New York Times, að sex þjóðir styðji aukna hörku gegn Íran. Það er rangt. Það eru sex ríki, sem styðja þetta. Þjóðirnar að baki eru auðvitað andvígar aðgerðunum. En í Bandaríkjunum finnst þeim fínt að hafa aðgang að einum landsföður. Og hugsa ekki um, að á morgun verður hann búinn að vera.