Author Archive

Verndari flugfarþeganna

Punktar

Evrópusambandið bætir rétt flugfarþega. Hefur hækkað bætur, sem flugfélög þurfa að greiða vegna seinkunar, yfirbókana og brottfalls flugs. Mörg lönd fara ekki eftir reglunum, einkum Bretland. Evrópusambandið krefst umbóta. Samkvæmt rannsókn þess eru 55% seinkana af völdum flugfélaganna sjálfra, 16% vegna flugvalla og aðeins 9% vegna veðurs. Núna á að borga 600 evrur eða yfir hundraðþúsund krónur hverjum farþega, sem missir af flugi vegna yfirbókunar eða brottfalls flugs. Á flugvöllum eiga að vera skýrt merkt borð, þar sem greiddar eru skaðabætur fyrir yfir tveggja tíma seinkanir.

Uppruna- og umhverfisvottorð

Punktar

Upprunamerki á íslenzkum sjávarafurðum hefur gildi, samanber slík merki á vörum frá Ísrael. Ég ætlaði að kaupa klettasalat um daginn, hrökk við, þegar ég sá pakkann merktan Ísrael. Hætti við að kaupa, því að orðið Ísrael hefur neikvæða ímynd í huganum. Viðhorf útlendinga til íslenzks upprunamerkis geta líka verið upp og ofan. Geta til dæmis tengst skoðun þeirra á hvalveiðum og stóriðju og ofveiði. Til að upprunavottorð komi að gagni, þarf áður að vera til umhverfisvottorð um sjálfbæran atvinnuveg. Til dæmis Marine Stewardship Council. Íslenzkur sjávarútvegur hefur enga slíka vottun og fær hana ekki.

Fréttablað og sendibréf

Fjölmiðlun

Fréttablaðið er ekki málgagn Flokksins, þótt ritstjóri þess sé fyrrverandi formaður og forsætis. Þorsteinn Pálsson rekur Fréttablaðið sem hvert annað fréttablað. Þar eru ábyrgar fréttir, sem eru meira eða minna áreiðanlegar. Hef ekki séð þar neina undiröldu í þágu Flokksins. Líklega var Fréttablaðið eins og aðrir fjölmiðlar bláeygt á útrásarvíkinga í kreppunni í haust. Eins og aðrir tók blaðið við sér um mánuði eftir hrun. Mér finnst Fréttablaðið samt ekki gæta hagsmuna útrásarvíkinga. Leiðarar Þorsteins eru svo sérstakur kapítuli, sendibréf innan Flokksins, ekki áhugaverðir fyrir mig eða aðra.

Írsk og íslenzk kurteisi

Punktar

Í sundlauginni á Nesinu heilsa 70%, 20% taka undir kveðju og 10% stara bara í gólfið. Hlutföllin eru öfug í ræktinni við hliðina. Þar heilsa 10%, 20% taka undir kveðju og 70% stara í gólfið. Að nokkru skýrist þetta af aldri, í sundinu er roskið fólk og ungt fólk í ræktinni. Kurteisi í sundi er þó ekki eins mikil og kurteisi á vesturströnd Írlands. Þar heilsa þér allir, hvort sem er á gangstétt eða úti á vegi. Ég var á bílaleigubíl milli sjávarþorpa og varð að veifa fólki þúsund sinnum á dag. Írar eru kurteisari en nokkur önnur þjóð, sem ég hef hitt. En líkamsræktarfólk er óvenjulega sjálfmiðjað.

Fatlaði forsetinn

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson er fatlaður eins og Hannes Smárason. Þeir leggja í bílastæði fatlaðra, þegar mikið liggur við. Engu máli skiptir, hversu lengi bíllinn er í stæðinu, hugarfar beggja er hin sama. Báðir telja sig fatlaða eða að minnsta kosti ígildi fatlaðra. Þetta er hugarfar frá þeim tíma, er fjárglæframenn töldu sér öll meðöl heilög. Misnotkun á stæðum fatlaðra varðar sektum og er verið að hækka þær núna. En báðir sluppu við sektina.

Skattskrár á vefnum

Punktar

Borgar Þór Einarsson telur upplýsingar um tekjur og efnahag þær viðkvæmustu í samfélaginu. Það er kolrangt, þessar upplýsingar eiga að vera gegnsæjar. Peningar eru ekki einkamál. Slíkt skiptir sérstaklega miklu, þegar traust er að mestu horfið, samanber bankaleynd. Hún er nú að hverfa um öll vesturlönd. Frjálshyggjugaurar eins og Borgar vildu bankaleynd, tekjuleynd, leynd á öllum sviðum. Af því að þeir misnotuðu leyndina. Nú sýpur þjóðin seyðið af allri þessari leynd. Í staðinn er kominn tími gegnsæis á allt, sem varðar peninga. Skattskrár eiga að liggja frammi allt árið á vefnum, opnar öllum.

Allir sáttir við sína

Punktar

Prófkjörin um helgina voru samfelld sigurganga hinna vanhæfu. Örfáir drógu sig í hlé, Geir, Árni, Ingibjörg. Upp stigann risu ungir menn, sem voru næstir í biðröðinni og eru alveg eins og hinir eldri. Allir hinir vanhæfu voru verðlaunaðir fyrir frammistöðuna. Niðurstaða prófkjöranna var, að fylgismenn allra flokka eru sáttir við sína menn. Allt er eins og áður var og ekkert hefur gerzt. Nema prentvilla í texta Evrópusambandinu, sem olli hruni Íslands. Ekkert er neinum að kenna, alls ekki persónugera vandamálið.

Rekið Ólaf Þór Hauksson

Punktar

Haldið er fram, að sérstakur saksóknari efnahagsbrota hafi ekki byrjað neina rannsókn að eigin frumkvæði. Hann ráfi um skrifstofurnar og láti taka myndir af sér við tómar skjalageymslur. Hafi skoðað fáar ábendingar um bankahrunið, en ekki hafið neina rannsókn. Hafi kallað innan við tíu heimildamenn til yfirheyrslu. Ef einhver þessara fullyrðinga er rétt, á strax að reka Ólaf Þór Hauksson. Hugsanlega vill hann vel, en starfsgetan er í lágmarki. Alls konar svindl hefur verið í fréttum síðustu vikur. Öllum má ljóst vera, að hefja þarf alvöru vinnu á skrifstofum embættisins. Ráðið Evu Joly strax.

Loftbóluflokkurinn

Punktar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir Samfylkinguna vera loftbóluflokk, fæddan við upphaf loftbóluhagkerfisins. Formaður Framsóknarflokksins vísar þar til upphafs þess tíma, er allt fór að ganga út á ímynd og hannaða atburðarás. Hann telur miklu síður hægt að treysta á Samfylkinguna en vinstri græna. Mikið er til í kenningu Sigmundar. Samfylkingin einkennist af fiffum og brögðum, eins og brezkir kratar eftir valdatöku hinna innihaldsrýru Tony Blair og Gordon Brown. Tími Ingibjargar Sólrúnar hefur einkennzt af slíkum loftbólum. Gamall kratismi Jóhönnu Sigurðardóttur gefur þó von um framtíð.

Sjóðurinn þoldi eitt prósent

Punktar

Eitt prósent var það, sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn þoldi. Hann stjórnar Seðlabankanum. Við þessu er ekkert að gera. Verst er, að hagfræði Sjóðsins er vond og hefur alltaf verið. Hann hefur víða um heim gert óskunda. Verst er, að hann metur peninga framar öllu öðru. Fyrsta lögmál sjóðsins er, að eigendur fjármagns fái allt sitt til baka. Sjóðnum er andskotans sama um allt fólk, það getur bara étið það, sem úti frýs. Sautján prósent vextir eru auðvitað manndrápsvextir í hagkerfi, sem liggur afvelta. Sautján eða átján prósent? Hvort tveggja svífur hátt yfir greiðslugetu fólks og fyrirtækja.

Hríseyjarkræklingur í Humarhúsinu

Veitingar

Fínn hádegismatur í Humarhúsinu í dag. Fyrst hrá hrefna kryddlegin, svonefnt sashimi, með þurrkuðum engifer, örlítið krydduðum piparrót. Svo Hríseyjar-kræklingur í skelinni með smásöxuðu grænmeti, sterkri kræklingasúpu og kartöflustöppu. Hrefnan fín og kræklingurinn frábær. Stappan var óþörf. Bláberjaís með súkkulaðiköku og jarðarberjum fyllti upp með hitaeiningum. Heimagert konfekt með kaffinu. Humarhúsið er eitt þriggja beztu veitingahúsa Íslands, með næmri matreiðslu á fiski. Er utan við tízku myndlistar- og höggmyndaeldhúsa. Hádegis tveggja rétta á 2900, þriggja rétta á 3400 krónur.

Fáir halda með börnunum

Punktar

Sumir telja mestu máli skipta að bæta tjón innistæðueigenda. Þeir meta fé meira en fólk. Þannig var síðasta ríkisstjórn. Aðrir telja mestu máli skipta að bæta tjón skuldara. Þeir meta fólk meira en fé. Þannig er nýja stjórnin. Hvorir tveggja vilja, að börn okkar og barnabörn borgi brúsann. Við hinir erum síðan fáir, sem teljum skyldu okkar að vernda börn okkar og barnabörn fyrir ríkisstjórnum frjálshyggju og sósíalisma. Við viljum, að ríkið borgi engin tjón, eigendur innistæðna fái ekki eina krónu og skuldarar fái bara lengingu og lægri vexti. Við heyrumst fáir meðal pólitíkusa og álitsgjafa.

Seðlabanka-pólitíkusar

Punktar

Hannesi Hólmsteini og Halldóri Blöndal var steypt úr bankaráði Seðlabankans. Það er fínt, en að öðru leyti er þar sama tóbakið. Þar er forni ráðherrann Ragnar Arnalds, uppgjafapólitíkusinn Ágúst Einarsson og fleiri flokkshestar. Siðvæðing samfélagsins hefur aðeins að hálfu haldið innreið í Seðlabankann. Það sýnir, að fjórflokkurinn hefur enn sterk flokkstök á ríkinu. Jafnvel í ráði, sem er áberandi og ætti að vera fullt af þar til hæfum sérfræðingum.

Fyrirsláttur um persónukjör

Punktar

Persónukjör er gott í kosningunum, þótt flest prófkjör séu búin. Flokkarnir bera þá fram lista í samræmi við prófkjörin, en kjósendur geta breytt þeim. Ég sé ekki óeðlilegan tvíverknað við það í núverandi tímahraki. Persónukjör er betra en prófkjör, færir prófkjörin inn í sjálfar kosningarnar. Þátt í prófkjörinu taka þá ekki aðrir en kjósendur flokksins. Ég sé heldur ekkert óeðlilegt við, að greiðendur utankjörstaðaatkvæða hafi takmarkaðan rétt. Þeir hafa ekki getað beitt útstrikunum eða breytt röð frambjóðenda hingað til. Svo að það er ekkert nýtt í slíku. Bara fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks.

Heilaþveginn bankastjóri

Punktar

Mér er sem ég sæi Finn Sveinbjörnsson bankastjóra, ef ég heimtaði núna 850 milljón króna kúlulán með veði í eignalausu einkahlutafélagi. Hann fékk slíkt fáránslán á græðgistíma sínum. Fyrir rúmu ári, þegar hann var í álögum hjá skrímsli, sem stýrði grægði bankamanna. Í þungum álögum, 850 milljón króna græðgi. Nú er hann laus úr álögum, orðinn prins, bankastjóri Kaupþings. Hefur gefið sér syndakvittun í viðtali við DV. Þar segist hann vera heilaþveginn og orðinn líkur venjulegum manni. Með nýtt gildismat. Því sé óhætt að hafa hann bankastjóra. Vantar ekki heilann í bankaráð Finns?