Fá að leika lausum hala

Punktar

Erlendis komast þingmenn og aðrir pólitíkusar ekki upp með botnlaust bull og fleipur. Pressan tekur þá fyrir, greinir sundur bullið og fær fræðimenn til að salla þá niður. Þar kæmust Árni Páll Árnason og Magnús Orri Schram ekki upp með að muldra í síbylju, að málþóf hindri framgang nýrrar stjórnarskrár. Erlendis mundi pressan reka lög um alþingi upp að nefinu á úreltu gaurunum. Mundi spyrja þá, hvernig þeim dettur í hug að fara með slíkt fleipur. Hér fá þeir hins vegar óáreittir að endurtaka bullið. Þurfa ekki að svara sértækum spurningum um ákvæði í lögum, sem mæla fyrir um, hvernig málþóf sé stöðvað.

Eldhús sjónhverfingamanna

Punktar

Samkvæmt stjórnarandstöðu Sjálfstæðis og Framsóknar er hægt að leysa vanda þjóðarinnar með einu pennastriki. Með því að lækka skatta. Þannig má efla  hag heimilanna og auka félagslega velferð, til dæmis bjarga Landsspítalanum. Allt með því að lækka skatta. Einkum lækka skatta á auðfólk og fyrirtækja sem veiða í þjóðareign sjávarins, svo og stimpilgjöld og vörugjöld. Samkvæmt löngu hrakinni kenningu frjálshyggju um, að lækkun skatta fylli ríkissjóð. Á eldhúsdegi alþingis var þetta allt svona einfalt. En Sigmundur Davíð tekur sig bezt út í gervi sjónhverfingamanns við að draga kanínur upp úr hattinum.

Trúa öllum Nígeríubréfum

Punktar

Sigurður G. Tómasson lýsir vel stefnu hrunflokkanna: “Lækka skattana, borga skuldirnar, reka alla kommana og svo fá allir sleikjó á eftir.” Kristinn Hrafnsson lýsir vel vinsælustu flokkum landsins með ímyndaðri skoðanakönnun: “Veldu reynsluna. Við rústuðum Íslandi, en það var geðveikt gaman”, 33%. “Það var hárrétt að hunsa heilbrigða skynsemi. Gerum það aftur”, 18%.”.. “Ég kann spila á gítar og vinur minn á harmoníku”, 13%. Er nokkur furða, þótt margir telji íslenzka kjósendur afspyrnu heimska og altjend óvenjulega lausa við allt, sem heitir minni. Trúa sérhverju Nígeríubréfi, sem þeim berst.

Uppnám Samfylkingar

Punktar

Stjórnarskráin nýja hefur verið í uppnámi síðan Árni Páll Árnason tók að sér að slátra henni. Hún komst ekkert í meira uppnám við að koma aftur fram í breytingartillögu. Kenning Magnúsar Orra Schram í sjónvarpinu í kvöld var bull. Margrét Tryggvadóttir segir réttilega, að alþingi beri skylda til að taka afstöðu til uppkastsins. Meira er uppnámið ekki af hennar völdum. Allt uppnám í málinu er Samfylkingunni að kenna, tilraunum hennar til að þjóna hugðarefnum Sjálfstæðisflokks. Því er réttlátt, að fylgi Samfylkingarinnar hefur rýrnað um helming. Við þurfum ekki tvo Sjálfstæðisflokka, einn nægir.

 

Flett ofan af svikurum

Punktar

Nú súrnar heldur betur plottið hjá stjórnarsinnum, sem þóttust vilja nýju stjórnarskrána, en tefldu henni í öngþveiti á alþingi. Margrét Tryggvadóttir hefur unnið það afrek að leggja nýju stjórnarskrána fram sem breytingu á frávísunartillögu flokksformanna. Arfavitlausri frávísun Árna Páls Árnasonar Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar er þar með stefnt í voða. Þegar tillaga Margrétar verður borin undir atkvæði, kemur skýrt í ljós, hve lítil eru heilindi alþingismanna. Þá munu stjórnarskrársinnar taka vel eftir hvernig atkvæði einstakra þingmanna falla. Alls ekki þarf að kjósa þá í vor.

Vond gisting og matur

Ferðir

Vandi ferðaþjónustu felst ekki í of mikilli fjölgun hótela, þótt bransinn haldi því fram. Vandinn felst í þessu venjulega eftirlitsleysi ríkisins. Svört gisting eykst örar en önnur gisting og ekkert er gert í því. Í henni felst óheiðarleg samkeppni við þá gistingu, sem er uppi á borðum. Og svo eru komnir í bransann nokkrir gullgrafarar. Verðleggja gistingu eða mat langt umfram léleg gæði, sem þeir bjóða. Sögur af vondri gistingu og vondum mat sjást ótt og títt á veraldarvefnum. Gullgrafararnir okkar eru að venju þegar farnir að skaða ferðaþjónustuna og um leið framtíðartekjur okkar af henni.

Gæfuhjól Framsóknar

Punktar

Misjöfn gæfa Framsóknar og Sjálfstæðis stafar af, að Framsókn skipti um formann og þinglið eftir hrun. Sjálfstæðis burðast enn með formann og kandídata úr ofurgræðginni fyrir hrun. Sigmundur Davíð var líka róttækari í IceSave, sem er Íslendingum hjartans mál. Er líka iðnari við að endurskrifa söguna, segir ríkisstjórnina hafa afhent vogunarsjóðum bankana. Gleymir, að það var að kröfu Framsóknar. Segist líka hafa hvatt til kaupa ríkisins á kröfum í bankana á botngengi. En gögn um þá hvatningu er hvergi að finna. Sigmundur er þannig hraðlygnari en Bjarni. Gleður fábjána og magnar fylgið.

Þá dreymir um ofbeldi

Punktar

Svo vissir eru ofbeldishneigðir sjálfstæðismenn um kosningasigur, að þeir eru farnir að hóta fréttamönnum. Styrmir Gunnarsson segir mannabreytingar nauðsynlegar á fréttastofunni. Jón Gunnarsson segir rétt að fækka þeim, sem grunaðir eru um samfylkingu eða vinstri grænt. Ofbeldishneigðin er arfur frá Davíð Oddssyni, sem enn er dýrlingur þeirra. Stjórnaði landinu með ógnunum. Verkfræðingar og náttúrufræðingar þorðu ekki að andmæla Kárahnjúkavirkjun af ótta við atvinnumissi. Davíð lagði niður heila Þjóðhagsstofnun til að sýna mátt sinn. Og vitgrannir kjósendur vilja fá bófaflokkinn aftur til valda.

Mammútur Ólafs floppar

Punktar

Nokkrum sinnum hef ég kvartað yfir hægagangi í störfum Sérstaks saksóknara. Sárafáum málum er lokið á þann hátt, að þau séu komin fyrir dómstóla. Fyrir nokkrum árum lofaði Ólafur Þór Hauksson meiri hraða í afgreiðslu mála. Með örri fjölgun starfsmanna hefur starfið skriðð hægar. Því hægar sem mál hafa skriðið, þeim mun meira hefur aukizt þögn Sérstaks saksóknara. Nú er þar allt orðið leyndó að hefðbundnum hætti yfirstéttar íslenzkra embættiskónga. Ekki er lengur vitað neitt um, hvort einhver sakamál birtist upp úr þessu Pandóruboxi hans á næstu mánuðum. Hundrað manna mammútur Ólafs er að floppa.

Þjóðaratkvæði í vor

Punktar

Frábær er sú hugmynd að hafa þjóðaratkvæði um núverandi frumvarp að nýrri stjórnarskrá samhliða alþingiskosningum í vor. Þar með væri slegið föstu, hvort þjóðin vill þessa nýju stjórnarskrá eða ekki. Nýtt alþingi fengi að vísu tækifæri til að sparka enn einu sinni í þjóðina. En sú ákvörðun er þá bara vandi þess alþingis. Of mikið hefur verið fullyrt í allar áttir á þingi um kosti og galla þessa nýja frumvarps. Því er gott, að þjóðin fá tækifæri til að segja sitt álit. Frumvarp um það má afgreiða samhliða afgreiðslu stjórnarskrárinnar. Í því skyni má lengja þingtímann til næstu mánaðamóta.

Mývatni slátrað næst

Punktar

Þetta er verk pólitíkusa, sem voru geðbilaðir af frekju. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu að valta yfir Skipulagsstofnun. Hún hafði varað við flutningi Jökulsár yfir í Lagarfljót. Fljótið “var eyðilagt vísvitandi af spilltum stjórnmálamönnum”, segir Andri Snær Magnason um Davíð og Halldór “ofbeldismenn”. Það er rétt lýsing á hrottafenginni frekju og yfirgangi, sem höfundar hrunsins sýndu landi og þjóð. Kominn er tími til að setja dólgana bak við lás og slá. Fá loksins frið í landinu fyrir dólgum, sem blindast af sínu pólitíska valdi. Næsta skref næstu frekjudólga verður að eyða Mývatni.

Nægur tími á alþingi

Punktar

Ekkert í lögum bannar fundi alþingis allt fram að kjördegi. Engin lögmál segja, að þingmenn eigi að hafa styttri vinnutíma en aðrar stéttir. Þeir hafa fátt þarfara að gera en að ræða nýja stjórnarskrá næstu fimm vikur. Ákveði þeir að fara í frí löngu fyrir kjördag, eru þeir að misnota aðstöðu sína. Stjórnarskráin hefur verið meira en nógu lengi í vinnslu. Á öllum stigum málsins verið tekið tillit til meintra sérfræðinga. Nú síðast til vitringa frá Evrópu. Á öllu þessu hefur þegar verið tekið. Alþingi er því ekkert að vanbúnaði að fara í fimmtíu stunda málþóf og greiða síðan atkvæði.

Hástig sjónhverfinga

Punktar

Afkastamesti sölumaður snákaolíu á landinu er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Getur haft tvö gagnstæð trix á lofti samtímis. Í fyrsta lagi hyggst hann stela peningum erlendra fjárfesta til að borga skuldir fólks í of stórum íbúðum. Í öðru lagi hyggst hann laða erlenda fjárfesta til landsins til að fjármagna gæluverk Framsóknar. Mikla hæfileika til sjónhverfinga þarf til að ná báðum markmiðum samtímis. En hann veit, að aldrei hefur neinn tapað á að vanmeta greind almennings. Þess vegna flykkist fylgið þeim mun meira til Framsóknar sem Sigmundur Davíð lofar fáránlegri pennastrikum út og suður.

Stóri bróðir blankur

Punktar

Um daginn var fjallað um aðgang að lyfjum, sem kosta nokkra tugi þúsunda króna á ári og hægja bara á sjúkdómi. Því hökti það í tryggingakerfinu. Samt eru þetta smáaurar í samanburði við ýmsar varnir eða frestanir gegn ýmsum sjúkdómum, bæði lyf og síur. Geta lyfjafræði og læknisfræði við að búa til lyf og síur vex margfalt hraðar en geta samfélagsins við að borga aukinn sjúkrakostnað. Kostnaður við suma sjúkdóma verður svo hár, að fyrr eða síðar setjast kerfismenn niður við að velja og hafna. Ekki getur ríkið endalaust borgað ofsadýrar nýjungar. Sumu verður hafnað, því Stóri bróðir er blankur.

 

Hundrað milljörðum stolið?

Punktar

Því meira sem reynt er að hindra birtingu símtals Davíðs og Geirs 6. október 2008, þeim mun meira stækkar málið. Enda snýst það um 500 milljón evrur, sem gætu numið 100 milljörðum króna á réttu gengi. Snýst um meira fé en kostnað við nýja Landspítalann. Alvarlegar spurningar hafa birzt í fjölmiðlum: Hver var tilgangur fjárveitingar Seðlabankans á hrundeginum? Í hvað átti aurinn að fara? Hvers vegna fór peningurinn til Deutsche Bank, en ekki til London? Átti ekki að bjarga fyrirtæki Kaupþings þar? Hvað varð um peninginn, stal einhver honum? Kannski smámál fyrir Davíð, en stórmál fyrir kvalda þjóð.