Gamla Ísland endurheimt

Punktar

Þrennt stendur upp úr viðræðum silfurskeiðunga í ættarbústaðnum. Verið er að finna leið út úr loforðavanda Framsóknar, búa til hókus-pókus um skuldavanda heimilanna. Verið er að ákveða fækkun skattþrepa, sem silfurskeiðungar kalla einföldun skattkerfisins. Þannig færa þeir Ísland nær löndum Sovétríkjanna sálugu og Sádi-Arabíu. Í þriðja lagi skiptir miklu hin sálræna yfirlýsing um fundarstað í ættarbústað. Ættirnar, sem eiga ríkið, hafa endurheimt völdin og falið silfurskeiðungum sínum að semja um helmingaskiptin. Umbar auðgreifa og kvótagreifa eru að gera díl. Gamla Ísland er komið aftur í boði kjósenda.

Góður alþýðustíll

Fjölmiðlun

Mér sýnist ekki á bloggi og fésbók, að íslenzka sé á undanhaldi. Þekki þó ekki athugasemdir við blogg, því að ég les ekki nafnlaus skrif. En bloggið sjálft og umræða á fésbók eru nánast með réttri málfræði og stafsetningu. Meira máli skiptir þó, að setningafræði og stíll á þessum skrifum er líka í góðu lagi. Íslenzkur alþýðustíll er kjarnyrtur eins og hann hefur ævinlega verið. Undinn stíll háskólaritgerða endurspeglast ekki í umræðu almennings á veraldarvefnum, sem betur fer. Góð regla er þó, að lesa ekki blogg, sem fer yfir 200 orð. Þeim, sem lengra skrifa, er hætt við þoku og þvoglu í hugsun.

Þú veizt allt áður

Ferðir

Skrifaði margar ferðabækur um erlendar stórborgir 1973-1996. Sagði meðal annars kost og löst á hótelum og veitingahúsum. Hafði skömmu áður byrjað að skrifa innlenda veitingarýni og síðan haldið því áfram, en sjaldnar upp á síðkastið. Þessi rýni var barn síns tíma. Nú eru komnir vefir, sem sérhæfa sig í þessu, einkum TripAdvisor. Þar má sjá nýjustu lýsingar viðskiptavina, jákvæðar eða neikvæðar eftir atvikum. Þetta hefur gerbreytt ferðaþjónustu í heiminum, því rekstraraðilar vilja fækka skömmum um sig. Nú kemur þér fátt á óvart, þegar þú velur hótelherbergi eða veitingaborð. Þú veizt allt áður.

Má satt kyrrt liggja?

Fjölmiðlun

Á fésbók er góð regla að segja ekkert, sem ekki er hægt að segja á kaffihúsi eða í fermingarboði. Hins vegar þýðir það ekki, að einkum skuli satt kyrrt liggja. Ég get sagt, að Jón sé vitleysingur, en ég verð að rökstyðja málið. Annars væri það bara upphrópun út í loftið, lýsing á reiði minni. En flytji ég rök að vitleysu Jóns, fylgi ég bara þeirri reglu, að eigi megi satt kyrrt liggja. Því miður hneigjast margir Íslendingar að óhóflegri kurteisi. Þótt þeir búi í samfélagi, sem kallar iðulega á sterk orð. Einfaldlega af því, að margt fer hér úrskeiðis. Til dæmis haga kjósendur sér eins og fáráðlingar.

Hótanir útvatnaðar

Punktar

Kjósendur hafna ekki eða játast flokkum, stefnu eða gerðum. Nánast allar skoðanir eru minnihlutaskoðanir. Jafnvel skuldaniðurfærsla Framsóknar hefur aðeins 25% fylgi. Í lýðræði taka flokkar sig saman, sem hafa samtals yfir 50%, bræða saman atriði úr loforðum/hótunum aðila og mynda stjórn. Reynslan sýnir, að sáttmálar eru bara pappír, í bezta falli leiðbeiningar. Ekkert segir, að B og D verði að setja ríkið á hausinn. Lækkun ríkistekna og hækkun útgjalda eru bara loforð eða hótanir flokkanna. Skuldaniðurfærsla Framsóknar fær að venju skoðun sérfróðra. Úttektin mun leiða til útvötnunar hótana.

Röng forgangsröð

Punktar

Sé gott að græða fé á því að rupla þá, sem kallaðir eru hrægammar, á að nota fenginn í allt annað en flata niðurgreiðslu húsnæðisskulda. Hún mun að mestu renna til þeirra, sem tóku óhófslán vegna óhófshúsnæðis. Ríkissjóður þarf sjálfur þetta fé til að efla Landsspítalann og létta lyfjakostnað fólks. Og svo þarf hann að eiga næstum hundrað milljarða í afgang á ári hverju, bara upp í vexti. Þeir stafa af kostnaði við stofnun nýrra viðskiptabanka og endurreisn gjaldþrota Seðlabankans fyrir fimm árum. Ríkissjóður getur ekki á sama tíma verið að strá peningum yfir ofurfrek gæludýr silfurskeiðunganna.

Fráleit niðurfærsla

Punktar

Því meira sem ég hugsa um flata skuldaniðurfærslu Framsóknar, því meira sýnist hún út í hött. Ekkert vit er í að nota sameiginlegt fé okkar til að borga fyrir þá, sem steyptu sér í rosaskuldir til að eignast 400 fermetra húsnæði. Meginhluti flatrar niðurfærslu fer í að greiða slíkt óhóf og það er fráleitt. Því miður er óráðsíufólkið öflugt og liggur á Framsókn með kröfur sínar. Það eina, sem hægt er að gera fyrir þetta fólk, er að gefa því kost á að skila lyklunum og ganga út skuldlaust. Lyklaleiðin er sanngjarnari en flata niðurfærslan, sem er á kostnað þeirra, sem ekki höfðu ráð á að skulda.

Að segja eða sýna fréttir

Fjölmiðlun

Í gamla daga SÖGÐU fréttamenn sannar sögur. Þegar sjónvarpið kom, fóru þeir að SÝNA sannar sögur. Þáttaskil voru sögð hafa verið í fyrra Persaflóastríði Bandaríkjanna. Fréttir CNN voru taldar sanna yfirburði þess að sýna fréttir í stað þess að segja þær. Var rugl, stríð CNN fólst í talandi hausum í garði Hilton í Rijad í Sádi-Arabíu. Við lásum svo löngu síðar í bókum, að þetta var sýndarstríð, CNN hafði sýnt skjámyndir úr tölvuleikjum. Svo kom vefurinn og menn fóru aftur að segja fréttir, fremur en að sýna þær. Sjónvarpið hafði komið og farið sem fréttamiðill, enda er það fyrst og fremst skemmtimiðill.

Indjáni í Danmörku

Punktar

Beinagrind af konu í Danmörku frá tíma Vínlandsfundar sýnir, að hún var fædd í Danmörku af ættum indjána. Þessi merki fornleifafundur við Otterup á Fjóni staðfestir tengsl Norðurlanda við Ameríku á tímum Guðríðar Þorbjarnardóttur, víðförlustu konu víkingaaldar. Tennur sýna uppvöxt í Danmörku og erfðaefni er það sama og indjána. Þetta kom fram í arkeometríu, fræðigrein, sem tengir saman fornleifar og náttúruvísindi. Strontíummagn í tönnum sýnir uppvöxt í Danmörku og haplotýpan X2c sýnir ættir frá indjánum í Norður-Ameríku. Ef til vill var samgangur milli heimsálfa meiri en bara ferðir Þorfinns og Leifs.
(Videnskab.dk)

Sældartími kverúlanta

Punktar

Sældartími verður framundan undir stjórn B og D. Ýmsir skattar lækka, einkum á ríku fólki. “Gróði” ríkisins af minni tekjum þess verður sendur þeim, sem höfðu ráð á að kaupa stærstu húsin, ríka fólkinu. Gróðinn af TAPI ríkisins verður nefnilega sendur þeim, sem eiga B og D með húð og hári. Utan um sigur gróðakarlanna verður búinn til hókus-pókus að hefðbundnum hætti framsóknar. Þetta verður einkum gósentíð fyrir okkur kverúlantana, sem eigum eftir að skrifa um framvinduna á þessum ósköpum. Yndislegt verður að lesa rökin, sem silfurskeiðungar munu búa til fyrir yfirvofandi samningi um ríkisstjórn.

Stikkfrí kjósendur

Punktar

Nú fer málið að vandast. Afhenda þarf peningana, sem kjósendum Framsóknar var lofað. Hverjir fá, þeir sem tóku á leigu eða þeir sem þurfa á lyfjum að halda eða uppskurði á Landsspítala? Sennilega ekki, forgangsröðin byrjar á þeim, sem mestu óráðsíulánin tóku, 90% framsóknarlánin sælu. Þegar búið er að ljúga einu, þarf að ljúga aftur og aftur til að viðhalda lyginni. Gamalt loforð kallar á nýtt. 90% óráðsíulán framsóknar urðu að forsendubresti, sem framsókn ætlar að leysa með nýjum hókus-pókus. Þetta verður orðið skrautlegt áður en yfir lýkur. En taka kjósendur einhverja ábyrgð á öllu sínu rugli?

Fídus í Hafnarbúðum

Veitingar

Mar í Hafnarbúðum er fídus fremur en matreiðsla. Sögð frá Suður-Ameríku og Miðjarðarhafslöndum. Einkennisréttur staðarins er piadina, stökkt flatbrauð úr hveiti og olífuolíu, ættað frá Emilia-Romagna á Ítalíu. Brotið yfir volgt innlegg. Prófaði eina með léttsöltuðum þorski (2000 krónur), aðra með þremur litlum humrum (2500 krónur), hvort um sig hádegismatur. Kakan var í lagi, en þorskurinn lélegur, að minnsta kosti í samanburði við gæðastaði í 101. Hefði sennilega átt að prófa eitthvað dýrara. En nenni ekki að fórna peningum til að kanna eldhúsið til botns. Sýnist þetta vera hefðbundin túristagildra.

Grunur vex um vanbúnað

Punktar

Því lengur, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að koma sér að verki, þeim mun meira eflist grunurinn. Því lengri sem formáli viðræðna er, því líklegra er, að reiknivinnu hafi skort að baki loforðs. Gefið er í skyn, að hann eigi í spjalli við Bjarna Benediktsson, en Bjarni neitar, að svo sé. Allt mjög skrítið, en Sigmundur segist ætla að byrja að díla núna um helgina. Í dag er liðin vika frá kosningum og því tímabært orðið að byrja. Sigmundur reynir að vinna tíma til að fá dæmið reiknað með því að þykjast vera í undirbúningi viðræðna. Gerði hann ekki ráð fyrir að þurfa að reikna út loforðið stóra?

Tregar og hægar tilraunir

Punktar

Tilraunir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til myndunar ríkisstjórnar eru að byrja að minna á tilraunir Þorsteins Pálssonar á sínum tíma. Tóku óratíma og almenningur fékk á tilfinninguna, að Þorsteinn kynni ekki fagið. Vissi ekki, hvernig hann ætti að fara að þessu. Þótt tilraunir Sigmundar hafi staðið í fimm daga, eru þær ekki byrjaðar enn! Er enn að reyna að finna út, hvernig sé hægt að fara í kosningaloforð Framsóknar. Og selja formönnum flokkanna þá tilgátu, að þau séu að einhverju leyti framkvæmanleg. Er semsagt hægfara að leita að formönnum, sem geta látið draga sig inn á þetta sérstæða sjónarmið.

Fullkomni pólitíkusinn

Punktar

Nigel Farage og Sjálfstæðisflokkur hans unnu mikinn sigur í kosningunum til sveitarstjórna í Bretlandi. Farage er einnig þingmaður í Evrópuþinginu og heldur þar frábærar ræður gegn framkvæmdastjórum bandalagsins, einkum gegn José Barroso. Farage er ólíkur öðrum pólitíkusum, sem sífellt reyna að gera sig merkilega. Hann er alþýðlegur, gæti verið maðurinn, sem þú vilt hitta á brezku kránni. Orðheppinn með afbrigðum, svo sem má sjá af myndskeiði, þar sem hann leikur Barroso sundur og saman í nöpru háði. Farage hefur það, sem pólitíkusa sárlega vantar, tilfinninguna fyrir, að pólitík sé bara leikur.