Guðlaugur er “galinn”

Punktar

Það er ekki eftirlitsiðnaður, sem er galinn, heldur Guðlaugur Þór sjálfur, sem notar orðið. Skortur á eftirliti með fjármálastofnunum setti Ísland á hvolf 2008. Davíð Oddsson skipaði frjálshyggjutrúða til forstöðu stofnana til að tryggja eftirlitsskort. Trúarbrögðin sögðu markaðinn hafa eftirlit með sjálfum sér. Jónas Fr. Jónsson stýrði fjármálaeftirliti og því fór sem fór. Nú stöndum við andspænis 15% árlegum vexti ferðaþjónustu án nægilegs eftirlits. Oft höfum við séð, að matvælaeftirlitið stendur ekki undir nafni. Við þurfum að herða eftirlitið, en bófaflokkarnir hyggjast skera það niður.

Þjóðir, lönd og ríki

Punktar

Rangt er að tala um viljugar eða vígfúsar þjóðir, þegar Bandaríkin leita sér vopnabræðra gegn Sýrlandi. Listinn nær yfir rúman tug viljugra eða vígfúsra ríkja. Þjóðir þessara ríkja eru að miklu leyti andvígar árásum á Sýrland, meira að segja Bandaríkjamenn. Í fréttum þarf að gera greinarmun á þjóðum, sem eru fólk; löndum, sem eru landsvæði; og ríkjum, sem eru valdastofnanir. Þjóðir, lönd og ríki eru mismunandi hugtök, sem vísa til mismunandi atriða. Tungumál fela í sér tugþúsundir orða, til þess að hugsun geti orðið nákvæm. Ruglingur hugtaka leiðir til loðinnar hugsunar og gerir staðreyndir óljósar.

Auður mannlegra samskipta

Punktar

Ferðaþjónusta hefur tekið við af sjávarútvegi sem forustugrein atvinnulífs á Íslandi. Vöxtur greinarinnar nemur um 15% á hverju ári. Þar geta Íslendingar framvegis fengið vinnu, hafi þeir hæfni til mannlegra samskipta. Sérstaklega hentar þetta þeim þeim, sem líka vilja vinna heima, og þeim, sem vilja ekki fulla vinnu. Störfin gefa misjafnt af sér eins og gengur og gerist í öðrum greinum. Miklu máli skiptir, að regluverk og eftirlit sé gott og vel sé hugsað um aðgengi að náttúruperlum. Fjárfesting í ferðaþjónustu kostar bara brot af kostnaði við orkuver og stóriðju. Ferðaþjónusta þýðir fulla atvinnu.

Skáldsaga um ofsóknir

Punktar

Almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson gegnir mikilvægu hlutverki í þeirri endurritun sögunnar, sem Morgunblaðið Davíðs stundar af kappi. Í vænisjúku skáldsögunni er Gunnar Steinn heljarsvört kónguló. Hún spinnur vefi gegn Davíð og Sjálfstæðisflokknum með aðstoð Ólafs Arnarsonar, Egils Helgasonar “umræðustjóra”, svo og “leigupenna” í “blogghernum”. Við sögu koma: Nafnlaus fréttamaður “beintengdur hagsmunum Exista og Kaupþings”. Erlendir fræðimenn, “mataðir” af Agli. Svo og “sjálfskipaður talsmaður þjóðarinnar”, nafnlaus að sjálfsögðu. Fylgist með, hversu langt ofsóknaræðið teymir fréttaskáldið.

Bófar leiki lausum hala

Punktar

Síðasti áratugur kenndi okkur, að forstjórar ganga eins langt og þeir geta og “fara á svig við lög”. Ráðningarferli stjórnenda er þannig, að eingöngu siðblindingjar komast í gegn. Mest er þetta áberandi í fjármálastofnunum og stórfyrirtækjum. Ísland fór á hliðina 2008, því að eftirliti var ekki sinnt sem skyldi. Nú á að færa frelsið í sama farveg. Guðlaugur Þ. Þórðarson berst fyrir samdrætti í eftirliti. Gefa bófum fyrra svigrúm til að svíkja, svindla og stinga undan. Leyfa bófum að leika lausum hala. Kjósendur áttu að vita þetta, áður en þeir kusu umboðsmenn bófaflokkanna til valda í þjóðfélaginu.

Gagnslaus sparnaðarnefnd

Punktar

Lekinn frá sparnaðarnefnd ríkisstjórnarinnar lofar ekki neinu góðu. Til að sýnast verður lagt til, að stofnanir verði sameinaðar út á ímyndaðan gróða. Ekki hefur heyrzt stuna um, að tveir landbúnaðarháskólar og einn háskóli í hrauni verði sameinaðir. Við verðum því áfram með sjö háskóla fyrir þriðjung úr milljón íbúa. Ekki verður þar neinn sparnaður. Ekki hefur heldur heyrzt stuna um, að dregið verði úr heimsmets-stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Við höldum því áfram uppi kúm og kindum. Ekki verður þar neinn sparnaður. Líklega verður áfram reynt að amast við velferðinni, einkum Landspítalanum.

Flatkökur í réttunum

Punktar

Enginn þarf að segja mér, að það sé Evrópusambandinu að kenna, að ekki má setja vörur bænda beint á markað. Í öllum plássum Evrópu eru markaðir, þar sem afurðir landbúnaðar eru til sölu nánast beint frá býli. Evrópusambandið hlýtur að vita af milljón svona mörkuðum. Matvælastofnun ber sjálf ábyrgð á furðulegu regluverki, sem hindrar framtak bænda. Tilgangur þess er ekki að vernda heilsu fólks, heldur að vernda hagsmuni stórfyrirtækja. Þeirra, sem nota iðnaðarsalt og díoxín í mat. Matvælastofnun er frá upphafi til enda prumpstofnun, sem hindrar kvenfélagskonur í að selja flatkökur í réttum.

Sætabrauðsdrengir

Punktar

Sjónvarpið fer illa með marga þjóðarleiðtoga. David Cameron lítur út fyrir að vera uppþembdur og útblásinn Eton-strákur, minnir á Sigmund Davíð. Sama má segja um François Hollande. En leiðtogi Evrópu er hin kýtta Angela Merkel, sem heldur fast við jarðbundinn sparnað og uppsker fulla atvinnu og öflugar útflutningstekjur. Hún hefur komið Þýzkalandi þægilega fyrir í þyngdarpunkti Evrópu og evrunnar. Hún er haldreipi sambandsins. Ekki þarf annað en að sjá hana í sjónvarpi til að átta sig á staðreyndinni: Hún er af allt öðrum toga en sætabrauðs-peningasynirnir, sem stjórna allt frá Bretlandi til Íslands.

Hættulegir hristingar

Megrun

Sykur í ávaxtadrykkjum, einkum sonefndum smoothies, leysist hraðar upp í meltingarveginum en sykur í ávöxtum. Veldur þannig meiri sveiflu í blóðsykri og er beinlínis hættulegur. Þú borðar ekki nema tvær appelsínur án þess að verða saddur. En þú getur léttilega drukkið tvo smoothies, sem innihalda sex appelsínur, án þess að finna seddu. Samt komust þessir skæðu drykkir í tízku sem heilsudrykkir fyrir áratug. Einkenndu heilsubari á líkamsræktarstöðvum. Um þessa heilsuspillandi drykki má lesa í Guardian í dag og þar er óspart vitnað í rannsóknir. Vonandi sér maður senn fyrir endann á smoothies-æðinu.

Þjóðremba selst tregar

Punktar

Svonefndir leiðtogar á Vesturlöndum geta ekki safnað þjóðinni að baki sér. David Cameron fékk væna Sýrlandsbyltu í brezka þinginu. Hvernig á brandara-strákur úr Eton-yfirstéttarskólanum að geta talað eins og fullorðinn maður? François Hollande Frakklandsforseti hefur aðeins þriðjungs fylgi við æsing sinn í Sýrlandsmálinu. Og jafnvel sjálfur kóngur sjónhverfingamanna, Barack Obama, hefur bara þriðjungs fylgi við enn eitt stríðið. Vestrænn almenningur er þreyttur á eilífu stríði á upplognum forsendum og neikvæðum niðurstöðum. Þjóðremba virkar enn, sjá Sigmund Davíð, en selst erlendis sífellt tregar.

Barnsleg framkoma Frost

Punktar

Sjónvarpsspyrillinn David Frost minnti mig á barn, sem bendir á keisarann og spyr, af hverju hann sé ekki í neinum fötum. Spurði svo einlæglega, rétt eins og hann væri einhverfur. Nú segir Simon Hoggart í Guardian, að Frost hafi spurt eins og hann vildi í rauninni fá svar. Greinin er ágæt lýsing á Frost sem persónu og nánast barnslegri framgöngu hans. Minnir mig á Matthías Johannessen á blaðamannafundum fyrir hálfri öld. Matthías spurði alltaf eins og einlægur bjáni. Með þeim árangri, að menn reyndu að skýra mál sitt. Þetta virkaði vel. Menn sögðu stundum töluvert meira en þeir höfðu áður ætlað sér.

Hættulegur hagvöxtur

Punktar

Þegar svokallaður hagvöxtur fer yfir 2%, er hætta á ferðum. Í rauninni er hagvöxtur mælikvarði á neyzlu og sukk. Hann magnast, þegar þú kaupir það, sem þú þarft ekki. Í rauninni ætti mælikvarðinn að heita sukkvöxtur. Hagur þjóðfélags eykst ekki um meira en 2% á ári, nema um sé að ræða ofhitnun í viðskiptalífinu. Í tvö ár hefur hagvöxtur verið hæfilegur hér á landi, rétt undir 2%. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs fór hann hins vegar upp í 2,2%, sem er áhyggjuefni. Eykur líkur á hærri seðlabankavöxtum og verðbólgu. Bætist við kosningaloforð um auknar framkvæmdir og aukna óráðsíu í þjóðfélaginu.

Skiptastjórn sem herfang

Punktar

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður heldur fram, að Sigurbjörn Þorbergsson skiptastjóri hafi sjálfur tekið 50 milljónir úr 70 milljón króna þrotabúi Þreks ehf. Mér varð hverft við. Veit þó, að skiptastjórn hefur áratugum saman verið talin ein helzta gróðalind lögmanna. Hafa litið á gjaldþrota félög sem sitt eigið herfang fremur en lagalegt úrlausnarefni. Skiptastjórar virðast í rauninni hafa sjálfdæmi um verðmæti vinnu sinnar. Takmörkun græðginnar er óljós og þarfnast sérstakrar innrömmunar af hálfu hins opinbera. Að skiptastjóri taki 70% bús til sín er langt út af kortinu.

Gegnsæið snarminnkað

Fjölmiðlun

Smám saman eru dómsúrskurðir að verða einkamál dómara og dæmdra. Færri úrskurðir verða birtir, þeir verða birtir seinna og þurrkuð verða út nöfn málsaðila. Þetta er niðurstaða Dómstólaráðs, sem virðist stjórna vaxandi leyndó dómsmála. Eins og víðar í kerfinu er stefnt að niðurskurði gegnsæis. Stefnt er minni getu almennings til að fylgjast með því, er gerist í dómsal. Dómarar vilja vera í friði með sín mál og virðast komast upp með það. Með sama framhaldi verður nauðsynlegt að koma upp stjórnmálaafli gegn þessu. Sem reynir að rífa niður girðingar, er ljósfælnir eigendur valdsins strengja.

Nýbúavandinn vex

Punktar

Samkvæmt skoðanakönnun telja sex af hverjum tíu Bretum innflytjendur vera landinu hættulega. Þetta er svipuð þróun og í öðrum Evrópulöndum. Aðkomufólk með aðra siði og annað útlit skelfir marga. Einkum valda múslimar ugg, ekki sízt þegar þeir neita að virða siði og reglur landsins. Búast má við auknum átökum milli nýbúa og þeirra, sem vilja losna við nýbúa. Og milli nýbúa og lögreglu. Við höfum séð það í Bretlandi og Frakklandi. Upp rísa pólitískir ofstopaflokkar, sem spila á þennan ótta. Stjórnmál í Evrópu næstu árin munu í auknum mæli snúast um erfiðleika ríkja við að melta augljósan nýbúavanda.