Heimsku þjóðirnar

Punktar

Lönd engilsaxa eru að dragast aftur úr Norður-Evrópu í greind og menntun. Samkvæmt rannsókn rannsókn á vegum OECD, Alþjóðastofnunar efnahagsþróunar. Skilningur í Bandaríkjunum og Bretlandi er mun lakari en á Norðurlöndum og í Hollandi. Lesskilningur, reiknigeta og tæknileikni voru ófullnægjandi og fara ört versnandi. Í auknum mæli eru stúdentar þar hvorki læsir né reiknandi. Að mestu rakið til meiri stéttaskiptingar engilsaxa en norðlægra þjóða Evrópu. Þjóðarauður fossar til örfárra á toppnum. Með niðurskurði og einkavæðingu menntunar og velferðar lendir Ísland í þessum brezk-bandaríska vítahring.

Þú ert samt dauður

Punktar

Donald Miller hvarf og var úrskurðaður látinn. Áratug síðar kom hann fram og vildi að nýju gerast borgari í Ohio. Dómarinn Allan Davis sagði bara: Þú ert samt dauður, lögin heimila ekki upprisu. Davis gæti hafa lært lagatækni í Háskóla Íslands. Þar liggja menn í teygjanlegum textum eins og biblíumenn. Skilja ekki, að orðin fljóta í umhverfinu. Dómarar þurfa ekki bara að velta fyrir sér sérvizkutúlkunum orða. Þurfa líka að átta sig á umhverfi laganna. Hvers vegna þau voru sett og hvað kom þá fram í umræðunni. Það kunna hvorki Allan Davis né íslenzkir dómarar. Íslenzk lögfræði er því orðhengilsháttur.

Friður skammstafana

Punktar

Skárra er að skammstafanir fremur en skúrkarnir fái friðarverðlaun Nóbels. Norska stórþingið hefur ítrekað orðið að athlægi. Alþjóða efnavopnastofnunin vann vinnuna sína í aðdraganda samkomulags við Sýrland. Verðlaun til hennar minna á íslenzku fálkaorðuna, sem kontóristar fá fyrir að mæta í vinnuna. Í fyrra fékk Evrópusambandið verðlaunin, þótt efast megi um, að það mæti í vinnuna. Áður var ruglið enn verra. Þá fengu friðarverðlaunin stórglæpamenn á borð við Barack Obama og Henry Kissinger, líka morðóðir Yitzhak Rabin og Menachem Begin. Það hefði lagað stöðuna að velja núna skólastúlkuna Malala.

Bankinn er heilagur

Punktar

Vildi Hanna Birna Kristjánsdóttir gera eitthvað fyrir skuldara, mundi hún senda sýslumönnum aðvörun. Benda á, að ýmislegt er enn óútkljáð í skuldum við banka, til dæmis dómsmál. Benda á ábyrgðina, sem fylgir því að valda fólki óheyrilegu tjóni, sem síðan reynist hafa verið ógilt. Öllum þessum nauðungaruppboðum hlýtur að fylgja skaðabótaábyrgð banka og sýslumanna. En vélbyssan í innanríkisráðuneytinu kallar bara í nafnlausa lagatækna sína. Slíkir hafa ævinlega komizt að nákvæmlega þeirri niðurstöðu sem ráðherrann vill. Ekkert öðruvísi núna. Hönnu Birnu er ekkert eins heilagt og bankinn.

Meira og mesta leyndó

Punktar

Nýja ríkisstjórnin er þegar farin að slá fyrri met í leynd. Ekkert má þjóðin fá að vita. Alls staðar er skellt í lás. Til dæmis má enginn frétta af hinu stórmerka sparnaðarplaggi Vigdísar Hauks, Ásmundar Einars og Guðlaugs Þórs. Hvorki af þeim tillögum, sem munu koma fram núna, né af hinum, sem slegið er á frest. Ekki má frétta neitt um þá utanaðkomandi aðila, sem gáfu heilagri þrenningu góð ráð. Og fundargerðirnar eru leyndó. Líklega stafar þetta af, að tillögurnar eru eins og teygjanlegur málflutningur Vigdísar. Mestmegnis óskhyggja, blönduð hatri á öllu, sem lyktar af velferð og mannlegri reisn.

Örlög góðu áformanna

Punktar

Þjóðremba forsætisráðherra nær ekki til fjárlaga. Hóf ferilinn með áætlun um að safna Þjóðmenningarhúsi og öðru þjóðlegu til síns ráðuneytis. Átti að verða eins konar Eldgömlu-Ísafoldar-ráðuneyti. Ekkert varð úr því frekar en rigningu hinna glöðu ávísana. Og fjárlögin skera þjóðlegt mest niður. Leggja niður fornleifarannsóknir og hætta við Hús íslenzkra fræða. Í staðinn flytur Eldgömlu-Ísafoldar-flokkurinn tillögu um aukna notkun fánans að næturlagi. Næst vefur SDG sig þjóðfánanum og kyrjar þjóðsönginn. Öll belgda þjóðremban er bara almannatengsli án innihalds. Hún er PR til að halda fylgi fávitanna.

Framtíðin er í miðöldum

Fjölmiðlun

Framtíðin á vefnum leynist ekki í afmörkuðum tímaritum á borð við Kjarnann. Veraldarvefurinn hafnar hefðbundinni hliðvörzlu fjölmiðlunga og formlegum útkomutímum fjölmiðla. Vefurinn flýtur, minnir á miðaldir fyrir innreið prentlistar. Þá gengu fréttir milli manna á torgum og markaði. Síðan kom prenttæknin og færði fréttamiðlun í það formfasta horf, sem nú er að deyja út. Notkun fréttarita, dagblaða og ljósvaka minnkar ört. Heilar kynslóðir nota ekki gamla miðla. Í staðinn notar fólk blogg og fésbók, tíst og túbu. Fjölmiðlungar taka þátt í byltingunni, en eru þar ekki lengur hliðverðir.

Borgarar ofsóttir

Punktar

Meirihluti borgarstjórnar hefur breytt skipulaginu. Tekur ekki lengur tillit til tveggja bíla á hverja íbúð. Skipuleggur í staðinn 0,8 bílastæði á hverja íbúð, tæplega heilt stæði. Gert með þungum steypuhúsum, sem troðið er út í lóðarmörk í eldri hverfum. Eitt slíkt má sjá við Mýrargötu. Íbúar klumpanna munu leggja bílum sínum við nálæg hús. Breiða þannig út vandann við þessa skipulags-ofsatrú. Vandinn á að leiða til, að fólk hrekist úr bílum yfir á reiðhjól eða strætó. Með illu er reynt að pína fólk til að fylgja sérviturri hugmyndafræði. En ekki á að vera í verkahring borgar að ofsækja borgarana.

Ráðstefna bófaflokka

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson er í vondum félagsskap á ráðstefnu sinni um helgina, Arctic Circle. Hún er skipulögð af World Ocean Council, samtökum bófaflokka á borð við Exxon, Shell og Rio Tinto Alcan. Markmið samtakanna er að gæta hagsmuna olíufélaga og annarra mengunarfyrirtækja á norðurslóðum. Ólafur Ragnar hefur alltaf verið fluga, sem dregst að perum valda og auðs. Ýmist í formi ríkja á borð við Kína og Rússland. Eða í formi voldugra bófaflokka stórfyrirtækja gegn almannahag. Hvar sem Ólafur Ragnar er á ferð, þá kemur einhver skítur þar við sögu. Svo sem Arctic Council og World Ocean Council.

Þessir ýmsu þjóðlegu

Punktar

Þjóðrembu kalla ég, þegar pólitíkusar fiska í gruggugu og fara að predika, að Íslendingar séu mestir og beztir allra. Frægastir slíkra eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Skyldur er rasismi fólks á borð við Viðar Guðjohnsen borgarframbjóðanda. Lítur á sumar þjóðir, einkum í Austur-Evrópu, sem óæðri hópa, sem beri hingað glæpi og sjúkdóma. Svo eru þjóðernissinnar, sem ýkja minna í oflofi um Íslendinga og í fordómum um útlenda. Evrópuhatarar eru skrítinn sérhópur. Skæðastir eru þjóðrembingar. Þeir hafa uppgötvað leiðina að hjarta heimskra Íslendinga og notfæra sér.

Minnisstæðir hrunverjar

Punktar

Fimm árum eftir hrun getum við séð, að það kostaði ríkið 1200 milljarða, sem það getur ekki borgað. Til viðbótar kemur svo snjóhengjan. Þetta er útkoman úr einkavinavæðingu Davíðs á bönkunum. Þar fengu Vökudrengir að leika lausum hala í fullkomnu óráði. Útkoman varð heimsfrægt gjaldþrot. Sem Davíð gerði verra með því að sópa öllum gjaldeyri úr Seðlabankanum beint í kamínurnar. Geir vafraði um ráðþrota. Var síljúgandi að alþjóð til að vinna tíma til að koma innistæðueigendum fyrir horn. Davíð og Geir, bankastjórar og víkingar bjuggu til hrunið. Afrekinu fagna hrunverjar með hátíð á fimm ára afmælinu.

Ráðherra bremsar órana

Punktar

Það eina nothæfa við nýju ríkisstjórnina er, að fjármálaráðherra vill skila hallalausum fjárlögum. Hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir ríki, sem skuldar 1500 milljarða og getur ekki borgað vextina. Sársaukaminna hefði alþýðunni þó verið að hafa niðurstöðutölur hærri með auðlindagjaldi, auðlegðarskatti og ferðaþjónustuvaski. Þá hefði ekki þurft að höggva á velferðina. En það er önnur saga. Fjárlagafrumvarpið hindrar væntanlega framvindu loforðs lygnasta skrumarans um tékka í pósti strax. Ríkisstjórnin er ekki alvond, meðan hún hefur fjármálaráðherra, sem heldur aftur af öfgum og órum forsætisráðherra.

Heill spítali árlega

Punktar

Eftir hrun skuldar ríkið 1500 milljarða, þar af 1200 vegna hruns. Áður var komin 300 milljarða skuld. Gjaldþrot Seðlabankans kostaði 170 milljarða og gjaldþrot viðskiptabanka kostaði 250 milljarða. 390 milljarðar fóru í nýjan gjaldeyrissjóð til að styðja ónýta krónu. Tap ríkisins í fimm ár kostaði 400 milljarða. Stafar af, að ríkið á ekki fyrir vöxtum af þessum skuldum. Tapar í vaxtagreiðslur 80-90 milljörðum á ári, heilum hátæknispítala á hverju ári. Því var fráleitt að lina auðlindarentu, auðlegðarskatt og ferðaþjónustuvask. Jafn fráleitt er að gæla við að ríkið fari að senda fólki tékka í pósti.

Orðabók lýðskrumsins

Punktar

Blaðri forsætis um Samstöðu, er hann að biðja um Hlýðni. Tali heilsuráðherra um Hagræðingu, á hann við Niðurskurð. Segi Vigdís Hauksdóttir Strax, meinar hún Einhverntíma-kannski. Ekki eru nýir valdhafar samstíga í orðaleikjunum. Það sem fjármála kallar Fjárlög, kallar forsætis Hugmyndir. Það sem forsætis kallar Loforð, kallar fjármála Vangaveltur. Ævinlega eru þeir þó sammála um, að Allt-fyrir-aumingja þýði Allt-fyrir-auðjöfra og Ekkert-fyrir-aumingja. Þjóðin þarf að fá orðabók frá almannatenglum og blaðurfulltrúum í þessu nýja tungumáli svikulla lýðskrumara. Orð nýju valdhafanna eru afar teygjanleg.

Fullorðnast seint

Punktar

Íslendingar hafa lítið lært af hruninu. Gott væri, ef allir skildu, að bezt er að spara fyrst og láta peningana verða til. Hætta hins vegar að líta á útborgun sem afl þeirra hluta, sem gera skal. Kaupa til dæmis bílinn, þegar þú átt fyrir honum, en ekki þegar þú átt bara fyrir útborgun. Margir telja enn, að eðlilegt sé að fá afslátt af skuldum út á forsendubrest. Enn aðrir, að skuldirnar eigi bara að skilja eftir í útlandinu og segja bless við þær. Þessi brenglaða hugsun er ávísun á nýtt hrun. Því meira sem gælt er við hana, þeim mun síðar fullorðnast þjóðin í umgengni við peninga og eignir.