Formenn í dvala

Punktar

Lítið hefur farið fyrir stjórnarandstöðunni þetta sumar. Kannski er hún óþörf, þegar fjölmiðlar og persónumiðlar sjá um eftirlitið. Auðvelt, þegar framámenn opna varla svo munninn, að þeir stingi ekki fótunum upp í hann. Þegar SDG og Vigdís fela sig, sér Hanna Birna um fjörið. Samt er ætlast til, að foringjar stjórnarandstöðunnar séu á vakt utan starfstíma alþingis. Varla heyrist stuna né hósti frá Katrínu og Árna Páli, litlu oftar frá Birgittu. Eins og þetta fólk telji sig vera í fríi. Björn Valur er þó alltaf röskur í blogginu. En er það mat stjórnarandstöðunnar, að stjórnin sé sjálf einfær um alla stjórnarandstöðu?

Excel- og glærumenn

Punktar

Greiningardeild Arion banka er í nákvæmlega sama ruglinu og hin fræga deild í Kaupþingi sællar minningar. Deildin hefur fundið, að íbúðaverð í Reykjavík sé ekki hærra en íbúðaverð í þrengstu stórborgum heims. Töluverður munur er á íbúðum á hjara veraldar og íbúðum á dýrstu fermetrum heims. Þennan mun virðast Arion-menn ekki skilja, enda ekki læknaðir enn af hrunveikinni. Auk þess býr í slíkum íbúðum í París, London og Manhattan eingöngu fólk, sem er á margföldum launum Íslendinga. Enn er staðan sú, að menntun í excel og glærum færir fólki ekki minnsta vit á fjármálum. Enn síður hæfni til að greina eðli fjármálanna.

Steininn tekur úr

Fjölmiðlun

Í Mogganum í dag birtist einstæð fávitagrein hæstaréttarlögmanns um bréf umba alþingis til Hönnu Birnu. Margt er skrítið í umræðunni hér á landi, en þessi grein er langt utan við það. Lögmaðurinn heldur, að orð Hönnu Birnu séu ígildi dómsúrskurðar. Hún hafi úrskurðað, að leka- og fölsunarmálið hafi ekki verið rætt á fundum eða í símtölum sínum við Stefán lögreglustjóra. Þar með þurfi umbinn ekki að spyrja um tímasetningar og önnur tækniatriði þessara funda og símtala. Þau komi málinu ekki við. Mér skilst, að lögmaðurinn hafi tekið próf í lagadeild Háskóla Íslands. Froða hans er samt ekki hæf sem texti í fjölmiðli.

Burt með busavígslur

Punktar

Hjartanlega sammála félagi skólameistara að banna beri busavígslur. Eins og Jón Reynir Sigurvinsson á Ísafirði segir, „þær jaðra ekki við ofbeldi, heldur eru þær ofbeldi“. Þær stríða gegn landslögum. eins og umboðsmaður barna hefur oft bent á. Skólameistarar geta ekki setzt niður með fulltrúum nemenda og samið um innihald busavígslna. Þeir geta ekki samið sig frá lögum. Unglingar hafa fengið að rækta ofbeldishneigð, sem nú tekur enda. Skólameistarar þurfa svo að fylgja eftir, að fávísir nemendur komist ekki upp með að halda áfram ógeðinu í leyni. Í framhaldi af þessu þurfa prestar að taka á fáránlegum gæsunum og steggjunum.

Surtar eru vantaldir

Punktar

Ríkisskattstjóri telur sjötíu fyrirtæki vera á svörtum markaði í ferðaþjónustu. Segist hafa kíkt á bókunarsíður. Þær segja þó ekki alla söguna. Margir tugir hótela í 101 eru utan slíkra síðna, þótt rútur taki þar upp farþega að morgni. Ríkisskattstjóri ætti að standa upp frá tölvunni og fylgjast með bílum, sem tína upp farþega fyrir flug. Þá mundi hann ekki fara með augljóst fleipur um lítinn fjölda hótela á svörtum markaði. Hverfi 101 er orðið meira eða minna undirlagt af óskráðri og ómerktri gistingu fyrir ferðamenn. Ekki virðist lengur í tízku að hafa eftirlit, menn setja upp fýlusvip og kvarta um eftirlitsiðnað.

Hvorki um skömm né heiður

Punktar

Fyrrverandi hæstaréttardómari laug í vikunni, að DV hefði rangt eftir sér. Til var upptaka, sem sýndi, að rétt var eftir haft. Skömmu áður hafði þingmaður logið, að DV hefði rangt eftir sér. Til var upptaka af samtalinu, sem sýndi, að rétt var eftir haft. Í valdastétt þjóðfélagsins hlaðast upp menn, sem skeyta hvorki um skömm né heiður. Stórkarlalegur þáttur í þessu ógeðslega Íslandi, sem mönnum er tíðrætt um. Pólitíkusar og dulbúnir pólitíkusar haga sér eins og kjósendur éti úr lófa þeirra og sjái engan mun á réttu og röngu. Þannig þyrlar Davíðistinn Jón Steinar Gunnlaugsson upp hverju moldviðrinu á fætur öðru.

Verklegur stuðningur

Punktar

Vestrænt ríkisvald mun á næstu árum standa andspænis hertum kröfum um strangara eftirlit með múslimum. Hryðjuverkin í Írak eru olía á þann eld. Í Bretlandi lýsir forsætis yfir, að bannað verði að lýsa stuðningi við öfgasamtök múslima, svo sem Ríki Íslams. Íslenzka ríkið verður fyrr eða síðar að taka á málunum. Erfitt er að banna skoðanir, þótt brezka stjórnin virðist vilja það. Banna má þó verklegan stuðning við grófustu öfga, svo sem hjá múslimum. Banna verklegan stuðning við sharia-lög, undirgefni kvenna, forskriftir um fatnað, limlestingu kynfæra, heiðursmorð á dætrum og svo framvegis. Slíkt þarf að gera í tæka tíð.

Dauðadæmd sjálftekt

Punktar

Ekkert er fagurt á Íslandi nema landið sjálft og sum dýrin. Græðgisþjóðin telur sig eiga landið, þótt hún hafi ætíð lifað á því eins og sníkill. Tók allt, sem hún náði og spillti hinu. Fljótlega eyddi hún skógum, hjó og brenndi. Nú eyðir hún vatnakerfum, síðast voru það Kárahnjúkar. Næst er það Dynjandi, sem á að minnka um 20%. Hvað með það, segja sníklarnir og velta enn vöngum yfir virkjun Gullfoss. Hleypa má vatni á hann á sunnudögum, segja sníklarnir. Samt á þjóðin ekkert í landinu. Það á sig sjálft. Við erum bara sníklar, sem drögum hýsilinn til dauða. Milli lands og þjóðar er ekkert sambýli, heldur dauðadæmd sjálftekt.

Þjáumst öll saman

Punktar

Fjölbreyttur samanburður Íslands og Noregs sýnir sérkennilega stöðu mála hér. Laun eru undarlega lág. Arðurinn af auðlindum rennur ekki til fólks, heldur inn í þröngan hring og hverfur út í heim. Lýðveldinu hefur frá upphafi verið illa stjórnað og gegn hagsmunum fólks. Smáatriði um þetta eru rakin og margir sjá hagsmunum okkar betur borgið í Noregi. Hvort sem menn flýja þangað einn og einn eða sem þjóð. Allur þorri kjósenda mun þó ekkert sjá rangt við hegðun sína um tíðina. Þegar allt um þrýtur, munu þeir segja: Við erum Íslendingar, við erum einstakir. Höfum alltaf þjáðst, munum áfram þjást og við munum þjást öll saman.

Rússíbani ráðherrans

Punktar

Hanna Birna réð illa innrættan bjána sem aðstoðarmann sinn í ráðuneytinu. Hún laug, að Rauði krossinn hefði lekið skjalinu. Hún heimtaði, að blaðamenn yrðu reknir vegna uppljóstrana. Hún laug að alþingi, að plaggið væri ekki til í ráðuneytinu. Hún reyndi að hafa áhrif á rannsókn málsins með ítrekuðum símtölum og fundum með lögreglustjóra. Hún svældi síðan þann sama mann úr embætti. Að hennar mati á hún sjálf alls engan lærdóm að draga. „Ég gerði ekkert rangt.“  Lærdómurinn sé sá, að skilja eigi dómsmál frá innanríkisráðuneytinu! Málið sé bara kerfisvilla. Formennirnir kinka kolli og taka ábyrgð á rússíbana ráðherrans.

Bænir og bölbænir

Punktar

Þótt ég sé lélega kristinn, er mér sama um bænir í útvarpinu. Þær ættu ekki að skaða neinn, nema bölbænir séu. Útvarpið verður auðvitað að hafa hemil á slíku. En rökrétt væri að bjóða öðrum lífsskoðunarhópum að fara með bænir eða íhugun í útvarpinu. Eitthvað, sem getur róað fólk. Aðalatriðið er, að það taki skamman tíma og valdi ekki rofi í dagskrá. Málið er hluti af deilu um stöðu kirkjunnar í ríkinu. Að venju fara vanstilltir fram úr sér í vopnaskaki vegna málsins. Einkum öfgaklerkar á borð við Hjálmar Jónsson. Telur aðskilnað ríkis og kirkju fela í sér andstöðu við kristni. Bítur í skjaldarrendur og mætti róa sig niður.

Hraðferð til hruns

Punktar

Þegar nýfrjálshyggja komst til valda á Vesturlöndum, hafði hún lofað fólkinu gulli og grænum skógum. Reynslan varð önnur. Lítum á Bandaríkin og Bretland, þar sem hún hefur ríkt lengst. Stéttaskipting stórjókst og fólk festist á sínum bás. Undirstéttin á ekki séns, þraukar á sultarlaunum í leiðindavinnu, undir eftirliti myndavéla. Gæludýr nota kerfið sér í hag. Sjáið nú síðast Rússland Pútíns. Þar eignuðust fáir auðmenn nærri allan þjóðarauðinn. Á Íslandi olli nýfrjálshyggja hruni, sem rak flein í trúarofstækið. En eftir kosningarnar í fyrra erum við aftur komin á hraðferð til hruns undir stjórn ofstækismanna.

Fólk sér ljósið

Punktar

Bezti kosturinn við nýja flokkinn Gunnars Smára er, að hann hefur opnað augu margra. Umræðan er frjó og rakin hafa verið mýmörg dæmi um, að Ísland er bara rugl. Eins konar apparat um að flytja fé frá almenningi til greifanna að baki Framsóknar og Sjálfstæðis. Þrátt fyrir miklar auðlindir er allt í steik hér á landi. Því ráða leppalúðarnir, sem greiða bófunum atkvæði sitt. Innlimun í Noreg mun útvatna áhrif lúðanna. Enginn séns verður lengur fyrir Sigmund Davíð, Hönnu Birnu, Kristján Þór, Ragnheiði Elínu, Sigurð Inga, Gunnar Braga, hvað þá Vigdísi Hauks. Kúgaður og rændur almenningur fengi laun til að lifa lífinu.

Furðulegasta fyrirtækið

Punktar

Lýsing er furðulegasta fyrirtæki landsins. Hefur gert þvergirðing að sérstakri listgrein. Fyrir löngu er þekkt, að það hunzar prófmál. Neitar bara, að útkoman hafi nokkurt fordæmisgildi um önnur mál. Hvert fórnardýr fyrir sig neyðist til að höfða mál. Þannig hrannast málin upp tugum saman og bráðum hundruðum saman. Ætla mætti, að þessu fylgdi mikill kostnaður Lýsingar, skaðabætur og sektir. En svo er ekki, Fyrirtækið neitar bara að fara eftir úrskurðum. Lýsing borgar aldrei neinum neitt, ekki einu sinni samkvæmt dómsúrskurðum. Og kemst upp með það. Réttarríkið er hrunið, enda er eftirlitsleysið orðið að stjórnarstefnu.

 

Ærandi þögn hófsamra

Punktar

Bókstafstrú fylgir verstu hryðjuverkamönnum heims. Í heimi múslima fela þeir verstu sig bak við bókstafinn. Núna er það Ríki Íslams, sem stundar fjöldamorð í Norður-Írak. Önnur trúarbrögð verða fyrir þessu. Til dæmis trúarríki gyðinga í Ísrael með fjöldamorðum á Gaza. Við gætum séð svipað í ríkjum kristinna, ef bókstafshópar næðu völdum, teboðshreyfingin í Bandaríkjunum til dæmis. Í öllum tilvikum skortir, að hófsamir fordæmi ódæði og stuðli að andófi. Gyðingar á vesturlöndum fordæma þó margir morð Ísraels. En hófsamir múslimar halda sig of mikið til hlés gegn íslamistum. Það magnar hræðslu fólks við múslima almennt.