15. Persía – Yazd – Meybod

Borgarrölt
Caravanserai 1, Meybod, Yazd

Caravanserai í Meybod

Meybod

Narin castle, Meybod, Yazd

Narejn kastali í Meybod

Meybod er borg 50 kílómetrum norðan við Yazd, frægt fyrir eitt stærsta Caravanserai landsins, hótel fyrir ferðamenn að fornu. Það er rétthyrningur herbergja kringum garð með brunni í garðmiðju. Nú sýna bæjarbúar þar hefðbundinn, persneskan vefnað.

Andspænis fornhótelinu handan götunnar er 300 ára gamalt pósthús með ísgeymsluturni.

Narejn kastali í Meybod er rétt hjá, einn elzti kastali Persíu, frá því fyrir komu íslams.

Næstu skref

14. Persía – Yazd – Abarkuh

Borgarrölt

Elsta Cyprus tréð, Abarkuh, Yazd

Sarv-e Abarkuh

Sedrusviðurinn í þorpinu Abarkuh 140 kílómetrum austan við Yazd er á heimsminjaskrá, talinn vera næstelzta lífvera Asíu, rúmlega 4000 ára gamall, 25 metra hár og 18 metra víður.

Í Abarkuh er líka ein af þessum vel einangruðu íshúskeilum til að varðveita ís og mat í eyðimörkinni.

Íshús
Næstu skref

13. Persía – Yazd – Ateshkadeh

Borgarrölt
Ateshkadeh Zoroastrian fire temple, Yazd

Ateshkadeh eldmusteri Zoroaster trúarinnar

Ateshkadeh

Eldmusteri Zoroaster trúarinnar, þar sem trúareldurinn hefur logað samfellt síðan árið 470. Þetta er heimsmiðstöð eldsdýrkenda.

Ein elzta núlifandi trú, oft kölluð Mazda eftir guðinum Ahúra Mazda og andstæðingi hans, Ahriman, og byggist á baráttu góðs og ills í formi tveggja guða, drottins og djöfulsins. Spámaður trúarinnar var Zoroaster, öðru nafni Zaraþústra, sem var uppi einhvern tíma á bilinu 1700-1300 f.Kr.

Zoroaster líkturn Yazd

Þagnarturn Zoroaster eldsdýrkenda

Hún var ríkistrú í stórveldum Persa frá því um 600 f.Kr. fram að innreið íslams. Afbrigði af þessari trú, þar sem guðinn hét Míþra, keppti við kristni meðal rómverskra hermanna á fyrstu öldum e.Kr. Flestir núlifandi fylgismenn eru í Indlandi og í Persíu. Alls eru um 2,6 milljónir þeirra í heiminum nú á tímum.

Þagnarturninn

Líkturn Zaraþústra eldsdýrkenda er rétt sunnan við Yazd, ekki í notkun síðan á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þar voru lík áhangenda Zoroaster sett á stall, þar sem hræfuglar hreinsuðu beinin fyrir jarðsetningu. Neðan við turninn eru rústir húsa, þar sem lík voru meðhöndluð.

Næstu skref

12. Persía – Yazd – Amir Chakhmaq

Borgarrölt

Amir Chakhmagh, Yazd

Amir Chakhmaq

Ein stærsta bygging í Íran með þremur hæðum af innhvolfum, fagurlega upplýst rauðgulri birtu að kvöldi. Ofan á innganginum eru afar grannar kallturnaspírur. Mannvirkin eru frá upphafi 15. aldar.

Andspænis Amir Chakhmaq er neðanjarðar safn um vatnið, þar sem sýnt er, hvernig vatns var aflað í gamla daga og hvernig það var varðveitt.

Saheb a Zaman Zurkhaneh

Sögufræg líkamsræktarstöð við Amir Chakhmaq í gömlum neðanjarðar vatnsgeymi frá 1580, sem er að innanverðu eins og 29 metra hátt egg. Í Saheb a Zaman Zurkhaneh eru ferðamönnum sýndar gamlar leikfimihefðir.

Næstu skref

Saheb A Zaman Club Zurkhaneh, Yazd

11. Persía – Yazd – Masjed-e Jameh

Borgarrölt
Jame mosque Yazd

Masjed-e Jameh moska

Masjed-e Jameh

Þungamiðja borgarinnar er Masjed-e Jameh moskan með einu af hæstu inngangsportum landsins. Við hlið portsins eru 48 metra háir kallturnar með 15. aldar leturskreytingum. Skreytingar á hvolfi moskunnar eru einstæðar að fegurð.

Næstu skref

Jame mosque 2 Yazd

10. Persía – Yazd – Medina

Borgarrölt
Yazd medina

Torg í Medina í Yazd

Yazd

Eyðimerkurborgin Yazd er þurrasta og heitasta borg Persíu og miðstöð Zaraþústra (Zoroaster) trúar. Marco Polo heimsótti borgina á Kínaferð sinni um silkiveginn og fjallar um fínan silkivefnað heimamanna. 5% íbúanna eru enn Zaraþústra eldsdýrkendur.

Vegna þurrkanna þróaðist sérstæð byggingalist í Yazd, svo sem vindrennuturnar til að fanga vind og vel einangraðar íshúskeilur til að varðveita ís og mat. Moskur í Yazd eru þekktar fyrir mósaík og steinda glugga.

Medina

Karlahandfang til vinstri, kvennahandfang til hægri, Yazd medina

Bankari fyrir karla vinstra megin, fyrir konur hægra megin

Gamli bærinn í Yazd er medina frá fyrri öldum, óregluleg beðja af götusundum með háum veggjum og litlum torgum milli gluggalausra húsa. Dyr eru víða tvöfaldar með tveimur bönkurum, öðrum fyrir heimsókn karla og hinum fyrir heimsókn kvenna. Sums staðar er hægt að komast í stiga og klifra upp á húsþak til að fá yfirsýn yfir hverfið og stöku vindrennuturna.

Næstu skref

Íslendingar eru í liði

Punktar

Það hvimleiðasta við annan hvern Íslending er, að hann er í einhverju liði. Hann styður einhvern flokk og mundi styðja hann áfram, þótt kvikmynd sýndi, að leiðtogarnir stunduðu mannát. Hann fylgist nefnilega ekki með fréttum og enn síður með umræðum um fréttir. Upplýsingar ná almennt ekki til nema annars hvers Íslendings. Því getur Hanna Birna logið linnulaust út og suður í heilt ár. Mætt svo á kirkjuþing til að væla um gagnrýni. Þannig geta geðbilaðir embættismenn safnað morðvopnum í kyrrþey. Síðan logið út og suður, þegar upp kemst. Þannig nauðgar annars rúmliggjandi forsætis sínu Undralandi með mánaðarlegum skætingi.

9. Persía – Yazd – áveitugöng

Borgarrölt
Op á áveitugöngum, Yazd

Dekkið markar op niður í áveitugöngin

Áveitugöngin

Í eyðimörkinni milli Shiraz og Yazd er mikið af neðanjarðarrennum eða göngum fyrir áveitur fjarri sólarþurrkun á yfirborði jarðar. Hér og þar eru strompar á þessum rennum. Þar fóru menn niður til að halda rennunum við til að hindra að þær stífluðust. Að grunni eru þessar áveitur frá því fyrir upphaf tímatals okkar.

Rennurnar ná víða tugum kílómetra að lengd og gera Persíu byggilega, þar sem landið væri víða eyðimörk. Stromparnir eru víða 20-200 metra djúpir, svo að þetta eru samtals mikil mannvirki með óheyrilegri vinnu að baki.

Næstu skref

8. Persía – Shiraz

Borgarrölt
Arg-e Karin Khan Kastalavirkið, Shiraz

Karin kastalinn

Arg-e-Karin kastalinn

Í borgarmiðju er Arg-e-Karin kastalinn á 13.000 fermetrum, áður heimkynni Persakonunga á síðari hluta 18. aldar, en er nú sögusafn. Kastalinn minnir dálítið á Alhambra á Spáni, myndaður af röð halla í stórum garði með rennandi vatni. Eyðimerkurbúar heillast yfirleitt af rennandi vatni.

Masjed-e Nasir-al-Molk mosque, Shiraz 2

Masjed-e-Nasir al-Molk moskan

Masjed-e-Nasir moskan

Oftast kölluð Bleika moskan frá lokum 19. aldar, þekkt fyrir steinda glugga og bleikar flísar, sem þekja veggi.

Seray-e-Mehr tehúsið

Seray-e Mehr, Shiraz

Seray-e-Mehr tehúsið

Margir ferðamenn leggja leið sína í Seray-e-Mehr tehúsið, þar sem forngripir og málverk þekja veggi. Myndir af fólki og dýrum eru ekki algengar í Persíu, en hér er gnægð af þeim. Þarna er gott að slaka á í þægilegum aðstæðum.

Næstu skref

7. Persía – Shiraz – skáldin

Borgarrölt

Shiraz

Shiraz er ein af stórborgum Persíu og sú, sem stendur næst uppruna Persa sem meginþjóðar í vestanverðri Asíu. Hún er líka fræg sem uppruni Shiraz vínþrúgna, sem nú eru þekktar víða um heim, einkum í Ástralíu og Rhone-dal í Frakklandi. Einkum er hún samt fræg fyrir þjóðskáld Persa, Hafez og Saadi, sem þar voru fæddir.

Um skeið var Shiraz höfuðborg Persíu. Þarna hefur verið borg í 4000 ár, enda liggur staðurinn vel fyrir samgöngum í sunnanverðu landinu og nýtur nálægðar við Persaflóa.

Qu’ran hliðið

Borgarhlið Shiraz er Qu’ran hliðið frá ofanverðri 18. öld við Allah-o-Akbar gljúfrið, sem þurfti að fara um til að komast til borgarinnar. Í sal ofan á miðju hliðinu voru lengi geymd tvö handskrifuð eintök af kóraninum, en þau eru nú á safni í borginni.

Hafez minnismerki Shiraz

Hafez minnismerki í Shiraz

Saadi minnismerki Shiraz

Saadi minnismerki í Shiraz

Hafez og Saadi

Grafhýsi skáldanna Hafez og Saadi eru listaverk í fögrum görðum borgarinnar. Mikil aðsókn innlendra ferðamanna sýnir dálæti Persa á skáldum sínum, sem eru þjóðhetjur þar í landi. Þeir eru í Persíu taldir hafa verið meiri skáld en efasemdarmaðurinn Omar Khayyám, sem er þekktari á Vesturlöndum.

Hafez var uppi á 14. öld og orti mikið um ástir og vín, meðal annars um dálæti hans á fegurð ungra drengja. Verk hans eru til á fjölmörgum heimilum og margir kunna utanað vers upp úr þeim, sem notuð eru sem spakmæli í daglegu lífi.

Saadi var uppi á 13. öld og orti mikið um góða siði og rétta hegðun. Klerkaveldið í Persíu hefur þess vegna dálæti á honum, en hann nýtur einnig vinsælda almennings eins og Hafez.

Næstu skref

6. Persía – Persepolis

Borgarrölt
Konungagrafir Persepolis

Grafhýsi keisaranna í Persepolis

Persepolis

Í nágrenni Pasargade er Persepolis, sem var höfuðborg hinna fornu keisara. Þar eru grafhýsi nokkurra keisara höggvin í kletta og þar eru leifar hallarinnar, sem Alexander mikli lét brenna, þegar hann vann sigur á Persaveldi árið 330 f.Kr.

Persepolis

Inngangurinn í Persepolis

Persepolis 4

Göngubraut sendiherranna í Persepolis

Þetta er víðáttumikið svæði með ýmsum höllum og súlnagöngum. Þar eru tröppur að móttökustöð sendiherra og göngubraut sendiherranna að höllum keisaranna. Enn má sjá leifar af höll Dareiusar og höll Xerxesar, af fjárhirzlum keisaranna og hesthúsum. Víða eru lágmyndir enn sýnilegar.

Persepolis var aldrei miðstöð mannlífs, heldur miðstöð hátíðahalda á upprunaslóðum Persakeisara, staður fyrir skrúðgöngur á hátíðisdögum. Í skipulagi svæðisins var lögð áherzla á aðstæðum fyrir sýningar og athafnir. Daglegur rekstur heimsveldisins var í öðrum borgum þess, Susa, Babylon og Ekbatana.

Næstu skref
Persepolis

Lágmyndir í Persepolis

 

5. Persía – Pasargade

Borgarrölt
Kýros gröf Pasargade 1

Grafhýsi Kýrusar Persakeisara í Pasargade

Pasargade

Milli Kerman og Shiraz er löng dagleið, 450 kílómetrar. Nærri Shiraz komum við að minjum hins gamla Persaveldis, Pasargade og Persepolis.

Grafhýsi Kýrusar Persakeisara er á víðum völlum í Pasargade. Það er efst á stallapíramíða og er enn næsta heillegt.

Kýrus mikli var hinn fyrsti frægra keisara Persa, uppi um 600 f.Kr. Hann reisti fyrsta heimsveldi mannkynssögunnar, sem náði frá Miðjarðarhafi um Mesópótamíu og Persíu til Afganistan. Hann lagði grunn að persneskri stjórnskipan í Vestur-Asíu og frelsaði gyðinga úr útlegð í Babýloníu. Á sívalningi Kýrusar eru skráð fyrirmæli hans, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir ýmsum mannréttindum.

Kýrus mikli var svo frægur, að hann á sérstakan sess í íslenzkum rímum. Séra Jakob Jónsson skráði um þær ritgerð, sem var þýdd á ensku og barst stjórnvöldum í Íran, sem voru að undirbúa 2500 ára afmæli Persaveldis. Var séra Jakob boðið í afmælið 1971 og flutti hann þar erindi um rímur Kýrusar mikla.

Næstu skref

4. Persía – Kerman

Borgarrölt

Kerman

Við byrjum á að taka 1000 kílómetra flug til borgarinnar Kerman, þar sem hefst rútuferð okkar um Persíu frá suðri og til baka til norðurs í Tehran.

Kerman er eyðimerkurbær í 1755 metra hæð sunnarlega í Íran og var á ýmsum tímum höfuðborg ríkisins. Marco Polo heimsótti bæinn á leið sinni um silkileiðina frá Feneyjum til Kína. Bærinn var oft hertekinn í innanríkisátökum og er í núverandi mynd að mestu leyti frá tímanum eftir 1800.

Rayen kastali

Rāyen kastalinn

Eldsdýrkendur Zaraþústra voru lengi fjölmennir í Kerman. Þar er enn eldmusteri þeirra og í því er þekktasta safn heims um Zoroaster-trúna. Enn eru tæplega 2000 eldsdýrkendur í borginni.

Arg-ei Rāyen kastalinn

Í eyðimörkinni 80 km austan við Kerman er kastalinn Arg-e Rāyen. Hann er byggður úr þurrkuðum leir, ekki leirsteinum, svipað og sjá má víða í suðurkanti Sahara eyðimerkurinnar. Ekki má rigna mikið á slík mannvirki, því að þá leka þau niður.

Kastalinn er þúsund ára gamall, var í notkun fram undir lok 19. aldar. Þar stendur enn höll héraðshöfðingjans og ýmis önnur híbýli, svo og ytri virkisveggir.

Bāgh-e Shāzdeh garðurinn

Í leiðinni milli Kerman og Rāyen er Bāgh-e Shāzdeh garðurinn, lagður árið 1850. Þar rennur vatn stall af stalli í gróðursælum lundi milli sumarhalla í eyðimörkinni.

Næstu skref
Bagh-e Shahzde garðar, Mahan

Shāzdeh garðurinn

3. Persía – Tehran – Þjóðminjasafnið

Borgarrölt

IMG_0580

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið er í veglegum húsakynnum, vel skipulagt í hefðbundnum stíl og með góðu rými um mikilvæga safngripi í aðalsal, sem er á fyrstu hæð inn af anddyri hallarinnar. Það eru einkum gripir frá heimsveldistíma Persa 728 f.Kr – 651 e.Kr og frá enn eldri tíma. Alls eru í safninu 300.000 gripir á 20.000 fermetrum.

Þjóðminjasafnið 9, Tehran

Í Þjóðminjasafninu

Þjóðminjasafnið 4, Tehran

Í Þjóðminjasafninu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annað athyglis-vert safn er krúnudjásna-safnið, sem sýnir eðalsteina og skartgripi keisarans, sem steypt var af stóli 1979. Safnið sýnir sjúklega áráttu hans í að eiga hauga af mögnuðum eðalsteinum. Safnið er aðeins opið skamma hríð á hverjum degi, svo að beita þarf forsjálni við útvegun aðgöngumiða.

Næstu skref
IMG_0573

Í Þjóðminjasafninu

STASI-skýrslan okkar

Punktar

Skýrsla Geirs Jóns yfirlögreglu um búsáhaldabyltinguna er honum og löggunni til skammar. Vænisjúkt plag, þar sem allir eru taldir stórhættulegir, sem Geir Jón skilur ekki, einnig vandamenn þeirra. Andi fasismans svífur þarna yfir vötnum. Á köflum er einfeldnin beinlínis brosleg. Samt verður að taka hana alvarlega, því að ríkislögreglustjóri safnar morðvopnum til að vígbúa hvítliða. Allt hið illa er í einum graut í kolli Geirs Jóns, anarkistar, píratar, vinstri grænir, vítisenglar. Þetta plagg er vel fallið til að spilla áliti fólks á löggunni. Handarbakavinnubrögðin við dreifingu þess eru svo dæmigerða STASI-heimskan.