Hóflaus fyrirgreiðsla

Punktar

Fyrirgreiðsla ríkisins í þágu kirkjunnar gengur of langt. Opt-out á að víkja fyrir Opt-in. Skráning barna í trúfélag kirkjunnar má ekki vera sjálfvirk. Frumkvæði á að koma frá hinum trúaða. Bara formlega séð nýtur kirkjan aðildar meirihluta þjóðarinnar. En bara lítill hluti hennar sækir kirkju ótilneyddur. Staða kirkjunnar er sama og greifanna, forgangur í úreltu teboðskerfi ríkisins, sem hossar forréttindahópum. Er ekki samkvæmt stjórnarskránni, heldur samkvæmt öfgatúlkun stjórnarskrárinnar. Eins og raunar öll túlkun gerir, nema hófs sé gætt. Heilsa og velferð almennings á að fara framfyrir kirkjuna í forgangi.

Neita sér um meðferð

Punktar

Samkvæmt tölum velferðarráðuneytisins neitar tíundi hver Íslendingur sér um læknis- og tannlæknisþjónustu. Eigin hlutdeild sjúklinga í heilsukostnaði er orðin of há. Þetta er þvert á stefnu nágrannalandanna í norðanverðri Evrópu. Þar er heilbrigðisþjónusta ókeypis. Hér greiða krabbameinssjúklingar hundruð þúsunda króna á ári fyrir lakari þjónustu. Því veldur græðgisstefna kjósenda stjórnarflokkanna. Telja sjúklinga geta sjálfum sér um kennt. Brýnna sé að létta auðlindarentu af kvótagreifum og skattbyrði af öllum greifum. Í því skyni þurfi að skera niður heilsukostnað ríkisins. Svei ykkur, kjósendur bófaflokka.

Þýzk-frönsk fyrirmynd

Punktar

Þýzkaland og Frakkland hafa tekið við af Norðurlöndum sem fyrirmyndarríki okkar tíma, hvort með sínum hætti. Báðum þessum ríkjum hefur tekizt að bræða saman markaðshyggju og félagshyggju. Upphafið af þessum bræðingi má rekja til Ludwig Erhard, er var efnahagsráðherra Adenauer og síðar kanzlari Þýzkalands. Frakkar eru að því leyti sérstæðir, að þeir nota velmegunina til að gera vel við sig í mat og öðrum lífsnautnum. Þjóðverjar eru að því leyti sérstæðir, að þeir leggja velmegunina fyrir til hugsanlega magurra ára. Ég held, að meðalvegur af þessu tvennu væri farsælli en öfga-græðgisstefna íslenzku ríkisstjórnarflokkanna.

Stundin rennur upp

Punktar

Gott er, að fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn DV skuli stofna Stundina, nýjan fjölmiðil á vef og pappír. Ljóst mátti vera, að nýir eigendur DV mundu fara með blaðið til helvítis. Fagfólk þarf til að reka fjölmiðil, ekki World Class rusl og meiðyrða-lögmenn. Sama sagan og um aldamótin, þegar Óli Björn Kárason keypti stöndugt DV og keyrði í þrot á átján mánuðum. Sama ógæfa sást strax, þegar nýir eigendur töldu sig geta tjónkað við Hallgrím Thorsteinsson fagmann. Þoldu hann í fjóra mánuði og skiptu svo út fyrir blaðurfulltrúa, sem var þeim að skapi. Líklegt er, að Stundin muni leysa framsóknar-DV af hólmi.

Of litlar byrðar

Punktar

Með nýju ári hefst áróður samtaka atvinnurekenda um, að starfsfólk sé of dýrt í rekstri og verði helzt ekki ráðið. Greiða þó þvílík lúsarlaun, að fólk þarf að bæta það upp með sníkjum hjá góðgerðasamtökum. Það er nýtt í samfélaginu, að láglaunafólk þurfi á slíku að halda. Til skamms tíma þurftu samtökin aðeins að styrkja velferðarþega. Katrín Óladóttir hjá Hagvangi reið á vaðið með kvartanir um byrðar atvinnulífsins. Þannig eru frekjudallar Íslands, fá aldrei nóg. Hæst gráta þó kvótagreifar, sem þykjast lifa á barmi hungursneyðar. Engin ástæða er til að hlusta á neitt af þessum þvættingi. Byrðar atvinnulífsins eru of litlar.

Hægri jaðar óvinsæll

Punktar

Í flestum nágrannalöndum okkar höfða hægri öfgaflokkar ekki til ungs fólks. Í Bretlandi hefur Ukip, flokkur Nigel Farage, sáralítið fylgi 17-22 ára kjósenda. Einnig er óvinsæll Nick Clegg hjá Frjálslyndum, sem komnir eru frá miðju yfir á hægri kant eins og Framsókn. Í þessum aldurshópi er líka eindregið fylgi við aðild að Evrópusambandinu. Fylgi ungra skiptist 41% á Labour, 26% á Tories, 19% á Græningja og 6% á Frjálslynda, enn minna á Ukip. Það neikvæða er, að erfitt er að draga ungt fólk á kjörstað. Það nennir fáu, sem það getur ekki afgreitt heima í tölvunni. Vonandi verður samt pólitísk þróun svipuð hér. (GUARDIAN)

Merkel er merkust

Punktar

Angela Merkel er merkasti pólitíkus okkar tíma, íhaldsmaður af gamla skólanum. Ég kannaðist við slíka hér, áður en Davíð Oddsson stal Sjálfstæðisflokknum með manni og mús og græðgisvæddi hann. Í ÁRAMÓTAÁVARPINU tók Angela þá kjósendur á beinið, sem mæta á útifundi hægri öfgahópa og telja útlendinga orsök gæfuleysis síns. Fordómar, kuldi og hatur er slæm forskrift, sagði hún. Útifundir þessir hafa einkum verið fjölsóttir í gamla Austur-Þýzkalandi, svo sem í Dresden. Þar er fólk enn miklu fátækara en í ríka vestrinu. Angela er sjálf prestsdóttir úr austrinu og þekkir þaðan böl fordóma. Segir vitleysingum óhrædd til syndanna.

Haltu kjafti og hlýddu

Punktar

Örvænting pamfíla í áramótaræðum voru orð Altúngu: „Maður á að segja, að allt sé í bezta lagi.“ Á íslenzku þýðir það: „Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður.“ Loddarar þola enga gagnrýni, vilja bara dýrkun án innistæðu. Fólk lifir að vísu ekki á gagnrýni einni saman, ekki frekar en það lifir á að dýrka pamfíla. En gagnrýni er nauðsynleg. Almenningur hefur fengið eigin aðgang að fjölmiðlun. Blogg, fésbók og tíst valta yfir hefðbundna miðla, sem loddarar hafa múlbundið. Núna heyrist margradda kór, sem pamfílar ráða ekki við, uppvísir að undirferli og tilfinningalausri steypu. Þá má því baða skriflega upp úr tjöru og fiðri.

Óbærilegur hávaði

Punktar

Í áramótaávörpum kveinkuðu pamfílar samfélagsins sér undan biturri gagnrýni. Predikuðu jákvæðni að hætti Altúngu í Birtingi: „Maður á að segja, að allt sé í bezta lagi.“ Enginn þessara pamfíla lifir í raunheimi, ekki forseti, biskup eða forsætis. Þetta er fólk, sem ræður ekki við embætti sín og vill fá að vera í friði með sína steypu. Múlbinding fjölmiðla gagnaðist þeim ekki, því fólk hefur öðlast eigin rödd í alþýðumiðlum. Þar er hver sinn eigin ritstjóri. Margradda texti í bloggi, fésbók og tísti er að æra yfirstéttargaura, sem við héldum áður vera gersamlega heyrnarlausa. Sé hávaðinn þeim óbærilegur, er það fínasta mál.

Hér vantar auðlindarentu

Punktar

Landsframleiðslan er töluvert meiri en hagtölur sýna. Þær mæla ekki hækkun í hafi á útflutningsvörum. Hækkun í hafi var aðferð eigenda fyrsta álversins og er enn fyrirmynd allra útflutningsgreifa. Kvótagreifar eiga fyrirtæki erlendis, sem taka kúfinn af arðinum og fela í skattaskjólum. Þetta fer ekki í hagtölur hér á landi, heldur hverfur út í buskann. Þess vegna er ekki marktækt að miða rentu auðlindanna við arðinn, sem gefinn er upp innanlands. Rentan á bara að vera hlutfall af aflamagni, ekki af meintum arði. Eðlilegt er, að auðlindarenta af sjávarauðlindum og orkuauðlindum sé mælanleg, 20% af magni að minnsta kosti.

Miðlungs skaup

Punktar

Áramótaskaupið var upp og ofan, stundum var handritið betra en leikurinn. Mjög erfiður tími fyrir skaup, því veruleikinn er fyndnari en paródían. Víða var komið við og almenningi sjálfum ekki sparaðar sendingar. Sjálfgefið er, að áramótaskaup fjallar mest um ríkisstjórn hvers tíma. Marklítið er að væla út af því. Þessi ríkisstjórn er ótrúlega miklu fyndnari en allar aðrar, sem ég hef fylgzt með í sextíu ár. Því er hætt við, að skopstæling falli flöt á köflum. Ég hló sjaldan, fannst þó margt hóflega fyndið. Gaman er að lesa á fésbókinni um harm skapþungra stjórnarsinna um útreið brandarakarla sinna. Það léttir lund.

Lömuð stjórnarandstaða

Punktar

Stjórnarandstaða Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er nánast engin. Þingmenn þeirra nenna varla að vinna. Einkum er hávær þögnin hjá formönnum flokkanna. Eru hvorki sjáanlegir né heyranlegir vikum saman. Katrín Jakobsdóttir hefur þó karisma, sem heldur henni uppi, en Árni Páll Árnason hefur ekkert. Það liggur við, að Bezti flokkurinn sé skárri, þótt hann hafi þá fyndnu stefnu, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Eins og rándýrin fari að éta gras. Helzt hafa píratar marktækt að segja gegn ofurvaldi heimskra bófa. En hafa því miður of þrönga skírskotun, höfða mest til ungra kjósenda, sem nenna ekki á kjörstað.

Heimsk og illgjörn stjórn

Punktar

Ríkisstjórnin er skipuð tveimur bófaflokkum, sem heyja stríð gegn almenningi. Landspítalinn er einn af vígvöllum þessa stríðs. Þar á ofan eru ráðherrarnir yfirleitt fremur vitgrannir og litlir verkmenn. Helzta vörn þeirra gegn áreiti umheimsins er að liggja í öskustónni og láta ekki á sér kræla. Sjáið Kristján Þór. Bjarni Ben er sá eini, sem er sæmilega máli farinn og getur brugðizt við áreiti. Fólk sér eymdina, svo sem sést í könnunum á fylgi í sögulegu lágmarki. Samt virðist stjórnin ekki geta kafað niður fyrir samanlagt 35% fylgi. Þar fann hún sinn botn. Þriðjungur kjósenda er nefnilega illa innrættur og vitgrannur.

Mannvonzka brauðmolatrúar

Punktar

Við skulum ekki blekkja okkur með orðhenglum. Brauðmolatrúin er mannvonzka, hvort sem henni er haldið fram af Pétri Blöndal eða Vilhjálmi Bjarnasyni. Næg reynsla er af trúnni á að hlynna að hinum ríku og að þá skoppi brauðmolar af borðum þeirra niður til hinna fátæku. Hún virkar ekki, hefur aldrei virkað og mun aldrei virka. Hafi hinir ríku of mikil fríðindi, setja þeir gróðann ekki í hagkerfið, heldur taka hann út úr því og koma honum fyrir í skattaparadísum aflandseyja. Þeir draga beinlínis úr efnahagsvexti. Við búum hins vegar við þá einu ríkisstjórn í heiminum, sem trúir á þetta úrelta trúarrugl frá Stanford.

Bjarni slengir bombum

Punktar

Sennilega er Bjarni Benediktsson hræddur um, að læknar fari að semja. Það tefur hann við að rústa Landspítalanum endanlega til að rýma fyrir einkarekstri að bandarískum hætti. Hvenær sem læknar byrja að gefa eftir hleypur hann að og slengir handsprengju inn í viðræðurnar. Sakar lækna í dag um að segja ekki frá kröfum sínum, þótt þögnin sé krafa sáttasemjara. Bjarni reynir ítrekað að æsa til deilna við sáttaborðið með því að kasta inn handsprengjum. Er þó málsvari hóps, sem hefur hrifsað sér fimmtíu og hundrað prósent betri kjör á valdatíma hans. En það eru elsku beztu greifarnir hans og um þá gildir ekki neitt aðhald.