Trúin og terrorinn

Punktar

Hættulegt er að skilja í umræðunni milli trúar og brjálsemi terrorista. Trúin er miðlæg, þótt hættulegt fólk skýli sér oft undir yfirskini trúar. Öfgatrú er í eðli sínu hættuleg með því að framleiða skálkaskjól. Þá skiptir engu, hver trúin er. Kristnir öfgar geta verið jafn hættulegir og öfgar múslima. Núna er sveifla til öfga mest hjá múslimum. Mikið fé streymir frá Sádi-Arabíu til skóla í Pakistan og moska í Evrópu. Þar æsa sumir öfgaklerkar sannanlega upp andlega veikburða ungmenni og senda þau inn á veginn til vítis. Engin ástæða er til að gefa trúarbrögðum neinn afslátt af gagnrýni á aðild þeirra að terrorisma.

Slappir terroristar

Punktar

Á Vesturlöndum eru múslimar fremur slappir terroristar. Allur þorri hryðjuverka í Evrópu er annað hvort á vegum þjóðernishópa í sjálfstæðisbaráttu eða á vegum öfga-vinstris og öfga-hægris. Múslimar eiga bara 2% af hryðjuverkum í Evrópu á þessari öld samkvæmt tölum frá Europol. Breivik reyndist hættulegri en Íslam. Tölur frá FBI segja, að múslimar eigi 6% af hryðjuverkum í Bandaríkjunum árin 1980-2005. Það er því ekki nóg að garga: „Múslimarnir eru komnir“. Vesturlönd þurfa á ýmsan hátt að verjast hryðjuverkum, mest þó heimatilbúnum. Þurfa meðal annars að forðast stríð. Og forðast að fá nýborgara, sem ekki vilja aðlagast.

Þægilega svart-hvítt

Punktar

Fólki líður vel með svartar og hvítar myndir. Annað hvort eru múslimar góðir eða vondir. Engin afbrigði af gráu eru leyfð. Tók vel eftir því á fésbók, er ég lýsti gráum skoðunum á þessu sviði. Til dæmis var sumt vinstra fólk svo hissa, að það gat bara gargað. Múslimar eru hvorki góðir né vondir, ekki frekar en kristnir eða trúlausir. Aðlögunarhæfni múslima er samt slök að meðaltali. Íslam er miðlægari sínu fólki en önnur trú er sínu fólki á veraldlegum vesturlöndum. Í Róm er ég sem Rómverji, í Persíu sem Persi. Ætlast til, að múslimar á Íslandi fylgi staðarreglum um manninn og frelsið. Og móðgist ekki frekar en kirkjan.

Frábæra og þjakaða land

Punktar

Ísland er frábært land, þjakað af afkomendum vanþroska glæpalýðs, sem hraktist undan eðlilegri stjórnsemi í Noregi. Snemma reyndist þjóðin gersamlega ófær um að stjórna sér, svo sem fyrst kom í ljós á þjóðveldisöld, síðan á sturlungaöld og loks á fullveldisöld. Í millitíðinni var þjóðin mest á framfæri Dana, er reyndu árangurslítið að hafa vit fyrir innlendum sýslumönnum. Um aldamótin magnaðist sjálfsdýrkun, sem forseti Íslands kynti undir. Til valda voru á endanum valdir fávísir bófar, sem skófu auðlindarentu af þjóðinni, afhentu kvótagreifum og stóriðjugreifum. Ísland væri frábært, ef ekki væru Íslendingar að flækjast þar.

Minni háttar bófaflokkar

Punktar

Samfylkingin og Vinstri grænir eru bófaflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Að vísu minni háttar bófaflokkar, en eiga samt aðild að tveimur af verstu málum valdastéttarinnar. Hvorir tveggja áttu aðild að nefnd, sem reyndi að afhenda kvótagreifum  þjóðarauðlindina í nærri aldarfjórðung. Reyndu þannig að skapa þjóðinni síðari skaðabótaskyldu. Hvorir tveggja áttu aðild að því að stinga nýju stjórnarskránni undir stól undir því yfirskini, að það mundi friða þáverandi stjórnarandstöðu. Árni Páll Árnason átti mikinn þátt í hvoru tveggja. Þessir glæpir gegn þjóðinni hanga enn um háls flokkanna.

Kratar mislesa Viðreisn

Punktar

Ágreiningur Viðreisnar við Sjálfstæðisflokkinn er fólginn í dálæti Benedikts Jóhannssonar á Evrópusambandinu. Í öllum öðrum málum fylgir hann stefnu síns gamla flokks. Hefur beinlínis lagt til, að kvótagreifarnir haldi öllum þorra veiðiheimildanna. Kratar mislesa hann, þegar Stefán Jón Hafstein og Össur Skarphéðinsson hrósa honum fyrir kvótastefnuna. Líklega blindar Evrópuglýjan þeim sýn. Evrópusinnaðir hægri menn geta fylgt Viðreisn að málum, en það verður ekki breið fylking. Samfylkingin fær þar engan stuðning við stjórnarskrá eða markaðsverð á auðlindarentu. Raunar sýnist mér hún lítinn áhuga hafa á slíku.

Gerræði dómstjórans

Punktar

Gerræði er stundum æðra lögum í dómsmálum hér á landi. Jafnvel dómstjórar fara ekki eftir lögum og reglum. Halldór Halldórsson fer ekki eftir Dómstólaráði. Dómstjóri Norðurlands vestra birtir dóma bara í undantekningartilvikum. Suma dóma birtir hann eftir dúk og disk, þegar hann hefur sætt ákúrum fyrir gerræði. Skýringar hans halda ekki vatni. Segir héraðið of fámennt til að rétt sé að birta dóma. Segir birtingu gera dóma eilífa, því „Google gleymir engu.“ Þetta er prívat gerræði. Ófært að hafa dómara, sem fer ekki eftir lögum og reglum í eigin hegðun. Skrítið, að Dómstólaráð láti sig ekki varða gerræði dómstjórans.

Einn af þúsund?

Punktar

Í vikunni skrifaði ég stutta pistla í kjölfar hryðjuverksins á Charlie Hebdo. Niðurstaða mín er, að hér sé lítill múslimavandi. Ekki er vitað um terrorista hér. Að múslimar eigi að fá að reisa sínar moskur í friði. Nýir ríkisborgarar kynni sér þó mannréttindi og málfrelsi í stjórnarskrá og hvernig þau feli í sér önnur gildi en sharia kóransins. Gera þarf fólki grein fyrir, að það geti ekki farið gegn stjórnarskrá. Rannsóknir sýna, að í Evrópu er undirliggjandi víðtæk andstaða múslima við vestræn gildi á þessu sviði. Úr hverju þúsund manna mengi, sem efast um slík atriði, kemur kannski bara einn terroristi. En það er of mikið.

Fráhrindandi bókstafstrú

Punktar

Lízt illa á bókstaf múslima, fráhrindandi trú, er byggist á forstokkaðri karlrembu kóransins. Og öðrum texta hans, sem stríðir gegn málfrelsi og mannréttindum nútímans. Meðal „hófsamra“ múslima á vesturlöndum er því miður töluverður stuðningur við ógeðfelld sharia-ákvæði kóransins. Raunar eru önnur trúarbrögð litlu skárri. Hef þó í huga, að gagnrýni á kirkjukristni snýst um löngu liðna tíð og gildir varla í nútíma. Kirkjukristni hefur dottið úr vestrænu valdakerfi nema í afturhaldsríkjum á borð við Ísland. Gamla testamenti gyðinga og kristinna er sama ógeð og kóraninn og ætti að falla úr biblíunni. Vond er hvers kyns bókstafstrú.

Til vits og ára

Punktar

Fyndin er fullyrðingin um, að það sé vandamál, að sjötugir stjórni landinu. Í síðustu kosningum urðu kynslóðaskipti, er fertugir silfurskeiðungar tóku við. Frekar má segja, að börnin stjórni barnalega. Fullyrðingin er studd annarri fullyrðingu um, að 67 ára Davíð staksteinn stjórni Bjarna og 62 ára Þórólfur í kaupfélaginu stjórni Sigmundi Davíð. Þunn skýring. Ólafur Ragnar er að vísu 71 árs, en hann er á útleið. Að Sigrún Magnúsdóttir varð ráðherra 70 ára segir okkur, að yngri þingmenn stóðust ekki prófið. Ynging alþingis í kosningunum var mesta feilspor í sögu lýðveldisins. Gamla fólkið er þó komið „til vits og ára“.

Vanmetið garg í kassa

Punktar

Röng er túlkun Guðmundar Steingrímssonar á íslenzkri pólitík sem gargandi hóp í kassa. Hópurinn böggi venjulegt fólk, sem vilji, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Vandinn er þó ekki pólitíkusar í kassa eða í boxhring. Vandinn er venjulega fólkið utan kassans, sem heldur, að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir. Þetta venjulega og lítt þrasgefna fólk velur með nokkura ára bili fremur heimska bófa til að stjórna landinu. Kýs jafnvel flokk, sem vill koma á friði milli íslenzkra útgáfna á Camorra, Ndrangheta og Mafia. Verkefnið á að felast í að koma viti fyrir kjósendur, ekki að gæla við bófaflokka illa gefinna dólga.

Minning um Helga Hós

Punktar

Safna þarf fé til að endurreisa minnisvarðann um Helga Hóseasson, eins merkasta Íslendings síðustu aldar. Óþokkar eyðilögðu þennan minnisvarða við Langholtsveg fyrir nokkrum dögum. Helgi þótti óvenjulega skrítinn, varði elliárum sínum í að gagnrýna yfirvöld og almætti. Raunar er ekkert skrítið við að vera öðruvísi í geðbiluðu ríki, þar sem volaðir kjósendur velja heimskustu bófana til valda. Helgi var ekki í kassanum, hann var utan við hann. Við eigum að virða slíka menn. Reykjavíkurborg á að taka frumkvæði að varðveizlu minningar um mann, sem dögum, vikum og mánuðum stóð þögull í sínu úthverfi með mótmælaspjald í hendi.

Franskur tvískinnungur

Punktar

Kratarnir, sem stjórna Frakklandi, hafa fengið Charlie Hebdo skakkt í hausinn. Manuel Valls innanríkisráðherra fékk í kjölfarið bannað uppistand háðfuglsins Dieudonné. Hliðstætt því, að útgáfa háðblaðsins Charlie Hebdo væri bönnuð. Það er tvískinnungurinn að baki orða Hollande forsætisráðherra: „Charlie Hebdo mun lifa áfram“. Kratarnir hafa lengi hatað Dieudonné vegna gríns hans um gyðinga. Hafa sótt ýmis mál gegn honum á grundvelli laga um bann við „hatursáróðri“. Þau lög eru svartur blettur á Frakklandi. Eins og Salman Rushdie sagði „Án frelsis til að móðga er ekkert tjáningarfrelsi.“ Fólk þarf að venjast því að móðgast.

Tæknin er hornsteinn

Punktar

Hagkerfi Þýzkalands er gerólíkt hagkerfi Bandaríkjanna, þar sem kaupsýsla er hornsteinn. Í Þýzkalandi er tækni hornsteinninn. Bandaríkin hafa neikvæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Kína, kaupa þaðan alls kyns ódýrt drasl. Þýzkaland hefur jákvæðan jöfnuð gagnvart Kína, selja þangað flókin tæki. Bandaríkin skulda Kína, Þýzkaland á inni hjá Kína. Vegna þessa mismunar tapaði Þýzkaland minna á bankakreppunni en Bandaríkin. Þýzk tækni reynist samkeppnishæfari en bandarísk kaupsýsla. Gerir Þýzkaland að næstmesta útflutningsveldi heims á eftir Kína. Þar á ofan vilja Þjóðverjar ekki skulda, sem Bandaríkjamönnum þykir gott.

Of dýr ríkiskirkja

Punktar

Ríkiskirkjan er ekki þjóðkirkja. Hún nýtur ríkisverndar, ekki þjóðarverndar. Ríkið skrifar ómálga börn inn í kirkjuna. Þú þarft að hafa fyrir því að losna úr bóndabeygjunni. 32% kirkjusókn um jól sýnir, að minnihluti þjóðarinnar er ríkiskirkjulega kristinn. Aðrir eru áhugalausir eða sinna sinni barnatrú án milligöngu ríkispresta. Kirkjan felur sig bakvið þennan óviðkomandi meirihluta. Hér á að ríkja trúfrelsi samkvæmt stjórnarskrá, þótt kirkjan njóti samkvæmt henni verndar ríkisins. Sú vernd gengur úr hófi fram, þegar ríkiskirkjan hefur forgang að trúboði í skólum og ríkisútvarpi og prestar eru allir ríkisreknir.