Vilja ekki heilagt stríð

Punktar

Í Bretlandi hafa sumir áhyggjur af, að trúaráhugi Tony Blair forsætisráðherra hafi fært hann nær trúarofstækismanninum George W. Bush forseta. Janet Dubé lýsir í Guardian sérstökum áhyggjum af fréttum um, að þeir Blair og Bush leggist saman á bæn, þegar þeir hittist. Þótt trúarhiti sé vel séður í Bandaríkjunum, finnst mörgum Bretum ógeðfellt, að vera þvingaðir í heilagt stríð eða krossferð gegn ríkjum annarra trúarbragða.

Berlusconi tekinn í gegn

Punktar

Tímaritið Economist ræðst harkalega á Silvio Berlusconi, hinn ofurspillta forsætisráðherra Ítalíu, í opnu bréfi með ýmsum ágengum spurningum, sem ráðherrann hefur látið hjá líða að svara. Þær fjalla um grófa viðskiptahætti hans og samtengingu þeirra við grófa stjórnarhætti hans. Tímaritið notar óvenjulega hvasst orðalag um valdníðslu Berlusconi.

Ferðavín

Hestar

Andreas Bergmann:

Áfengi er minna notað en áður, alls ekkert yfir daginn, en sumir fá sér rauðvín og bjór á kvöldin, aðrir ekki.

Árni Ísleifsson:

Oft er ég með bjór eða pela til að grípa í kvöldin. Mér finnst bezt, að ró sé komin á mannskapinn milli kl. 11 og 12 á kvöldin.

Kristjana Samper:

Við drekkum ekki vín á hestbaki, en höfum alltaf vín með kvöldmatnum. Það eru pappafernur, sem keyptar eru sameiginlega af hópnum. Víninu höldum við volgu á hitakönnum meðan við borðum.

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég vil ekki, að áfengi sé notað í hestaferðum og ekki heldur tóbak. Þetta eru nautnalyf, sem ekki hæfa í samneyti við hesta og náttúru.

Einar Bollason:

Ég vil helzt vera kominn í náttstað klukkan fimm-hálfsex. Þá hafa menn góðan tíma til að þvo sér og fá sér í glas eftir vínbann dagsins, áður en farið er að borða kvöldmatinn klukkan sjö. Svo eru menn bara komnir í ró klukkan ellefu.

Hannes Einarsson:

Nú er yfirleitt búið að banna allt sem heitir áfengi, enda sýnir reynslan, að það hentar ekki á daginn í löngum hestaferðum, allra sízt ef hópurinn er fjölmennur.

Hjalti Gunnarsson:

Mikilvægast er að hafa notkun víns í lágmarki yfir daginn, áður en komið er náttstað. Bezt er raunar, að hún sé engin, meðan menn eru á hestbaki.

Ólafur B. Schram:

Menn mega nota áfengi eins og þeir vilja, en þeir mega ekki láta sjá á sér.

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að fá mér glas að kvöldi, en vil ekki hafa vín um hönd á ferðalaginu yfir daginn. Þótt menn kunni vel með vín að fara og ekki sjái á þeim, þá er það staðreynd, að það fer miklu meiri orka í ferðina hjá þeim, sem staupar sig. Menn verða þreyttari en ella, hafa ekki úthald og gera kannski mistök, sem koma niður á öllum.

Þormar Ingimarsson:

Meðan ferðast er á hestum er mikilvægt, að ekki sé notað áfengi af neinu tagi. Á kvöldin er í lagi að nota vín í hófi fram að fyrirfram ákveðnum háttatíma, en alls ekki til að detta í það.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Þjóðlegur matur í ferðaveizlum

Hestar

Breyttir tímar eru í hestaferðum á fjöllum síðan rúmgóðir trússbílar leystu þröngar trússtöskur af hólmi. Fararstjórar, sem Eiðfaxi talaði við, eru flestir orðnir vanir veizlumat í hestaferðum, yfirleitt í þjóðlegri kantinum. Lýsingar þeirra á mataræði á fjöllum fara hér á eftir.

Andreas Bergmann:

Yfirleitt reynum við að hafa lúxusmat í löngum hestaferðum, með matseðli fyrir hvern dag, enda veldur bíllinn því, að ekki þarf að spara rúmmál eða þyngd. Þegar fólk er orðið vant að kaupa inn fyrir ferðirnar, verða ekki afgangar. Mér finnst matarreikningurinn verða furðanlega lítill liður, þótt ekkert sé til sparað.

Við grillum kjöt á grind og eldum heil læri vafin í ál og alls konar annan veizlumat. Með þessu höfum við mikið grænmeti og sósur. Á morgnana erum við með hefðbundið hlaðborð eins og á hótelum, en erum hætt að hafa hafragraut með súru slátri, af því að menn urðu leiðir á að þvo upp eftir hann

Árni Ísleifsson:

Bezt finnst mér að hafa kjarngóðan mat, grillað kjöt af ýmsu tagi, kjötsúpa, svo og reykt og saltað lambakjöt. Fisk er gott að hafa í bland, en hann geymist ekki vel, nema þá saltfiskur. Ég hef tekið eftir því í ferðum, að þeir, sem eingöngu borða grænmetisfæði, eru yfirleitt grindhorað fólk, sem er miklu úthaldsminna en aðrir, ef eitthvað er að veðri. Á morgnana finnst mér hafragrautur beztur. Hann fer vel í maga. Venjulega tek ég með mér brauðsneiðar í nesti yfir daginn.

Bjarni E. Sigurðsson:

Mér finnst gott að hafa góðan mat í hestaferðum. Eftir langan reiðdag er gott að hlakka til að fá góðan mat. Það er það síðasta, sem maður sparar á ferðalögum. Fólk leggur meira í mat í hestaferð en það mundi gera heima hjá sér. Og svo er reynslan sú, að margir eru latir við að smyrja sér á morgnana og eru orðnir svangir, þegar kemur að kvöldmatnum. Sjálfur tek ég brauð með púðursykri í vasann.

Helzt vil ég steikur og fisk á kvöldin, saltkjöt og kjötsúpu, svo og hangikjöt helzt einu sinni í ferð. Morgunmatur þarf að vera á hlaðborði eins og á góðu hóteli. Kokkurinn þarf að vera glaður og listfengur, svo að maturinn verði fallegur. Mér finnst bezt að hafa sérstakan kokk, heldur en að skipta eldhúsverkum milli þreyttra ferðalanga. Þreyttur maður getur ekki búið til góðan mat. Oft er þetta sami maðurinn, sem keyrir bílinn, ef ferðirnar eru ekki þeim mun fjölmennari.

Einar Bollason:

Ég kýs mér helzt kjarnmikinn íslenzkan mat hefðbundinn, svo sem steiktan fisk, fiskibollur, kjötsúpu, saltkjöt og baunir, buff eða hakk og grillað lambalæri á síðasta degi. Mér finnst gott að hafa mikið grænmeti með. Ég legg mikið upp úr góðum morgunmat með mörgum tegundum af áleggi og finnst hafragrautur vera alveg ómissandi. Eini gallinn við hann er, að hann fyllir svo vel, að maður er í vandræðum með að borða eitthvað annað eftir hann. Svo finnst mér gott að stinga ávexti og einni samloku í vasann.

Guðbrandur Kjartansson:

Til matar höfum við saltkjöt, svið, hangikjöt, kjötsúpu, grillkjöt, svona íslenzkt kjarnafæði. Við viljum hafa það þjóðlegt til fjalla. Á morgnana er hafragrautur, súrmjólk og morgunkorn.

Hannes Einarsson:

Í fyrstu ferðinni eyðilagðist mestallur maturinn af fyrirhyggjuleysi okkar og við lifðum dögum saman á niðursoðnum kartöflum. Ég léttist um átta kíló. Mér veitti ekki af að komast í slíka ferð aftur. Annars er ég mest fyrir hefðbundinn, íslenzkan mat, kjötsúpu, hangikjöt, saltkjöt, flatkökur og harðfisk. Ég er ekki fyrir pasta. Á morgnana borða ég helzt brauð og álegg, kornflex og ab-mjólk. Ég mundi ekki vilja egg og beikon.

Haraldur Sveinsson:

Við höfum mest hafragraut og slátur á morgnana og grillmat eða hangikjöt á kvöldin. Oftast eldum við sjálf, en til að keyra bílinn höfum sérstakan mann, sem ekki er í reiðinni.

Hjalti Gunnarsson:

Mest er ég fyrir lambakjöti í matinn á ferðalagi, alla vega eldað, grill, súpukjöt, saltkjöt og hangikjöt. Á morgnana er ég mest fyrir hafragraut,slátur og lýsi. Sem viðlegubúnað nota ég sæng í seinni tíð, því að það er oft of heitt í skálum fyrir svefnpoka. Yfirleitt er ég með kort og lesefni, sem tengist ferðinni og stundum með óviðkomandi lesefni.

Kristjana Samper:

Við kaupum saman inn fyrir ferðina eftir að hafa útbúið matseðil fyrir alla dagana. Í ferðinni elda ég svo sjálf með hjálp annarra í hópnum. Ég undirbý oft kvöldmatinn, áður en við leggjum af stað á morgnana, svo að ég er fljót að ljúka eldamennskunni á kvöldin. Sums staðar er hægt að ná í nýjan fisk. Við notum þó meira frystan fisk, sem er geymdur í frystiboxum, sem eru tengd við rafmagnið í trússbílnum. Ég man eftir skötusel, sem enn var hálffrosinn eftir tíu daga ferð.

Við erum með lambakjöt, læri, kótilettur og kjötsúpu. Við erum alltaf með stífan fisk, lax, lúðu og skötusel. Við byrjum á nýjum og viðkvæmum mat og tökum síðar það frosna. Við notum mikið af grænmeti, heilan kassa af tómötum, eggaldin, paprikur, púrrur. Ég grilla grænmetisrétti. Við erum alltaf með sojabaunir í chili con carne og aðra baunarétti. Þá legg ég baunirnar í bleyti að kvöldi, sýð þær að morgni og geymi í boxi til kvölds. Við matreiðum saltfisk um það bil tvisvar í löngum ferðum, eftir ýmiss konar spænskum aðferðum.

Á morgnana höfum við oft katalónskan morgunmat á borð við eggjakökur, svo og súrmjólk, músli og síld. Svo höfum við súrdeigsbrauð og ítölsk brauð, sem eldast vel. Við ristum brauðið, þegar það er orðið gamalt, svo að það er alltaf eins og nýtt. Í lengstu ferðum höfum við fengið Mosfellsbakarí til að senda okkur brauðpakka inn í miðja ferð.

Ólafur B. Schram:

Í morgunmat höfum við aðallega brauð og álegg, súrmjólk og músli, sjaldan hafragraut. Á kvöldin er oftast kjötmeti, grillmatur til hátíðarbrigða fyrst og síðast í ferðinni, en á milli kjötsúpa, saltkjöt, unnin kjötmtur og dósamatur, þegar við höfum verið lengi í óbyggðum. Bannað er að fara í búðir, eftir að reið er hafin. Ef menn hafa keypt of lítið af tóbaki, gosi eða brennivíni, verða þeir bara að hafa það.

Valdimar K. Jónsson:

Við erum mest með hefðbundinn íslenzkan mat á borð við hangikjöt og kjötsúpu, svo og bjúgu, með dósamat í bland. Oft kryddum við kjöt ofan í fötu til að grilla. Á morgnana erum við með hafragraut, súrmjólk, brauð og álegg, blóðmör og lifrarpylsu. Þá smyrjum við okkur líka nesti fyrir daginn, nema jeppinn flytji okkur hressinguna, sem er þægilegast.

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að hafa hefðbundinn mat á ferðalögum, súpukjöt og grillmat, jafnvel hangikjöt. Ég mundi grennast, ef pasta væri á boðstólum.

Þormar Ingimarsson:

Mest hef ég notað hágæðafæði, einkum lambakjöt, en líka lax, bleikju og lítillega kjúkling. Saltkjöt og hangikjöt hefur vikið fyrir grillmat. Kjötið er kryddlegið í loftþéttum umbúðum og geymist vel. Í lengri ferðum látum við oft senda okkur matarpakka á miðri leið. Í morgunmat er mest brauð og álegg, en einnig mjólkurvörur og kornmatur.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8tbl. 2003

Gott samræmi í dómum

Hestar

Samræmi í dómum vakti athygli á heimsleikunum í Herning. Í mörgum tilvikum gáfu allir dómararnir fimm sömu einkunn. Þorgeir Guðlaugsson í Nornabæli í Hollandi lét Eiðfaxa í té töflu um vaxandi samræmi í dómum í fimm síðustu heimsleikum, svo sem fram kemur í töflu hér neðar á síðunni. Taflan sýnir einnig, að samræmi er mest í fjórgangi, en minnst í slaktaumatölti. Eiðfaxi leitaði álits Einars Ragnarssonar, íþróttadómara og yfirdómara heimsleikanna, á þessum tölum. Einnig talaði blaðið við gæðingadómara og kynbótadómara og birtast þau viðtöl á hægri síðunni.

Einar Ragnarsson yfirdómari:

Gott og vaxandi samræmi í dómum á heimsleikum stafar mest af vinnu dómara sjálfra. Íþróttadómarar ferðast meira milli landa og dæma oftar saman. Á flestum meiri háttar mótum eru notaðir dómarar frá ýmsum löndum. Sérstaklega er áberandi, hversu duglegar Norðurlandaþjóðirnar eru við að fá til sín erlenda dómara. Þetta þýðir, að menn fá meiri æfingu í að dæma. Með þjálfuninni verða menn hæfari.

Mikilvægast er, að alþjóðadómarar í hestaíþróttum hittast flestir á tveggja daga fagráðstefnum einu sinni eða tvisvar á ári. Það mæta svona 50-60 af 60-70 manna hópi alþjóðadómara. Þeir borga sjálfir fyrir sig, en fá sumir ferðastyrki frá heimalöndum sínum. Íslenzkir þátttakendur verða þó oftast að sjá alveg um sig sjálfir.

Í tengslum við ráðstefnurnar eru svo haldin próf fyrir landsdómara, sem vilja fá alþjóðaréttindi. Um 70% fall er í þessum prófum. Þeim var komið á fót fyrir einum áratug og hafa verið gerð að skyldu fyrir dómara á heimsleikum síðan 1999.

Fyrir alþjóðadómara í hestaíþróttum hefur verið samin rækileg forskrift, sem minnir á forskriftir kynbótadómara. Þetta er svokölluð FIPO-biblía, sem felur í sér 20 síðu forskrift, þar sem tekið er fram, hvað standi á bak við einkunnina tíu og síðan hvert hálft stig þar fyrir neðan.

FIPO-reglurnar urðu til eftir fyrstu heimsleikana árið 1970 og hafa síðan verið í stöðugri endurnýjun. Nú eru í gildi reglur frá árinu 2000. Á Íslandi er enn notaðar næstu reglur þar á undan, en nýju reglurnar hafa verið þýddar og verða vonandi teknar í notkun sem fyrst.

Mér fannst athyglisvert í Herning, að dómarar þorðu að teygja sig í skalanum. Við sáum oft einkunnina níu, enda áttu hestarnir skilið þær einkunnir.

Við höfum ekki mælt samræmi í dómum á Íslandi á heildstæðan hátt, eins og gert hefur verið á heimsleikunum. Árin 1995-1997 voru þó teknir út tíu efstu hestarnir og mælt samræmi í einkunnum þeirra. Þær tölur eru ekki fyllilega sambærilegar við tölur heimsleikanna, en segja í stórum dráttum, að samræmið sé svipað í íslenzkum landsdómum og á heimsleikunum. Sama er að segja um samræmi í dómum á Norðurlöndum og í Þýzkalandi, þar sem dómarar hafa mesta þjálfun.

Mér skilst, að MótaFengur geri kleift að keyra út töflur um samræmi milli dómara, enda var það í þarfagreiningunni, sem forritið var grundvallað á. Slíkar tölur hafa ekki verið birtar hér á landi enn og voru ekki birtar eftir Íslandsmótið í sumar. Mín skoðun er, að það sé í allra þágu og ekki sízt dómara, að slíkar tölur séu birtar sem hluti af niðurstöðum hvers einasta móts. Það ætti að stuðla að málefnalegri gagnrýni og sjálfsgagnrýni á dóma.

Minna samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt stafar eingöngu af því, að þar eru þrír hestar inni í einu, svo að nákvæmni í dómum er minni en þegar einn hestur er inni í einu. Ef einn hestur væri inni í einu, væri svipað samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt og fyrir aðrar keppnisgreinar. Ég tel, að slík breyting sé æskileg.

Meira samræmi í dómum fyrir fjórgang stafar eingöngu af því, að margir dómarar eru ekki eins vanir að dæma skeið og aðrar gangtegundir. Sérstaklega á þetta við um dómara utan Íslands. Gæði skeiðs vefjast meira fyrir sumum dómurum en gæði annarra gangtegunda. Í fjórgangi er þessi skekkjuvaldur ekki í myndinni og því er þar meira samræmi en í fimmgangi. Með meiri þjálfun í dómum á skeiði ætti þessi munur að fara minnkandi.

Notum tölvugögn næst

Helgi Helgason, formaður Gæðingadómarafélags LH:

Seint hefur gengið að koma dómaskráningu í tölvutækt form hér á landi, meðal annars á tveimur síðustu landsmótum. Nú á þetta að vera að komast í lag, svo að ég vænti þess, að framvegis verði á stærstu mótum innanlands hægt að fá útskrift á samræmi gæðingadóma eins og fengist hefur í íþróttadómum á nokkrum síðustu heimsleikum íslenzka hestsins. Ég tel, að mikil framför verði að slíkum útreikningum.

Almennt tel ég, að samræmi sé svipað í gæðingadómum og íþróttadómum og hafi farið batnandi. Einkum tel ég, að svonefndum dómaramistökum hafi fækkað svo, að þau megi heita úr sögunni. Þar hefur komið til sögunnar stóraukin fræðsla og annað samstarf dómara.

Við höldum upprifjunar- og samræmingarnámskeið á hverju vori. Þar gangast allir dómarar undir hæfnispróf, ef þeir vilja halda virkum réttindum það árið. Mikil þátttaka var á námskeiðinu s.l. vor. Um 60 manns af 70 skráðum í félagið mættu. Menn eru hiklaust felldir, ef þeir standa sig ekki nógu vel. Byggt er á myndböndum og verklegum æfingum í samræmi við leiðbeiningar Sigurðar Haraldssonar frá fyrri árum. Fræðslunefnd félagsins hefur endurbætt þessar leiðbeiningar.

Dómararáðstefna er á hverju hausti í tengslum við aðalfund félagsins. Þar er m.a. tekið fyrir samræmi í dómum og annað, sem efst er á baugi hverju sinni. Á fyrstu dómararáðstefnunni s.l. haust var farið grannt í dóma á börnum og unglingum. Það hafði staðið lengi upp á dómara að sinna þessum aldurshópum betur.

Það er auðvitað tilvalið að hafa tölvukeyrð gögn um samræmi dóma til umfjöllunar á slíkum ráðstefnum. Þau ættu að verða tiltæk í síðasta lagi á landsmóti ársins 2004 og vonandi fyrr hjá hestamannafélögum, sem tölvukeyra skráningar og dóma.

Við höfum
annað kerfi

Jón Vilmundarson kynbótadómari:

Kerfið hjá okkur er öðru vísi, því að dómarar vinna saman og gefa út sameiginlega niðurstöðu dómnefndar. Fyrir 5-6 árum var gerð tilraun með að láta dómara gefa aðskildar einkunnir, en okkur fannst hún ekki gefast nógu vel. Samráðin skerpa einbeitingu dómara í löngum dómlotum og halda uppi gagnlegri umræðu milli þeirra, sem eykur hæfni þeirra.

Við gerum hins vegar ýmislegt annað til að auka samræmi milli sýninga. Við höldum ráðstefnur á hverju ári, þar sem farið er yfir tölfræði dóma og mismun milli sýninga og dómnefnda. Niðurstaðan er sú, að samræmi sé gott og fari batnandi.

Byrjendur eru betur undirbúnir en áður og gangast undir mjög ströng próf. Gegnum nálaraugað komast ekki nema 2-3 nýir kynbótadómarar á hverju ári. Alls eru núna virkir hér á landi 10-15 dómarar og þar af 3-4 formenn, sem skipta með sér að dæma í öllum mótum innanlands.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Fornar leiðir

Hestar

Sveitarfélögin um miðbik Snæfellsness hafa gefið út ferðakort, þar sem merktar eru allar reiðleiðir af gömlu herforingjaráðskortunum. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur gefið út ferðakort, þar sem merktar eru fornar reiðleiðir umhverfis jökulinn.

Þessi kort eru dæmi um breytt viðhorf í garð hestamanna, svipuð og komu fram í viðtölum síðasta tölublaðs Eiðfaxa við landverði og skálaverði. Staða ferðamanna á hestum hefur batnað verulega. Við erum ekki lengur taldir vera drykkfelldir sóðar, heldur áhugamenn um útivist og náttúru, svo og viðskiptavinir í héraði.

Hestaferðamenn njóta stuðnings margra þeirra, sem hafa það hlutverk að efla ferðaþjónustu í héraði. Þeir sjá, að hestamenn eru viðskiptavinir, sem kaupa næturbeit, gistingu og uppihald og segja þannig frá ferðum sínum, þegar heim er komið, að fleiri fylgja í kjölfarið.

Í sama tölublaði Eiðfaxa kom fram sú skoðun Sigurðar Líndal lagaprófessors, að reiðleiðir herforingjaráðskortanna, sem teiknuð voru í upphafi 20. aldar, njóti lagaverndar samkvæmt gömlum og nýjum lögum. Þar kom einnig fram, að þessar leiðir eru í kortagrunni Landmælinganna, þótt þær hafi ekki verið sýndar á nýjum kortum.

Að þessum upplýsingum fengnum er æskilegt, að samtök hestamanna taki upp þráðinn, hafi samband við ferðamálastofnanir einstakra svæða og bendi þeim á að taka upp gamlar reiðleiðir á ýmis sérkort, sem þær láta teikna fyrir ferðamenn. Þetta mun festa leiðirnar betur í sessi.

Einnig er æskilegt, að Landssamband hestamanna fari að beita fyrir sig samkomulaginu við Vegagerðina frá 1982, þar sem gert var ráð fyrir, að við lagningu vega með bundnu slitlagi sé lögð reiðleið í staðinn af nýbyggingarfé bílvegarins, en ekki af takmörkuðu reiðvegafé.

Landssambandið hefur síðustu árin fremur kosið að einbeita sér að því að reyna að byrja á núllpunkti í samstarfi við skipulagsyfirvöld og vinna að fjáröflun til reiðvega í sérstakri reiðveganefnd, sem hafði þó það vegarnesti, að ekki mætti veita meira fé til reiðvega.

Tilraunir til að fara í kringum veganestið fóru út um þúfur, en fulltrúi fjármálaráðuneytisins benti í staðinn á áðurnefnd samkomulag frá 1982. Sú reynsla gefur Landssambandinu ástæðu til að endurskoða stefnu sína á þann hátt, sem hér er lýst.

Meðbyr reiðleiða og reiðvega er meiri í þjóðfélaginu en verið hefur um áratuga skeið. Mikilvægt er, að forustumenn hestamanna taki það með í reikninginn. Hefðin og rétturinn er okkar, en ná stundum ekki fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 8.tbl. 2003

Nýr Eiðfaxi

Hestar

Smávægilegur hagnaður er í niðurstöðutölum hálfs árs uppgjörs Eiðfaxa. Eru þetta mikil og snögg umskipti til hins betra, því að undanfarin ár hefur verið mikið tap á rekstri félagsins á hverju ári, yfir 20 milljónir króna í fyrra. Horfur eru góðar í rekstri félagsins síðari hluta ársins og er því búizt við jákvæðri útkomu ársreiknings.

Áherzla hefur verið lögð á, að Eiðfaxi og Eiðfaxi International komi jafnan út á tilsettum degi og hefur það tekizt. Ennfremur hefur verið hægt að auka texta tímaritanna um 20% með breyttri hönnun og breyttu letri. Lesendur fá því meira lesefni fyrir peningana en áður, enda fer áskrifendum innlendu útgáfunnar hægt og sígandi fjölgandi og erlendu útgáfunnar nokkru hraðar.

Áherzlubreytingar hafa orðið á efni Eiðfaxa. Fræðsla og fagleg mál skipa hærri sess en áður, að nokkru leyti á kostnað afþreyingarefnis. Þannig eru í þessu blaði margar greinar, sem samanlagt fela í sér uppgjör á samræmi í dómum sumarsins, íþróttadómum, kynbótadómum og gæðingadómum. Jafnframt er þetta uppgjör á skoðunum manna á aukinni samræmingu íslenzkra og alþjóðlegra dómskerfa.

Í þessum greinum eru fjölbreytt sjónarmið dregin saman í einn pakka. Svipað hefur verið gert í undanförnum tölublöðum í mikilvægum málum, svo sem úttekt á ýmsum þáttum hestaferða í sjötta og sjöunda tölublaði, á spatti og exemi í fimmta og sjötta tölublaði, úttekt á trausti í hrossaviðskiptum í fjórða tölublaði, svo að þekkt dæmi séu tekin.

Í öllum tilvikum hefur víða verið leitað upplýsinga og skoðana, en efnið ekki sett fram í hefðbundnum langhundi, heldur með fjörlegum nútímahætti til að ná til sem flestra. Þetta hefur undantekningarlítið mælzt vel fyrir, enda er líklegt, að efnið ná til fleiri lesenda, þegar það er þannig sett fram. Margir hafa beinlínis haft samband af fyrra bragði til að þakka þessa framsetningu.

Í upphafi breytinganna var einnig sett það markmið, að hvert tölublað nái til fjölbreyttra þátta hestamennskunnar. Fræðsluefni hefur því verið aukið á ýmsum sviðum, sem áður var minna sinnt, ekki sízt þeim, sem snerta hinn almenna hestamann. Má þar nefna hestaferðir, rekstur hesthúsa og samanburð á reiðtygjum.

Þegar miklir atburðir gerast, höfum við gert þeim rækileg skil. Glæsilegir Heimsleikar íslenzka hestsins í Herning skiluðu sér í 30 síðum í blaði, sem póstlagt var tíu dögum eftir mótið. Við gerum ráð fyrir, að leggja nótt við dag og taka svipaðar rispur við önnur sérstök tækifæri, sem snerta hestamenn meira en önnur, svo sem landsmót.

Í þessu tölublaði sláum við botninn í mótavertíð sumarsins með frásögnum af síðsumarsýningunum á Hellu og Vindheimamelum, Fákaflugi í Skagafirði og Metamóti í Andvara. Með hraðari vinnslu blaðsins en áður væntum við, að menn geti lesið um slík mót í Eiðfaxa áður en þau eru fallin í gleymsku.

Jón Finnur Hansson, sem hestamönnum er að góðu kunnur, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa. Hann mun leggja áherzlu á skrif um ræktun, sýningar og tamningar. Þessa sér þegar stað í blaðinu. Hann skrifar meðal annars grein um sveiflur í kynbótadómum í tengslum við heimsleikana í Herning. Aðra grein skrifar hann um breyttar aðferðir við frumtamningu hrossa. Einnig skrifar hann um stóðhestana Kolfinn frá Kjarnholtum og Tígul frá Gýgjarhóli.

Að lokum má ekki gleyma palladómum valinkunnra manna um kraftaverkamanninn Þorgeir Þórðarson, þar sem þeir leitast við að svara spurningunni um, hvers vegna hann nær feiknarlegum árangri á kynbótasýningum. Vonandi verða lesendur margs vísari af þessari nýstárlegu framsetningu forvitnilegs efnis.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 9.tbl. 2003

Ábyrgðarleysi breiðist út

Punktar

Paul Krugman skrifar íhugula grein í New York Times um upphlaupið í Kaliforníu, þar sem ábyrgðarlaus fjármálastjórn af hálfu þingsins byggist á gegndarlausum kröfum borgaranna um skattalækkanir og aukna þjónustu ríkisins. Umræðan snýst hins vegar ekki um fjármálin, heldur persónu ríkisstjórans, Gray Davis, sem margir vilja hrekja frá völdum. Krugman rökstyður, að ábyrgðarleysi þingsins í Kaliforníu endurspegli ábyrgðarlausa meðferð bandarískra ríkisfjármála og sé forsmekkur af svipuðu ábyrgðarleysi í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Þetta vekur hugmyndir um, hvort fleiri lönd, þar á meðal Ísland, sigli í kjölfar Bandaríkjanna á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum.

Stríðið jók hættuna

Punktar

Utanríkismálanefnd brezka þingsins hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að árásin á Írak hafi fremur magnað hryðjuverkahættu og ógnarvopnahættu í Bretlandi en dregið úr henni. Nefndin telur, að Bretland þurfi að endurreisa sambúðina við ríki á borð við Frakkland, sem var andvígt stríðinu gegn Írak. Margvísleg önnur gagnrýni á brezk stjórnvöld felst í skýrslu þingnefndarinnar. Richard Norton-Taylor segir frá þessu í Guardian.

Himnaríki á jörð

Punktar

>George Monbiot segir í Guardian, að Bandaríkin séu fremur trúarbrögð en ríki, á svipaðan hátt og Sovétríkin voru og Ísrael er. Bandaríkjamenn telja hermenn sína vera í Írak til að frelsa borgarana, frelsa þá frá Saddam, frá olíunni, frá fullveldinu. Tungutak ráðamanna Bandaríkjanna er trúboðans. Bandaríkjamenn eru ekki aðeins hin guðs útvalda þjóð, heldur eru Bandaríkin einnig sjálft himnaríki á jörð. Þeir, sem standa í vegi Bandaríkjanna eru taldir vera haldnir illum öflum, jafnvel mykrahöfðingjanum. Monbiot vísar til bókar eftir Clifford Longley, Chosen People, þar sem er rökstutt, að trúarofstæki sé rauður þráður í sögu Bandaríkjanna. Monbiot segir þetta skýra, hvers vegna ráðamenn eiga erfitt með að skilja umheiminn og misreikna gang heimsmálanna í sífellu.

Enn á faraldsfæti

Punktar

Því miður verð ég á faraldsfæti næstu daga og mun tæpast birta neitt á síðunni að sinni. Næsta birting verður væntanlega þriðjudaginn 5. ágúst.

Ríkislögreglustjórinn

Punktar

Hlutverk ríkislögreglustjórans er ekki að halda uppi lögum og rétti, heldur að vernda kolkrabbann gegn lögum og rétti. Til dæmis með því að gera hvort tveggja í senn að neita að taka við gögnum og kvarta um að hafa ekki fengið gögnin. Vegna þessa viðkvæma hlutverks hefur embættið verið þanið út meðan önnur lögregluembætti eru höfð í svelti. Ef ríkislögreglustjóri neyðist til að skoða mál olíufélaganna, verður rannsóknin japl og jaml og fuður.

Robertson á förum

Punktar

Robertson lávarður er að hrökklast frá völdum í Atlantshafsbandalaginu með haustinu, af því að hann kom þannig fram við undirbúning stríðsins gegn Írak, að ríkisstjórnir Frakklands og Þýzkalands treysta honum ekki. Hann er því gagnslaus milligöngumaður í baráttu ríkisstjórnar Íslands fyrir framhaldslífi herflugvéla á Keflavíkurvelli. Ríkisstjórnum Frakklands og Þýzkalands er sama um, hvort herflugvélar verða hér eða fara og hvort setuliðið verður hér eða fer.

Millispil Davíðs

Punktar

Skemmtileg er sú hótun landsföður okkar, að herinn verði allur látinn fara af Keflavíkurvelli, ef Bandaríkjastjórn fjarlægir herflugvélarnar. Erlendir stjórnmálaskýrendur hafa sumir hverjir túlkað slíka breytingu sem skref í átt til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, sem róttæk Bandaríkjastjórn er farin að hata eins og pestina. Því er hugsanlegt, að hótun Davíðs hafi óbein áhrif. Sjá til dæmis grein eftir Ian Black í Guardian.

Blair sagður heigull

Punktar

John Houghton, fyrrum forstjóri brezku veðurstofunnar, skrifar grein í Guardian og sakar Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, um heigulshátt vegna óbeins stuðnings við aðgerðarleysi George W. Bush Bandaríkjaforseta gagnvart hækkuðu hitastigi á jörðinni. Houghton telur þurrka, flóð, fárviðri og aðrar náttúruhamfarir af völdum aukins hita vera hættulegri en hryðjuverk. Hann segir Bretland standa meginlandi Evrópu langt að baki í aðgerðum gegn gróðurhúsaáhrifum. Raunar telur Houghton, að marktækur árangur náist ekki meðan Bandaríkin neita að undirrita Kyoto-sáttmálann.