Órar og ímyndanir

Punktar

Maureen Dowd segir í New York Times, að órar og ímyndanir ráðamanna Bandaríkjanna hafi framleitt skrímsli hryðjuverka í Írak, sem ekki var til þar, þegar þeir fóru í stríðið.

Kvartað um kvígildi

Punktar

Nú hafa seðlabankastjóri og hæstaréttardómari verið skipaðir gróflega flokkspólitískt, annar framsóknarmaður og hinn sjálfstæðismaður. Þannig verða opinberar stofnanir lélegar á Íslandi. Þeir, sem ekki eru sáttir við þetta, eru hvattir til að beina kvörtunum sínum til þeirra, sem þeir telja vera kjósendur ofangreindra stjórnmálaflokka. Slíkum kjósendum er um að kenna, að þriðja heims siðleysi ríkir villt og galið í stjórnmálum landsins. Slíkir kjósendur fara fjórða hvert ár í gáfnapróf og falla alltaf.

Dýrkeypt einkavæðing

Punktar

Julian Borger nefnir í Guardian tvö dæmi um hörmulegar afleiðingar einkavæðingar. Annars vegar er það einkavæðing raforkukerfisins í norðausturhluta Bandaríkjanna, sem olli því, að ekki var lagt fé í öryggisþætti, er mælast ekki í stundargróða. Það leiddi til algers hruns á dreifingu rafmagns. Hins vegar er það einkavæðing uppbyggingar efnahagslegra innviða í hernumdu Írak, þar sem opinberu fé Bandaríkjanna hefur verið sóað án nokkurs sjáanlegs árangurs. Það hefur leitt til aukinnar óbeitar borgara landsins á bandaríska hernáminu, sem sagt er verra en Saddam Hussein.

Falsa og strika út

Punktar

Charles Levendosky segir í New York Times, að ríkisstjórn Bandaríkjanna láti kerfisbundið falsa eða strika út rannsóknaniðurstöður opinberra stofnana, ef þær stríða gegn róttækri hugmyndafræði hennar. Hann nefnir nokkur dæmi um þetta, einkum á sviði umhverfismála og heilbrigðismála. Hann telur, að þetta leiði til, að skýrslum slíkra stofnana verði hér eftir vantreyst.

Eitraður kaleikur

Punktar

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er í vondum málum. Fyrst gaf fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðabankans og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz út bók um syndir sjóðsins, hvernig hann rústaði efnahag þróunarríkja á borð við Thailand, Suður-Kóreu, Rússland, Indónesíu og Argentínu. Betur gekk löndum eins og Póllandi, Malasíu og Kína, sem höfnuðu eitruðum kaleik sjóðsins. Nú er röðin komin að bókum um einstök lönd. Mikla athygli hefur vakið ný bók eftir hagfræðinginn Pongrac Nagy um, hvernig Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kom Ungverjalandi á kaldan klaka árabilið 1990-1996. George Monbiot segir í Guardian frá þessari nýju bók.

Eitraður skósveinn

Punktar

Það er lítið gaman fyrir krataflokk að vinna kosningar, ef sigurinn er notaður til að framkvæma stefnu andstæðinganna og gerast eitraður skósveinn róttækrar hægri stjórnar í Bandaríkjunum. Traust brezkra krata á Tony Blair forsætisráðherra fer nú ört þverrandi með nánast daglega nýjum upplýsingum um undarlegustu lygavefi hans og nánustu hirðar hans. Senn fer að líða að lokum sorgarferils mikils áhættufíkils og mesta lýðskrumara nútímans. Gordon Brown fjármálaráðherra mun taka við rústum brezka krataflokksins.

Kostnaðarhlutdeildin

Punktar

Kostnaðarhlutdeild almennings í þjónustu ríkisins hefur ekki áhrif á þann þriðjung þjóðarinnar, sem munar ekkert um hana. Hún leiðir til meiri hófsemi í notkun þjónustunnar hjá þeim þriðjungi, sem þarf að velta peningum fyrir sér. Í báðum tilvikum sparar ríkið peninga. Sá þriðjungur þjóðarinnar, sem hefur ekki ráð á hlutdeildinni, getur ekki notað þjónustuna og nýtt sér kostnaðarhlutdeild ríkisins. Þessi hliðarverkun eykur stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Þess vegna eru búin til misnotuð undanþágukerfi, sem fólk kann misjafnlega vel að nýta sér og sízt þeir, sem minnst mega sín og mest eru utan gátta. Götótta hugmyndafræði kostnaðarhlutdeildar hef ég aldrei séð skoðaða ofan í kjölinn.

Of mikið í einu

Punktar

Bryan Bender segir í Boston Globe, að mikilvægir starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar hafi verið fluttir hundruðum saman til Írak úr leitinni að Osama bin Laden í Afganistan. Hann telur þetta staðfesta kenningar um, að styrjöldin gegn Írak taki mannafla og fjármagn frá baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Al Kaída, sem skipulögðu árásina á Bandaríkin fyrir tveimur árum, og dragi jafnframt úr getu Bandaríkjanna til að treysta ástandið í Afganistan. Bender nefnir ýmis dæmi um vaxandi umsvif hryðjuverkamanna í Afganistan og aukna ringulreið í landinu.

Kóralrif dauðadæmd

Punktar

Í tímaritinu Science birtist grein eftir John Pandolfi við Smithsonian-stofnunina og fleiri vísindamenn, þar sem hann telur, að fiskveiðar, en ekki sjúkdómar, hafi spillt kóralrifum á undanförnum áratugum. Hann telur, að öll kóralrif heims séu dauðadæmd á fáum áratugum með sama áframhaldi. “Þetta er eins og að breyta regnskógi í golfvelli”, segir hann. Kóralrif eru mikilvæg í vistkerfinu, því að þau hafa falið í sér 25% af fjölbreytni tegundanna, þótt þau þeki aðeins 0,2% af hafinu. Á kóralsvæðum er hlutfall lifandi kóralla víða komið niður fyrir 5%. Á endanum verða bara marglittur og gerlar í hafinu, sagði Pandolfi í viðtali við San Francisco Chronicle.

Bless Economist

Punktar

Að þessu sinni framlengdi ég ekki áratuga gamla áskrift að Economist,
áður óvenjulega vel skrifuðu tímariti, sem var fyrir einum til tveimur áratugum ein bezta heimild mín um þróun alþjóðamála. Einhvern tíma á síðasta áratug fór Economist að versna. Í stað glitrandi stílþrifa og orðaleikja kom þunglamastíll hagfræðinga af Chicago-skólanum. Tímaritið varð smám saman að stirðbusalegu barátturiti á hægri kanti stjórnmálanna, svipað og Wall Street Journal. Í nokkur ár hef ég ekki haft neitt uppbyggilegt þangað að sækja, en íhaldssemi mín frestaði aðgerðum í málinu. Nú er mér léttir að vera laus við að fá blaðið inn um póstrifuna á föstudögum.

Kirkja barnaníðinga

Punktar

Fundizt hefur 40 ára gamalt leyniskjal úr Páfagarði, höfuðstöðvum kaþólsku kirkjunnar, stéttarkirkju barnaníðinga, þar sem kemur fram, að embætti páfa hefur áratugum saman reynt á skipulegan hátt að hindra framgang réttvísinnar í málaferlum gegn barnaníðingum í röðum kaþólskra kennimanna. Skjalið er frá valdatíma Jóhannesar 23. og var sent kardínálum og biskupum um allan heim. Þar er þeim hótað bannfæringu, ef þeir steinhaldi ekki kjafti um barnaníðinga í röðum kirkjunnar manna. Frá þessu segir Antony Barnett í Observer. Þar er líka birt ljósrit af skjalinu.

Dýr eru persónur

Punktar

Í Guardian segir Jeremy Rifkin frá rannsóknum, sem benda til, að dýr hafi meiri greind og tilfinningar en menn hafa hingað til ætlað þeim. Þau stjórnist ekki af eðlishvöt einni, heldur finni sársauka, þjáningu, streitu og ástúð. Hann bendir á, að Evrópusambandið hafi tekið tillit til þessa með að setja reglur um rétt dýra til svigrúms, samfélags og leikja. Hann bendir líka á, að lögfræðideildir 25 háskóla í Bandaríkjunum séu farnar að kenna dýrarétt og að réttindi dýra séu staðfest í þýzku stjórnarskránni. Rifkin telur, að hraði þessarar þróunar muni aukast.

Einkavætt myrkur

Punktar

Í New York Times telur Robert Kuttner, að einkavæðing sé orsök stóra rafmagnshrunsins, sem sveipaði norðausturhluta Bandaríkjanna myrki fyrir helgina. Hann minnir í leiðinni á Enron-hneykslið, sem einnig hafi stafað af einkavæðingu raforkugeirans. Skammtímasjónarmið markaðshyggjunnar hafi vikið til hliðar langtímasjónarmiðum opinbers rekstrar, sem enn er ráðandi í suðausturhluta Bandaríkjanna, þar sem raforka er ódýr og dettur ekki út.

Markaðshyggja í vörn

Punktar

Í International Herald Tribune telur William Pfaff, að Evrópa sé á leið frá markaðs- eða frjálshyggju í hagfræði, sem ýmist er kennd við Chicago-háskóla eða Washington-samhljóm og hefur lengi ráðið ferð fjármálastofnana á borð við Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Fyrir nokkrum árum fór hagfræðingurinn Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, að stinga göt á þessa stefnu. Pfaff telur raunar, að Bandaríkin hafi aðeins fylgt henni í orði, en ekki í verki, og að Evrópa sé farin að átta sig á, að markaðshyggja sé ekki alltaf í þágu þjóðfélagsins.

Merkasti sendiherrann

Punktar

Sautján þúsund manns greiddu aðgang að heimsleikum íslenzka hestsins í Herning um síðustu mánaðamót. Fimm hundruð danskir sjálfboðaliðar sáu kauplaust um rekstur mótsins. Gífurleg stemmning á mótssvæðinu staðfesti þá gömlu skoðun mína, að eina afsökunin fyrir tilveru Íslendinga sé íslenzki hesturinn, sem er merkastur allra sendiherra.