Bless Economist

Punktar

Að þessu sinni framlengdi ég ekki áratuga gamla áskrift að Economist,
áður óvenjulega vel skrifuðu tímariti, sem var fyrir einum til tveimur áratugum ein bezta heimild mín um þróun alþjóðamála. Einhvern tíma á síðasta áratug fór Economist að versna. Í stað glitrandi stílþrifa og orðaleikja kom þunglamastíll hagfræðinga af Chicago-skólanum. Tímaritið varð smám saman að stirðbusalegu barátturiti á hægri kanti stjórnmálanna, svipað og Wall Street Journal. Í nokkur ár hef ég ekki haft neitt uppbyggilegt þangað að sækja, en íhaldssemi mín frestaði aðgerðum í málinu. Nú er mér léttir að vera laus við að fá blaðið inn um póstrifuna á föstudögum.