Endurnýjun lífdaga

Punktar

Mikils metnir arkitektar teiknuðu svalir á húsið mitt fyrir um það bil 35 árum. Ég lét krók koma á móti bragði, yfirbyggði svalirnar. Þarf því ekki að fara með tebollann á morgnana út á svalir til að njóta útsýnis. Ég hef fínt gluggaveður. Hvorki fyrr né síðar hef ég skilið tilgang svala í þessu landi. Þær hafa lengst af verið eins konar úfur í hálsi, eins og baðker í samfélagi, sem notar sturtu. En svalir hafa öðlast tilgang. Þótt aldrei sjáist þar fólk, eru tvær svalir af hverjum þremur með útigrilli. Þar geta karlar eldað einir án þess að kveikja í eldhúsinu og fjölskyldunni.

Fýlan í Steingrími

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki enn getað útskýrt fýlu sína eftir kosningarnar. Ljóst var, að vinstri stjórn yrði erfið. Ástæðulaust var að kýla Framsókn á kjaftinn fyrstu tvo dagana eftir kosningar. Margt má vont segja um Framsókn, þótt sleppt sé að nota sér það í tvo daga á fjögurra ára fresti. Ég hef oft látið Framsókn finna til tevatnsins, en get hugsað mér að gefa henni frí af og til. Heimskulegt var að heimta afsökunarbeiðni af Framsókn út af máli, sem allir hafa gleymt. Mér fannst Steingrímur bara segja, að hann sé sjálfur ekki hæfur eða ekki þyrstur í ríkisstjórn.

Samráð og þjóðarsátt

Punktar

Ríkisstjórnin lætur sér ekki nægja að hafa eindreginn meirihluta á þingi. Hún býður þar á ofan þjóðarsátt. Hún tók virkjanir af framkvæmdaskrá og biður fámenna stjórnarandstöðu að hjálpa sér í þorskinum. Hvort tveggja er fínt, rétt eins og loforðin um samráð um markmið í velferð. Það sést, að horfin er Framsókn með sína græðgislegu stóriðjustefnu og horfinn er Davíðshrokinn. Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fara svo vel með völdin, að þau geta þess vegna ríkt til lífstíðar. Forsíða Moggans í gær fagnaði “víðtæku samráði” og “þjóðarsátt”.

Blogg styður fréttir

Punktar

Bloggin fjalla um myndina af Gunnari Birgissyni bæjarstjóra og þingmanni að kreista fátækar kjöltudansmeyjar á Goldfingar. Einnig um innflutning Kalla Bjarna söngvara á tveimur kílóum af kókaíni. Flestir eru sáttir við fréttir Ísafoldar og Fréttablaðsins. Enn heyrist þó bergmál fortíðar. Sumir kvarta og segja: Var nauðsynlegt að birta þetta? Má ekki sýna tillitssemi í fjölmiðlum? Slík sjónarmið láta undan síga. Flestir telja skuldbindingu fjölmiðla vera fremur við sannleika en tillitssemi í forgangsröðuninni. Þjóðin nálgast lýðræði og gegnsæi nútímans. Sannleikurinn ER sagna beztur.

Notalegur Laugaás

Veitingar

Laugaás er alltaf jafn notalegt veitingahús fyrir alþýðu manna. Ragnar Kr. Guðmundsson er þar enn við eldana eins og fyrir tæpum þremur áratugum. Umbúnaður staðarins er nokkurn veginn eins og í upphafi. Þar á meðal eru innbrenndu blómin í innfelldum múrsteinum í matarborðum. Breytingin í þrjá áratugi felst einkum í, að fiskréttum hefur fækkað. Verðið er fremur lágt eins og það hefur alltaf verið. Hagkvæmust eru kaupin í dýru hráefni, því að á það er ekki lagt prósentvís, heldur krónuvís. Ég prófaði í fyrrakvöld humarsúpu og hrefnukjöt hjá Ragnari, fínan mat fyrir sáralítinn pening.

Framtíðin er á miðvikudag

Punktar

Úrslitafundur um framtíð mannkyns hefst í Heiligendamm í Þýzkalandi á miðvikudag. Þá munu leiðtogar átta efnahagslegra risavelda hittast, einkum til að ræða loftslagsbreytingar. Skoðanir eru skiptar. Annars vegar er meginland Evrópu undir forustu Angelu Merkel, kanzlara Þýzkalands. Hins vegar eru Bandaríkin undir forustu George W. Bush forseta. Merkel vill hraða aðgerðum gegn mengun andrúmsloftsins og Bush vill drepa þeim á dreif. Milli málsaðila eru Tony Blair og Shinzo Abe, forsætisráðherrar Bretlands og Japans. Þeir vilja ná samkomulagi. Um framtíð okkar? Bara um eitthvað.

Þorskurinn hrundi

Punktar

Hafró verður ekki kennt um hrun þorskstofnsins. Árum saman hafa ráðherrar sjávarútvegs leyft meiri veiði en Hafró ráðlagði. Þeir bera ábyrgðina á hruni stofnsins, mest auðvitað núverandi ráðherra, Einar K. Guðfinnsson. Hagsmunaaðilar hafa komið að hruninu með sífelldum efa um, að heil brú sé í tillögum Hafró. Nú vill stofnunin, að veiðar á þorski verði minnkaðar um fimmtán milljarða króna og veiðar á ýsu og ufsa um fimm milljarða króna. Aftur verður því hafinn söngurinn um, að þjóðfélagið þoli ekki samdráttinn. Og Einar er án ábyrgðartilfinningar og mun leyfa aukið skark.

Kaffi og kökur

Punktar

Þótt bannað sé að drekka á íþróttavöllum, bera knattspyrnusambandið og fótboltafélög áfengi í hefðarfólk í hliðarsal. Fréttablaðið hefur undanfarið birt myndir af þessu, síðast í morgun. Tvennt er athyglisvert við áfengið, fyrir utan að vera ólöglegt. Í fyrsta lagi halda sambandið og félög þess, að þau sleppi, ef þau kalla áfengið kaffi og kökur. Í öðru lagi telja sambandið og félög þess, að höfðingjar megi gera það, sem öðrum er meinað. Þetta fótboltasamband varð líka frægt fyrir karlrembu, þegar það afnam eyrnamerkt styrktarfé kvennalandsliðs. Til að allt færi í karlana.

Fíflast á YouTube

Punktar

Veraldarvefurinn breytti pólitíkinni í kosningabaráttunni. Fleiri raddir heyrðust en hefðbundnu fjölmiðlanna og bloggara á þeirra vegum. Mikla sveiflu í fylgi flokka má að einhverju leyti rekja til breiðrar umræðu á veraldarvefnum. Þetta eru þó smámunir í samanburði við pólitík næstu ára. Þá byrja þeir að fullorðnast, sem nú eru á gelgjuskeiði og hafa gaman af að fíflast á YouTube. Sú heimska verður notuð gegn fólki, þegar það vill segja skilið við barnaskapinn og þykjast ætla fram í pólitík. Þá verða dregnar upp óþægilegar gemsamyndir úr gömlum hasspartíum vanþroskaðra.

Reykingar bannaðar

Punktar

Loksins er búið að banna reykingar á kaffihúsum. Ég er að hugsa um að taka mér frí og fara á röltið til að prófa gæði á espresso-bollum á ýmsum stöðum. Mig hefur langað til að gera það, en hef ekki treyst mér í kófið. Sennilega leyfi ég þó einum mánuði að líða, því að fýlan er lengi að fara úr húsbúnaði. Tóbaksfýla minnir mig á aðra vonda fýlu, það er bjórfýluna. Ég get ekki metið, hvort verra er að tala við fólk, sem stinkar af tóbaki, eða fólk, sem stinkar af bjór. Sérstaklega er óþægilegt að tala við konur, sem stinka. Þetta eru ókvenlegar fýlur. Bezt væri að banna bjórinn líka.

Hörmung í Heiligendamm

Punktar

Sennilega mun George W. Bush fá stuðning hins flaðrandi Tony Blair á fundi áttveldanna í Heiligendamm í næstu viku. Blair hefur hrósað tillögu Bush um nýtt ferli gegn mengun andrúmsloftsins. Blair segir hrósið stafa af, að þetta sé í fyrsta skipti, sem Bush viðurkenni, að mengun sé vandi. Aðrir segja, að tillagan hafni alveg ferli Kyoto-bókunarinnar. Hún sé aðferð til að skjóta málinu á frest fram yfir forsetatíð Bush. Þegar Evrópa otar fram tillögu um nýtt skref í Kyoto-ferlinu, mun Bush vísa til nýju tillögunnar og neita að vera með. Evrópa mun láta kúga sig. Það er sérgrein hennar.

Afganar flækjast fyrir

Punktar

Auknar líkur eru á, að stríð Bandaríkjanna og Nató gegn Afganistan tapist. Það segir Karl F. Inderfurth í International Herald Tribune. Þetta skiptir okkur máli, af því að höfðum þar teppasala eða “jeppagengi” samkvæmt orðum Valgerðar utanríkisráðherra. Inderfurth segir, að stríðið um hug og hjörtu heimafólks sé að tapast vegna fjöldamorða hernámsliðsins á óbreyttum borgurum. Sú venja hefur skapast í Bandaríkjunum og Nató, að innfæddir í þriðja heiminum eru taldir einskis virði. Þeir eru skotnir, ef þeir eru fyrir. Þetta hefur valdið hugarangri víða í Evrópu. En ekki hér á landi.

Íslenzk lygi

Fjölmiðlun

Mynd Fréttablaðsins af bjórveizlu í viðhafnarsal Laugardagsvallar minnir á róttækan mun íslenzkrar og bandarískrar lygi. Þar hafa lygarar sjálfsvirðingu og reyna að hagræða sannleikanum. Hér eru þeir án sjálfsvirðingar og segja bara að svart sé hvítt. Enda sagðist bjórvertinn aðeins bjóða kaffi og kökur. Hann skammaðist sín ekki og hugsaði sem svo: “Það gengur betur næst.” Ég hef alltaf áminnt blaðamenn um að eiga öll samtöl á segulbandi. Hundrað sinnum hef ég heyrt: “Hvert orð í blaðinu er lygi.” Hundrað sinnum hef ég sagt: “Það er allt á bandinu”. Nú hafa menn allt á myndsímanum. Það er frábært.

Vefurinn brennir fé

Fjölmiðlun

Nýr fjárhagsgrundvöllur hefur ekki fundizt fyrir hefðbundinni útgáfu seldra fjölmiðla né fyrir blaðamennsku þeirra á vefnum. Nýmiðlun hefur laskað fjárhag hefðbundinna fjölmiðla, til dæmis rænt smáauglýsingunum. Fréttir voru áður seldar í áskrift, en eru nú ókeypis. Fréttasafnarar á borð við Google og Yahoo, Digg og Wikio fara framhjá heimasíðum fjölmiðla. Verð fyrir auglýsingar á vefnum er brot af verði hefðbundinna auglýsinga. Gömlu fjölmiðlarnir eru samt dæmdir til að keppa á vefnum. Því að öll vonum við, að fjárhagsleg forsenda muni um síðir finnast í nýmiðlun, brauð af himnum.

Jörðin er vígvöllur Bush

Punktar

Bandaríkin líta á jörðina sem allsherjar vígvöll í endalausri baráttu gegn hryðjuverkum. Þetta segir Amnesty í ársskýrslunni. Mannréttindi séu skert í nafni öryggis í baráttu, sem kemur fyrst og fremst niður á saklausu fólki. Amnesty segir George W. Bush vera siðlausan, “unprincipled” valdhafa, sem víkki framkvæmdavaldið á kostnað þingsins. Hann rækti ótta og skelfingu og hatur á útlendingum. Að þessu sinni beindi Amnesty einkum geiri sínum að Bandaríkjunum. Enda hefur framferði þeirra verið fyrirmynd og afsökun harðstjóra og stríðsglæpamanna um allan heim. Sjá grein í Times.