Límdir við Reykjavík

Punktar

Sem stóreignamaður á landi er ég áhrifalaus félagi í veiðifélagi Stóru-Laxár. Predika hollustu markaðshyggju. Legg til, að veiði verði boðin út. Það vilja ekki eigendur smájarða, sem ráða félaginu. Þeim er sama, hvort þeir fá tuttugu eða hundrað þúsund kall á ári. Þeir eru límdir við Stangaveiðifélag Reykjavíkur og fá sem stjórnarmenn frítt á árshátíð þess. Þeir móðgast, ef þeir fá tilboð annarra um tvöfalt verð. Þeir vilja öngla og spúna. Þeir vilja ekki, að laxi sé skilað í ána. Þeir vilja ekki erlenda kynningu. Þeir vilja bara gömlu fylliraftana úr Reykjavík. Á hálfu verði.

Frelsið ríkir ekki

Punktar

Ef þrjú fyrirtæki samtals eða færri ráða markaði í grein, jafngildir það einokun. Bankarnir þrír keppa ekki í þjónustu, bara í ímyndarauglýsingum. Olíufélögin keppa ekki og ekki heldur tryggingafélögin. Símafélögin keppa ekki í verði, heldur í rugli. Engin samkeppni er í flugi innanlands eða milli landa. Vörufragt er líka einokuð. Vinnsla búvöru hefur verið einokuð lengur en elztu menn muna. Verulegir þættir í kostnaði almennings eru í viðskiptum við einkafyrirtæki, sem njóta einokunar. Það er bara bull og áróður rammvilltra hugmyndafræðinga, að frjáls samkeppni ríki á Íslandi.

Bandarísk stríðsógæfa

Punktar

Síðan Bandaríkin náðu jafntefli í stríðinu í Kóreu árið 1953, hefur sigið á ógæfuhliðina. Þau létu hrekja sig úr Víetnam 1975, Líbanon 1983 og Sómalíu 1994. Þau munu láta hrekja sig úr Írak og Afganistan. Þau þora ekki að leggja til atlögu við Íran. Þótt Bandaríkin séu heimsins mesta herveldi, ráða þau ekki við fátækar þjóðir, sem berjast að hætti skæruliða. Þannig er máttur hins harða takmarkaður. Á sama tíma ræður Evrópa heiminum með því að setja snúnar reglugerðir, sem allir verða að fylgja, jafnvel heimsveldið Microsoft. Mjúka aflið reynist vera sterkara og varanlegra en harða aflið.

Enginn skoðar götur

Punktar

Danski flotinn mældi Ísland fyrir einni öld. Honum er að þakka, að við eigum nákvæma staðsetningu mikilvægustu fornleifa landsins, reiðvega í hundraða tali. Fyrir bílaöld höfðu reiðvegir legið í tíu aldir á sama stað. Sums staðar var fyrr á öldum hlaðið í þessa vegi og jafnvel lögð ræsi í læki. Hér og þar liggja þar grafnir munir, sem hafa fallið úr pússi ferðamanna og hófar hafa marið niður í götuna. Engir fornleifafræðingar hafi skilið mikilvægi reiðvega fyrri alda. Allir grafa upp húsarústir, sem allar eru eins. En samgöngukerfi fortíðar bíður undir hófum klára minna.

Hlustum á verkin

Punktar

Þýðingarlaust er að fylgjast með pólitík strax eftir kosningar. Verkin tala, ekki orðin. Verkin koma í ljós á löngum tíma. Að lokum getum við til dæmis áttað okkur á, hvort ríkisstjórnin fylgir stóriðjustefnu Framsóknar eða Samfylkingar. Orð, sem fallið hafa, segja okkur ekkert um það. Fágætt er, að menn tali hreint út um hlutina eins og Jóhanna Sigurðardóttir gerði um Íbúðalánasjóð og Össur Skarphéðinsson um Þjórsárver. Slíkt ber að þakka. En að öðru leyti er flest það loðið, sem ráðherrar segja þessa dagana. Við skulum heldur bíða og sjá, hvað þeir munu gera og munu ekki gera.

Hvar er Schwarzenegger?

Punktar

Þannig spyr Timothy Egan í New York Times. Landsfeður Evrópuríkja í hópi áttveldanna hefðu heldur viljað fá Arnold Schwarzenegger til Heiligendamm en erkifíflið George W. Bush. Arnold er repúblikani, fæddur í Austurríki og hefur rekið evrópska grænstefnu í Kaliforníu. Það er níunda mesta hagveldi heims, framar Kanada og Indlandi. Schwarzenegger þvingaði bílaframleiðendur til að bæta útblásturinn. Hann hefur skuldbundið ríkið til að minnka eitur í útblæstri um 25% fyrir árið 2020. Hann þorir meira að segja að gera grín að kristnum trúarofstækismönnum á borð við geðsjúklinginn Rush Limbaugh.

Samfylking á hálum ís

Punktar

Samfylkingin er sökuð um að hafa tekið upp stefnu Framsóknarflokksins í umhverfisspjöllum, Virkjanir áfram, ekkert stopp. Hún segir það ekki vera ákvörðun um stóriðju, að Orkuveitan geri samning við Norðurál um orkusölu til Helguvíkur. Sú kenning jaðrar við orðhengilshátt. En Samfylkingin er þegar búin að vinna kosningar út á tímabundið stóriðjustopp. Hún verður ekki dæmd fyrr en eftir fjögur ár og þá af verkum sínum. Kannski verður allt eins og áður átti að vera, fyrst Helguvík, síðan Húsavík og loks samráð um stopp. Ef svo er, þá rekur Samfylkingin hreina stefnu Framsóknar.

Óvart upplýst verð

Punktar

Í tvígang hefur orkuverð til stóriðju verið upplýst. Óvart í bæði skiptin. Í fyrra skiptið sagði Alcoa óvart frá verðinu á Reyðarfirði í vefsíðufrétt frá Brasilíu. Í síðara skiptið sagði Orkuveitan óvart frá verðinu í Helguvík. Nú er það verkefni fjölmiðla að rekja áfram þetta tvenns konar verð. Þeir eiga að segja okkur, hvort þetta verð sé arðbært fyrir þá sem selja orkuna. Eða hvort hátt verð til almennings niðurgreiði stóriðju, sem við viljum helzt ekki hafa. Ekki er lengur nauðsynlegt að tala um málið í skjóli verðleyndar. Við höfum tölurnar á borðinu, gegn vilja orkusalanna.

Iceland Express okrar

Punktar

Þrisvar dýrara er að fljúga með Iceland Express en með hliðstæðum félögum á leiðum, sem eru svipaðar að lengd. Þegar bezt lét, var Iceland Express tvöfalt dýrari. Þá kostaði ferðin þar 20.000 krónur á núvirði, en kostar núna 30.000. Svipuð ferð með EayJet eða RyanAir kostar tæpar 10.000 krónur. Hækkunin hér stafar af, að Iceland Express er komið í eigu sömu aðila og eiga Icelandair. Einokun hefur aftur komizt á í millilandaflugi Íslands. Fáar ferðir eru boðnar af öðrum. Og erfitt að finna þær, því að Icelandair og Iceland Express fá pláss fremst á flugleitarsíðum, t.d. á DoHop.

Dýrari leigubílar

Punktar

Ferðir með leigubílum hafa hækkað í verði síðan verðið var gefið frjálst. Frjáls samkeppni kemur notendum ekki að gagni, því að aðgangur að rekstri leigubíla var ekki gefinn frjáls. Þar ríkir enn skömmtunarkerfi og þess vegna kemur frjálst verð ekki að gagni. Þetta er einmitt helzta einkenni einkavæðingar allra síðustu ára. Þar hefur verið gefið frjálst verðlag á þjónustu, sem áfram er einokun, þrátt fyrir breytinguna. Frjálst verð á rafmagni hefur þess vegna ekki lækkað rafmagnsverð. Frjálst verð á vatni mun gera það dýrara. Frjálst verð á heilsugæzlu mun líka gera hana dýrari.

Mislukkuð tillitsemi

Punktar

Danskir fjölmiðlar sögðu af mannúðarástæðum ekki frá nafni mannsins, sem sló dómarann á fótboltaleik Dana og Svía. Tillitssemi var tekin fram yfir sannleika. Af því leiddi, að á vefnum skaut upp röngu mannsnafni. Saklaus maður varð fyrir barðinu á fólki og varð að fá lögregluvernd. Skynsamlegra hefði verið, að sá seki hefði fengið lögregluvernd. Fjölmiðlasagan er full af mislukkuðum tilraunum til að skammta aðgang almennings að upplýsingum. Einn af fimm skipverjum ferst af sökkvandi báti. Þá er ættingjum hinna fjögurra haldið í óvissu meðan nafnleynd ríkir um hinn látna.

Óviðráðanleg þörf

Punktar

Alltaf er verið að ljúga að okkur. Forráðamenn fótboltafélaga nota orðin kaffi og kökur yfir áfengi, sem þeir veita á leikjum. Og Landsvirkjun hefur aldrei sagt satt um vinnuhraða í Kárahnjúkum. Smám saman hefur verið að koma í ljós, að stofnunin hefur þagað yfir seinkunum. Fyrst átti rafmagn að koma í apríl síðastliðnum. Síðan var játað, að rafmagn kæmi ekki fyrr en í júlí. Nú síðast er að koma í ljós, að rafmagn kemur ekki frá Kárahnjúkum fyrr en í október. Þetta hafa ráðamenn og spunakarlar Landsvirkjunar vitað allan tímann. En þeir hafa óviðráðanlega þörf fyrir að ljúga að almenningi.

Krónan töluð niður

Punktar

Ég hef ekki áhyggjur af gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á Seðlabankann. Hún er hagsmunagæzla frekar en sannleikur. Vilji samtökin lægri vexti, eiga þau að heimta evru í stað krónu. Seðlabankinn er bara að bregðast við óeðli í hagkerfinu. Af hagsmunaástæðum reyna samtökin að tala niður krónuna. Hún er hins vegar of lágt skráð, dönsk króna kostaði oft tíkall en kostar núna tæpar tólf krónur. Atvinnulífið þorir ekki að tala um of hátt kaup. Því er talað um, að krónan sé of hátt skráð. Bezt er að leysa vexti og gengi með evrunni. Verkalýðsfélög eru raunar farin að heimta hluta af launum í evrum.

Eðlileg stéttaskipting

Punktar

Eðlilegt er, að þættir samfélagsins stuðli að stéttaskiptingu. Menntaskólar velja inn fólk eftir einkunnum. Það stuðlar að eðlilegri stéttaskiptingu. Sumum gengur betur en öðrum, fá hærra kaup, fínni hús og stærri bíla. Engin ástæða er til að reyna að hindra, að markaðshagkerfið virki á réttan hátt. Samfélagið reynir hins vegar með velferð að draga úr stéttaskiptingu án þess að jafna hana. Það köllum við almannatryggingar. Eitt má þó gera til viðbótar, jafna skattana. Ástæðulaust er, að fátækir borgi hærri skatta af launatekjum en ríkir borga af fjármagnstekjum. Þar á að jafna prósentuna.

Þrenns konar villur

Punktar

Þrenns konar villur hrjá íslenzka fjölmiðla. Í fyrsta lagi prentvillur, oftast ásláttarvillur. Slegnir eru aukastafir, stöfum er víxlað eða stafir falla niður. Þann sóðaskap á að leiðrétta í tíma með sérstökum forritum. Í öðru lagi íslenzkuvillur. Þær fela í sér ranga stafsetningu, ranga beygingu orða eða ranga meðferð orðtaka og spakmæla. Slík vandræði hafa löngum verið uppistaða í umvöndunarpistlum í fjölmiðlum. Í þriðja lagi eru stílvillur. Þær fela í sér hugsunardaufa textagerð, oft með froðu, sem fyllir helming textans. Stílvillur eru verstar, skaða tilgang tungumáls, samskipti fólks.