Ráfa milli veitingahúsa

Punktar

Kona og dóttir eru norður í landi, einn sonur á fjalli, annar á Ítalíu og þriðji í Frankfurt. Ég er því stjórnlaust flak, ráfa stefnulaust milli veitingahúsa. Kennslan klárast á morgun og losarabragur tekur við. Bækurnar frá Amazon eru himnasending, nú get ég klárað undirbúning kennslu næsta vetrar. Ég þarf að koma mér í sveitina, meðan ég kemst enn fyrir milli stýris og sætisbaks. Nú er bára mánuður til ferðarinnar miklu um strendur og heiðar Norðursýslunnar. Svo er ég búinn að skipuleggja ferð um Lissabon og klettavirki nágrennisins. TripAdvisor.com er fínn til að velja hótel.

Andvígir Amnesty

Punktar

Páfagarður og Bandaríkin eiga ýmislegt sameiginlegt. Meðal annars fara samtökin Amnesty í taugar stjórnvalda á báðum stöðum. Páfastóll kvartaði í vikunni um stuðning Amnesty við fóstureyðingar. Bandaríkin kvarta um það sama. Þar að auki segja þau samtökin leggja sig í einelti. Þetta eru stórvirk samtök mannréttinda, sem skara fram úr öðrum á því sviði. Þau hafa til dæmis ekki látið hræsni vesturlanda í friði. Því eru margir andvígir Amnesty. Þeir eiga það sameiginlegt með Bandaríkjunum og Páfagarði að vera hægri sinnaðir valdshyggjumenn á jaðri þess að mega kallast fasistar.

Blair bítur fóstrana

Punktar

Tony Blair skammaði fjölmiðla í vikunni. Hann sagði þá grimma sem úlfa og ættu að leggjast í fjötra. Blair er vel kunnugur vonzku fjölmiðla. Hann var gerður að forsætisráðherra í fjölmiðlafári Rupert Murdoch. Sá illi andi vesturlanda á marga brezka fjölmiðla og tók framboð Blair upp á sína arma. Fjölmiðlar hans gerðu Blair að leiðtoga lífs síns og hafa síðan sýnt honum skilyrðislausa fylgispekt. Margir hafa jafnan litið á forsætisráðherrann sem hund í bandi Murdoch fjölmiðlakóngs. Gaman er því að sjá hundinn gelta að fjölmiðlum. Í lok ömurlegs ferils hans í skjóli þessara sömu fjölmiðla.

Hjá Kjartani sægreifa

Punktar

Fékk humarsúpuna heimsfrægu á Sægreifanum í gærkvöldi. Kjartan Halldórsson hefur stigið metorðin hratt á 2-3 árum í verbúðinni við Geirsgötu 8. Hann er búinn að færa út kvíarnar yfir í austurhluta hússins og upp á loft. Ferðafræðingar heimspressunnar hafa sett humarsúpu Sægreifans á lista hins ódauðlega. Hér má því búast við biðröðum út í Slipp í sumar. Gleymið því Bláa lóninu og Geysi. Súpan var ágæt, bragðmild, hveitilaus og rjómalítil. Hún var með betri súpum af því tagi. Hún var hæfileg gerð, laus við allar ýkjur, drukkin úr plasti. Aðeins 750 krónur kostaði að meðtaka ambrósíuna.

Óskammfeilinn sjóður

Punktar

Það er óskammfeilni af Alþjóðlega gjaldeyrissjóðnum að senda menn um lönd til að hafa álit á efnahagsmálum. Fáar stofnanir í heiminum hafa orðið að eins miklu aðhlátursefni og þessi banki. Hann tók þátt í að rústa efnahag Rússlands á tíma Jeltsíns. Með því að troða úreltum kreddum frá háskólanum í Chicago upp á ríkið. Sjóðurinn hefur haft slæm áhrif víðs vegar um þriðja heiminn. Einkum hefur hann valdið almenningi hörmungum. Með kröfu um erlent vinnuafl og lægra kaup, andúð á samtökum launþega og hatri á velferð. Bezt hefur gengið þeim ríkjum, sem minnst mark hafa tekið á sjóðnum.

Wall Street Journal rústað

Punktar

Rupert Murdoch ætlar að eignast Wall Street Journal. Það er eitt af beztu fréttablöðum í heimi, þótt leiðarasíðan sé slöpp. Murdoch er eins konar Atli Húnakonungur pressunnar. Þar grær hvergi gras, sem hann ríður yfir. Mér er minnisstætt, hvernig hann rústaði Times og Sunday Times í London árið 1981. Þá voru þau meðal beztu blaða í heimi. Ég þekkti ritstjórann, Harold Evans, sem hafði orðið frægur af thalidomide-málinu. Murdoch keypti líka New York Post og eyðilagði. Allir hans fjölmiðlar verða að stunda falsanir að hans skapi. Hann er illt afl og mun rústa Wall Street Journal.

Formaður fundinn

Punktar

Björn Ingi Hrafnsson verður formaður Framsóknar í næstu kosningum eftir fjögur ár. Finnur Ingólfsson og mennirnir með peningana hafa ákveðið það. Þeir þola ekki síðasta móhíkanann, Guðna Ágústsson. Þeir telja hann ekki munu sækja fylgi á þessari nýju öld. Þeir vænta hins vegar mikils af Binga. Hann brosir jafnan út að eyrum, er reyndur í spuna og í ævintýralega góðu sambandi við fjölmiðla. Almannatengslin ljóma af honum langar leiðir. Hann er maðurinn fyrir vinnumiðlunina. Verður ekki bara formaður, heldur ráðherra strax eftir kosningar, því að Íslendingar hafa gullfiskaminni.

Lastið ekki lögmálin

Punktar

Fínt er, að menn reyni að selja 139 fermetra íbúð í blokk á 68 milljónir króna. Það er að vísu þrefalt meira en venjulegt er. Markaðslögmál ráða þessu, ekki álitsgjafar. Peningarnir verða að sirkúlera. Aðeins eitt gæti verið athugavert, að athafnamenn hafi fengið forgang að lóð og verði út á framkvæmdir fyrir gamla fólkið. Þeir eiga þá að svara til saka fyrir það. Að öðru leyti minnir þetta á hálfhrundu blokkina við Skúlagötu. Þar borgaði fólk svipað verð og hættir á, að fá veggflísar fljúgandi í hausinn. Ef menn vilja borga, þá borga þeir og málið er dautt. Lastið ekki markaðslögmálin.

Ferðasaga forsetans

Punktar

Pólland, Tékkland, Albanía, Búlgaría og Páfastóll voru ríkin, sem George W. Bush forseti heimsótti í ferð sinni um Evrópu. Hann heimsótti ekki Bretland og ekki Frakkland. Hann varð að koma til Þýzkalands, því að þar var fundur áttveldanna. Hann heimsótti ekki Ítalíu, þótt Páfastóll sé þar innlyksa. Allt var þetta táknrænt og hagkvæmt. Af alþekktum ástæðum yrði illa tekið á móti forsetanum hvarvetna í Vestur-Evrópu. Öðru máli gegnir um Austur-Evrópu og Páfagarð. Þar urðu engin uppþot. Ferðin um Evrópu segir merkilega sögu um stöðu heimsmála árið 2007. Um varanlegan klofning vesturveldanna.

Ráðherra talar skrítið

Punktar

Einar K. Guðfinnsson talar um hvalveiðar eins og ekki hafi verið skipt um ríkisstjórn í landinu. Hann virðist telja, að stjórnin sé hin sama og áður, þótt nýr flokkur hafi komið til skjalanna og nýir ráðherrar. Hann virðist telja, að stefna gömlu ríkisstjórnarinnar gildi áfram, að minnsta kosti út þetta ár. Ég hef hvergi séð slíkt í sáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar. Þetta er bara sama veruleikafirring ráðherrans og sést í tilraunum hans til að skauta enn einu sinni framhjá tillögum vísindamanna um minni fiskveiði. Gæzlumaður allra stytztu skammtímahagsmuna kvótakónga fer með skrítið mál.

Fullorðni ráðherrann

Punktar

Colin Powell var upphaflega utanríkisráðherra hjá George W. Bush og sagður eini fullorðni maðurinn í stjórninni. Hinir voru stjarft nýja-íhald, sem tróð stríði við Írak og Afganistan upp á þjóðina. Powell var gabbaður til að flytja á þingi Sameinuðu þjóðanna lygar um gereyðingarvopn í Írak. Hann hefur síðan ekki borið sitt barr. Nú hefur hann vaknað til lífsins og segir Bandaríkin eiga að loka pyndingabúðunum í Guantanamo. Þær séu svartur blettur á þjóðinni og hafi eyðilagt trú manna á réttarfar í landinu. Nýr utanríkisráðherra, Robert Gates hefur raunar sagt svipað, aðeins mildar.

Guðleysingjar í metsölu

Punktar

Guðleysingjar eru í stórsókn í Bandaríkjunum. Hver bók guðleysingja á fætur annarri lendir þar á metsölulistum. Fremstir fara þekktir höfundar. Richard Dawkins skrifaði bókina: Ruglið um guð. Christopher Hitchins skrifaði bókina: Guð er ekki mikill. Sam Harris skrifaði bókina: Bréf til kristinna manna. Þeir þremenningar draga ekki styttri stráin í skefjalausri lýsingu á eymd kristninnar, vonzku hennar og eitrun trúhneigðra. Ég hef lesið allar bækurnar þrjár. Þær eru fínar, gegna þar svipuðu hlutverki og bók Níelsar Dungal: Blekking og þekking, gerði hér árið 1948. Hana mætti endurprenta.

Með Papa Ratzi

Punktar

Ég hló að myndinni af íslenzku sendiherrafjölskyldunni með trúnaðarbréfið í Páfagarði. Þarna stóðu þau, slæðuklædd konan og börnin eins og stóreygir túristar, aðframkomin af nálægð við almætti Papa Ratzi. Hvar voru afinn og frænkan? Þetta er næsti bær við París Hilton og tækifærið kemur ekki aftur. Myndin sýnir firringu utanríkisþjónustunnar, sem lét útrás íslenzkrar kaupsýslu fram hjá sér fara. Sendiráð um víðan völl eru eins konar menúett, stiginn um flottræfilshátt nokkurra embættismanna og aflóga pólitíkusa. 200 trúnaðarbréf kosta morð fjár og koma þjóðinni ekki að nokkru minnsta gagni.

Hægt dauðastríð

Punktar

Blendnar tilfinningar fylgja hægu dauðastríði Moggans. Gamlir áskrifendur deyja og nýir koma ekki í staðinn. Breytingar hafa ekki læknað ellina. Áskriftir henta ekki nýjum tíma ókeypis frétta. Enn síður henta stofnanir nýjum tíma. Mogginn hefur verið illa skrifaður frá því ég man eftir mér, í froðustíl embættismanna. Minnisstætt er, að hann hefur talið skyldu sína að sjá um, að satt megi kyrrt liggja, í smáu sem stóru. Hann telur tilraunir til hönnunar á pólitísku ferli vera fréttaskýringar, við hæfi á forsíðu. En Mogginn hefur mótað samfélagið áratugum saman. Ég mun sakna hans.

Evrópa er Visa

Punktar

Lestur bókarinnar Why Europe Will Run the 21st Century hefur opnað mér nýja sýn á heimsmálin. Mark Leonard lýsir þar, að harður máttur Bandaríkjanna er einskis virði í nútímanum. Hann getur ekki einu sinni unnið stríð. Hinn mjúki máttur Evrópu felst í altumlykjandi reglugerðum. Þær ákveða á 80.000 síðum, hvernig menn hagi sér í samskiptum. Þar á meðal í fjölþjóðlegum samskiptum. Mikill hluti heimsbyggðarinnar verður að fara eftir reglum Evrópu, bara út á viðskiptin. Galdurinn er, að Evrópa er ekki heimsveldi, heldur samskiptanet, sjálfvirkur vefur. Eins og Visa. Brilljant bók.