Enn einn á flótta

Veitingar

Gallerý fiskur í Árbæ reyndist lokaður. Nú er hann sagður aðeins opinn þrjá daga í viku, sem er næsti bær við uppgjöf. Samt er of lítið af fiskistöðum. Og hér var góð matreiðsla, sem of lítið er af. Eldhúsið stýrir ekki gengi veitingahúsa hér á landi, til þess er smekkur fólks of slappur. Margt annað þarf að takast til að matstaðir blómstri. Eitt er staðarvalið, Gallerý fiskur er afskekktur. Svo er innréttingin. Þetta er kaldur og óvistlegur staður norræns mínimalisma. Svipaður fiskistaður, afskekktari en notalegri og heimilislegri er Tilveran í Hafnarfirði, sem enn er við beztu heilsu.

Rushdie aðalsmaður

Punktar

Það var gott hjá Bretum að aðla Salman Rushdie, höfund Satansversanna. Enda komu viðbrögð ofsatrúarmanna hratt. Utanríkisráðuneyti Pakistans og Írans andmæltu aðalstigninni, sögðu hana móðgun við íslam. Það er fínt, það er um að gera að móðga múslima. Róttækir múslimar hafa gengið fram af okkur í ofbeldi og yfirgangi. Við munum eftir skrípamyndunum af Múhameð spámanni, sem leiddu til óeirða víða um heim. Við munum eftir, að það voru danskir múslimar, sem fóru um Miðausturlönd og helltu olíu á eldana, Meðal annars með því að sýna falsaðar myndir. Ekki má gefa þessu liði eftir eina tommu.

Furðunefnd blaðamanna

Fjölmiðlun

Enn einu sinni hefur furðuleg siðanefnd Blaðamannafélags Íslands kveðið upp fáranlegan úrskurð. Nýjasta plaggið lýsir þekkingarskorti á blaðamennsku og vanþekkingu á málinu. Kastljós hefur svarað málefnalega og sannfærandi, lið fyrir lið. Blaðamannafélagið þarf að fara að taka á þessari meinsemd í félaginu. Siðareglur félagsins eru að vísu fjarska gamlar og lélegar, ólíkar siðareglum blaðamanna og fjölmiðla í öðrum löndum. En úrskurðir nefndarinnar eru ekki í samræmi við reglurnar og jafnan hálfu verri. Leggið hið bráðasta niður þessa furðunefnd og farið að endurskoða reglurnar.

Þeirra eigin orð

Punktar

Björn Bjarnason ráðherra er fremstur á sviðinu, en flestir pólitíkusar hugsa eins og hann. Þeim finnst ófært, að fólk hafi aðrar skoðanir í dag en það hafði fyrir fimm árum. Þeim finnst ástæða til að kvarta um það í bloggi og greinum. Þeir eru ekki einir um þetta. Gefnar hafa verið út heilar bækur undir titlum á borð við: Þeirra eigin orð. Í öllum tilvikum er ætlast til að sjónarmið haldist ævilangt óbreytt. Ég efast ekki um, að Björn mun á morgun hafa nákvæmlega sömu skoðanir og við fæðingu. Við hin erum hins vegar leitandi fólk og skiptum um skoðun, þegar við vitum betur en áður.

Ónýtir auðkennislyklar

Punktar

Auðkennislyklar bankanna fyrir heimabanka fólks eru léleg tækni gærdagsins. Lyklarnir eru klunnalegir, passa ekki í lyklakippur. Auk þess bila þeir, oftast á þann hátt, að hettan dettur af og týnist. Miðað við annan öryggisbúnað, sem er í daglegri notkun, virðist mér þetta fornfálegur búnaður og ótraustur. Bankarnir hafa látið plata sig í þessum viðskiptum. Gallarnir eru ekki viðskiptamönnum bankanna að kenna, heldur bönkunum sjálfum. Ráðamenn þeirra eru samt að gamna sér við að rukka viðskiptamenn fyrir að skipta um lykil. Það er gott dæmi um einokunaraðstöðu bankanna.

Geðsjúk illmenni

Punktar

Frægasti rannsóknablaðamaður heims, Seymour M. Hersh, birtir í nýjasta New Yorker gein um Abu Ghraib hneykslið. Þar er meðal annars viðtal við Antonio M. Taguba hershöfðingja, sem stjórnaði rannsókn pyndinganna þar. Af frásögn hershöfðingjans sést, að helztu ráðamenn Bandaríkjanna og hersins eru rakin illmenni, sem eiga heima á geðveikrahæli. Einkum er rakinn þáttur Donald Rumsfeld, þáverandi stríðsráðherra. Hann og George W. Bush forseti studdu pyndingarnar eindregið og reyndu að bregða fæti fyrir rannsóknina. Hersh hefur alltaf haft rétt fyrir í rannsóknum sínum. Allt frá My Lai árið 1969.

Heimsóttu austurkommana

Punktar

Ekki skil ég, hvers vegna vinstri grænir sendu fulltrúa á þing Vinstri flokksins í Þýzkalandi. Þetta er nýtt nafn á gamla kommúnistaflokknum í Austur-Þýzkalandi. Það var einn allra versti kommúnistaflokkur í heimi, verri en flokkarnir í Póllandi, Tékkó og Ungó. Þótt Gysi og Lafontaine séu skárri en Ulbricht og Honnecker voru, er þetta allt sama, fúla glæpagengið. Vinstri grænar eiga ekki að halla sér að gömlum kommum í austri. Miklu nær er að halla sér að ungum græningjum. Vinstri grænir þurfa að losa sig við nokkra gamalæra einstaklinga, sem ekkert hafa lært og engu hafa gleymt.

Evrópa minnkar eitur

Punktar

Útblástur eitraðra lofttegunda virðist hafa minnkað í Evrópu árið 2005 samkvæmt nýjum tölum. Mælingar eru að vísu ónákvæmar og segja okkur ekki, hvort þetta sé þróun með framhaldi. Tölur fyrir árið 2006 eru ekki til. Batinn fullnægir ekki samkomulaginu frá Kyoto, átti að vera 8%, en reyndist vera 1,5%. En ljóst er þó, að Evrópa hefur forustu í heiminum um að bæta andrúmsloftið. Löndin hafa lagt misjafnlega mikið af mörkum. Finnland og Þýzkaland mikið, en löndin við Miðjarðarhaf ekkert, minna en Austur-Evrópa. Evrópusambandið mun nú herða aðgerðir til að knýja Evrópu til hraðari bata.

Sigið niður af tindinum

Fjölmiðlun

Hefðbundin fréttamiðlum blómstrar á fyrsta áratug þessarar aldar. Við höfum tvö áskriftarblöð og tvö fríblöð, tvennt fréttasjónvarp og fréttaútvarp, tvo veffréttamiðla. Við fáum fullt af fréttum, þar á meðal fréttir, sem kosta vinnu og skipta máli. Aldrei hafa jafnmargir haft atvinnu af fréttum hér á landi. Almenn menntun blaðamanna er góð, þótt sárafáir þeirra hafi lært blaðamennsku. Hins vegar eru blikur á lofti. Erlend reynsla sýnir tekjutap hefðbundinna fréttamiðla og samdrátt í atvinnumennsku. Óvandaðar fréttir ókeypis bloggara sækja hratt fram og rugla tekjumynstri fagmanna.

Kurfürstendamm sjokkið

Punktar

Þegar Egill Helgason er í Nýju-Berlín fer hann sjaldan til Vestur-Berlínar. Segir í blogginu, að Kurfürstendamm sé of lík verzlunargötum vesturlanda. Það er rétt lýsing á götunni, sem fyrir hrun múrsins var höfuðgata Vestur-Berlínar. Ég vil samt taka upp hanzkann. Þegar ég var þar við nám var gatan auglýsing fyrir vestrænan markaðsbúskap mitt í skít og eymd austursins. Krárnar voru opnar allan sólarhringinn og vínið var við hliðina á mjólkinni í búðunum. Ég mann enn Kempinski hótelið og matsölustaðinn Aschinger. Það var menningarsjokk að koma þangað úr fátækri Eysteinskunni hér heima.

Íslenzkur fréttavefur

Punktar

Mér líst vel á, að Pétur Gunnarsson og Andrés Jónsson stofni fréttavef á netinu. Tækni og tími kalla á slíkt framtak. Því meira sem ég les um vefinn og veftengda farsíma, þeim mun meira trúi ég á gagnvirku fréttamiðlunina. Hefðbundnir fjölmiðlar munu eiga erfitt með standast áhlaup breytinganna. Áskrifendum fækkar og horf á auglýsingar minnkar. Framtak og nýjungar lyfta veraldarvefnum, óendanlegum hafsjó mismunandi gagnlegra upplýsinga. Ég nota nærri eingöngu vefinn til að finna upplýsingar. Þótt flestar séu þær raunar upprunnar í fagmennsku hefðbundinna fjölmiðla, sem á undir högg að sækja.

Lepparnir stinka

Punktar

Því meira sem Ísrael og Bandaríkin styðja framsóknarflokkinn Fatah í Palestínu með vopnum og peningum, þeim mun meira flykkist fólk í faðm Hamas. Það er gallinn við aðferðir Bandaríkjanna við að vinna hug og hjörtu fólks. Þær fæla fólkið frá. Það dugir ekki að stilla upp gerspilltum framsóknarmönnum, sem eiga að vera þjónustuliprir. Sama sagan er um öll miðausturlönd. Leppar Bandaríkjanna eru yfirleitt kúkar, sem landslýður hatar. Því meira sem hernámslið hampa mönnum af tagi Quislings, þeim mun verr gengur kúgunin. Bandaríkin hafa aldrei lært neitt af veraldarsögunni.

Misjafnar súpur góðar

Punktar

Humarsúpur Laugaáss og Sægreifans sýna misjafnan smekk. Íslendingar eru vanir þykkum súpur með miklum rjóma, miklum humri og miklu bragði. Útlendingar vilja hafa súpurnar þynnri og mildari, með minna af rjóma og sætta sig við minna af humri. Þess vegna fellur humarsúpa Sægreifans í geð ferðamanna og humarsúpa Laugaáss í geð heimamanna. Hvor tveggja var góð, ég prófaði Laugaás í gær og Sægreifann í fyrradag. Hráefnið í súpu Laugaáss var örugglega átta sinnum dýrara en hjá Sægreifanum. Því er síður en svo óeðlilegt, að súpan í Laugaási kostar tvöfalt verð Sægreifans.

Trúin er misjöfn

Punktar

Ástæðulaust er að hafa áhyggjur af fólki, sem trúir á æðri mátt, án þess að persónugera hann sérstaklega. Ekki er heldur ástæða til að hafa áhyggjur af þeim, sem telja hægt að fá æðri mátt með bænum til að reka fyrir sig ýmis erindi. Djúp gjá er milli þeirra og hinna, sem hafa skipuleg trúarbrögð með æsiklerkum og helgiritum. Þar er fólkið, sem trúir á biblíuna/kóraninn, telur hana skrifaða undir handarjaðri guðs og jafnvel hafa spásagnargildi. Slíkt fólk veldur vandræðum í heiminum og mun valda enn meiri vandræðum. Við sjáum skelfilegar kenningar bókstarfsfólks einkum í sjónvarpinu Omega.

Fleiri skrípamyndir

Punktar

Viðbrögð ráðamanna meðal múslima við skrípamyndum af Múhameð spámanni hafa leitt til endurmats almennings á stöðu trúarbragða í samfélaginu. Fyrst studdu margir menntamenn viðbrögðin og fordæmdu Jyllandsposten fyrir að vinna gegn félagslegum rétttrúnaði. Núna heyrast slíkar skoðanir tæpast. Flestir eru á því, að viðbrögð múslima hafi opinberað skaðleg og hættuleg viðhorf, sem berjast þurfi gegn. Þjóðir Evrópu eru í vaxandi mæli komnar á þá skoðun að hafa þurfi hemil á trúarofsa múslima. Þeir verði að sætta sig við vestrænt frelsi í vestrænum löndum. Við þurfum því fleiri skípamyndir.