Björn Bjarnason ráðherra er fremstur á sviðinu, en flestir pólitíkusar hugsa eins og hann. Þeim finnst ófært, að fólk hafi aðrar skoðanir í dag en það hafði fyrir fimm árum. Þeim finnst ástæða til að kvarta um það í bloggi og greinum. Þeir eru ekki einir um þetta. Gefnar hafa verið út heilar bækur undir titlum á borð við: Þeirra eigin orð. Í öllum tilvikum er ætlast til að sjónarmið haldist ævilangt óbreytt. Ég efast ekki um, að Björn mun á morgun hafa nákvæmlega sömu skoðanir og við fæðingu. Við hin erum hins vegar leitandi fólk og skiptum um skoðun, þegar við vitum betur en áður.