Græna hræsnin á Live Earth

Punktar

Madonna skaðar andrúmsloftið mörgum tungum sinnum meira en þú. Hún fer allra sinna ferða í einkaflugvél eins og nokkrir Íslendingar. Samt tekur hún þátt í tónleikum Live Earth. Sama má segja um Al Gore. Höll hans, Belle Meade, notar tuttugu sinnum meiri orku en þín íbúð. En batnandi fólki er bezt að lifa. Gore hefur gert ráðstafanir til að laga orkunotkun sína og Madonna lofar bót og betrun. Þótt komið hafi í ljós hræsni í tengslum við Live Earth tónleikana, er umræðan góð um þetta. Þegar fræga fólkið erlendis fer að spara orku, fer fræga fólkið á Íslandi að gera það líka. Kannski.

Einar Guðfinns er fínn

Punktar

Álit mitt á Einari K. Guðfinnssyni hefur margfaldazt. Hann varðist grátkór sjávarútvegs og fór að tillögu Hafró. Svona eiga sýslumenn að vera. Spyrna verður við fótum, þegar sérhagsmunir þrýsta allir sem einn. Hann gæti síðar gert enn betur, ef niðurskurður á þorski ber árangur næstu árin. Hann getur þá hindrað, að aukinn afli renni inn í núverandi kvótakerfi. Hann getur látið dreifa honum á annan hátt, til dæmis sem byggðakvóta. Í fyrsta skipti í mörg ár er hægt að hugsa svona. Loksins er komin von um að afstýra hruni þorsksins. Þá fyrst verður hægt að fara að hugsa upp á við.

Þrír slappir reyfarar

Punktar

Keypti þrjá reyfara til að liggja í leti um helgina. The Naming of the Dead eftir Ian Rankin um lögreglumanninn Rebus. Góðar vettvangslýsingar. Mér leiðast þó skozkar og skítugar löggubyttur. Endirinn langsóttur. Like the Flowing River, örsögur eftir Paulo Coelho. Sumar góðar, aðrar langsóttar eða ódýrar. Coelho trúir kaþólskt á stokka og steina og sér víða fyrirboða og tákn. Síðust var Hitler’s Peace eftir Philip Kerr. Flókin saga allt of margra persóna. Of mikill tími fór aftast í að hala inn marga söguþræði. Þá geispaði ég. Nenni varla að eyða fleiri helgum í reyfara að sinni.

Sjaldan veldur einn

Punktar

Fréttablaðið og ég höfum litið of einhliða á nágrannadeilur Ólafs Ólafsonar og Sigurðar Hreinssonar, sem báðir búa á Miðhrauni í Miklaholtshreppi. Við sögðum frá truflunum af þyrluflugi Ólafs. Og ég spáði, að Sigurður mundi trufla með sögunarverksmiðju á móti. Nú er mér sagt, að það skref sé fyrir löngu að baki. Sigurður þurrkar hausa á bæjarhlaðinu, sem væntanlega er verra en sögunarmylla. Landamerkjadeilur þeirra félaga eru fyrir dómstólum. Sömuleiðis er í gangi deila um virkjun bæjarlækjar. Því má vænta fjörugra frétta af nágrannaerjum á Miðhrauni, en ég eftirlæt fjölmiðlum þær eftir.

Fann bara rugl og fífl

Punktar

Tölfræðina vantar í blogg Guðmundar Magnússonar um orðaval mitt um ævina. Segir, að ég hafi notað orðið “rugl” 395 sinnum og “fífl” 107 sinnum. Er að reyna að lauma inn, að ég sé orðljótur. Ég hef skrifað 8087 greinar um ævina. Því er fyrra dæmið í 4% tilvika og síðara dæmið í 1% tilvika. Hann hefði getað valið orð eins og “fínn” og fundið, að það sést 1813 sinnum. Eða “gott”, sem sést 1048 sinnum. Skrif hans eru marklaus, því að hvorki heild né samanburður sést í dæminu. Sá, sem skrifar 8087 greinar er án efa leiðinlegur, ef þar vantar góða íslenzku á borð við “rugl” og “fífl”.

Dómstólar eiga bágt

Punktar

Svipuhöggin dynja á dómstólum landsins. Evrópudómstóllinn segir Hæstarétt ranglátan og vanhæfan. Almannarómur gagnrýnir héraðsdóma fyrir ranglæti og heimsku, til dæmis í dómi um nauðgun í kjallara Hótel Sögu. Því spyr fólk: Hvað er að íslenzkum dómstólum? Sumpart stafar þetta af, að góðir lögmenn fá vinnu á háu kaupi, lélegir lögmenn verða héraðsdómarar. Í bland við góða dómara eru enn fleiri, sem eru vanhæfir. Vandi Hæstaréttar er annar, þar segja fulltrúar og gæðingar horfinna tíma, að Stóri bróðír hafi alltaf rétt fyrir sér. Vandi dómstólanna er blanda af vanhæfni og ást á yfirvaldinu.

Hörmangarar ársins 2007

Punktar

Hátt lyfjaverð á Íslandi er afleiðing fáokunar. Fjölmiðlarnir hafa skýrt það vel út fyrir okkur síðustu daga. Talsmenn fáokunarinnar hafa að venju talað kínversku, sem enginn skilur. Fáokun á lyfjum er dæmi um íslenzka verzlun og þjónustu árið 2007. Verð hér á landi er hærra en annars staðar vegna okurs, sem stafar af fáokun. Einn-þrír starfa á hverju sviði og hafa samráð um verð og þjónustu. Ástandið versnaði síðustu árin við, að ýmissi ríkiseinokun var breytt í einkaeinokun að hætti hörmangara. Nýja fáokunin sparkaði í kúnnana, hækkaði verð og margfaldaði tekjur stjórnendanna.

Tilboðsupphæðin er leyndó

Punktar

OgVodafone og Gagnaveitan bjóða mér ljósleiðara. Vilja auka bandbreiddina úr tólf megabætum á sekúndu í þrjátíu. Á að kosta mig 3.000 krónum meira en ég borga núna. Hef ég þó meiri en nóga bandvídd fyrir. Þar af eiga 2.400 krónur að fara í ljósleiðarann. Til að fá að borga þetta, þarf að tengja ljósleiðarann við sjónvarp og þráðlaust loftnet fyrir tölvur. Söluaðilar hafa fyrirtækið Mömmu, sem vill tengja þetta fyrir 4.500 krónur á tímann. Ekki veit ég, hvað það þýðir í krónum. Til að fá að vita, hversu marga tíma þarf í verkið, þarf ég að borga aðrar 4.500 krónur. Það er kallað tilboð.

Ríkisstjórnin sigraði

Punktar

Ríkisstjórnin hafnaði taugaveikluðu væli hagsmunaaðila. Hún komst að allt annarri niðurstöðu en allar slíkar hafa áður gert. Hún hyggst fara að ráðum Hafrannsóknastofnunar. Ekki er lengur vonað, að guð komi úr vélinni og bjargi stofninum á undursamlegan hátt. Einar K. Guðfinnson veit líklega, að guð kemur ekki úr vélinni. Það kemur mér satt að segja á óvart. Hins vegar kemur ekki á óvart botnlaust ábyrgðarleysi ráðamanna þrýstihópanna. Samtök útgerðar, fiskvinnslu, bæjarstjórnir og fallkandidatar síðustu kosninga hafa undanfarið flutt ódýrt lýðskrum. En ríkisstjórnin sigraði.

Þeir vanmeta menninguna

Punktar

Fólk hefur ekki mestan áhuga á íþróttum og bíómyndum. Rannsóknir sýna annað. Margt efni fjölmiðla er meira notað en íþróttafréttir. Tölur sýna líka, að fleira fólk fer á málverkasýningar en fótboltaleiki. Þær sýna líka, að jafnmargir fara á söfn og í bíó. Fjölmiðlar virðast hins vegar telja annað, ef dæma má af efni þeirra. Stjarnfræðilegum upphæðum er varið í fótbolta, sem fáir nenna að sjá. Meðan menningarefni hefur að mestu verið úthýst, t.d. úr Kastjósi. Fjölmiðlar virðast líka telja, að fólk vilji fá efni um bíómyndir. Þótt meðaltalsáhugi þjóðarinnar sé nær menningarmálum.

Plássið milli auglýsinganna

Fjölmiðlun

Lítil fagmennska ræður ritstjórn ýmissa bæklinga, sem ekki lúta lögmálum blaðamennsku. Ég tók eftir, að fordómar hafa áhrif á efni pésans Dagskrá vikunnar, sem kemur til mín frítt. Þar er glaðst yfir, að bíóhetjan Sharpe hafi lækkað rostann í “Indverjanum”, dæmigert orðalag rasistans. Þar segir líka, að reykingabann valdi lungnabólgu, þegar púað er utan dyra. Rétt er, að reykingar valda lungnabólgu, en ekki reykingabann. Alveg eins og Hitler bar ábyrgð á innrásinni í Póllandi, ekki þeir, sem gripu til varna. Í svona bæklingum er ódýrt vinnuafl látið fylla í plássið milli auglýsinga.

Stjórnin ofsækir höfuðborgarsvæðið

Punktar

Ríkisstjórnin ráðgerir að fresta framkvæmdum við Sundabraut til að flýta samgöngubótum á landsbyggðinni. Þetta segir Fréttablaðið á forsíðu í dag. Ef þetta er rétt, jafngildir það stríðsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gegn íbúum höfuðborgarsvæðisins. Þeir hafa oftast mætt afgangi, þegar vegafé er úthlutað án tillits til umferðarþunga. Sundabraut er meðal brýnustu og arðbærustu verkefna í vegagerð í landinu. Það hefur greinilega komið í ljós síðdegis á sunnudögum í sumar. Fjórir milljarðar áttu að fara í brautina á næsta ári, allt of lítið fé. Betra er að færa fé frá öðru til Sundabrautar.

Hæstiréttur sagður ranglátur

Punktar

Enn einu sinni hefur Mannréttindadómstóll Evrópu snúið við dómi Hæstaréttar á Íslandi. Eins og jafnan áður hefur erlendi dómstóllinn tekið hagsmuni smælingja fram yfir hagsmuni ríkisins, sem Hæstarétti eru hjartfólgnir. Mannréttindadómstóllinn hefur úrskurðað fjölfatlaðri stúlku átta milljón króna bætur vegna læknamistaka. Hæstiréttur hafði áður sýknað ríkisvaldið. Ég hef nokkrum sinnum bent á áráttu Hæstaréttar að draga taum embættismanna og ríkisvaldsins gegn almenningi. Hann er síðasta vígi kansellístefnu fyrri alda. Evrópski dómstóllinn segir Hæstarétt beinlínis vera ranglátan.

Kóngar í ríki sínu

Veitingar

Guðjón Arnar Kristinsson sat á Sægreifanum við mitt átta manna borð hlaðið sviðum og siginni grásleppu, bútungi og ýmsu súrmeti. Aðra eins auglýsingu getur Sægreifinn ekki fengið sem staður matgæðinga. Eins og útlendingarnir störðum við Kristín í aðdáun. En fengum humarsúpu Kjartans greifa og sitt hvort spjótið, annað með stórum rækjum og hitt með risastórum hörpufiski. Súpan var án hveitis og þess vegna fín. Spjótin voru fersk, en ekki krydduð að gagni. Þetta er ódýrt, 800 kall súpan og 1200 kall spjótið. Ég reyndi að verja Hafró, en Addi Kidda Gau sló það kalt með nokkrum vel völdum orðum.

Nágranni frá helvíti

Punktar

Ólafur Ólafsson í Samskipum fer á þyrlu í sveitina, spillir fermingarboðum, fælir hross nágrannans, svo að hann dettur af baki. Sambýlið á Miðhrauni í Miklaholtshreppi er efni í Íslendingasögu. Fréttablaðið sagði frá í fínni frétt í gær. Að hefð þrasgefinna Íslendinga á Ólafur í landamerkjadeilum við meðeiganda sinn að Miðhrauni, Sigurð Hreinsson. Ólafur segist fara að lögum í fluginu. Hægt er að fara í senn að lögum og vera nágranni frá helvíti á 101 mismunandi veg. Ekki þarf félagsþroska til að eignast fé og enn síður leiðir það til gæfu. Ætli Sigurður svari með sögunarmyllu?