Galdratæki til sveita

Punktar

Dráttarvélar eru galdratæki. Ekki bara notaðar til sláttar og heyskapar, heldur til allra almennra starfa til sveita. Þær hagræða árfarvegi, svo að vatnið liggi ekki í moldarbörðum. Þær reka niður staura, teygja vír. Þær flytja staura og vír um firnindi. Þær stífla vötn og hækka yfirborð þeirra um heilan metra. Svo að þar má sleppa fiski, sem þrífst vel og stækkar ört. Þær ræsta hóla, sem eru notaðir fyrir vetrargjöf. Þær leggja vatnsveitu. Þær færa rúllur af heyi í sátur eða í hlöðu. Þegar ég var í sveit í gamla daga, gátu þær bara slegið tún. Núna eru þetta orðin fjölnota galdratæki.

Þrjú lögmál nýmiðlunar

Punktar

Þrjú lögmál stýra nýmiðlun. Elzt og frægast er Moore-lögmálið. Það segir, að þéttleiki örgjörva tvöfaldist á 12-18 mána fresti. Löng reynsla hefur staðfest það. Næst í röðinni í Metcalfe-lögmálið. Það segir, að gildi netsambanda aukizt í öðru veldi fjölda útstöðvanna. Þegar vefurinn tengir saman milljónir manna, verður gildi netsins stjarnfræðilegt. Þriðja er svo lögmál Reed. Það segir, að hópar sem endastöðvar, þar sem allir tala við alla, auka gildi netsins í n-ta veldi. Samanlagt segja þessi lögmál okkur, að samgönguþróun veraldarvefsins margfaldist hraðar með hverjum degi.

Bæn Egyptans Dhu´l-Nun

Punktar

Paulo Coelho hefur tólf alda gamla bæn eftir egypzkum múslima: “Ó guð, er ég hlusta á raddir dýranna, þyt trjánna, muldur vatnsins, söng fuglanna, hvin vindsins, drunur þrumanna, þá sé ég sönnun einingar þinnar. Ég finn, að þú ert æðri máttur, æðri þekking, æðri vizka, æðra réttlæti. Ó guð, ég finn þig líka í erfiðleikum mínum núna. Látum þína fullnægju verða mína og láttu mig verða gleði þína, eins og gleði föður yfir barni sínu. Og láttu mig muna þig í ró og ákveðni, jafnvel þótt erfitt sé fyrir mig að segja: Ég elska þig.” Bænir þurfa ekki að vera kristilegar til að vera frábærar.

Öfugu megin gljúfranna

Hestar

Riðum með Halldóri Olgeirssyni á Bjarnastöðum um Landsbjörg og Hrútabjörg á eystri bakka Jökulsár á Fjöllum. Fórum upp að Hafursstöðum og sáum Rauðhóla og Hljóðakletta handan árinnar. Hvergi er hægt að koma bílum að á þessari reiðleið og gönguleið. Héðan séð eru Rauðhólar mesta furðuverkið, löng röð óvætta í gljúfurbarminum. Við Halldór vorum sammála um, að allt lambakjöt beri að merkja upprunajörðinni. Við fórum líka í þjóðgarðssafnið í Ásbyrgi, sem er afar vel hannað nútímasafn. Það gerir á einfaldan hátt grein fyrir ótal forvitnilegum þáttum svæðisins, sem nær frá Dettifossi niður í sjó.

Ölæði er talið vera í lagi

Punktar

Terror er ekki íslenzkt vandamál. Hér þarf engar sérsveitir. En við búum við vanda ölæðis. Nótt sem nýtan daga vaða drykkjurútar um samfélagið. Þeir slást hver við annan og slást upp á annað fólk. Stela bílum og keyra á 150 km hraða. Fara vopnaðir í kjörbúðir og hræða unglinga við afgreiðslustörf. Þessi vandræði stafa af meðvirkni samfélagsins. Áfengi er talið vera þáttur í tilverunni, þótt önnur fíkniefni séu bönnuð. Útlendingar eru farnir að taka eftir, að viðhorf okkar eru krumpuð. Venjulegu fólki finnst í lagi að drekka öl daglega og fara vikulega á skallann. Það er meinið.

Vefurinn bætir greinar

Punktar

Jane Intelligence Review er virðulegt tímarit, sem fjallar um ný vopn. Það sendi fyrirhugaða grein á vefsvæðið Slashdot til að fá umræðu um hana, áður en hún yrði birt. Bloggarar tóku sumir til óspilltra málanna og hökkuðu niður greinina. Jane tók tillit til sumra athugasemda og breytti greininni fyrir birtingu. Staðreyndin er nefnilega sú, að meðal hundrað áhugamanna er samtals meira vit á hverju máli en einn blaðamaður hefur. Með því að virkja þessa hundrað verða greinar betri. Þetta minnir sumpart á, að vísindarit láta jafnan óháða fræðimenn fara yfir greinar áður en þær eru birtar.

Nágranni frá helvíti

Punktar

Við ríðum sjaldan á þjóðvegum, yfirleitt eins langt frá þeim og mögulegt er. Fyrir tíu árum var hægt að ríða meðfram fáförnum vegum, en nú er það ekki hægt lengur. Bílstjórar eru miklu hættulegri en þeir voru áður. Þeir hafa ekki lengur tíma. Ef þeir sjá hrossahóp á vegi, tryllast sumir. Við þurftum að fara veginn niður af Öxarfjarðarheiði. Á eftir okkur ók geðveik kona, sem þeytti flautuna og hreytti ókvæðisorðum. Mesta mildi var, að hross fældust ekki og fólk slasaðist ekki. Risnar eru kynslóðir, sem ganga fram í taumlausri frekju og yfirgangi. Nágrannar frá helvíti vaða um allt.

Ekkert regn í Öxarfirði

Punktar

Á innstu bæjum í Öxarfirði hefur nánast ekkert rignt í sumar og spretta verið hæg. Bændur eru þar að slá síðustu dagana í júlí, þótt heyskap hafi lokið á sumum bæjum á Suðurlandi fyrir mánuði. Hluti af undarlegri veðráttu síðustu ára. Veður er eindregnara og þrálátara en áður. Góðviðriskaflar eru langir og sama er að segja um hvassviðri. Við vitum ekki, hvort þetta er að einhverju leyti tengt loftslagsbreytingum síðustu ára. Við vitum hins vegar, að veður er að breytast á jörðinni, að sumu leyti af manna völdum. Við þurfum að spyrna við fótum áður en breytingar hlaða utan á sig.

Þröngvarp og fjölvarp

Punktar

Hefðbundnir fjölmiðlar fjölvarpa efni sínu til tugþúsunda. Tekjumynztur þeirra rís á fjölda notenda, sem endurspeglast í verði og magni auglýsinga. Þetta mynztur er farið að bila. Í staðinn er komið þröngvarp, sem felst í fámiðlun í stað fjölmiðlunar. Hópar bloggara lesa sinn hóp. Áhugafólk um sértæk mál hverfur inn í þann heim og fylgist ekki með hefðbundinni fjölmiðlun. Sú gerði ráð fyrir, að allir hefðu áhuga á pólitík, þorski, öryggisráði. Mál, sem hliðverðir fjölmiðlanna ákváðu, að væru umræðuefni allra. Nú ákveða sérhópar slíkt hver fyrir sig. Þröngvarp er í örum vexti.

Dásamlegur og hættulegur tími

Punktar

Við lifum í senn á dásamlegum og hættulegum tíma fjölmiðlunar. Tekjmynztur hefðbundinna fjölmiðla hefur raknað upp og ekki hefur fundizt tekjumynztur fyrir nýmiðla í staðinn. Gamla fólkið vill fréttir dagblaða og sjónvarps, sem unga fólkið forsmáir. Unga fólkið vill blogg, sem gamla fólkið forsmáir. Fréttir voru áður fyrirlestrar, þar sem blaðamaður talaði. Nú eru þær orðnar að samtölum, sem blaðamaður tekur þátt í. Til skamms tíma voru dagblöðin fyrsta uppkast mannkynssögunnar. Núna hefur bloggið tekið við því hlutverki. Það er gaman að vera í bransanum á byltingartíma.

Auðmenn elska Kína

Punktar

Auðmenn elska Kína, moka í það peningum. Þeir telja betra að festa fé sitt í alræðisríki en í lýðræðisríkjum. Þeir eru ánægæðir með hömlulausa stefnu stjórnvalda í stóriðju. Þeir eru ánægðir með mestu umhverfisspjöll heims og mesta þrælahald heims í Kína. Þeir eru ánægðir með, að þaðan komi ódýrasta vara heims. Þeim er sama um vistkerfi landsins, þurrar stórár, eitraðan jarðveg. Hugarfar vestrænna auðmanna er hið sama og ráðamanna í Kína. Þeir telja brýnast að keyra framleiðsluna áfram, hvað sem það kostar. Það verður svo höfuðverkur þeirra, sem síðar koma, að hreinsa til. Ef það verður hægt.

Umhverfis laufskálann

Hestar

Laufskálaheiði er fagurt nafn á norðurenda Búrfellsheiðar í Þistilfirði. Þessar heiðar upp af firðinum eru með stærstu heiðum landsins, umlykja stakt Búrfell í miðjunni. Gróðursæld þeirra stingur í stúf við eyðimörk Hólssands vestan fjallgarðsins. Enda eru þær lágar langt inn í land. Þar tifa lækir og tístir maríuerla í mýrum og móum. Þar er stelkur og spói. Við gistum í Laufskála, sem sagður var nýr, en er gamall skáli úr Gæsavötnum. Við riðum upp með Svalbarðsá og skoðuðum marga fagra fossa á leiðinni. Skrítið er að hafa ekki heyrt um, að Landsvirkjun hafi ágirnd á þessum fossum.

Rugli bætt við fréttir

Punktar

Mbl.is setur fyrirsagnir nafnlausra álitsgjafa ofan við fréttir sínar. Visir.is setur allan texta þeirra beint aftan við fréttir sínar. Ruv.is eitt er yfir þetta hafið. Aðkoma nafnlausra álitsgjafa er dónaskapur við fréttamenn. Þeir reyna flestir að gera sitt bezta í starfi. En varla er hægt að lesa fréttir þeirra án þess að sjá niður í kviksyndi hinna nafnlausu og marklausu álitsgjafa. En svona er baráttan um fylgið. Hún felst í að hossa soranum og lyfta honum upp á stig fagmanna. Egill Helgason hleypir ekki vitfirringum inn hjá sér og ég geri það ekki heldur.

Stappað stálinu í Blair

Punktar

Tony Blair og Rupert Murdoch töluðu þrisvar saman síðustu tíu dagana fyrir innrásina í Írak. Brezka forsætisráðuneytið hefur upplýst það á grundvelli upplýsingalaga að kröfu þingmanns frjálslyndra. Ekkert var sagt um innihald samtalanna. En vitað er, að Murdoch var þá og er enn ákafur talsmaður stríðs gegn Írak. Sama er að segja um fjölmiðla hans. Á þessum tíma var forsætisráðherra Breta fullur efasemda á síðustu stund. Trúlega hefur Murdoch verið að stappa í hann stálinu. Þetta er dæmi um mikil pólitísk áhrif fjölmiðlakóngsins, er nú hefur eignazt Wall Street Journal.

Kúskel minnir á ostrur

Veitingar

Kúskel er veidd frá Þórshöfn á Langanesi og seld til matar á veitingahúsinu Eyrinni. Tvær súpur eru í boði, ekki merkilegar. Sú lakari er eins og beikon á bragðið og hin betri eins og baunasúpa. Kúfiskur er of bragðmildur fyrir súpu. Betri er ferska kúskelin. Hún er opnuð með því að hita hana og fiskurinn síðan borðaður úr skelinni. Hann minnir á ostru, er meyr og bragðmildur, beztur með dropa af sítrónu. Í súpu verður hann hins vegar seigur, nema hann sé tættur í blandara, svo sem gert er á Eyrinni. Einn bátur á Þórshöfn er á kúskel, kemur daglega inn með ferska skel í matinn.